Aðgerðir sem miða að því að koma efnahagnum til bjargar í heimsfaraldri eru víða um heim verulega óumhverfisvænar. Innan að minnsta kosti 18 stærstu hagkerfa heims stjórnast efnahagsaðgerðirnar af eyðslu sem hefur slæm áhrif á umhverfið, t.d. ívilnunum fyrir olíufyrirtæki eða önnur fyrirtæki sem skilja eftir sig stór kolefnisspor. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Guardian.
Horfur á alþjóðlegum grænum bata í faraldrinum eru því hverfandi en víða um heim dæla ríki peningum í atvinnugrein jarðefnaeldsneytis til að koma í veg fyrir hrikalegan samdrátt.
Á meðan tekst ríkjum heims ekki að uppfylla loforð sín um kolefnishlutleysi og eru aðeins örfá af helstu ríkjum heims sem verja peningum í kolefnisminni aðgerðir eins og endurnýjanlega orku, rafknúin ökutæki og orkunýtni.
Kína stendur sig verst
Aðeins fjögur helstu ríki heims, Frakkland, Spánn, Bretland og Þýskaland, ásamt Evrópusambandinu gera ráð fyrir aðgerðum sem skila raunverulegum ávinningi fyrir umhverfið, samkvæmt greiningunni.
Evrópusambandið er fremst í flokki hvað þetta varðar og ætlar sér að verja 30% af endurheimtarsjóði í grænar lausnir.
Kína er það land sem virðist ætla að láta minnst í umhverfisvænar lausnir en aðeins 0,3% af þeirra pakka fyrir efnahagsbata eru ætluð grænum verkefnum. Fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum var rétt um 1% af tilkynntum útgjöldum til bjargar efnahagnum af grænum toga. Joe Biden, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur þó sagst ætla að breyta um stefnu hvað það varðar.
mbl.is sótt 9/11/2020