COVID-19 er stórfellt efnahagslegt og heilsufarslegt vandamál sem veldur félagslegri og efnahagslegri röskun á áður óþekktum skala.

Á tímum COVID-19 verðum við öll að gera auka varúðarráðstafanir til að vernda okkur gegn vírusinum. Þetta felur í sér tveggja metra regluna, sótthreinsun og notkun persónuhlífa eins og grímu og hanska. Það hins vegar veldur því að plastmengun verður enn stærra vandamál en áður. Plastmengun var vandamál löngu fyrir þennan heimsfaraldur en hefur versnað til mikilla muna. Flestar grímur eru gerðar úr endingargóðum plastefnum og þær geta verið í umhverfinu í nokkra áratugi upp í hundruð ára. Jafnvel ónotaðar grímur eru uppspretta örplasts, sem síðan kemst inn í mannslíkamann vegna rangrar förgunar.

Heimsfaraldurinn hefur þýtt það að pantanir á einnota grímum og hönskum hefur rokið upp úr öllu valdi. Talið er að í hverjum mánuði sé um 129 milljarðar andlitsgríma og 65 milljarðar hanska notaðir og fargað á heimsvísu, á tímum covid heimsfaraldursins. Samkvæmt viðskiptaráðgjafafyrirtækinu Grand View Research hefur sala á einnota andlitsgrímum, á heimsvísu, aukist frá áætluðum 800 milljónum Bandaríkjadala árið 2019 í 166 milljarða Bandaríkjadala árið 2020.

Dýralíf og gróður eru í hættu

Götur, strendur og höf hafa orðið fyrir flóðbylgju af úrgangi COVID-19, eins og einnota andlitsgrímum, gúmmihönskum, handhreinsiefnum og matarumbúðum. Hundruð gríma eru dreifðar um strendur og veltast síðan um í hafinu. Sjávardýrum stafar ógn af þessu þar sem þau gleypa þetta eða flækjast í grímum og hönskum, því þau kunna eðlilega ekki að forðast þennan úrgang. Samkvæmt umhverfishópi í Hong Kong, munu meira en 1,5 milljarður einnota andlitsgríma enda í heimshöfunum á þessu ári og þannig menga sjóinn með tonnum af plasti og stofna dýralífi sjávar í hættu.

Dýralíf sjávar er ekki bara í hættu vegna þessa, heldur sér maður reglulega myndir af viltum dýrum sem eru ósjálfbjarga og í lífshættu, við það að hafa flækst í einnota grímum. Maður fer varla um nema rekast á einnota grímur liggjandi á götum Reykjavíkur, þessar grímur fjúka gjarnan og lenda þá á óæskilegum stöðum eins og í gróðri, ám, vötnum og sjónum. Sóðaskapurinn sem af þessu hlýst er ekki bara sjónmengun heldur raunveruleg hætta sem ógnar dýralífi í nágrenni borga og bæja.

Hvað getur þú gert?

Hér eru nokkrar ábendingar sem vert er að hafa í huga þegar kemur að grímunotkun almennings:

Til lengri tíma litið verða stjórnvöld og framleiðendur að leggja sig alla fram um að hanna grímur sem ekki munu skaða jörðina og neytendur ættu að sjálfsögðu að krefjast þess. Andlitsgrímur verða líklega skylda, alls staðar þar sem fólk kemur saman, næstu mánuðina. Það er því mikilvægt að við höfum það í huga að þegar við höfum náð tökum á þessum heimsfaraldri og almenningur verður að mestu hættur að nota einnota grímur, munu umhverfisáhrifin vara í áratugi ef ekki aldir.

Heimildir
Happy Eco News
phys.org