Þrátt fyrir að Bretland hafi verið meira og minna í höftum og allt lokað, eins og víða annars staðar á tímum covid-19, hefur loftslagshópur í þorpi í jaðri Yorkshire Dales ekki slegið slöku við.
Heilu þorpin og margir skólar á svæðinu hafa tekið þátt og gróðursett milljón tré og í þeim tilgangi að draga úr losun koltvísýrings, með því að búa til ný skóglendi.
Til stendur að planta hundruðum trjáa á landi umhverfis Newton-le-Willows, neðarlega í Wensleydale, til að takast á við loftslagskreppuna. Samkvæmt vísindamönnum er gróðursetning milljarða trjáa um allan heim ein stærsta og ódýrasta leiðin til að minnka CO2 í andrúmsloftinu.
Bob Sampson, fyrrverandi ráðgjafi um landnýtingar í landbúnaðarráðuneytinu og meðlimur í loftslagshópi þorpsins, hefur skrifað landeigendum á svæðinu og beðið um leyfi til að rækta tré á landi þeirra. Sjö bændur hafa samþykkt hingað til og núna vinnur að hann því að fá þorpsbúa og aðra til að styrkja verkefnið og aðstoða við útplöntun.
Íbúar sýna mikla samfélagslega ábyrgð
Hópurinn biðlar til þorpsbúa að reiða fram 2 pund hver til að standa straum af kostnaði við tré, reyr og spíral til að vernda þau gegn kanínum. Þrátt fyrir að eiga enn eftir að tilkynna áætlanir sínar í fréttabréfinu í þorpinu hafa þeir þegar fengið styrk til að gróðursetja rúmlega 150 tré. Hópurinn stofnaði hóp á WhatsApp, þegar fyrsta lokunin vegna covid var sett á í mars í fyrra, og setti þar inn færslu um verkefnið og viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Það hafa verið mjög jákvæð viðbrögð, miklu betri en ég bjóst við,“ segir Sampson.
„Við munum gróðursetja mismunandi tegundir trjáa eftir því hvað hentar viðeigandi stöðum og munu þau nýtast bæði loftslaginu og umhverfinu hvað varðar landslag og dýralíf.“
Þetta er ekki eina samfélagið sem er að takast á við loftslagskreppuna í heimsfaraldrinum með þessum hætti. Frá fyrstu lokun hefur aukning orðið á fjölda fólks sem tekur þátt í verkefnum sem miða að því að bæta nærumhverfi sitt.
Woodland Trust, sem útvegar, skólum og samfélagshópum, ungplöntur til útplöntunar endurgjaldslaust, hefur upplifað þetta af eigin raun. Í fyrra sendi félagið frá sér rúmlega eina milljón trjáa. Þrátt fyrir Covid bárust fleiri umsóknir um ungplöntur fyrir vorið 2021 en árið áður og því er Woodland Trust núna að senda út nálægt hálfa milljón ungplanta. Strax í desember jókst eftirspurnin dag frá degi um 5.000 til 10.000 tré, eða að meðaltalið um 4.000 tré á dag.
Samkvæmt samtökum garðyrkjuverslana, í Bretlandi, jókst sala á harðgerðum plöntum, runnum og trjám um 50% frá 13. maí 2020 (þegar þau opnuðu aftur) til 31. janúar samanborið við sama tímabil árið áður. Þannig að áhuginn á plöntun virðist ekki einskorðast við félagasamtök og skóla.
Kay Clark, framkvæmdastjóri samfélagsþróunar hjá Royal Horticultural Society, hefur einnig séð mikinn áhuga frá því heimsfaraldurinn hófst. „Við höfum fundið að það er aukning í stofnun nýrra samfélagshópa, fólk kemur og hefur enga reynslu eða kunnáttu og er að gera hlutina í fyrsta skipti. Það er ótrúlegt, “segir hún. Símtölum hefur fjölgað og meirihlutinn er fyrirspurnir frá þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref, bætir hún við. „Ég held að við höfum aldrei upplifað annað eins. Þetta hefur verið stórkostlegt og mikið að gera.“
Minningarskógur og ávaxtatré
RHS býður fólki upp á að planta trjám til minningar um þá sem hafa týnt lífi á heimsfaraldrinum. Fimm hundruð tré hafa þegar verið gróðurset og RHS hefur búið til kort á netinu þar sem hægt er að fylgjast með hvar þau eru.
Í Somerset hjálpaði Food Forest verkefnið til við að auðvelda stofnun tveggja hektara matarskógar rétt fyrir jól. Það er annað eins skipulagt í nóvember á þessu ári nálægt einu verst settu svæði sýslunnar. Frá upphafi heimsfaraldursins hafa samtökin plantað nálægt 2.000 trjám á fimm stöðum.
Tristan Faith, stofnandi, segir: „Síðan í mars hefur verið raunveruleg breyting í átt að sjálfsbjargarviðleitni og fólk að hugsa um hvað það geti gert. Það hefur haft sláandi áhrif … og allir vilja planta ávaxtatrjám. “ Hann hefur tekið eftir straumi fólks sem býr í blokkum sem hefur samband til að fá upplýsingar um hvernig það getur tekið þátt. Því allir vilja vera með og rækta sína ávexti.
Hundruð mílna norður í Dumfries og Galloway hefur Margaret Pool, formaður Langholm Initiative sem eru góðgerðarsamtök, einnig séð meiri áhuga fólks á umhverfinu og fleiri sjálfboðaliða. „Áhugi almennings fyrir okkur hefur stóraukist síðan heimsfaraldurinn hófst, við tökum því fagnandi og eru allir sjálfboðaliðar velkomnir “ Góðgerðarsamtökin eru um það bil að hefja vinnu við nýtt friðland, þar á meðal 200 hektara skóglendi, á Langholm Moor.
Mun þessi þróun halda áfram? Clark hjá RHS telur það. „Þetta er eins og vakning,“ segir hún. „Þegar fólk byrjar að taka þátt í samfélagsverkefnum og eða byrjar að rækta hluti er það ekki eitthvað sem það hættir svo auðveldlega að gera. Þetta verður hluti af lífi þínu. “
Það væri forvitnilegt að vita hvort sama hugafar og samheldni í baráttunni við loftslagsvandann ríki á Íslandi?
heimild
theguardian.com