Nzambi Matee er frumkvöðull með frábær markmið sem eru að breyta plasti, sem annars væri urðað, í sjálfbært, sterkt byggingarefni. Fyrirtæki hennar, Gjenge Makers, notar plastúrgang og býr til úr honum múrsteina sem hafa tvöfalt burðarþol á við steypu.

Gjenge Makers hefur aðsetur í Naíróbí í Kenía, þar sem mengun vegna plastsúrgangs er orðið alvarlegt vandamál. Rannsókn sem studd var af National Environmental Management Agency (NEMA) leiddi í ljós að meira en helmingur nautgripa nálægt þéttbýli í Kenía voru með plast í maganum. Til að berjast gegn þessu lögleiddu stjórnvöld í Kenía bann við notkun plastpoka árið 2017 og á síðastað ári bönnuðu þeir notkun einnota plasts á náttúruverndarsvæðum. Bannið nær þó aðeins til einnota plasts neytenda. Plastúrgangur frá verslunum og þjónustu er ennþá stórkostlegt vandamál þar í landi eins og víða annars staðar.

Nzambi Matee sagði blaðamönnum að hún væri „þreytt á því að vera bara á hliðarlínunni“ og ákvað því að taka til sinna ráða og finna gagnlega lausn fyrir plastúrgang. Með ferli og kunnáttu í efnisverkfræði hannaði hún múrstein úr endurunnu plasti og sandi, þjappað og hitað þannig að úr varð sterkur og sjálfbær valkostur við steypu. Trefjarík uppbygging plastsins gerir það ekki aðeins léttara heldur einnig minna brothætt en steypu.

„Varan okkar er um það bil fimm til sjö sinnum sterkari en steypa,“ sagði Matee við Reuters um nýjustu framleiðslu múrsteina Gjenge Makers. Hún kaupir plast frá endurvinnslufyrirtækjum og fær einnig fríar sendingar af plastúrgangi frá umbúðaverksmiðjum. Eins og stendur getur verksmiðjan Gjenge Makers framleitt allt að 1.500 múrsteina á hverjum degi.

Fyrirtækið býður músteina til íbúða- og atvinnuhúsnæðisbygginga. Múrsteinn sem er 60 mm er nógu sterkur til þess að hægt sé að nota hann í bílastæði og vegi, 30 mm múrsteininn er hægt að nota fyrir garða og gangstíga. Þessi létti múrsteinn hefur tvöfaldan styrk steypu og kemur að auki í mögum litum.

Framleiðslan er aðeins á byrjunarreit en nú þegar hefur verksmiðjan samt endurunnið 20 tonn af plasti síðan 2017 og skapað 120 störf í Naíróbí. Að auki eru Gjenge múrsteinar hagkvæmur valkostur á markaðnum. Þeir kosta um það bil $ 7,70 á fermetra, á móti $ 98 á fermetra garð þar sem notuð væri steypa sem framleidd er í Bandaríkjunum.

Að sögn Matee hefur þetta ekki alltaf verið dans á rósum og hún segir: „Ég stökk eiginlega fram af bjargbrún án þess að hafa svo mikið sem fallhlíf. Í frjálsa fallinu var ég á sama tíma að byggja upp fyrirtækið. En er það ekki þá sem frábærir hlutir gerast?“

Með frumkvöðlum eins og Matee kveiknar vonarljós um að hægt sé að snúa á mengunarkreppuna í heiminum. Til að lesa meira um ferli og áhrif Gjenge Makers geturðu farið á heimasíðu þeirra eða YouTube rás. Þú getur líka smellt hér til að fræðast meira um leiðir til að berjast gegn plastmengun.

Tengdir pistlar:
Vilt þú halda áfram að tilheyra plastkynslóðinni?
Plast, böl eða blessun?

Heimild EcoNews