„Mér fannst áhugavert hvaða þættir það eru sem hafa mest áhrif á að fyrirtæki bregðist við. Niðurstöður sýndu að orðspor fyrirtækisins er sá þáttur sem hefur mest áhrif á að fyrirtæki bregðist við loftslagsbreytingum með aðgerðum en fjárfestar virðast hafa minnstu áhrifin. Þetta gefur vísbendingu um að margir íslenskir fjárfestar geri ekki miklar kröfur til stjórnenda um að bregðast við loftslagsbreytingum með aðgerðum og markmiðum,“ segir Rakel Sævarsdóttir sérfræðingur hjá Deloitte meðal annars um það, hvað henni finnst sérstaklega áhugavert í niðurstöðum nýrrar stjórnendakönnunar þar sem staða 300 stærstu fyrirtækja landsins var tekin á því hvar þau eru stödd í grænni vegferð.

Í þessari viku hefur Atvinnulífið á Vísi fjallað um stöðu íslensks atvinnulífs með tilliti til sjálfbærni.

Könnunin var framkvæmd af Deloitte í nóvember síðastliðnum. Þátttakendur voru í 98% tilvika stjórnendur sem sitja í framkvæmdastjórn en dreifðist nokkuð jafnt yfir helstu atvinnugreinar landsins. Helmingur þátttakenda voru stjórnendur í fyrirtækjum með 100 eða fleiri starfsmenn. Að sögn Rakelar var markmið könnunarinnar að meta stöðu íslenskra fyrirtækja í aðgerðum til að sporna við loftlagsbreytingum en eins að auka skilning á viðbrögðum stjórnenda í loftlagsmálum.

Ný viðskiptatækifæri í augsýn

Þátttaka í könnun dreifðist nokkuð jafnt yfir helstu atvinnugreinar landsins og segir Rakel að engin ein atvinnugrein virðist skara fram úr né vera að draga lappirnar í aðgerðum í loftlagsmálum.

Þá segir Rakel ánægjulegt að sjá að hátt í 100% þátttakenda telur sig skilja með hvaða hætti fyrirtæki þeirra hefur áhrif á loftlagsmál.

En stjórnendur eru líka að sjá ný tækifæri.

„Ríflega 2/3 þátttakenda telja að aðgerðir í loftslagsmálum stuðli að nýjum viðskiptatækifærum. Þetta eru mikilvægar upplýsingar og gefa vísbendingar um að stjórnendur eru jákvæðir gagnvart því að bregðast við loftslagsmálum með aðgerðum,“ segir Rakel.

Þrátt fyrir þetta sýna niðurstöður að aðeins þriðjungur stjórnenda svöruðu að sjálfbærni væri hluti af viðskiptamódeli fyrirtækja.

Þegar við tölum um sjálfbært viðskiptalíkan er átt við að fjárhagsleg markmið fyrirtækja samræmast umhverfis- og samfélagslegum gildum þess. Virði fyrirtækisins og allra haghafa er því hámarkað með sameiginlegt virði að leiðarljósi.“

Þá virðast mörg fyrirtæki hafa sett sér markmið án þess að árangur sé mælanlegur.

„Við spurðum stjórnendur hvort fyrirtækin hafi sett markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hvort þau væru mælanleg. 

Í ljós kom að 2/3 fyrirtækja hafa sett markmið sem endurspeglast í að ná kolefnishlutleysi, draga úr losun um ákveðið hlutfall og/eða hafa sett sér markmið sem styðja við markmið Parísarsáttmálans um að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C.

Aftur á móti voru aðeins helmingur stjórnenda sem sögðust setja mælanleg markmið sem þýðir að einhver af fyrirtækjunum sem hafa sett sér markmið um að draga úr losun hafa ekki sett mælanleg markmið. Og eru það frekar áhugaverðar niðurstöður,“ segir Rakel.

Næst á dagskrá er…

Rakel segir líklegt að áhersla fyrirtækja á aðgerðir muni aukast á næstu árum. Til dæmis sýndu niðurstöður að í dag telja 59% stjórnenda að aðgerðir í loftlagsmálum séu mikilvæg fyrir fyrirtækin í dag en þetta hlutfall hækkaði í 88% þegar spurt er um hversu mikilvægar aðgerðir verða eftir þrjú ár.

„Að mínu mati er mikilvægast að fyrirtækin setji sér stefnu í umhverfismálum sem studd eru með markmiðum sem eru mælanleg.“

„Það hljóta flestir stjórnendur að vera sammála því að ef ná á ákveðnum árangri í rekstri er mikilvægt að setja mælanleg markmið til að fylgjast með þróuninni og meta hvort árangur hafi náðst. Það sama ætti því að gilda fyrir loftslagsmál.“

Tengt þessu er mikilvægt að fyrirtæki birti upplýsingar um aðgerðir sínar í loftslagsmálum auk annarra sjálfbærniþátta á aðgengilegan og skýran hátt,“ segir Rakel.

Rakel segir ánægjulegt að 77% yfirstjórna, þ.e. framkvæmdastjórna og stjórna fyrirtækja, segjast vera með loftlagsmálin ofarlega á dagskrá. Að hennar mati þyrfti þetta hlutfall þó að vera hærri þannig að ákvarðanatökur um aðgerðir séu líklegri.

Þá segir hún að þótt 2/3 fyrirtækja hafi sett sér markmið um aðgerðir þurfi þau að vera mælanleg en ekki síður hluti af viðskiptamódeli fyrirtækjanna.

„Mikilvægt er að nefna að græna vegferðin er vegferð eins og merking orðsins ber með sér og góðir hlutir eiga það til að gerast hægt, en tíminn vinnur ekki með okkur. Það er því mikilvægt að fyrirtæki hefji vegferðina í dag ef hún er ekki nú þegar hafin,“ segir Rakel.

Þá segir hún það hafa verið athyglisvert að þegar stjórnendur voru spurðir um það hvort þeir væru sammála eða ósammála því að Covid-19 hefði stuðlað að aukinni áherslu á aðgerðir í loftlagsmálum kom í ljós að ríflega 2/3 stjórnenda höfðu ekki skoðun á því eða voru ósammála.

„Sú niðurstaða er áhugaverð þar sem sú umræða hefur verið töluvert áberandi á alþjóðavísu að Covid-19 hafi einmitt stuðlað að aukinni vitundarvakningu meðal stjórnenda fyrirtækja, stjórnvalda og almennings,“ segir Rakel.

visir.is sótt 31/01/2021