Vissir þú að þrefalt stærra kolefnisspor fylgir plasti í samanburði við sömu þyngd af pappa?
Kolefnisspor plasts er u.þ.b. 3 kg CO2/kg af plasti en 1,2 kg CO2/kg af pappa.

„Til að framleiða plast eru notuð efni eins og olía, kol, selluósi, gas og salt. Um 2 kg af olíu þarf til að framleiða 1 kg af plasti. Plast veldur því losun gróðurhúsalofttegunda bæði á framleiðslustigi og einnig á lokastigi þegar það fer til urðunar. Notkun einnota plasts er sérstaklega mikið áhyggjuefni. Áætlað er að hver íbúi Evrópusambandsins noti að meðaltali um 500 plastpoka á ári, flesta þeirra einungis einu sinni. Áætlað er að um 70 milljónum plastpoka sé fleygt á hverju ári hér á landi en það eru um 1.120 tonn af plasti, sem í þarf 2.240 tonn af olíu til að framleiða.“ nyheimar.is

Plast

Plastið var fundið upp í New York árið 1907, af Leo Baekeland. Margir efnafræðingar hafa lagt sitt af mörkum við þróun á efnafræðisamsetningu plasts, þar á meðal Nóbelsverðlaunahafinn Hermann Staudinger sem hefur verið kallaður „faðir fjölliðaefnafræðinnar“ og Herman Mark, þekktur sem „faðir fjölliða eðlisfræðinnar“.

Plastið var sannkölluð bylting í vöruþróun því það hefur gríðarlega marga notkunarmöguleika og bætti lífsgæði almennings þegar það komst í almenna notkun. Plast er notað í vörur sem áður voru gerðar úr dýrum s.s. horn, skjalbökuskeljar o.fl. Plast skipar stóran sess í lífi flestra á hverjum degi og er hluti af nánast öllum okkar daglegum athöfnum, bæði heima við og  í vinnu. Vörur úr plasti auðvelda líf okkar og gera það öruggara hvort sem um er að ræða öryggistæki eins barnabílstóla eða umbúðir utan um matvæli, tölvur, farsímar, lækningavörur og burðarpokar svo eitthvað sé nefnt.

Smám saman hefur þróun einnota og margnota hluta úr plasti þó keyrt úr hófi fram að margra mati. Mikil umhverfisáhrif fylgja framleiðslu þeirra og þvi grátlegt að horfa upp á auðlindum okkar sóað á þann hátt. Við framleiðslu plasts er notuð olía og jarðgas en einnig efni eins og kol, sellulósi, gas og salt. Olíuauðlindir eru ekki endurnýjanlegar því er mikilvægt að fara vel með og sóa auðlindunum ekki í einnota hluti.

Plast endist yfirleitt lengi og er slitsterkt em getur verið mikill kostur í vörum sem eiga að endast og duga lengi. Plast er því alls ekki alslæmt, það á bara ekki að vera framleitt til þess að vera einnota.

Flest plastefni brotna mjög lítið niður í náttúrunni en þau eyðast á mjög löngum tíma fyrir áhrif sólarljóss. Þannig geta plastflöskur og plastbrúsar flotið um heimsins höf í áratugi áður en þau eyðast. Ólíkt trjánum sem notuð eru í pappír er olían sem plast er unnið úr ekki endurnýjanleg auðlind vegna þess að hún myndaðist á afmörkuðu tímabili jarðsögunnar. Reynt hefur verið að búa til lífrænt plast sem brotnar niður í náttúrunni, en það er enn mjög dýrt og hefur ekki náð mikilli útbreiðslu. vísindavefurinn.is

Plastlaus september

Verkefnið plastlaus september er árlegt árverkniátak sem var haldið í fyrsta sinn í september 2017 og hefur verið árlegt upp frá því. Átakið er orðin fastur líður í lífi margra og eflaust hvati til þess að tileinka sér plastlausan eða plastlítinn lífsstíl. Lífsstílsbreytingar eru ekkert nema vani en getur vaxið fólki í augum og því er frábært að fá þann góða stuðning sem er að finna á heimasíðu verkefnisins.

Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til dagsdaglega og leita leiða til að minnka notkunina. Gríðarlegt magn af einnota plasti er urðað eða endar í hafinu sem er mikið áhyggjuefni. Allt plast sem hefur verið framleitt er enn til og eyðist ekki þ.e. það plast sem ekki hefur endað í sorpbrennslu. Plastið brotnar niður í smærri einingar (örplast) og áhrif þess á lífríki er ekki að fullu þekkt. (plastlausseptember.is)

Átakið geta einstaklingar og fyrirtæki nýtt sér til þess að setja sér markmið til að minnka notkun á einnota plasti og taka skref í að átt að minni sóun. Þegar maður fer að skoða valkosti sem hægt er að nota í stað einnota plastumbúða þá kemur maður auga á ótal valkosti sem þurfa ekki að kosta meira en eru umhverfisvænni og jafn góðir eða betri.

30 leiðir til að minnka plastið

Á síðunni Plastlaus september er að finna hafsjó af fróðleik og líka ráð sem geta hjálpað manni í vegferðinni að umhverfisvænni lífsstíl. Myndin hér fyrir neðan er á síðunni en hana er hægt að nota til að minna sig á og til að fá hugmyndir um það hvað einstaklingar geta gert.

Endurnýting

Stundum verður ekki hjá því komist að nota plast og þá er bara um að gera að nýta það aftur ef kostur er og koma því síðan í réttan flokkunarfarveg.

Það er ánægjulegt að sjá hversu mikil þróun er í endurnýtingarmálum á Íslandi og fjölmörg fyrirtæki farin að einbeita sér að því að búa til nýjar vörur úr notuðu plasti.

Pure North Recycling er eina fyrirtækið hér á landi sem endurvinnur plast og býr til úr því hráefni til plastframleiðslu, sem er selt til fyrirtækja sem framleiða síðan nýjar vörur úr plasti. Þessar vörur eru oftar en ekki vörur sem áður voru framleiddar úr annars konar innfluttu efni

Einstaklingar geta líka endunýtt, minnsta kosti að einhverju leyti, það plast sem berst inn á heimilið hér á fyrir neðan eru nokkar sniðugar hugmyndir.

Þú getur búið til kaðal úr plastpokum

Þetta er bara lítið brot af því sem ég fann á vafri mínu á netinu en það er um að gera að nota hugmyndaflugið og gera sínar eigin útgáfur.

Það væri gaman ef þú getur deilt með okkur, hér í athugasemdum, góðum hugmyndum til að endunota plast á heimilinu.

Heimildir:
bondi.is sótt 09/09/2020
nyheimar.is sótt 09/09/2020
plastlausseptember.is sótt 09/09/2020
Pinterest.com sótt 09/09/2020
umhverfisstofnun.is skoðað 09/09/2020
vísindavefurinn.is skoðað 09/09/2020
wikipedia.org skoðað 09/09/2020