- Fæðuöryggi, orkuskipti og aðfangamálby Guðrún Pétursdóttir
Höfundur: Sigurður Már Harðarson birtist í Bændablaðinu 24. október 2022
Málþingið Græn framtíð var haldin á Hilton Reykjavik Nordica, föstudaginn 14. október frá kl. 10–12. Það voru Bændasamtök Íslands sem blésu til málþingsins, sem markaði upphafið á degi landbúnaðarins. Síðar um daginn var landbúnaðarsýningin Íslenskur landbúnaður sett í Laugardalshöll, sem stóð yfir alla helgina.
Húsfyllir var á málþinginu, sem helgað var framtíð íslensks landbúnaðar og umhverfismálum tengdum landbúnaði.
Fyrirlesarar voru Ingólfur Friðriksson, úr utanríkisráðuneytinu, sem ræddi um ytri vídd fæðuöryggis, Rúnar Þór Þórarinsson, yfirmaður sjálfbærni og nýsköpunar Landeldi, sem talaði um fiskeldisúrgang sem öflugan áburð, Eygló Björk Ólafsdóttir, bóndi í Vallanesi, fjallaði um matvælaframleiðslu í skjóli skóga og lífræna ræktun, Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, gerði grein fyrir hvernig upplýsingar koma að notum í baráttunni við loftslagsmál, og Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsbreytinga, orkuskipta og nýsköpunar Orkustofnunar, sagði frá orkunni sem býr í sveitinni.
Í lokin ávarpaði Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis, orku og loftslagsmála, gesti málþingsins.
Líflegar pallborðsumræður
Í pallborðsumræðum á eftir fyrirlestrunum tóku þátt þau Guðlaugur Þór, Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, Helgi E. Þorvaldsson, formaður starfshóps um kornrækt, Hlédís Sveinsdóttir, meðhöfundur skýrslunnar Ræktun Íslands, Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Erna Björnsdóttir, fagstjóri matvæla og náttúruafurða hjá Íslandsstofu. Sköpuðust þar líflegar umræður um margvísleg málefni landbúnaðarins í fortíð, nútíð og framtíð. Í umræðum um fæðuöryggi vakti Helgi E. Þorvaldsson athygli á þeirri staðreynd að engar plöntukynbætur væru stundaðar á Íslandi í dag.
Hann skýrði þá stöðu í því sögulega ljósi að þegar áföll dundu á þjóðinni, pestir, plágur og náttúruhamfarir, hafi áhersla verið lögð á kvikfjárrækt til að hámarka nýtingu á starfsfólki. Enda varð gjarnan veruleg fækkun mannfjölda á Íslandi í slíkum hamförum. Þá varð það hlutskipti til dæmis kornræktar að vera lögð til hliðar. Kerfið hafi síðan að vissu leyti verið byggt á þessari forsögu.
Helgi sagði einnig að sagan hafi líka sýnt okkur að hægt væri að rækta korn á Íslandi með góðum árangri – til þess að það geti orðið þurfi hins vegar að byggja upp innviði til kornræktar.
Bændur fá ekki nægilega mikið greitt
Guðlaugur Þór sagði að íslenskir bændur geti borið höfuðið hátt. Það væri í raun bara eitt atriði í ólagi í íslenskum landbúnaði; bændur fengju ekki nægilega mikið greitt fyrir sínar vörur. Íslenskur landbúnaður gæti bara keppt við aðrar vörur í gæðum, ekki verðlagi. Bændur væru harðduglegt fólk sem fengi alls ekki það sem þeir ættu að bera úr býtum.
Helgi tók undir með Guðlaugi Þór og benti á að afkomuskilyrði bænda væru víða orðin mjög slæm, hann heyri það á bændum að ástandið hafi sjaldan eða aldrei verið þyngra.
Það hafi einmitt verið eitt aðalmálið í fæðuöryggisskýrslunni sem gefin var út í byrjun síðasta árs, að tryggja afkomu bænda.
Hann sagði einnig að eitt brýnasta málið við endurskoðun rammasamnings búvörusamninga á næsta ári eigi að vera að sækja meira fjármagn til verkefna eins og plöntukynbóta, þannig að ekki þurfi að vera að bítast um það fjármagn sem stjórnvöld leggja þegar til landbúnaðarins.
Góð ímynd landbúnaðarins
Erna ræddi um hina góðu ímyndarstöðu sem íslensk landbúnaðarframleiðsla byggi við. Eitt af hlutverkum Íslandsstofu væri að aðstoða erlenda fjárfesta sem vilja koma til Íslands.
Reynsla þeirra af samskiptum við fjárfesta væri sú að þeir séu mjög meðvitaðir bæði um hagstætt orkuverð á Íslandi, en einnig ímynd hinnar vistvænu orku.
Góð tækifæri séu því til staðar fyrir Íslendinga að nýta sér þessa stöðu, með því annaðhvort að sækja fjárfesta til landsins eða fleiri neytendur erlendis frá.
Upptökur frá málþinginu eru aðgengilegar í gegnum Facebooksíðu Bændasamtaka Íslands.
- Stefnir í tveggja og hálfrar gráðu hlýnun á meðan ríki draga lappirnarby Kolefnislosun
Kjartan Kjartansson skrifar 26. október 2022 á visir.is
Útlit er fyrir að hnattræn hlýnun nái tveimur og hálfri gráðu fyrir lok aldarinnar ef ríki heims auka ekki metnað sinn í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er heilli gráðu meira en stefnt er að með Parísarsamkomulaginu til þess að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.
Í skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna er áætlað að losun mannkynsins aukist um 10,6% á milli áranna 2010 og 2030 sem er engu að síður nokkuð minna en spá frá því í fyrra sem hljóðaði upp á 13,7% aukningu. Það er víðsfjarri þeim 45% samdrætti sem vísindamenn segja að þurfi að nást fyrir lok áratugsins ef loftslagsmarkmiðin eiga að halda.
Áætlun nefndarinnar um tveggja og hálfrar gráðu hlýnun byggir á núverandi landsmarkmiðum ríkja um samdrátt í losun. Hún er þannig háð því að ríkin standi við þau. Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir því að ríki uppfæri reglulega landsmarkmiðin og geri þau háleitari með tímanum.
„Við erum enn hvergi nærri því umfangi og hraða samdráttar í losun sem við þurfum til þess að halda hlýnun við eina og hálfa gráðu. Til þess að halda þessu markmiði á lífi verða ríkisstjórnir heims að efla aðgerðaáætlanir sínar í loftslagsmálum strax og framfylgja þeim á næstu átta árunum,“ segir Simon Stiell, framkvæmdastjóri rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
Næsta stóra loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi í næsta mánuði. Þar er búist við því að ríki reyni að leggja fram metnaðarfyllri aðgerðir til þess að takmarka hnattræna hlýnun.
- Staðreyndir og orkuskiptiby Kolefnislosun
Birtist í leiðara Viðskiptablaðsins 23. otkóber 2022
Útflutningur raforkunnar er í formi áls, kísils og járnblendis og skapar Íslandi gjaldeyristekjur. Þessi sami gjaldeyrir gerir okkur kleift að kaupa innfluttar vörur.
Í vikunni var skýrsla verkfræðistofunnar Eflu um orkuþörf Íslendinga í ljósi áforma um orkuskipti kynnt.
Efla vann skýrsluna fyrir Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun og Samorku. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að tvöfalda þarf orkuframleiðslu í landinu á næstu áratugum til að ná fram markmiðum orkuskipti. Rétt er að taka fram að þessi útreikningur miðast við núverandi orkuþörf og tekur þar af leiðandi ekki til aukinnar orkuþörf sem kann að koma til vegna hagvaxtar.
Með öðrum orðum þurfa Íslendingar að framleiða að minnsta kosti 16 tetravött til viðbótar við núverandi orkuöflun hér á landi til að hægt verði að láta af núverandi notkun af jarðefnaeldsneyti. Fram kemur í skýrslunni að þegar húshitun er undanskilin þá knýr olía um 40% af hagkerfinu. Þetta háa hlutfall kemur væntanlega mörgum á óvart og það undirstrikar þær áskoranir sem eru fram undan þegar kemur að orkuskiptum.
Skýrslan og vefsvæði sem var opnað í tengslum við kynningu hennar er mikilvægt framlag til upplýstrar umræðu um orkuskipti og raunhæfar aðgerðir í þeim efnum. Því miður hefur umræðan til þessa einkennst af miklu óraunsæi.
Þannig hafa félagasamtökin Landvernd talað fyrir því að ráðist verði í orkuskipti án þess að raforkuframleiðsla verði aukin. Þeir sem aðhyllast þetta sjónarmið eru í raun og veru að leggja til endalok hagvaxtar og að markmið um efnahagslega framþróun verði lögð til hliðar. Enn aðrir myndu segja að þetta væri ígildi þess að landsmenn sættu sig við þau lífskjör sem voru í boði á sjöunda áratugnum.
Málflutningur Landverndar snýr með öðrum orðum að því að hægt sé að nýta raforkuna sem stórnotendur nota nú til orkuskipta innanlands. Sum stjórnmálaöfl og jafnvel einstaka embættismaður í orkugeiranum hefur einnig talað fyrir þessu sjónarmiði. Þessi röksemdafærsla heldur engu vatni.
Sjónarmið Landsverndar tekur ekki mið af þeirri staðreyndar að raforka er meðal stærstu útflutningsgreina Íslands og ein meginstoða efnahagslífs hér á landi. Útflutningur raforkunnar er í formi áls, kísils og járnblendis og skapar Íslandi gjaldeyristekjur. Þessi sami gjaldeyrir gerir okkur kleift að kaupa innfluttar vörur. Til dæmis rafknúin faratæki af ýmsu tagi. Ef Ísland tekur þá ákvörðun að láta af raforkusölu til orkusækins iðnaðar eru engar líkur á því að nægur gjaldeyrir verði til skiptanna til að flytja inn öll rafknúnu farartækin sem eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Það mætti í raun líkja þessu við að Ísland léti af innflutningi á matvælum, drægi úr útflutningi á sjávarafurðum og neytti þeirra innanlands í auknum mæli. Minni útflutningstekjur sætu eftir á Íslandi, sem þýddi að minna væri til skiptanna til að fjármagna innflutning, sem leiðir óumflýjanlega af sér skert lífsgæði á Íslandi.
Á undanförnum árum hefur enginn skortur verið á fundarhöldum um áskoranir í loftlagsmálum og nauðsyn orkuskipta til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar í þeim efnum. En á sama tíma hefur lítið þokast áfram þegar kemur að því að auka orkuvinnslu hér á landi. Svo virðist sem margir ætla að berja hausinn við steininn og neita að horfast í augu við þá staðreynd að orkuskipti geta ekki átt sér stað án þess að raforkuöflun verði aukin til muna.
Það er löngu tímabært að sú kyrrstaða sem ríkt hefur um orkuöflun um árabil verði rofin. Að öllum líkindum hafa mörg tækifæri farið nú þegar forgörðum þegar kemur að því að nýta vistvæna raforkuframleiðslu til uppbyggingar og eflingar græns iðnaðar. Að sama skapi er ljóst að langt ferli er framundan áður en hægt verður að ráðast í frekari virkjunarframkvæmdir.
Það er tímabært að umræða um orkuskipti haldist í hendur um hvernig tryggja eigi efnahagslegan framgang hér á landi og bætingu lífskjara til frambúðar. Um það hlýtur að ríkja breið pólitísk sátt þegar allt kemur til alls. Lítið en mikilvægt skref var stigið í þeim efnum á Alþingi í gær.
- Loftslagsmál og vinnutími: Tækifæri til breytingaby Kolefnislosun
Greinin er eftir Guðmund D. Haraldsson og birtist á kjarninn.is 10. október 2022
Guðmundur D. Haraldsson segir að kerfisbundnar breytingar á lífsháttum okkar eins séu mikilvægar til að auka líkurnar á betra lífi í framtíðinni. Það sé verkefni samfélagsins alls að tryggja að svo verði – og annarra samfélaga líka.
Það er orðið algerlega ljóst að loftslagsbreytingar eru raunverulegar, að þær stefna öryggi og afkomu mannkynsins í verulega hættu, að þær eru orsakaðar af hegðun mannskepnunnar, og að aðgerða er þörf. En hvaða aðgerðir eiga það að vera?
Skoðum fyrst hver vandinn er. Í skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá árinu 2018 er staðhæft að hlýnun loftslagsins um 1,0°C frá því fyrir iðnbyltingu sé staðreynd, þetta sé eitthvað sem við verðum að búa við. Lögð er áhersla á að fari hlýnunin yfir 1,5°C myndi hún samt halda áfram að aukast jafnvel þótt losun gróðurhúsalofttegunda myndi stöðvast á næstu árum eða áratugum – ástæðan fyrir þessu eru ýmsir ferlar í náttúrunni sem ekki verða stöðvaðir, svo sem bráðnun jökla og sífreðis. Því fyrr sem mannkynið grípur til aðgerða til að draga úr losun þessara lofttegunda, því betra – það er hins vegar ekki raunin, því losunin heldur áfram að aukast, ár frá ári, eins og er staðfest í nýjustu skýrslu Milliríkjanefndarinnar frá 2022. Þar er rakið að við séum langt frá því einu sinni að byrja að minnka losun gróðurhúsalofttegunda: Talið er að 17% heildarlosunar koltvísýrings (CO2) – mikilvægustu gróðurhúsalofttegundarinnar – frá 1850 til 2019 hafi átt sér stað á aðeins níu árum, frá 2010 til 2019. Í þessari nýjustu skýrslu er talið líklegt að hlýnunin fari yfir 1,5°C.
Afleiðingarnar af hlýnun jarðar verða gríðarlegar, og höfum í huga að þær munu birtast á líftíma þeirra sem þetta lesa – við erum ekki að tala um breytingar sem aðeins börnin okkar og barnabörn verða að taka á og lifa við, heldur líka við sjálf, sem fullorðin erum. Um er að ræða mikla aukningu á úrkomu á sumum svæðum, aukningu á þurrkum á öðrum, aukningu á hitastigi á sumum, lækkun á öðrum. Einnig verða veðurofsar líklegri. Þá mun mikið land sökkva undir sjó, en meðal annars eru nokkrar stórborgir í mikilli hættu vegna þessa sem og margar eyjar. Einnig munu mörg vistkerfi – sem hjálpa til við að halda uppi lífi á plánetunni, þar á með talið okkur sjálfum – vera í mikilli hættu sem og margar dýrategundir. Landbúnaður mun verða erfiðari á vissum svæðum. Svona mætti áfram telja. Eftir því sem lengra líður þar til tekið er í taumana, því erfiðara verður að afstýra þessum afleiðingum, og þeim mun erfiðara verður að lifa mannsæmandi lífi á jörðinni.
Afleiðingarnar af loftslagsbreytingum munu ekki dreifast jafnt yfir mannkynið, og þær munu ná til Íslands líka. Við okkur og okkar heimshluta mun einnig blasa mikill flóttamannastraumur, mun stærri en við höfum séð hingað til.
Að koma í veg fyrir að jafn illa fari – eða enn verr – og Milliríkjanefndin varar við, er líklega eitt stærsta viðfangsefni sem blasað hefur við mannkyninu, viðfangsefni sem mannkynið getur haft einhver áhrif á, í það minnsta. Og tíminn sem við höfum er stuttur, hann er mældum í árum, en ekki áratugum, því áhrifin af loftslagsbreytingum eru farin að birtast okkur.
Hvað skal gera?
Augljóst er að stefna verður að mikilli og hraðri minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda, og skiljanlega líta þar margir til tæknilegra lausna. Mikið starf verið unnið víða í Evrópu, m.a. með uppsetningu á sólarorkuspeglum og vindmyllum. Þetta er samt engan veginn nóg, því losunin á gróðurhúsalofttegundum heldur áfram að aukast – líka á Íslandi.
Líta margir vongóðir til tækni sem tekur gróðurhúsalofttegundir úr andrúmsloftinu og dælir niður í jörðina þar sem þær bindast, en þessi tækni er á algeru frumstigi. Aukinheldur er óljóst hvernig þessi tækni á að geta hamið alla þá gríðarlegu losun sem við stöndum fyrir, því tæknin er afkastalítil í samanburði við losunina.
Það eru til leiðir sem við eigum líka að líta til – í bland við tæknilegar leiðir –, leiðir sem fela í sér breytingu á hegðun okkar og markmiðum okkar sem samfélags. Ein sú leið er að draga úr neyslu framtíðarinnar, en öll okkar neysla, alveg sama hvaða form hún tekur, felur í sér losun gróðurhúsalofttegunda – sama hvort það er kaup eða akstur á bíl, kaup á varningi, utanlandsferðir, framleiðsla á mat, eða byggja hús. Allt þetta felur í sér losun á gróðurhúsalofttegundum vegna flutninga, vinnslu úr jörðu, framleiðslu og svo framvegis. Velflestar okkar athafnir valda raunar losun gróðurhúsalofttegunda, og því meira sem við stundum af þessum athöfnum, því meira er losað.
Ég á við að hættum að auka neyslu stöðugt inn í framtíðina og veljum heldur svipaða eða minni neyslu, en í staðinn vinnum minna. Þetta yrði þróun yfir langan tíma í ríkum samfélögum. Þessi hugmynd er svo sem ekki ný og ekki beinlínis mín heldur; hagfræðingurinn Tim Jackson lagði þessa leið til í bókinni Prosperity without growth, sem kom út árið 2009 og var gefin út í nýrri útgáfu 2017, en sú bók rekur meðal annars hvernig sífellt aukið framboð á vörum og þjónustu – hagvöxtur – gagnast lítið samfélögum sem hafa náð vissu stigi hagsældar – ríkum samfélögum –, og hvernig hagvöxtur hefur leitt til þess mikla vanda sem blasir við í umhverfismálunum. Hann fjallar raunar nokkuð ítarlega um tengslin milli síaukinnar neyslu og loftslagsbreytinga, en einnig ofnýtingu auðlinda, sem ekki fær mikla athygli í umræðunni. Jackson setur þetta allt fram með skipulögðum og ígrunduðum hætti.
Meginhugmyndin er þessi: Í stað þess að vinna og vinna, og neyta og neyta í síauknum mæli, sem svo veldur umhverfisspjöllum og dregur úr möguleikum okkar til að lifa góðu lífi til lengri tíma litið (m.a. vegna loftslagsbreytinga), þá eigum við að vinna minna, neyta ámóta mikið eða (eitthvað) minna, nýta hluti mun betur og lengur, endurvinna meira og verja meiri tíma í áhugamál og með vinum og fjölskyldu, enda veitir þetta síðastnefnda okkur mun meiri ánægju en sífelld neysla. Og ánægju sem varir lengur. Og lykillinn að þessu er að nýta aukna framtíðar framleiðni hagkerfisins í að draga úr vinnustundum.
Og rökin fyrir því að síaukin neysla auki ekki ánægju, né heldur lífsgæði, eru veigamikil: Jackson rekur hvernig síaukin neysla eykur ekki hamingju, lífslíkur, né dregur úr ungbarnadauða (allt klassísk einkenni aukinnar hagsældar), eftir að vissu stigi neyslu er náð – Ísland og skandinavísk ríki hafa náð þessu stigi. Eitt markmið okkar sem samfélags hlýtur að vera að njóta lífsins og líða vel, en það er öruggt að síaukin neysla í okkar samfélagi er ekki rétta leiðin til þess. Juliet Schor, bandarískur hagfræðingur og félagsfræðingur, hefur bent á það sama í sínum skrifum. Þá má gera ráð fyrir því að síaukin neysla sem eykur á loftslagsbreytingar muni gera lífið verra, ekki betra, fyrir marga.
Fjölmargt mælir þannig gegn síaukinni neyslu í ríkum samfélögum. Spurningin sem hlýtur að vakna er hvernig þetta eigi mögulega að geta gengið upp, hvernig getum við gert nokkuð eins og að hætta að auka sífellt neyslu, án þess að það skerði lífsgæði okkar, og jafnframt hafi jákvæð áhrif á loftslagsbreytingar? Yrðu einhver jákvæð áhrif á okkur sjálf af því?
Þrjár leiðir til breytinga
Ég ætla hér að leggja til þrjár leiðir, sem myndu hjálpa okkur hér á Íslandi að draga úr vinnu og neyslu framtíðar, þótt þær geri það með ólíkum hætti. Þessar leiðir munu ekki bjarga okkur frá loftslagsbreytingum, mengun og ofnýtingu auðlinda því til þess mun fjölmargt annað þurfa að breytast líka. Þær myndu hins vegar hjálpa mikið til, en einnig auka frelsi og lífsgæði venjulegs, vinnandi fólks. Önnur lönd gætu þurft að fara aðrar leiðir til að ná fram þessu sama.
Fyrir það fyrsta, þá verður að draga úr ójöfnuði, því ójöfnuður ýtir undir gegndarlausa neyslu, neyslu sem er eingöngu til þess fallin að sýna öðrum fram á „ríkidæmi“ sitt, en þegar varningurinn er ekki nógu „fínn“ lengur – eða aðrir eru búnir að eignast það sama – er honum komið fyrir í geymslum og loks hent. Er þá það nýjasta keypt í staðinn. Það er ekki eingöngu ofurríkt fólk sem þetta gerir, heldur tökum við flest þátt í þessu með einum eða öðrum hætti, og markaðsöflin – auglýsendur, framleiðendur og fleira – nýta sér þetta til að selja okkur varning sem á að færa okkur nær stöðu náungans sem við berum okkur saman við. Endalaus kaup á nýjum farsímum er dæmi um þetta, svo og þegar fólk skiptir út ísskápnum sínum því hann er ekki í þeim lit eða stíl sem er í tísku þá stundina – þau ofurríku kaupa sér einkaþotu eða tvær. Ójöfnuður ýtir undir kapphlaup um að vinna sem mest, til að hafa efni á nýjustu tískunni, sem verður fljótt úrelt.
Þessi hegðun hefur gríðarleg áhrif á umhverfið, sem við erum svo háð til að geta lifað á þessari jörð. Höfum í huga að markaðsöflin reyna að stýra því hverju sinni hvað er í tísku, til að fá okkur til að kaupa nýtt, og þannig er kapphlaupið drifið áfram.
Ójöfnuður hefur líka annars konar áhrif á samfélögin okkar: Rannsóknir hafa sýnt að ójöfnuður hefur neikvæð áhrif á traust innan samfélaga, neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna, dregur úr lífslíkum, eykur líkurnar á offitu, dregur úr möguleikum fólks til að mennta sig, og ýmislegt fleira. Þetta sýna fjölmargar rannsóknir sem hafa verið teknar saman í bókinni The Spirit Level eftir Richard Wilkinson og Kate Pickett. Ójöfnuður grefur undan sátt innan samfélaga, eykur samkeppni milli fólks og eykur streitu. Allt þetta dregur úr lífsgleði og getu samfélaga til að vinna saman og hefur þar með neikvæð áhrif á stjórnmálin þannig að þau ná síður að leysa brýn vandamál samfélagsins.
Það er þannig mikilvægt að takast á við ójöfnuð, því hann er sjálfstætt vandamál sem ýtir undir mengun, loftslagsbreytingar og dregur aukinheldur úr lífsgæðum. Ójöfnuður er pólitískt viðfangsefni, sem sést best á því að hann má minnka eða auka með breytingum á skattkerfunum okkar – hann eykst þegar efnafólk og stórfyrirtæki eru skattlögð minna, en minnkar þegar þessir hópar eru skattlagðir meira. Ójöfnuður eykst líka þegar þau efnaminnstu eru skattlögð meira. Og ójöfnuður er sannarlega raunin á Íslandi, þótt hann sé ekki jafn ýktur og í Bretlandi og Bandaríkjunum, en okkar ójöfnuður hefur þó farið vaxandi á undanförnum árum og áratugum. Um það hafa Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson fjallað ítarlega í bókinni Ójöfnuður á Íslandi.
En það er ekki nóg að taka á ójöfnuði, því það verður líka að huga beint að möguleikum fólks til að hafa áhrif á eigin vinnu, og um það fjallar önnur leið til að við getum farið að vinna minna og neyta minna. Á Íslandi er raunin sú, að vinnandi fólk hefur tiltölulega lítil völd yfir því hvað það vinnur mikið – flestir vinna fullt starf, af því að það er það eina sem býðst, eða vegna þess að það er það sem fólk þarf til að geta lifað. Atvinnurekendur hafa það í hendi sér að neita fólki um að vinna hlutastarf, jafnvel í þeim tilfellum þar sem tekjurnar af hlutastarfi myndu duga til að lifa og fólk vill vinna hlutastarf. Starfshlutfall er einfaldlega samkomulag milli launþega og atvinnurekenda, ef annar aðilinn er ósáttur er ekkert samkomulag, og í samfélagi þar sem langflestir vinna fullt starf (75%), getur reynst erfitt að vinna gegn ríkjandi venjum.
Að vísu er í gildi samningur á íslenskum vinnumarkaði sem á að tryggja launþegum sem vinna hlutastörf viss réttindi og vernd til að vinna þau, en það nær ekki lengra en svo að flugfélag á Íslandi ákvað að bjóða flugfreyjum sínum og -þjónum í hlutastarfi að segja upp eða fara í fullt starf sé viðkomandi undir 55 ára aldri. Það var svo staðfest af Félagsdómi, einum af dómstólum landsins, að þetta mætti gera. Slíkt samkomulag er því varla mikils virði, því miður. Það verður því að setja góð lög.
Í Hollandi eru lög sem tryggja jafnan rétt þeirra sem vinna hlutastörf á við aðra hvað varðar atvinnuöryggi, stöðuhækkanir, launahækkanir og svo framvegis. En einnig, og þetta er lykilatriði, þá tryggja lögin fólki þann rétt að velja sér starfshlutfall, jafnvel þótt atvinnurekandanum kunni að virðast það óþægilegt. Við eigum að taka upp lög sem þessi til að tryggja í sessi þennan rétt og gera fólki raunverulega kleift að velja sér starfshlutfall. Hugveitan Autonomy hefur bent á að rétturinn til hlutastarfs sé nauðsynlegur fyrir framtíðarþróun vinnumarkaðarins. Höfum í huga að rannsóknir sýna að fólk sem vinnur minna veldur minna álagi á náttúruna, á auðveldara með að samræma vinnu og einkalíf og þar fram eftir götunum.
Rannsóknir benda einnig til að fólk sem velur að vinna minna sé ánægðara með lífið en aðrir og að sú ánægja vari til lengdar, ólíkt ánægjunni sem hlýst af aukinni neyslu, sem varir stutt. Ánægjan af því að eiga meiri frítíma og tíma með öðrum varir jafnvel þótt aðrir öðlist möguleikann til þess sama, ólíkt því sem gerist þegar neyslan eykst og aðrir auka neysluna líka, en þá hverfur ánægjan af aukinni neyslu hratt. Það eru því rík rök fyrir því að tryggja fólki réttinn til að vinna hlutastarf.
Loks er það þriðja leiðin, mögulega sú tæknilegasta af þeim öllum. Hún felst í því að nýta aukna framleiðni – aukin framleiðni er getan til að búa til meira af vörum eða veita meiri þjónustu á hverri vinnustund – til að draga úr vinnutíma í framtíðinni, fremur en að búa til meira af vörum eða veita meiri þjónustu. Með því móti, heilt yfir, getum við unnið minna án þess að fórna núverandi velsæld og lífsgæðum, en jafnframt öðlast meiri lífsgæði með fækkun vinnustunda og auknum frítíma og tíma með öðru fólki. Þetta er leið sem hagfræðingarnir Tim Jackson og Juliet Schor hafa lagt til, en leiðin felur ekki aðeins í sér minni tíma til vinnu, heldur einnig að neysluaukning framtíðarinnar er hamin, sem þýðir að losun á gróðurhúsalofttegundum eykst ekki og bæði mengun og ofnýting auðlinda hætta að aukast (að öllu öðru óbreyttu). Útfærslan getur verið með ýmsum hætti, t.d. með styttri vinnudegi eða styttri vinnuviku í stað launahækkana, eða með lengra sumarfríi. Einnig mætti hugsa sér upptöku vetrarfrís. Þetta er allt vel mögulegt og hefur í reynd verið gert áður, en í smærri skömmtum og ekki á kerfisbundinn hátt til langs tíma eins hér er átt við.
Þessar þrjár leiðir í sameiningu myndu hafa mikil áhrif til góðs í okkar samfélagi og öðrum ríkum samfélögum. Samkeppni í neyslu myndi minnka, sóun myndi dragast saman, vellíðan myndi aukast og félagslíf heilt yfir aukast og styrkjast. Traust myndi aukast og vinnutími myndi styttast. Áhrifin á loftslagsbreytingar yrðu jákvæð, því losun gróðurhúsalofttegunda myndi ýmist dragast saman eða hætta að aukast af okkar hendi.
Hér að framan hefur fyrst og fremst verið einblínt á loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim. En við okkur blasir einnig tvenns konar vandi af öðrum toga sem er ekkert minna alvarlegur en loftslagsbreytingar: Ofnýting auðlinda jarðar líkt og imprað var á áður – ofnýting ýmissa fágætra málma, til dæmis – og niðurbrot vistkerfa – sem kemur til vegna þess að mannkynið hefur lagt undir sig æ meira land til húsbygginga, landbúnaðar og iðnaðar af ýmsu tagi, auk notkunar efna í stórum stíl. Þessi vandi fær engan veginn sömu athygli og loftslagsbreytingar, en vistkerfishagfræðingar hafa þó bent á að þessi vandi verði minni og viðráðanlegri ef sams konar aðferðum yrði beitt og hér hefur verið fjallað um.
Nokkur orð um efasemdir og einstaklingshyggju
Í hugum margra sem lesa þessar línur kunna að leynast efasemdir: „Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að fá fólk til að neyta minna? Hvers vegna ætti fólk að taka upp á því að vinna minna? Og hvernig á fólk sem hefur ekki nóg nú þegar að geta unnið skemur?“ er kannski spurt. Þetta eru allt gildar spurningar, en þær byggja allar á því að við séum öll einstaklingar sem tökum ákvarðanir, hvert fyrir sig, og að við séum ekki meðlimir í samfélagi sem hefur gríðarleg áhrif á okkur öll.
Raunin er sú að við öll verðum fyrir miklum áhrifum frá umhverfinu okkar – auglýsingum, áróðri, hugmyndum sem við berum með okkur og fáum frá öðrum – en líka af efnahagslegum mælikvörðum (verði, verðlagi, þenslu í hagkerfinu). Það er í raun og veru þetta sem hefur langmest áhrif á hegðun fólks, og þetta eru allt áhrif frá samfélaginu. Ákvarðanir fólks eru sjaldnast teknar í tómarúmi: Fólk, sem ákvað að henda stíheilum ísskápum vegna þess að þeir voru ekki í lit sem tískan leyfði og ýtti undir, var rækilega undir áhrifum samfélagsins, og það sama á við um fólk sem vinnur yfirvinnu til að geta slakað á seinna á Ítalíu. Það er rangt að hugsa um ákvarðanir fólks sem varða neyslu sem ákvarðanir teknar í tómarúmi af einstaklingum, og að fólk „verði bara“ að breyta hegðun sinni. Raunveruleikinn er sá að við erum hjarðdýr sem hegðum okkur í samræmi við viðteknar venjur og tískustrauma hvers tíma að mörgu leyti (en ekki öllu leyti). Loftslagsbreytingar eru þannig sameiginlegur vandi, kominn til vegna sameiginlegrar hegðunar okkar.
Það þarf því að hugsa um hegðun og ákvarðanir fólks í samhengi við samfélag þess. Í okkar samfélagi eru yfirdrifin næg efni, við höfum úr nægu að bíta og brenna, miklu af því er sóað, auk þess sem margt af því er neysla sem allir sjá að er vitleysa. Úr þessu má draga og vinna minna einnig. Þau sem búa við skort í okkar samfélagi er fólk sem verður fyrir barðinu á þeirri misskiptingu sem við búum við, henni má snúa við, eins og dæmin sýna. Það sem þarf til að fólk neyti minna og vinni minna eru hvatar til minni neyslu, réttindi til hlutastarfa, breytt nýting aukinnar framleiðni, og menning sem gefur til kynna að það sé í lagi að vinna minna en aðrir. Engin valdbeiting er nauðsynleg til þess, enda viljum við búa í lýðræðissamfélagi. Fólk sem vill vinna mikið fengi áfram að gera það óáreitt, enda réttur þess og frelsi að gera það.
Engin ein leið er til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar eða að koma í veg fyrir að við mengum jörðina þannig að hún verði illbyggileg, til þess þarf að bregðast við á ýmsan hátt og þar er minni neysla – eða í það minnsta að neysla haldi ekki áfram að aukast – lykilatriði, einkum meðal efnaðra samfélaga eins og okkar. Og þar með getum við líka unnið minna, enda er ekki ástæða til að vinna fyrir skrani sem er hent næsta fljótlega, en öllu meiri ástæða er hins vegar að njóta þess að eiga meiri tíma með fjölskyldunni og sinna áhugamálunum. Tæknilegar lausnir myndu styðja við breytingar á hegðun eins og þessar til að leysa loftlagsvandann og öfugt.
Sum sem lesa þennan pistil kunna að velta fyrir sér hvort Ísland hrapi ekki í fátækt við að draga úr vinnu og með því að nýta framleiðni á þann hátt sem hér hefur verið lýst. Myndi það ekki steypa okkur í fátækt að hagvöxtur aukist ekki jafn mikið og áður? Svarið við þessu er neikvætt, enda munum við halda áfram að vinna, búa til hluti og veita þjónustu. Hugsanlega myndi neyslan eitthvað dragast saman – við megum við því sem heild –, en mjög líklega myndi hún aukast lítillega eða standa í stað til lengri tíma litið. Við myndum auðvitað halda áfram að vinna og neyta. Við verðum þannig ekki ekki sjálfkrafa fátæk. Við myndum hins vegar auka lífsgæði okkar á öðrum sviðum utan neyslukapphlaupsins kerfisbundið – svo sem hvað varðar félagsleg tengsl milli fólks, áhugamál og svo framvegis.
Önnur myndu kannski hafa áhyggjur af því að fyrirtækin yrðu varla starfhæf ef við beinum framleiðni inn á aðrar brautir – myndu þau ekki verða gjaldþrota öll, hverfa? Það er ekki svo: Fyrirtækin þyrftu að beita fyrir sér nýjustu tækni í sinni starfsemi, til að auka framleiðni sína og hagnast. Hvatinn til að auka framleiðni fyrirtækjanna væri raunar enn meiri í samfélagi sem tekur til þessara ráða en við þekkjum í dag, enda myndi vinnutíminn styttast jafnt og þétt. Þetta gæti því jafnvel verið lyftistöng fyrir fyrirtækin, jákvæður hvati. Það myndi líka tryggja að samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum myndi eflast.
Sum spyrja sig kannski af hverju við ein ættum að fara hefja vegferð eins og þessa. Af hverju Ísland? Ísland er í kjöraðstöðu vegna smæðar sinnar, hagsældar og skipulags samfélagsins. Ísland er einnig með sterkt net stéttarfélaga og öflugt velferðarkerfi. Neysla er einnig mjög mikil. Jafnframt höfum við á undanförnum árum tekið skref í átt til styttri vinnuviku – með ágætum árangri og vitað er að áhugi er fyrir meiri styttingu í samfélaginu. En Ísland yrði aldrei eitt lengi; við gætum hins vegar verið í fararbroddi þessar þróunar sem önnur lönd læra af og elta.
Kerfisbundnar breytingar á lífsháttum okkar eins og hér hefur verið lýst eru mikilvægar til að auka líkurnar á betra lífi í framtíðinni. Það er verkefni samfélagsins alls að tryggja að svo verði – og annarra samfélaga líka. Það er því mikilvægt að stjórnmálaleg umræða þróist í þessa átt og vonandi að umræðan þróist þannig á komandi misserum að fyrstu skrefin í átt að breytingum megi taka sem fyrst. Við þurfum að ræða leiðir eins og þær sem hér hafa verið reifaðar sem okkar framlag til að takast á við loftslagsbreytingar.
Höfundur er stjórnarmaður í Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði. Hann er með BSc gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og MSc gráðu í Cognitive & Decision Sciences frá University College London.
- Kolefnishlutleysi stuðlar
að lægri flugfargjöldumby Kolefnislosunturisti.is birti eftirfarandi frétt þann 26. september 2022
Margir óttast að framundan séu frekari hækkanir á flugfargjöldum.
Johan Lundgren, forstjóri EasyJet, sagðist í dag sannfærður um að
forysta félagsins um að þróuð verði flugvélatækni sem tryggði
kolefnishlutleysi væri rétta leiðin til að halda niðri verði á fargjöldum.Kolefnislosun verður mjög kostnaðarsöm ef ekki er tekinn í notkun búnaður sem stuðlar að sjálfbærni. Skattar á losun eiga bara eftir að hækka. Það er algjörlega í takti við stefnu okkar um að vera vel rekið lággjaldaflugfélag að taka forystuna í þessum efnum,” sagði Johan Lundgren á samkomu sem haldin var í höfuðstöðvum EasyJet í London í dag.
Ferðavefurinn Skift hefur þetta eftir forstjóra EasyJet og bendir réttilega á að sjálfbært þotueldsneyti (SAF), sem er með íblöndunarefnum, er enn sem komið er miklu dýrara en venjulegt eldsneyti og jafnvel ófáanlegt, þrátt fyrir aðgerðir margra ríkisstjórna og hvata sem kynntir hafa verið til að greiða fyrir framleiðslu og sölu þessara vistvænni gerða eldsneytis.
EasyJet stefnir að því að ná kolefnishlutleysi árið 2050. Liður í þeirri áætlun er að kynna til sögunnar kolefnishlutlausa 150 sæta farþegaþotu kringum árið 2040, einnig að endurnýja flota félagsins með Airbus A320neos-vélum, aukinni hagræðingu í rekstri á jörðu niðri, nýjum leiðum í nýtingu loftrýmis og með notkun á sjálfbæru eldsneyti (SAF). Með þessum aðgerðum er stefnt að því að draga úr losun á hvern farþega um 78 prósent árið 2050 miðað við 2019
Lundgren gat þess í dag að hann hefði þegar ritað nýjum forsætisráðherra og samgönguráðherra Bretlands bréf og hvatt til þess að stjórnvalda beittu sér fyrir aðgerðum sem stuðlað geta að kolefnishlutleysi, m.a með endurskoðun reglna sem gilda um flug í Evrópu og áhrif hafa á eldsneytisnotkun.
- Setja á fót Norðurslóða – fjárfestingarsjóðby Kolefnislosun
Arion banki, Pt. Capital og Guggenheim Partners standa að baki fyrirhugaðs fjárfestingarsjóðs sem mun einblína á fjárfestingar á Norðurslóðum.
Grein úr Viðskiptablaðinu birt 17.10. 2022
Á Hringborði Norðurslóða (e. Arctic Circle) um helgina tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands, að komið hafi verið á fót vinnuhópi í kringum fyrirhugaða fjárfestingarsjóðinn Arctic Investment Partners (AIP) sem mun einblína á fjárfestingar á Norðurslóðum.
Á bak við sjóðinn standa Arion banki, Pt. Capital, sem á hlut í Nova og Keahótelum, og fjárfestingarfélagið Guggenheim Partners.
Í tilkynningu segir að verkefnið muni setja ný viðmið um fjárfestingar á svæðinu með því að fylgja kjarnahugsjón um sjálfbæra þróun, ábyrga viðskiptahætti og umhverfisstefnu í samræmi við fjárfestingarreglur Efnahagsráðs Norðurslóða.
„Mótun AIP vinnuhópsins eru skilaboð til heimsins um hin gífurlegu tækifæri sem liggja í ábyrgum fjárfestingum og þróun á Norðurslóðum,“ er haft eftir Ólafi Ragnari.
„Ísland á margt sameiginlegt með öðrum þjóðum á Norðurslóðum. Ísland er dreifbýlt, með svipað veðurfar, hagkerfi okkar byggir á fiskveiðum og við erum með gnægð af orku. Við þekkjum vel til Norðurslóðanna og búum yfir töluverðri reynslu að safna fjárfestum saman. Norðurslóðirnar hafa mikið upp á bjóða efnahaghagslega yfir næstu áratugi og við viljum gjarnan vera virkir þátttakendur í frekari þróun svæðisins til framtíðar,“ segir Benedikt Gíslason, forstjóri Arion banka.
- Tvöföldun í fiskeldi milli áraby Kolefnislosun
Útflutningsverðmæti 5 milljarðar í september
Grein úr Viðskiptablaðinu -Fiskifréttir birt þann 18. október 2022
Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 5 milljörðum króna í september. Á þann kvarða er um stærsta septembermánuð frá upphafi að ræða. Á fyrstu 9 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 33,4 milljarða króna, sem einnig er met. Það er um 22% aukning frá sama tímabili í fyrra. Aukningin er nokkuð meiri sé tekið tillit til gengisbreytinga, eða rúm 29%. Þannig var gengi krónunnar að jafnaði 4% sterkara á fyrstu 9 mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum um vöruskipti í september sem Hagstofan birti nýlega. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segir frá þessu.
Hækkun afurðaverðs hefur áhrifÍ ofangreindum bráðabirgðatölum fyrir september er einungis að sjá útflutningsverðmæti eldisafurða í heild, en ekki sundurliðun á einstaka tegundir eða útflutning að magni til. Vafalaust má rekja þessa myndarlegu aukningu í september til laxeldis, líkt og mánuðina á undan. Þannig jókst útflutningsverðmæti á laxi um 30% á milli ára á föstu gengi á fyrstu 8 mánuðum ársins. Hlutdeild lax af útflutningsverðmætum eldisafurða í heild var um 83% á fyrstu 8 mánuðunum samanborið við tæp 77% á sama tímabili í fyrra. Þessa aukningu í útflutningsverðmætum má nánast alfarið rekja til hækkunar afurðaverðs, enda stóð útflutt magn svo til í stað á milli ára. Þannig hefur markaðsverð á laxi náð sögulegum hæðum á árinu og hefur að jafnaði verið hærra á þessu ári en það hefur áður verið. Hækkun afurðaverðs er vissulega ekki bundið við laxeldi, enda í takti við aðrar verðhækkanir i flestum geirum. Þar með talið á flestum kostnaðarliðum eldisfyrirtækja við framleiðslu og útflutning.
Á fyrstu 8 mánuðum ársins hefur útflutningsverðmæti silungs, sem er að stærstum hluta bleikja, dregist saman um 22% á föstu gengi. Það má alfarið rekja til samdráttar í útfluttu magni, en hækkun afurðaverðs vegur þó eitthvað upp á móti. Svipaða sögu er að segja af Senegalflúru, sem er einn verðmætasti matfiskur í heimi. Útflutningsverðmæti Senegalflúru hefur dregist saman um tæp 5% á föstu gengi á sama tíma og samdráttur í magni er rúm 14%.
Að lokum má nefna frjóvguð hrogn sem er verðmæt hátækniframleiðsla. Þar hafa útflutningsverðmæti aukist um 9% á föstu gengi á sama tíma og útflutningur að magni til hefur skroppið saman um tæp 2%. Það er því nokkuð ljóst að hækkun afurðaverðs hefur verið ráðandi í aukningu útflutningsverðmæta eldisafurða á fyrstu 8 mánuðum ársins.
- Loftlagskvíði í boði stórfyrirtækja og stjórnvaldaby Kolefnislosun
Hvert okkar skiptir máli í baráttunni gegn loftlagsbreytingum en við sem einstaklingar getum afskaplega lítil áhrif haft á hvað er framleitt og með hvaða hætti.
Upp úr aldamótunum 2000 réð Breska Olíufélagið (BP) áróðurs- og auglýsingaskrifstofuna Ogilvy & Mather til að bæta ímynd sína. Markmið verkefnisins var skýrt, að koma þeim skilaboðum á framfæri að ábyrgð á vinnslu og notkun kola, gas og olíu væri á herðum neytenda en ekki fyrirtækja eins og BP sem framleiða og selja vörur úr jarðefnaeldsneyti.
Forsvarsmönnum fyrirtækisins óraði ekki fyrir árangrinum en herferðin heltók bæði hjarta og heila neytenda á undraskömmum tíma og þótti svo árangursrík að hún er margverðlaunuð í markaðsbransanum. Önnur fyrirtæki í iðnaðinum fögnuðu ákaft en BP hafði í leiðinni breytt ásýnd iðnaðarins og fært umræðuna um ábyrgð á framleiðslu jarðefnaeldsneytis yfir á herðar neytenda. Gamall galdur sem hefur virkað vel í öðrum iðngreinum þar sem stórfyrirtæki í krafti fjármagns og pólitískra áhrifa hafa getað fengið sitt fram.
Loftlagsfótspor einstaklinga
Árið 2004 gekk fyrirtækið skrefinu lengra í áróðursherferð sinni og setti fram hugmyndina um loftlagsfótspor einstaklinga (Carbon footprint) og aftur með hjálp auglýsingastofunnar góðu. Þessi hugmynd átti að styrkja þá nálgun enn frekar að loftlagsbreytingar væru fyrst og fremst á ábyrgð einstaklinga sem neytenda. Nú gat hver og einn reiknað út fótsporið sitt og borið sig saman við aðra. Það að lifa sínu daglega lífi, fara í vinnuna, út að kaupa mat og ferðast var skyndilega orðinn stærsti valdur loftlagsbreytinga í huga almennings.
Nú er svo komið að ekki er þverfótað fyrir reiknivélum sem mæla loftlagsfótspor einstaklinga á vegum stjórnvalda, fyrirtækja og hagsmunahópa. Minna hefur farið fyrir reiknivélum fyrir fyrirtæki, en jákvætt var að sjá frétt í Viðskiptablaðinu nýlega um að íslenskt fyrirtæki Greenfo væri að þróa gervigreind til að mæla kolefnisfótspor fyrirtækja út frá fjárhagsbókhaldi. Frábært skref.
Loftlagskvíði er faraldur
Fjölmiðlar miðla fréttum á hverjum einasta degi um hrollvekjandi áhrif lofslagsbreytinga af manna völdum, um hækkun sjávarborðs, hlýnun sjávar, bráðnun jökla, vatnsskort, eyðimerkurmyndun, skógarelda og flóð. Við lesum einnig stöðugt í fjölmiðlum um áhrif loftslagsbreytinga á líðan fólks. Yngra fólk hefur miklar áhyggjur og líður illa vegna þessa ástands og krefst aðgerða, eldra fólki líður einnig illa, þó að fleiri í þeim hópi hafi tilhneigingu til að gera minna úr tilvist loftlagsbreytinga samkvæmt könnunum. Loftlagskvíði er orðinn að faraldri sem ekki sér fyrir endann á.
Eftir að hafa kennt námskeið um loftlagsbreytingar og sjálfbærni frá árinu 2007 hvort tveggja fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík og nemendur North Eastern University í Boston og séð og fundið kvíða og áhyggjur unga fólksins vaxa með hverju árinu sem líður þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að tími sé kominn til að snúa umræðunni við og færa meira af ábyrgðinni þangað sem hún á heima.
Færum ábyrgðina til stórfyrirtækja og stjórnvalda
Samkvæmt nýrri könnun telja 93% Evrópubúa að loftslagsbreytingar séu mjög alvarleg ógn við mannkynið og 75% telja að stjórnvöld geri ekki nóg til að bregðast við vandanum. Hvert og eitt okkar skiptir máli í baráttunni gegn loftlagsbreytingum en við sem einstaklingar getum afskaplega lítil áhrif haft á hvað er framleitt og með hvaða hætti. Framleiðsluhagkerfi heimsins er drifið áfram af stórfyrirtækjum eins og BP sem eru með sína eigin dagskrá sem snýst um eigendur og hluthafa og virðast alveg blessunarlaus við loftlagskvíða. Þessu er hægt að breyta og hef ég verið að sjá og vinna með æ fleiri fyrirtækjum sem vilja leggja meiri áherslu á raunverulega sjálfbærni í sinni stefnumótun og aðgerðaráætlunum. Það er einnig kominn tími á stórar heildrænar aðgerðir stjórnvalda sem verða að stíga fæti fastar niður og hvetja fyrirtæki til að draga úr útstreymi og breyta framleiðsluferlum með hagrænum hvötum, sköttum og bönnum eftir því sem við á. Það er einnig á ábyrgð stjórnvalda að byggja hraðar upp innviði sem gera okkur kleift að lifa sjálfbæru lífi.
Við hin þessi með loftlagskvíðann munum halda áfram að leggja okkar af mörkum, fækka flugferðum, draga úr bílaeign, hjóla og ganga meira, borða minna kjöt en meira af grænmeti og kaupa minna drasl, en mikið væri nú gott að fyrirtækin og stjórnvöld myndu leggja meira af mörkum með raunverulegum aðgerðum því það er ekki í boði að draga lappirnar lengur.
- Ísland, Grænland og Færeyjar geti verið fremstby Kolefnislosun
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftsagsráðherra telur ástæðu til að styrkja samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja í loftslagsmálum og hreinum orkuskiptum.
Þetta kom fram í máli hans á málþingi Vestnorræna ráðsins um loftslagsmál í gær.
Guðlaugur Þór sagði ríkin búa um margt við svipaðar aðstæður og að þau geti lært margt af hverju öðru, á sviði vísinda, loftslagsaðgerða og viðskipta.
Í tilkynningu frá ráðuneyti Guðlaugs kemur fram að hann hafi bent á að löndin þrjú búi um margt við svipaða ógn hvað loftslagsbreytingar varðar, en að efnahagur og samfélag allra ríkjanna byggi á gæðum hafsins og því þurfi að bregðast við súrnun hafsins, breytingu á hafís og straumum og öðru sem hafi áhrif á lífríki sjávar.
„Þá búi löndin yfir gnægð af endurnýjanlegri orku, s.s. á sviði vinds, vatnsorku og sjávarstrauma, auk jarðhita á Íslandi. Þetta gefi vestnorrænu ríkjunum færi á að vera í fararbroddi varðandi hrein orkuskipti. Hann nefndi að Ísland hafi nýlega ákveðið að banna olíuleit í íslenskri lögsögu, en áður hafi Grænlendingar tekið slíkt skref.“
Ráðstefna Vestnorræna ráðsins um loftslagsmál og græn umskipti var haldin í netheimum í gær, en auk Guðlaugs Þórs tóku þátt í henni Kalistat Lund og Magnus Rasmussen, ráðherrar umhverfismála í Grænlandi og Færeyjum, auk vísindamanna, sérfræðinga og annarra fulltrúa frá löndunum þremur.
- Ísland verði fyrst þjóða kolefnishlutlausby Kolefnislosun
Stofnandi norsks fyrirtækis, sem hefur þróað lofthreinsistöðvar úti á sjó, vill aðstoða Ísland að verða fyrsta kolefnishlutlausa þjóð heims.
Sigurður Gunnarsson skrifaði á vb.is 09/10/2020
sigurdur@vb.isSvokölluð lofthreinsiver hafa verið sífellt meira áberandi í umræðunni um loftslagsmál, sér í lagi eftir að stöðin Orca opnaði við Hellisheiði í byrjun september. Norska fyrirtækið Ocean GeoLoop hefur þróað eigin tækni til að fanga koldíoxíð, CO2, úr andrúmsloftinu og hyggst setja upp lofthreinsistöðvar úti á sjó. Aðstandendur fyrirtækisins halda því fram að aðferðin geti fangað margfalt meira koldíoxíð, hreinsað afgas frá stóriðju og krefjist umtalsvert minni raforkunotkun en sambærileg tækni. Þar að auki hefur verið þróuð virðiskeðja þar sem koldíoxíðið verður meðal annars nýtt til að framleiða lífmassa, þar á meðal þörungaræktun, og varminn á stöðvunum nýttur til að framleiða raforku.
Aðferðin felur í sér að færa kolefnismettaðan sjó niður á dýpi með tilheyrandi uppstreymi kolefnisrýrs sjávar sem dregur í sig CO2 úr andrúmsloftinu. Í einföldu máli flýtir tæknin fyrir náttúrulegri hringrás hafsins, sem tekur til sín koldíoxíð.
Íslenska ríkisstjórnin skrifaði nýlega undir viljayfirlýsingu um samstarf við Ocean GeoLoop og North Tech Energy. Skipaður hefur verið vinnuhópur með fulltrúum fjögurra ráðuneyta með það að markmiði að flýta leyfisferlum og kanna möguleg áhrif á vistkerfi sjávar og sannreyna afkastagetu stöðvanna.
Vill að Ísland og Noregur leiði þróunina
Maðurinn á bak við Ocean GeoLoop og tæknina er Norðmaðurinn Hans Gude Gudesen sem fór af stað með verkefnið árið 2006. Hann lýsir eindregnum vilja sínum að hefja þessa vegferð með Íslandi.
„Ég vil sjá Noreg og Ísland vinna saman á þessu sviði og koma með lausnir fyrir alheiminn. Ísland hefur veigamikla rödd í alþjóðasamstarfinu og Noregur ekki síður. Þegar þjóðirnar okkar vinna saman, þá mun restin af heiminum fylgjast náið með,“ segir Hans Gude. Hann er menntaður fornleifafræðingur og segir að menning þjóðanna sé sambærileg, viðhorfin svipuð og fólkið óhrætt við áskoranir. Honum finnst mikið til skyldleika Íslendinga og Norðmanna koma og hefur stór áform í huga fyrir þjóðirnar báðar.
„Mitt markmið er einfaldlega að gera Ísland að fyrsta kolefnishlutlausa landið í heimi. Ég vil aðstoða við að fjarlægja þau fjögur milljón tonn af CO2 sem losað er á Íslandi árlega.“
Hans Gude segir að tæknin sé tilbúin og þurfi ekki að þróa áfram. Aðferðafræðin sé sannreynd í gegnum rannsóknar- og tilraunastarf hjá norskum háskólum á síðustu fimmtán árum. Áætlað er að hver lofthreinsistöð Ocean Geoloop úti á sjó geti fangað upp undir eina milljón tonn af CO2 á ári en til samanburðar er afkastageta Orca stöðvarinnar á Hellisheiði um 4 þúsund tonn á ári.
Hans Gude telur að hægt verði að setja upp lofthreinsistöðvarnar hér á landi á næsta ári, en það er þó háð afhendingu og sendingum þeirra íhluta sem tæknin veltur á. Fyrirtækið setti upp fyrstu stöðina í Þrándheimsfirði í júní síðastliðnum en þar verður tæknin þaulprófuð á tólf mánaða tímabili.
Auk hinna augljósu áhrifa á umhverfið, þá sé einnig mikill fjárhagslegur ávinningur fyrir Ísland sem greiðir nú há gjöld vegna losunarheimilda. Hans Gude ítrekar að Ocean Geoloop sækist ekki eftir styrkjum frá ríkisstjórninni heldur muni tekjur af kolefnisheimildum og virðiskeðja fyrirtækisins standa undir kostnaðinum. Jafnvel geti stöðvarnar orðið sjálfbærar að fullu í framtíðinni með því að nýta varma við stöðvarnar til raforkuframleiðslu.
Geta hreinsað afgas frá stóriðjunni
Annað forskot sem Ocean Geoloop hefur umfram aðra tækni er getan til að hreinsa afgas frá stóriðjunni og fanga CO2, að sögn Geirs Hagalínssonar, forstjóra North Tech Energy sem er þjónustuaðili tækninnar á Íslandi. Geir nefnir sem dæmi að tæknin geti komið í veg fyrir alla losun og mengun við álverið og járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga innan fárra ára.
Ekki er þó búið að semja um samstarf við stóriðjuna á Íslandi að svo stöddu að sögn Geirs. Hann bindur þó vonir við ná samkomulagi um að koma tækninni fyrir í verksmiðjum hér á landi nú þegar viljayfirlýsingin við stjórnvöld liggur fyrir. Sem stendur er verið að smíða frumgerð að Ocean GeoLoop kolefnisupptökur búnaði sem verið er að setja upp í pappírsverksmiðju Norske Skog í Þrándheimi. Norske Skog hefur einnig gengið til liðs við hluthafahóp Ocean GeoLoop.
„Þessi tækni er mikið framfararspor. Við komum ekki til með að óska eftir neinum fjármunum frá hinu opinbera. Saman munum við afla tekna sem allir hasmunaaðilar eiga síðan að njóta góðs af. Á öllum fundum sem ég sit á, hvort sem það er hjá stjórnvöldum eða hjá einkafyrirtækjum, er það haft að orði að þetta sé klárlega eitt stærsta framfaraskref í tækniþróun tengt föngun á Co2 sem sést hefur hingað til. Það er vissulega þannig,“ segir Geir.
- Losun frá jarðvarmastöðvum Landsvirkjunar fer minnkandi ár frá áriby Kolefnislosun
Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum gerir ráð fyrir að losun vegna jarðvarmavirkjana á Íslandi minnki að minnsta kosti um 47% árið 2030, miðað við árið 2005. Við hjá Landsvirkjun tökum þetta markmið alvarlega, en við viljum gera enn betur og höfum einsett okkur að árið 2025 verði losun frá jarðvarmavinnslu okkar á Norðausturlandi 63% minni en hún var árið 2005.
Stærsti hluti losunar Landsvirkjunar er vegna jarðvarmavinnslu fyrirtækisins á Norðausturlandi. Á svæðinu eru þrjár aflstöðvar; Kröflustöð, Þeistareykjastöð og Gufustöðin í Bjarnarflagi. Stöðvarnar nýta ólík jarðhitakerfi sem hafa ólíka náttúrulega eiginleika, m.a. í styrk koldíoxíðs. Þannig er losun mest frá Kröflustöð, jafnvel þó að Þeistareykjastöð vinni meiri orku.
Okkur hefur gengið vel að draga úr losun til þessa og nú þegar hefur orðið 39% samdráttur í losun, á sama tíma og raforkuvinnsla okkar með jarðvarma hefur rúmlega tvöfaldast með tilkomu Þeistareykjavirkjunar.
Lækkunin skýrist af hluta af því að losun frá Kröflustöð fer minnkandi ár frá ári, en einnig með öflugri vinnslustýringu. Þekking okkar á þeim jarðhitakerfum sem við nýtum og samþætting jarðvarma og vatnsorkunýtingar gerir okkur kleift að stýra að hluta til losun frá starfsemi okkar. Til dæmis höfum við dregið úr vinnslu jarðvarma í góðum vatnsárum, en með því drögum við úr losun þar sem raforkuvinnsla með vatnsafli hjá okkur losar minna en jarðvarminn.
Unnið er að því að draga enn frekar úr losun frá jarðvamavinnslunni með því að fanga koldíoxíð úr útblæstri virkjananna og annað hvort dæla því aftur ofan í jörðina eða nýta það til verðmætasköpunar. Við höldum því ótrauð áfram að þróa nýjar leiðir til þess að draga úr losun frá jarðvarmavirkjunum, sem og allir okkar starfsemi.
Þessar aðgerðir eru hluti af því markmiði okkar að verða kolefnishlutlaus árið 2025 og telja beint inn í markmið stjórnvalda um að draga úr losun frá jarðvarmavirkjunum.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun.
- 30 vörubílar á dag og loftslagsmálinby Kolefnislosun
Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is) á mbl.is birt 16/08/2021
Morgunblaðið greindi frá því um helgina að fyrirhugað er að ráðast í mikið vikurnám við Hafursey á Mýrdalssandi. Þegar vinnslan verður komið í fullan gang verða flutt út um milljón tonn af vikri á ári. Umfangið er gífurlegt og af allt annarri stærðargráður en útflutningur á Hekluvikri sem lengi hefur verið stundaður og við þekkjum vel. 30 stórir vörubílar verða í stöðugum flutningum til Þorlákshafnar og er áætlað að það fari á annað hundrað eða fleiri skipsfarmar af vikri til Evrópu og jafnvel Norður-Ameríku.
Það er þýska fyrirtækið STEAG Power Minerals (SPM), sem keypti jörðina Hjörleifshöfða, sem hefur kynnt tillögu að matsáætlun vegna umhverfismats á vikurnámi á þessum slóðum. Nú hafa allmargir rekið upp stór augu, hvernig getur það samrýmst stöðugt strangari kvöðum um kolefnislosun að ráðast í verkefni sem þetta sem meðal annars fellst í því að 30 stórir trukkar keyra daglega milli Mýrdalssands og Þorlákshafnar en þarna á milli munu vera um 180 kílómetrar. Frá Heklu til Þorlákshafnar eru um 115 kílómetrar. Jú, nú kemur loftslagsbókhaldið til sögunnar. Með þessu öllu er verið að laga bókhaldið í öðrum löndum þó að Co2 útblástur hér á landi aukist um sem nemur 30 trukkum á dag og líklega rúmlega það. Hagsýnir menn hafa varpað því fram í samfélagsspjallinu að það gæti verið skynsamlegt að koma vikrinum um borð fyrr og minnka aksturinn enda sjá einhverjir fyrir sér að 30 trukkar á dag í gegnum Selfoss geti spillt hinni nýju miðbæjarstemmningu.
135 ný störf
Fyrstu árin er áætlað að vinna um 200 þúsund tonn af vikri á ári. Vinnslan mun aukast smám saman og þegar full afköst verða komin, ein milljón tonn á ári, verður búið að koma upp miklum búnaði við námuna og við útflutningshöfn í Þorlákshöfn. Gert er ráð fyrir að 135 ný störf verði til, þegar fullum afköstum er náð. Þar af verða 20 störf í námunni á Mýrdalssandi, 105 tengd akstri og flutningum og 10 við geymslu og útflutning í Þorlákshöfn. Ótalin eru afleidd störf við þjónustu, til dæmis við vélar og tæki.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að fyrirhugað efnistökusvæði er 15,5 ferkílómetrar að flatarmáli. Þar er dágott magn af vikri og mun svæðið þýska fyrirtækinu í rúm 100 ár, miðað við fyrirhugaða notkun.
Kemur í stað sementsgjalls
Þýska fyrirtækið sérhæfir sig í að útvega sementsframleiðendum umhverfisvænt hráefni til að nota í stað hins mengandi sementsgjalls, svokallaðs klinkers, sem íblöndunarefni við framleiðsluna. Við framleiðslu á sementsklinker losnar mikið koldíoxíð út í andrúmsloftið. Í raun er framleiðsla á sementi ábyrg fyrir um 8% af öllum koltvísýringi sem losnar af mannavöldum út í andrúmsloftið svo það munar um minna.
Til að draga úr þessu hefur notkun íauka, einkum flugösku úr kolaverum, aukist mikið og orðið sífellt mikilvægari þáttur í sementsframleiðslu, segir í frétt Morgunblaðsins og stuðst við upplýsingar sem koma fram í matsásætlun vegna fyrirhugaðs vikurnáms á Mýrdalssandi. Með nýjum áherslum í orkuframleiðslu í Evrópu eru blikur á lofti með öflun þessa íauka. Þannig hafa stjórnvöld í Þýskalandi einsett sér að loka öllum kolaverum þar í landi fyrir árið 2038. Með því lokast fyrir helstu uppsprettu flugösku til notkunar við sementsframleiðslu. Ef ekki finnast önnur efni mun það leiða til aukinnar notkunar á sementsgjalli á nýjan leik með tilheyrandi aukningu á losun koldíoxíðs. En þá kemur vikurinn á Mýrdalssandi til sögunnar
Besti vikur í Evrópu!
Rannsóknir STEAG Power Minerals sýna að Kötluvikur er hentugt staðgönguefni. Vikurinn er gjall sem myndaðist í eldgosi í Kötlu og barst fram á Mýrdalssand í jökulhlaupi. Að því er fram kemur í gögnum fyrirtækisins sýna rannsóknir að vikurinn hefur nánast sömu tæknilegu eiginleika og flugaska og uppfyllir allar kröfur staðla sem íaukaefni í sement. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að þar sem sementsiðnaðurinn er nokkuð íhaldssamur er það talinn kostur að mulinn vikur af Mýrdalssandi er svipaður flugösku að lit og verður steypan fallega grá.
Kötluvikurinn er talinn einsleitur og með stöðuga samsetningu og gæði. Ekki þarf að vinna vikurinn neitt, hann er svo hreinn að hægt er að senda hann óunninn til viðskiptavina. Þar er hann mulinn og blandað í sement. Vitaskuld hefur fjöldi annarra náma verið kannaður í þessu skyni, bæði hér á landi og víðar í Evrópu. Enginn önnur vikurnáma gefur sambærilegan gæðavikur og náman við Hafursey á Mýrdalssandi. Til dæmis er Hekluvikur allt öðruvísi og uppfyllir ekki gæðakröfur Evrópustaðals.
Dregur úr losun
En víkur þá að ávinningnum í heimi loftslagsbókhaldsins. Útreikningar á losun gróðurhúsalofttegunda vegna vikurnámsins eru birtir í tillögu að matsáætlun. Þar segir að fyrir hvert tonn af vikri sem notað er í sement losni 842 kílóum minna af koltvísýringi en ef sementsklinker væri notaður. Árleg vinnsla upp á milljón tonn, eins og fyrirtækið áætlar að verði þegar vinnslan verður komin í fullan gang, mun því minnka árlega losun koltvísýrings um 842 milljónir kílóa eða 842 þúsund tonnum. Til hliðsjónar má benda á að um 10-11 þúsund tonn fara á dag af CO2 frá gosinu í Fagradal. Það er því ekki nema 80 daga að vinna upp ávinninginn af trukkakeyrslunni en auðvitað eru eldgos fyrir utan bókhaldið.
Verðþróun á losunarheimildum í Evrópu hefur gert það að verkum að vikursementið verður samkeppnishæft við annað hefðbundnara og óumhverfisvænt sement, að því er segir í tillögu að matsáætlun.
- Meira þarf til en papparör til þess að bjarga jörðinniby Kolefnislosun
Skiptar skoðanir eru á papparörunum sem tekið hafa við af plaströrum á drykkjarfernum sem og á pappa- og tréskeiðum sem komið hafa í stað plastskeiða. Svo virðist sem fólk skiptist í tvo hópa í umræðunni, annars vegar er hópur sem saknar plastsins og hins vegar er hópur sem fagnar breytingunni vegna jákvæðra umhverfislegra áhrifa. Að mati sölustjóra MS liggur vandamálið í því að plast skili sér ekki að öllu leyti í endurvinnslu. Umhverfisstjórnunarfræðingur segir breytinguna ekki raska núverandi neyslumynstri að neinu ráði.
Grétar Þór Sigurðsson skrifar í Kjarnann.is 8. ágúst 2021
Ekki eru allir á eitt sáttir með ný papparör sem komið hafa í stað plaströra á drykkjarfernum og arftakar plastskeiða í skyrdósum og í ísbúðum hafa einnig vakið mismikla lukku upp á síðkastið. Ástæðan fyrir þessari nýbreytni er ný Evróputilskipun sem innleidd var með breytingum á lögum sem tóku gildi í byrjun júlí þar sem kveðið er á um bann við ýmiss konar einnota plastvörum.
Með lagabreytingunni er lagt bann við því að tilteknar plastvörur séu settar á markað, vörur á borð við einnota hnífapör úr plasti, diska úr plasti, hræripinna úr plasti fyrir drykkjarvörur og sogrör úr plasti, nema þau falli undir lög um lækningatæki. Bann við að slíkar vörur séu settar á markað þýðir að framleiðsla á slíkum vörum og innflutningur á þeim er bannaður. Verslunum verður því enn heimilt að selja sínar birgðir af þessum vörum en ljóst er að þegar þær birgðir eru uppurnar þá verða þessar vörur ekki í boði úti í búð.
Það eru ekki bara þessar einnota vörur sem munu hverfa úr hillum búðanna. Þau áhöld sem fylgja matvælum sem við kaupum úti í búð taka breytingum. Líkt og áður segir hverfa plaströrin af drykkjarfernum og papparör koma í staðinn. Þá víkja plastskeiðar fyrir pappa- og tréskeiðum í skyrdósum. Það sama er uppi á teningnum í ísbúðum og á stöðum sem selja safa og svokölluð boozt þar sem pappinn kemur í stað plastsins, svo dæmi séu tekin.
Breytingarnar fara misvel í fólk
Í Facebook-hópnum Matartips! sem telur hátt í 50 þúsund meðlimi hefur fólk skipst á skoðunum um rörin frá því að þau komu fram á sjónarsviðið og svo virðist sem fólk skiptist í tvo hópa í viðbrögðum sínum við breytingunum. Annars vegar þau sem sakna plastsins og segja nýju áhöldin alls ekki jafn góð og þau gömlu. Fólk kvartar yfir því að nýju rörin henti ekki vökva jafn vel og plaströrin, þau mýkist mikið upp og að bragð úr rörunum skili sér í drykkina, þá henti þau alls ekki til þess að drekka þykkari drykki á borð við mjólkurhristing.
Svo eru aðrir sem fagna breytingunum vegna þess að þær muni hafa jákvæð umhverfisleg áhrif, þær dragi úr óþarfa plastnotkun og fólk í þessum Facebook-hópi bendir gjarnan á að ekki sé nauðsynlegt að nota rör til þess að drekka drykki á borð við Kókómjólk og Svala.
Áhuginn á þessum breytingum virðist vera mikill, fjöldi athugasemda við færslur í hópnum sem fjalla um þessar breytingar skipta iðulega tugum, ef ekki hundruðum. Inn á milli má svo finna húmorista sem birta myndir af ónotuðum plastskeiðum og plaströrum með orðunum: „Selst hæstbjóðanda!“
Meðal þeirra sem lagt hafa orð í belg í umræðunni um papparörin er fjölmiðlamaðurinn Atli Fannar Bjarkason en hann tók þau fyrir á Twitter-síðu sinni í vikunni. Í vinsælli færslu sagði Atli Fannar breytinguna gera lítið í stóra samhenginu og að verið væri að færa ábyrgðina á hamfarahlýnun til fólksins í stað stórfyrirtækja.
Viðbúið að misvel yrði tekið í breytingarnar
Meðal þess sem er undanskilið banni eru matarílát sem ætluð eru undir matvæli til neyslu þar sem matarins er alla jafna neytt beint úr ílátinu og hann tilbúinn til neyslu strax. Þetta á til að mynda við um jógúrt- og skyrdósir og því verða þær enn um sinn úr plasti, þrátt fyrir að plastskeiðinni verði skipt út fyrir pappaskeið.
Vinna stendur yfir hjá Mjólkursamsölunni við það að skipta bæði skeiðum og rörum úr plasti út fyrir pappaáhöld, að sögn Aðalsteins H. Magnússonar sölustjóra. „Við erum að klára gamlar framleiðslur og þetta er í rauninni að gerast þessa dagana og vikurnar. Þannig að það fara í alla nýja framleiðslu hjá okkur papparör á Kókómjólk, Hleðslu og Næringu og það allt saman. Síðan erum við með þessar pappaskeiðar í skyrinu, þannig að þetta er bara í vinnslu.“
Aðalsteinn segir að fyrir fram hafi verið vitað að breytingarnar ættu eftir falla fólki misjafnlega vel. Þau pappaáhöld sem nú fylgja vörum MS voru einfaldlega bestu lausnirnar sem í boði voru. „Við erum líka alveg viss um það að með tímanum þá munu lausnir án plasts verða betri. Menn munu örugglega halda áfram að þróa papparör þannig að þau verði enn þá betri en þau eru í dag og það verður örugglega þróun í einhvers konar pappaskeiðum sem eru betri,“ segir hann.
Spurður að því hvort fyrirtækið sé að leita einhverra annarra leiða til þess að minnka plastnotkun segir Aðalsteinn að þau hvetji fólk til þess að koma plastinu í endurvinnslu. „Það er í rauninni alltaf aðalatriðið ef að allir gætu hirt um plastið og sett það í rétta hringrás þá væri ekkert vandamál. En við erum auðvitað alltaf að skoða með okkar birgjum alls konar lausnir og okkur er enginn akkur í því að vera með plastumbúðir en hingað til hafa þær verið mjög góður miðill til þess að geyma mat og tryggja endingartíma og svoleiðis.“
Aðalsteinn gat hvorki fullyrt um það hversu mikil minnkun yrði á notkun plasts hjá fyrirtækinu eftir breytingarnar, né hversu mikið plast fyrirtækið notaði á hverju ári. Hann ítrekaði að lokum mikilvægi þess að endurvinna efnið. „Plast sem slíkt er ekki endilega slæmt, heldur að fólk hendi því út í náttúruna. Umgengni fólks um plastið er ekki til fyrirmyndar oft og tíðum.“
Breyting sem er ekki til þess fallin að breyta neyslumynstrinu
Kjarninn ræddi einnig við Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing um þessa nýju breytingu sem mun minnka framboð á einnota vörum úr plasti. Hann telur breytinguna ekki skipta mikla máli í hinu stóra samhengi. „Þetta er sýnilegt, þetta er eitthvað sem fólk skilur og raskar ekkert rosalega mikið neyslumynstri,“ segir Stefán. „Fólk sættir sig kannski við þetta og þetta lítur fyrir að vera rosa merkilegt en ég held að þetta skili okkur ekkert langt fram á veginn.“
Spurður að því hvort pappi í umbúðanotkun sé mun betri fyrir umhverfið en plast segir Stefán það skipta verulegu máli hvernig það sé reiknað. Hann bendir á að ef horft sé á málið út frá loftslagsmálum þá geti umbúðir og áhöld úr pappa þurft að veri efnismeiri en sambærilegir hlutir úr plasti og þar af leiðandi þyngri og þá tapist eitthvað af ávinningnum í framleiðslu og flutningi.
„Það er pínu vinsælt að ráðast á plastið því við erum að missa þetta út um allt og þetta liggur alls staðar og rekur á fjörur og endar í sjónum og er einhvers staðar á flækingi í þúsund ár því þetta brotnar ekki niður. Ef við gætum lokað fyrir þann straum að tapa þessu út í náttúruna, þá horfir málið öðruvísi við,“ segir Stefán en kostur pappans er sá að hann brotnar niður í náttúrunni ólíkt plastinu.
„Ef þetta væri meðhöndlað eins og siðuðu fólki bæri að gera og þetta færi þá í brennslu til orkuvinnslu þá er það bara millistig fyrir olíuna sem annars væri brennt beint,“ segir Stefán en plast er búið til úr olíuafurðum. „Svo þetta er þyngdar sinnar virði í olíu þegar það er brennt.“
Þessi breyting er ekki til þess fallin að breyta neyslumynstri fólks, nema að litlu leyti, sem er að mati Stefáns stóra vandamálið þegar umhverfismál eru annars vegar. „Með því að skipta út einhverju einu efni fyrir annað sem að er erfitt að fullyrða, án frekari skoðunar og án þess að vita forsendurnar, að það sé betra en það gamla þá ertu bara að auðvelda fólki að halda áfram í sams konar neyslumynstri sem er bara einnota neyslumenning.“
- Telja hringrás í Atlantshafi óstöðuga vegna hnattrænnar hlýnunarby Kolefnislosun
Kjartan Kjartansson skrifar 6. ágúst 2021
Vísbendingar eru um að lykilhringrás sjávar í Atlantshafinu hafi hægt á sér og ekki er loku fyrir það skotið að hún gæti stöðvast alveg haldi hnattræn hlýnun áfram að raska jafnvægi hafsins. Það hefði gríðarlega áhrif á veðurfar víða um heim, þar á meðal á Íslandi.
Vísindamenn hafa lengi velt vöngum yfir því hvort að svonefnd veltihringrás Atlantshafsins (AMOC), sem Golfstraumurinn svonefndi er hluti af, gæti veikst vegna hlýnunar sjávar og ferskvatns frá bráðandi Grænlandsjökli. Fornloftslagsfræðingar hafa fundið vísbendingar um að hringrásin geti stöðvast skyndilega.
AMOC er nokkurs konar færiband sem færir hlýjan og saltan sjó frá miðbaugi norður á bóginn og kaldan sjó suður frá norðurskautinu. Hringrásin dreifir varma um jörðina og hefur mikil áhrif á veðurfar víða um heim. Slökknaði á þessu færibandi gæti meðal annars kólnað til muna í Evrópu og austanverðri Norður-Ameríku.
Ekki eru beinar athuganir sem sýna að hægt hafi á veltihringrásinni en ný greining á gögnum um hitastig og seltu sjávar sem ná tæp hundrað ár aftur í tímann gefur vísbendingar um að allir þeir þættir sem halda hringrásinni gangandi séu nú óstöðugri en áður, að sögn Washington Post.
Hægari hringrás er viðkvæmari fyrir röskunum á jafnvægi hennar, hefur bandaríska blaðið eftir Niklas Boers, vísindamanni við Potsdam-loftslagsrannsóknastofnunina í Þýskalandi. Hringrásin gengur fyrir hita- og seltumismun á milli norðurs og suðurs en loftslagsbreytingar raska nú jafnvæginu.
Boers segir nú ekki útilokað að AMOC gæti stöðvast með víðtækum afleiðingum fyrir heimsbyggðina. Rannsókn hans og félaga hans birtist í vísindaritinu Nature Climate Change.
Kuldaskeið í þúsund ár
Talið er að AMOC hafi stöðvast undir lok síðustu ísaldar þegar gríðarlegt magn ferskvatns úr risavöxnu jökullóni í Norður-Ameríku flæddi út í Atlantshafið. Þá hafi snarkólnað víða á norðurhveli jarðar, sérstaklega í Evrópu. Veðurvitni benda til þess að kuldaskeiðið hafi staðið yfir í þúsund ár.
Líkurnar á að AMOC stöðvist á næstu 300 árunum voru ekki taldar miklar nema menn héldu áfram algerlega óheftri losun á gróðurhúsalofttegundum í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um höfin og freðhvolf jarðar sem kom út árið 2019. Þar var þó gert ráð fyrir að hringrásin veiktist á þessari öld.
Boers, höfundur nýju greiningarinnar, segir að rannsókn sín bendi til þess að vendipunkturinn fyrir hringrásina gæti verið mun nær en talið hefur verið. Það gæti þó þýtt allt frá fáum áratugum í nokkrar aldir, að því er segir í frétt The Guardian.
„Öll teiknin á lofti eru í samræmi við að sjúklingurinn eigi við raunveruleg banvæn vandamál að stríða,“ segir hann.
David Thornalley, vísindamaður við University College í London sem hefur birt rannsókn um að AMOC hafi ekki verið veikari í 1.600 ár, segir það áhyggjuefni að hringrásin virðist verða óstöðugri en menn viti enn ekki hvort að hún muni stöðvast eða hvenær það gæti þá gerst.
Jafnvel þó að veltihringrásin stöðvaðist alveg og verulega kólnaði á norðurhveli jarðar stöðvaði það ekki hnattræna hlýnun til lengri tíma litið héldi stórfelld losun á gróðurhúsalofttegundum áfram.
Rannsókn sem birtist í Nature árið 2015 þar sem loftslagslíkön voru notuð til að áætla áhrif stöðvunar hringrásarinnar á loftslag benti til þess að staðbundið gæti hún vegið upp á móti hnattrænni hlýnun í meira en öld. Hnattrænt gæti kólnunin hins vegar varað í aðeins nokkra áratugi áður en aftur byrjaði að hlýna vegna vaxandi gróðurhúsaáhrifa.
- Aftakaatburðir verði algengariby Kolefnislosun
Skýrari og ítarlegri gögn gefa til kynna að loftslagsbreytingar geri það að verkum að aftakaatburðir á borð við ákafari rigningu, öfgar í hitabylgjum og þurrka verði algengari og afdrifaríkari en áður. Þetta er ein af meginniðurstöðum skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kom út í dag.
Skýrslan er viðamikil og fjallar um breytingar sem hafa átt sér stað í lofthjúpi, hafi, freðhvolfi, á landi og í lífríki. Hún er fyrsti hluti 6. ritraðar nefndarinnar um loftslagsbreytingar og er unnin af vinnuhópi sem fjallar um náttúruvísindi og vísindalega þekkingu á breytingum á veðurfari og loftslagskerfinu. Í skýrslunni er kynnt besta mat hingað til á líklegri hlýnun og hækkun sjávarborðs í framtíðinni.
Í skýrslunni kemur fram að nú sé enn greinilegra en áður að athafnir mannkynsins séu meginorsök margvíslegra breytinga á loftslagi. Jöklar hafa hopað mikið, stóru ísbreiðurnar á Suðurskautslandinu og Grænlandi eru að missa massa sinn og jöklar og ísbreiður utan heimskautasvæða hafa rýrnað mikið á síðustu 30 árum.
Aðalritarinn segir ekkert rými fyrir afsakanir
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna er ómyrkur í máli í yfirlýsingu sinni um skýrsluna:
„Hringingar viðvörunarbjalla eru ærandi og sönnunargögnin eru óhrekjanleg: gróðurhúsalofttegundir frá brennslu jarðefnaeldsneytis og eyðing skóga eru að kæfa plánetuna okkar og setja líf milljarða manna í hættu.“
„Þessari skýrslu ber að vera rothögg fyrir kola og jarðefnaeldsneyti áður en þau ganga af plánetunni dauðri. Ríkjum ber að hætta allri nýrri olíuleit og -vinnslu. Frá og með 2030 þarf að ferfalda sólar- og vindorkuframleiðslu og þrefalda fjárfestingar í endurnýjanlegri orku. Þetta er nauðsynlegt til þess að ná því marki að nettó losun gróðurhúsalofftegunda verði engin um miðja öldina.“
„Ef við leggjumst öll á eitt núna, getum við afstýrt loftslagshamförum. En eins og skýrslan sem kom út í dag sýnir fram á megum við engan tíma missa og það er ekkert rými fyrir afsakanir. Ég treysti því að oddvitar ríkja og aðrir sem hlut eiga að máli tryggi að COP25, loftslagsráðstefnan verði árangursrík.“
Meiri öfgar síðan 1950
Skýrslan sýnir að síðan 1950 hafa verið meiri öfgar í ákafri úrkomu og þurrkum og almennt meiri breytileiki í úrkomu víða á jörðinni. Athafnir manna hafa haft áhrif á þessar breytingar og hafa orðið breytingar á úrkomumynstri víða um heim, þar með talið monsún-rigningum. Auk þess hafa hitabeltislægðir breyst og ná nú fleiri að verða öflugir fellibylir og ákafleg úrkoma fylgir þeim.
Við áframhaldandi hlýnun má gera ráð fyrir áframhaldandi breytingum á hnattrænni hringrás vatns, að almennt verði meiri uppgufun raka og meiri úrkoma þegar litið er til jarðarinnar allrar þótt staðbundið geti þurrkar aukist.
Samkvæmt þróaðri reikningum en áður hafa verið tiltækir er áætlað að meira en helmingslíkur séu á að hlýnun nái 1,5°C snemma á fjórða áratug þessarar aldar, sem er fyrr en gert var ráð fyrir í sérstakri skýrslu nefndarinnar sem kom út árið 2018.
Verði ekki gripið til mikils samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda mun að meðaltali hlýna meira en um 1,5°C og jafnvel 2°C á öldinni.
Rýrnun sexfaldast
Rýrnun íss á suðurhveli hækkar sjávarborð við Ísland meira en rýrnun ísbreiðunnar á Grænlandi. Þá hefur rýrnun Grænlandsjökuls sexfaldast á síðustu þremur áratugum og ísbreiðan á Suðurskautslandinu tapað miklum massa.
Hafísútbreiðsla á norðurhveli hefur dregist mjög mikið saman. Þótt margir ferlar komi hér við sögu er ljós að athafnir mannkyns hafi haft veruleg áhrif um allt freðhvolfið.
Á heimsvísu hækkaði sjávarstaða hraðar á síðustu öld en í að minnsta kosti 3.000 ár, að meðaltali um 20 sentimetra á milli 1901 og 2018. Hraði hækkunarinnar jókst eftir því sem leið á síðustu öld og voru athafnir manna mjög líklega leiðandi þáttur í þessum breytingum síðan 1971.
Því er spáð að verði ekkert aðhafst verði mjög líklegt að fyrir miðbik 21. aldarinnar verði Norðuríshafið að minnsta kosti íslaust að mestu að sumarlagi. Hlýnun mun einnig auka bráðnun sífrera og minnka árstíðabundna snjóþekju.
Horfurnar dökkar
Í skýrslunni segir að nánast öruggt sé að sjávarstaða muni halda áfram að hækka. Í þeirri sviðsmynd þar sem mest er lofað eru efri mörk hækkunar um einn metri í lok aldarinnar en einn til tveir metrar um miðbik næstu aldar. Ekki er hægt að útiloka að hækkunin verði mun meiri, allt að tveir metrar í lok þessarar aldar og fimm metrar um miðbik þeirrar næstu, því mikil óvissa ríkir um stöðugleika ísbreiðna á Grænlandi og Suðurskautslandinu.
Ónóg þekking er á hröðum og hugsanlega óafturkræfum breytingum og því er ekki hægt að útiloka breytingar innan loftslagskerfisins sem eru afdrifaríkar en líklegar, til dæmis í hafhringrás og massatapi íshvela. Líkur á hruni á ísbreiðum Suðurskautslandsins vaxa með tíma.
Þá er talið mjög líklegt að dragi úr styrk lóðréttrar hringrásar Atlantshafsins á 21. öld, en ekki er víst hversu mikið. Miðlungsvissa er fyrir því að hringrásin hrynji ekki, en slíkt myndi hafa mikil svæðisbundin áhrif á veðrakerfi og úrkomu, allt frá kólnun á sumum svæðum og meiri hlýnun á öðrum og jafnvel til breytinga í monsúnkerfum og monsúnúrkomu.
Áhrif á Ísland
Breytingar á einstökum þáttum í loftslagskerfisins geta haft afleiðingar á Íslandi samkvæmt skýrslunni. Meðal þeirra eru hlýnun sífrera í fjöllum og hop jökla sem fylgir aukin skriðuhætta, og einnig getur aukin ákefð úrkomu eða rigning í stað snjókomu að vetrarlagi aukið skriðuhættu.
Breytingar á hafstraumum í Norður-Atlantshafi geta orðið afdrifaríkar hér á landi en á meðal ólíklegra en afdrifaríkra breytinga er óstöðugleiki ísbreiðanna á Suðurskautslandinu og Grænlandi þar sem jöklarnir kelfa í sjó fram.
António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að skýrslan sé „rauð aðvörun fyrir mannkynið“.
„Hringingar viðvörunarbjallanna eru ærandi og sönnunargögnin eru óhrekjanleg: gróðurhúsalofttegundir frá brennslu jarðefnaeldsneytis og eyðing skóga eru að kæfa plánetuna okkar og setja líf milljarða manna í hættu,“ segir aðalframkvæmdastjórinn í yfirlýsingu.
- Rafmagnið í mikilli sóknby Kolefnislosun
Hlutfall nýskráðra bifreiða sem nýta rafmagn eða blandaða orkugjafa er nú um 65,5% samanborið við 3% árið 2014.
Andrea Sigurðardóttir skrifar á vb.isHlutfall nýskráðra bifreiða sem nýta rafmagn eða blandaða orkugjafa er nú um 65,5%. Þróunin hefur verið hröð, en árið 2014 var hlutfall þeirra um 3%.
Um 7.783 fólksbifreiðar voru nýskráðar á fyrstu sjö mánuðum ársins, en nýskráningar hafa aukist um 37% í samanburði við sama tímabil á síðasta ári, þegar 5.676 nýjar fólksbifreiðar voru skráðar. Ríflega 46% bifreiðanna nýta blandaða orkugjafa, það er annaðhvort bensín eða dísil ásamt nýorku, en yfir 19% af nýju bifreiðunum ganga eingöngu fyrir rafmagni.
Samkvæmt tilkynningu frá Bílgreinasambandinu hafa um 3.200 bifreiðar selst til einstaklinga það sem af er ári, eða um 8% fleiri en á sama tímabili á síðasta ári, og um 1.100 til fyrirtækja annarra en bílaleiga, sem er aukning um tæp 7% milli ára. Þá hafa tæplega 3.400 fólksbifreiðar verið seldar til bílaleiga og er það ríflega tvöföldun frá sama tímabili á síðasta ári.
Í júlímánuði voru 1.742 nýjar fólksbifreiðar skráðar, eða um 17% fleiri en á sama tíma á síðasta ári. Af þeim hafa um 1.100 verið seldar til bílaleiga og er það rétt rúm helmingsaukning í samanburði við júlí á síðasta ári.
Tesla vinsælasta rafbifreiðin
Árið 2014 gengu yfir 96% nýskráðra bifreiða eingöngu fyrir bensíni eða dísil en hlutfallið hefur farið lækkandi undanfarin ár. Árið 2019 var hlutfallið komið niður í 72%, þá í 42% á síðasta ári og er undir 35% það sem af er ári. Bifreiðar sem nýta nýorku að hluta til eða að öllu leyti eru því um 65,5% af öllum nýskráðum fólksbílum.
Toyota og Kia hafa verið langvinsælustu tegundirnar líkt og í fyrra, þar sem nýskráðar Toyota-bifreiðar eru 1.328 en Kia 1.255. Þriðja vinsælasta tegundin er Hyundai með 557 nýskráðar bifreiðar. Tesla var þriðja vinsælasta tegundin í fyrra en nú sú fimmta með 325 nýskráðar bifreiðar á árinu. Tesla Model 3 er önnur vinsælasta undirtegundin það sem af er ári, á eftir Toyota Rav4. Toyota Land Cruiser er sú þriðja og Toyota Yaris fjórða.
Sé eingöngu litið til rafbíla hefur Tesla Model 3 verið langvinsælust með 318 nýskráðar bifreiðar, þá Kia Niro með 157 og Nissan Leaf með 120. Toyota Rav4 hefur verið vinsælasta tegundin með blandaða orkugjafa, með 345 nýskráðar bifreiðar, þá Toyota Yaris með 224 og Hyundai Tucson með 190.
Markaðshlutdeild Tesla í nýskráðum bifreiðum hefur aukist hratt, en í upphafi síðasta árs voru aðeins um 150 Teslur í umferð hér á landi en þær eru nú orðnar tæplega 1.400, þar af voru 907 Teslur nýskráðar á síðasta ári. Model 3 er langvinsælust á meðal Teslna, en yfir 1.200 slíkar eru nú í umferð hér á landi.
- Vannýtt tækifæri í umhverfismálumby Kolefnislosun
Hraðallinn Hringiða miðar að því að á Íslandi rísi stór og stöndug fyrirtæki sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.
Andrea Sigurðardóttir skrifar á vb.isHringiða er viðskiptahraðall í umsjón Icelandic Startups sem ætlað er að draga fram, efla og styðja nýja tækni og aðferðir sem leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum þannig að þátttakendur verði í stakk búnir til að kynna verkefni sín fyrir fjárfestum og sækja styrki í Evrópusjóði. Hraðallinn var haldinn í fyrsta sinn fyrr á þessu ári og stefnt er að því að endurtaka leikinn.
„Á þessum 10 vikum eiga þátttakendur að öðlast grundvallarþekkingu í öllu því sem tengist rekstri sprotafyrirtækja, svo sem gerð viðskiptaáætlana, markaðssetningu, fjármálum og ýmsu fleira. Í gegnum hraðalinn hitta þátttakendur auk þess fjölda sérfræðinga úr atvinnulífinu sem veita þeim þá endurgjöf sem þarf til þess að þeir geti stigið á svið á fjárfestadeginum undir lok hraðalsins og sannfært fjárfesta um að taka þátt,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, og bætir við: „Sumir líkja hraðlinum við nokkurs konar mini-MBA nám og er sá samanburður ekki alveg út í bláinn.“
Að sögn Kristínar kviknaði hugmyndin út frá því að Ísland væri ekki að uppfylla skuldbindingar sínar í umhverfismálum. Þau telji lausnina felast í sjálfbæru hagkerfi. „Ég er mikil áhugakona um hringrásarhagkerfið og mér þykir það mjög fangandi konsept, hvernig við getum fært okkur úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi og getum þannig mætt væntingum okkar og óskum um lífsstíl en á sama tíma skapað störf, aukið hagvöxt og dregið verulega úr umhverfisáhrifum okkar.“
Öflugur hópur fólks kom að hraðlinum, sem skapaði vettvang þar sem nýsköpun, fjölbreytt þekking og reynsla mættust. „Þetta voru ekki bara bakhjarlar sem koma inn með undirskrift og fjármagn, heldur stigu inn með sitt besta fólk, mikla þekkingu og settu metnað í verkefnið, sem er ómetanlegt,“ segir hún og bætir við að stýrihópur Hringiðu hafi verið skipaður 20 sérfræðingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur, Faxaflóahöfnum, Terra, Sorpu, Hvalfjarðarsveit og Þróunarfélögunum á Breið og Grundartanga. „Þannig að þetta varð í raun stór hugveita fyrirtækja og stofnana sem starfa innan hringrásarhagkerfisins.“
Ísland sé frumkvöðlaland
Hún segir Ísland að mörgu leyti mikið frumkvöðlaland, þar sem ákveðinn hluti þjóðarinnar sé tilbúinn að taka stökkið. „Þar sem fókusinn er á hverjum tíma, þar sem stjórnvöld setja fókusinn og þangað sem peningarnir leita, þar munum við sjá fyrirtæki spretta upp, og okkur þótti tímabært að setja enn sterkari fókus á þau tækifæri sem eru vannýtt í umhverfismálum.“
Í hennar huga er hvert einasta óleysta umhverfismál vannýtt tækifæri og bendir hún á að hér á Íslandi séum við vel í stakk búin til að leysa þau fyrir tilstilli orkuauðlinda okkar. „Til dæmis liggja vannýtt tækifæri í efnisendurvinnslu, rafeldsneytisframleiðslu og geymslu á orku, og þarna liggja tækifæri í mikilli nýsköpun. Hringiðu var ætlað að draga fram þær hugmyndir og þau fyrirtæki sem vinna á grunni hringrásarhagkerfisins og efla þau, hraða vexti þeirra og hreinlega draga þau fram í dagsljósið,“ segir hún.
Það sé sorglegt að hugsa til þess að flestar tæknilausnir sem þurfi til að draga verulega úr losun séu til staðar en það vanti upp á að þær séu nýttar. „Þær eru oftast dýrari í innkaupum, en við megum ekki gleyma að horfa á kostnað heildarvirðiskeðjunnar. Ef við einblínum alltaf á hráan neytendakostnað á endavörunni sjáum við ekki heildarmyndina. Þegar allt er tekið saman verður kostnaðurinn meiri af því að nýta ekki umhverfisvænar lausnir. Það vantar meiri stuðning í umhverfinu, bæði fjármagn og viðskiptavini. Þarna geta stjórnvöld komið sterkari inn og ekki bara með fjármagn, heldur með því að skerpa á regluverki og skylda okkur inn í umhverfisvænni lifnaðarhætti.“
- 15 milljarðar í metanól-framleiðslu á Reykjanesiby Kolefnislosun
Hydrogen Ventures Limited (H2V), alþjóðlegt orkufyrirtæki, hyggur á umfangsmikla framleiðslu vetnis hér á landi sem verður nýtt við framleiðslu metanóls.
Metanólframleiðslan verður að fullu umhverfisvæn en fyrirhugað er að verksmiðja H2V rísi í Auðlindagarðinum á Reykjanesi, í nágrenni við annað af tveimur raforkuverum HS Orku.
Verkefnið skiptist í tvo áfanga. Í fyrri áfanganum er áætlað að afkastageta verksmiðju H2V nemi 30 megavöttum úr jarðhita við framleiðslu á grænu metanóli. Í öðrum áfanga verði framleiðslugeta fyrirtækisins aukin verulega, að því er kemur fram í tilkynningu.
Kostnaður við fyrsta áfanga er áætlaður ríflega 100 milljónir evra, sem samsvarar um 15 milljörðum íslenskra króna. Allt vetnið sem verður til verður vottað „grænt vetni“ sem þýðir að 100% orkunnar sem notuð er til að framleiða það kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
Forsvarsmenn H2V segja að metanólið geti orðið hagkvæmur og umhverfisvænn orkugjafi fyrir sjávarútveginn auk innlenda bílaflotans, ekki síst sendi- og vörubifreiða. Verkefnið færi
Ísland nær markmiði sínu um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Meira en 80% af orkunotkun Íslands byggir nú þegar á endurnýjanlegum orkugjöfum, fyrst og fremst jarðhita og vatnsafli. Markviss uppbygging innviða fyrir framleiðslu græns vetnis og metanóls getur, að mati forsvarsmanna H2V, gert Ísland að leiðandi þjóð á sviði endurnýjanlegrar og hreinnar orku með að skipta út jarðefnaeldsneyti í samgöngum fyrir endurnýjanlega orkugjafa.
„Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr kolefnislosun sinni og við teljum að nýting vetnis sé þar lykilatriði. Með reynslu sína á sviði endurnýjanlegrar orku getur Ísland verið í fararbroddi og sýnt heiminum hvernig hægt er að ná fullu kolefnishlutleysi. Við erum spennt að vera hluti af þessari nýju byltingu,” segir Horacio Carvalho, framkvæmdastjóri H2V, í tilkynningunni.
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, bætir við: „Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi við H2V. Þeir búa yfir mikilli þekkingu og reynslu sem nýtist vel við uppbyggingu verkefnis af þessari stærðargráðu. Þá er ánægjulegt að þeir horfi til þeirra möguleika sem að Ísland og ekki síst Auðlindagarður HS Orku býður upp á en auk raforku mun HS Orka geta séð þeim fyrir vatni og koldíoxíði sem er nauðsynlegt við framleiðslu metanóls,” segir hann.
- Loftslagsvegvísir sjávarútvegsinsby Kolefnislosun
Eftir: Sigurgeir B Kristgeirsson birtist í Bændablaðinu 15/07/2021
Eggert Benedikt Guðmundsson er forstöðumaður Grænvangs, sem ásamt sjö atvinnugreinafélögum kynnti nýlega Loftslagsvegvísi atvinnulífsins. Vegvísinum er ætlað að styðja við markmið íslenskra stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.
Atvinnugreinar landsins, þar með taldar sjávarútvegur og bændasamtökin, tóku höndum saman og unnu loftslagsvegvísinn í þeim tilgangi að veita yfirsýn yfir núverandi stöðu og setja loftslagsaðgerðir í stærra samhengi. Markmiðið er að auðvelda atvinnulífi og stjórnvöldum að finna í sameiningu aðgerðir, hvata, ívilnanir og fleira sem styðja við loftslagsaðgerðir íslensks atvinnulífs. Við heyrðum í Eggerti og báðum hann að segja okkur frá Loftslagsvegvísinum og þá einkum þeim hluta er snýr að sjávarútvegi.
Sjávarútvegurinn hefur náð einstökum árangri
,,Í ljósi mikillar áherslu og vilja til að efla grænar lausnir og minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda þá blasti við að atvinnulífið og stjórnvöld yrðu að taka höndum saman og Grænvangur var einmitt stofnaður í því skyni,“ sagði Eggert.
,,Út frá sjónarhóli sjávarútvegsins er þetta sérstaklega áhugavert. Sjávarútvegurinn hefur dregið úr losun fiskiskipa gróðurhúsalofttegunda um 36% frá árinu 2005 sem er einstakt.Þetta er jákvæð afleiðing af tveimur þáttum. Annars hefur fiskveiðistjórnunarkerfið, sem var tekið upp um svipað leyti, gert sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að stýra veiðum á hagkvæman hátt með fækkun skipa og lækkun kostnaðar, m.a. með minni olíunotkun. Samhliða voru fiskistofnar byggðir upp sem gerir veiðina auðveldari. Með þessu verður olíunotkun á hvert veitt kíló mun lægri. Hins vegar hafa nýsköpun og framfarir í hönnun skipa og veiðarfæra skipt miklu máli. Þar má nefna lögun skipsskrokka þannig að viðnám þeirra í sjónum er minna, betri skrúfubúnað auk betri nýtni vélanna sjálfra. Þróun veiðarfæra hefur minnkað viðnám og gert þau léttari. Það sem er sérstaklega skemmtilegt er að allt þetta er gert á forsendum sjávarútvegsins sjálfs og er drifið áfram af hagrænum hvötum. Þetta eru góðu fréttirnar sem er afskaplega gaman að segja frá.“Orkuskipti og fjárfestingarhvatar
Það liggur fyrir að orkuskipti í sjávarútvegi verða flókin. Það er engin augljós leið í augnablikinu en menn eru að huga að lausnum segir Eggert ,,Hvort það verður vetni, lífdísill, ammoníak, metanól eða hreinlega rafmagn vitum við ekki. Það á allt eftir að skýrast og þróast, en væntanlega verður um blöndu af mismunandi lausnum að ræða.“
Í vegvísinum er fjallað um fjárfestingarhvata sem hvetja fyrirtæki til fjárfestinga í orkuskiptum. Um þá segir Eggert:
,,Margar af þeim fjárfestingum, sem þarf að ráðast í, geta verið dýrar og auk þess áhættusamar þannig að út frá arðsemissjónarmiðum fyrirtækja verða þær ekki réttlætanlegar. Hér þarf því að horfa til hvata og samstarfs milli sjávarútvegs og stjórnvalda. Sjávarútvegurinn vill að sjálfsögðu leggja sitt af mörkum til að hægt verði að uppfylla þau markmið sem stjórnvöld hafa sett landinu. Eitt af því sem bent er á í vegvísinum er að gjöld, eins og kolefnisgjald sem lagt er á sjávarútveginn, verði nýtt til stuðnings við orkuskiptin og þróun grænna lausna. Það getur verið ljómandi fjárfesting fyrir samfélagið. Oft getur þetta verið eins og hænan og eggið. Það þarf að koma lausnum í víðtæka notkun til þess að gera þær viðráðanlegar, en kostnaður og áhætta í byrjun geta verið óyfirstíganleg. Það getur verið erfitt að réttlæta fjárfestingarnar til skamms tíma en til langs tíma fela þær í sér mikinn ábata fyrir samfélagið.“Lög, reglugerðir og skattlagning mega ekki þvælast fyrir
Stjórnvöld setja lög og reglur, m.a. um stærð skipa, veiðisvæði og fleira auk þess að leggja á skatta. Í vegvísinum er bent á að lög og regluverk stjórnvalda megi ekki hindra orkusparnað og framþróun. Í núgildandi lögum er hins vegar að finna ákvæði sem koma í veg fyrir að sparneytnustu leiðir séu farnar í hönnun skipa. Hvernig sér Eggert fyrir sér að leysa úr þeim málum?
,,Við vitum að stjórnvöldum er alvara í því að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það er afar mikilvægt að það fari fram samtal sjávarúvegsins og stjórnvalda um þessi mál. Starfsfólk í sjávarútvegi og tengdum greinum hefur mikla þekkingu á greininni sjálfri og tækninni, sem nýta þarf við setningu laga og reglugerða. Það er því algerlega augljóst í mínum huga að samstarf og samtal stjórnvalda og sjávarútvegsins er lykilatriði í því að losa um og fella niður lög og reglugerðir sem hindra vegferð okkar í átt að minni kolefnisútblæstri.“
En það eru ekki bara að lög og reglugerðir þvælast fyrir. Skattar hafa nefnilega áhrif líka. Það var þannig að þegar Vinnslustöðin hf. lét byggja Breka VE þá var aðalforsenda nýsmíðinnar olíusparnaður upp á 150 milljónir króna á ári vegna stærri, hæggengari og hagkvæmari skrúfu. Af þessum 150 milljóna sparnaði fer 33% í hærra veiðigjald á greinina, eða 50 milljónir króna. Skattar hafa einfaldlega áhrif á hegðun fyrirtækjanna. Hverju svarar Eggert þessu?
,,Þetta eru hlutir sem þarf að taka á. Vegvísirinn er byrjun á löngu ferðalagi og til að hefja umræðu. Um slík sértæk dæmi var ekki fjallað í vinnunni. En það má segja stjórnvöldum til hróss að þau eru einlæg í ásetningi sínum um græna framtíð. Þau hafa lýst sig reiðubúin til að ryðja úr vegi sköttum, lögum og reglugerðum sem leiða til neikvæðra hvata og hindrunum af þeim toga sem þú ert að lýsa þarna. Hér reynir á samstarf og samtal eins og ég hef áður nefnt. Það mega ekki vera til ,,latar“ í kerfinu sem letja fólk og fyrirtæki til nauðsynlegra framfara í baráttunni við hlýnun jarðar og skynsamlega umhverfisvernd.“Óvissa um stjórn fiskveiða
En er óvissa og sífelld umræða um stjórn fiskveiða ekki einn af þessum lötum í kerfinu? Hún skapar óvissu og letur fyrirtæki í sjávarútvegi til fjárfestinga, þar á meðal þeirra sem leiða til minnkunnar á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Hvernig sér Eggert þetta fyrir sér:
,,Aðalatriðið er að rekstrarumhverfið sé þannig úr garði gert að eðlilegir hvatar stýri þróuninni í rétta átt. Rekstrarleg hagkvæmni og umhverfisvitund geta og eiga að fara saman. Samstarf sjávarútvegsins og stjórnvalda er því lykilinn að árangri hér sem víðar,“ sagði Eggert að lokum.
Höfundur er búfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf.
í Vestmannaeyjum. - Íslenska kvótakerfið er umhverfisvæntby Kolefnislosun
Eftir Sigurgeir B. Kristgeirsson birtist í Bændablaðinu 16/07/2021
Dr. Stefán B Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, hélt í vor afar fróðlegt erindi, í beinni útsendingu á netinu, um þróun íslensks sjávarútvegs síðustu áratugi.
Þar fjallaði hann m.a. um umhverfisvæna hlið íslenska kvótakerfisins. Stefán varði nýlega doktorsritgerð sína um íslenskan sjávarútveg. Hann varð góðfúslega við beiðni okkar um stutt viðtal.
Lélegt fiskirí sem hefur batnað mikið
,,Þegar ég var á sjó um 1990 var fiskirí lélegt. Það þótti gott að fá 10–12 tonn á sólarhring og þá var fiskurinn miklu smærri en hann er í dag. Ég sé þetta í gögnum sem ég hef rannsakað,“ segir Stefán.
,,Nú eru 30 metra togbátar að fylla sig á 2–3 dögum, þetta 40–80 tonn. Þetta hefði ekki verið hægt að gera 1990. Þetta er gríðarleg breyting í veiðum á þorski á þessum tíma, en ég hef mest rannsakað þorskveiðar af botnfisktegundum. Þetta hefur líka mikil og jákvæð áhrif á vinnslurnar. Þær afkasta meiru fyrir vikið og verða hagkvæmari,“ bætir Stefán við.
,,Það hefur margt gengið vel í uppbyggingu þorskstofnsins en þó er eitt sem vantar,“ segir Stefán, ,,og það er að það hafa engir stórir árgangar komið fram eins og áður gerðist þrátt fyrir stærri hrygningarstofn. Ástæða þess er ekki þekkt.“
Kvótakerfið er umhverfisvænt
Alkunna er að olíunotkun íslensks sjávarútvegs hefur dregist saman um 45% frá 1990–2017. Þetta hefur gerst á sama tíma og losun í fiskveiðum heimsins hefur aukist um 28% frá 1990–2011. Það sem skýrir þetta segir Stefán að ,,með kvótakerfinu var sókn takmörkuð og fyrirtækin neyddust til að fækka skipum og sameina aflaheimildir, með öðrum orðum að hagræða. Þannig lækkuðu þau kostnað og urðu arðbær. Stóri ávinningurinn var síðan að veiðistofn mikilvægustu tegundarinnar, þorskurinn, stækkaði mikið og auðveldara var að sækja þorskinn. Með þessu mikla fiskiríi og fækkun skipa minnkaði olíunotkun Íslendinga við veiðarnar. Þetta er algjör bylting því afli á sóknareiningu hefur aukist mikið. Við förum niður en heimurinn upp. Til þess að minnka losun í heiminum þarf að gera tvennt í fiskveiðum, að taka upp kvótakerfi og byggja upp fiskistofna. Allir umhverfisverndarsinnar ættu því að styðja íslenska kvótakerfið!“ sagði Stefán að lokum.
- Icelandair skoðar vetnis- og rafknúið flugby Kolefnislosun
Icelandair kannar nú möguleikann á að taka upp vetnis- og rafknúnar vélar í innanlandsflugi félagsins.
Birtist á vb.is 14/07/2021Icelandair Group hefur skrifað undir tvær viljayfirlýsingar um að kanna möguleika á orkuskiptum í innanlandsflugi félagsins. Annars vegar við Universal Hydrogen sem tilkynnt var um í morgun, en það er fyrirtæki sem hefur hannað orkuskiptabúnað sem gæti breytt Dash-8 vélum Icelandair í vetnisknúnar vélar. Þá hefur félagið einnig skrifað undir viljayfirlýsingu við Heart Aerospace sem vinnur að þróun farþegaflugvéla sem ganga fyrir rafmagni.
„Icelandair hefur metnað til að minnka kolefnisspor af flugstarfsemi og til þess að ná alþjóðlegum viðmiðum um kolefnislosun er ljóst að þörf er á umhverfisvænum lausnum í flugi sem hægt er að taka í notkun sem fyrst. Stuttar flugleiðir og greiður aðgangur að raforku af endurnýjanlegum uppruna setur Ísland í lykilstöðu hvað varðar orkuskipti í innanlandsflugi. Verkefnin falla einnig vel að stefnuramma stjórnvalda um framtíð ferðaþjónustu sem miðar að því að gera Ísland leiðandi í sjálfbærni,“ segir í fréttatilkynningu flugfélagsins.
Icelandair hefur unnið með Heart Aerospace um nokkurt skeið og mun á næstunni setja af stað greiningarvinnu í samvinnu við Universal Hydrogen. Á sama tíma mun félagið hefja samtal við helstu hagaðila, svo sem rafmagns- og vetnisframleiðendur, flutningafyrirtæki og flugvallarekendur.
„Icelandair setur markið hátt þegar kemur að umhverfismálum og við teljum okkur vera í góðri stöðu til að verða á meðal fyrstu flugfélaga heims til að gera innanlandsflug kolefnislaust. Heart Aoerospace og Universal Hydrogen hafa kynnt spennandi lausnir sem henta vel fyrir innanlandsflug og hægt væri að taka í notkun innan fárra ára,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri flugrekstrar Icelandair Group.
„Eftir því sem tækninni fleygir fram vonumst við til þess að hægt verði að nýta þá reynslu sem skapast af orkuskiptum í innanlandsflugi til hraðari innleiðingar nýrra orkugjafa í millilandaflugi. Það er ánægjulegt að vera á meðal fyrstu þátttakenda í þessum verkefnum sem gætu gjörbreytt kolefnislosun í innanlandsflugi á fáum árum.“
vb.is sótt 14/07/2021
- ÚR fær fyrsta sjálfbærnimerki Landsbankansby Kolefnislosun
Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur hlotið sjálfbærnimerki Landsbankans, fyrst fyrirtækja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.
Félagið fær sjálfbærnimerkið vegna MSC-vottaðra fiskveiða.
Í sjálfbærnimerki Landsbankans felst að þegar fyrirtæki sækir um lán hjá bankanum getur það óskað eftir sjálfbærnimerkinu. Til þess að hljóta það þarf verkefnið sem verið er að fjármagna að falla undir skilgreind skilyrði og verkefnaflokk í sjálfbærri fjármálaumgjörð Landsbankans.
Dæmi um sjálfbær verkefni eru til að mynda orkuskipti i samgöngum, endurnýjanleg raforkuframleiðsla, sjálfbærnivottaðar fiskveiðar, vistvænar byggingar og verkefni sem stuðla að félagslegri uppbyggingu er kemur fram í tilkynningu.
- Lífdísill úr sláturúrgangiby Kolefnislosun
SORPA og ÝMIR technologies semja um tilfærslu og gangsetningu á vinnslulínu ÝMIS til meðhöndlunar úrgangs frá dýraslátrun.
SORPA bs. og ÝMIR technologies ehf. hafa gert með sér samkomulag um tilfærslu og gangsetningu á vinnslulínu ÝMIS til meðhöndlunar úrgangs frá dýraslátrun við GAJU í Álfsnesi. Búnaðinum er ætlað að leysa af hólmi urðun þessa vandmeðfarna úrgangsflokks og nýta þess í stað þau verðmæti sem í honum felast. Urðun lífræns úrgangs hefur í för með sér margvísleg neikvæð umhverfisáhrif, til dæmis mikla losun metangass, sem er 25 sinnum skaðlegri gróðurhúsaloftegund en koltvísýringur.
SORPA hefur um árabil unnið skipulega að því að draga úr urðun. Byggðasamlagið steig stórt skref í þeim efnum á síðasta ári, þegar GAJA var tekin í notkun. GAJA er eitt stærsta einstaka loftslagsverkefni sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu frá því að heitt vatn var lagt í hús. Með vinnslu hennar á lífrænum úrgangi og því að hætta að urða úrgang er dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um tugi þúsunda tonna á hverju ári.
„Við dýraslátrun fellur til mikið magn úrgangsfitu sem ekki nýtist til manneldis eða sem fóður, en nýta má til framleiðslu á sjálfbæru samgöngueldsneyti. Ætla má að árlegt aðstreymi dýraleifa til ráðstöfunar hjá SORPU haldist svipað og verið hefur á næstu árum, en úr því hráefni, að viðbættri t.d. notaðri steikingarolíu sem Terra safnar, má framleiða á ársgrundvelli allt að milljón lítra af lífdísileldsneyti til íblöndunar á venjulega dísilbíla. Til þess að setja í samhengi þann sparnað í losun gróðurhúsalofttegunda sem þarna næst þá jafnast hann á við að skipta út 1.500 bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Öll fjárfestingin í vinnslu sláturúrgangsfitunnar, auk framleiðslu og dreifingu lífdísils úr henni nemur aðeins brotabroti af þeim kostnaði sem hlytist af að skipta þeim bílum út fyrir til dæmis rafbíla. Sú fjárfesting kemur öll til baka og gott betur, þó miðað sé við hóflegar forsendur um söluverð sjálfbæra eldsneytisins," segir Sigurður Ingólfsson framkvæmdastjóri ÝMIR technologies um samstarfið.
Afgerandi skref í að hætta að urða
Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU, fagnar samstarfinu og leggur áherslu á gott samstarf við nýsköpunarfyrirtæki eins og Ýmir Technologies. „SORPA er að ganga í gegnum mikla umbreytingu. Eigendur SORPU hafa ákveðið að hætta urðun og horfa á úrgangsstrauma sem verðmæti sem á að koma aftur inn í hringrásarhagkerfið eftir því sem kostur er. Mikilvægur liður í að ná þessu markmiði SORPU eru rannsóknar- og þróunarsamvinna við þekkingarfyrirtæki eins og Ýmir technologies sem koma með tækninýjungar sem nýtast við minnka magn úrgangs sem fer í urðun. Samstarfið við Ýmir technologies hefur verið árangursríkt og mikilvægt fyrir SORPU. Nýsköpun og rannsóknir í umhverfis- og sjálfbærnimálum í samvinnu við íslenskt atvinnulíf er hluti af markmiðum SORPU og SORPA sækist sífellt eftir auknu samstarfi við aðila á markaði."
Framkvæmdastjórar fyrirtækjanna, Jón Viggó Gunnarsson og Sigurður Ingólfsson, undirrituðu samkomulagið í húsakynnum Eyris sprota, eins af aðaleigendum ÝMIS, að viðstöddum stjórnarformanni SORPU, Líf Magneudóttur, fulltrúum Eyris sprota, SORPU og stjórnarmönnum ÝMIS.
- Leggja til umhverfisháskóla á Suðurnesjumby Kolefnislosun
Alþjóðlegur umhverfisháskóli á Suðurnesjunum, í samvinnu við Keili, er meðal aðgerða sem lagðar eru til af Suðurnesjavettvangi, samstarfi sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum, Isavia, Kadeco og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Niðurstöðu vinnu samráðsvettvangsins voru kynntar á fundi í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í dag undir yfirskriftinni Sjálfbær framtíð Suðurnesja.
Tilgangurinn er innleiðing Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og hefur á vettvanginum verið unnið að hugmyndum sem efla atvinnulíf og styrkja innviði svæðisins í átt að sjálfbærri framtíð.
Þá er lagt til að Suðurnesin haldi sameiginlegt kolefnisbókhald, bæði opinberar stofnanir og fyrirtæki og að sömuleiðis verði sameiginleg loftslagsstefna mótuð fyrir Suðurnesin í heild.
Einnig er lagt til að ásættanleg lausn verði fundin fyrir Suðurnesjalínu II. Þetta er lagt til í samhengi við undirmarkmið 7.1 um nútímalega og áreiðanlega orkuþjónustu í boði alls staðar í heiminum á viðráðanlegu verði.
Lögð voru til tólf verkefni undir fjórum megin markmiðum.
Önnur verkefni sem lögð eru til eru:
- Aukning á fjölbreytni í atvinnulífi á Suðurnesjum.
- Úrdráttur á notkun plasts, aukin endurvinnsla þess og mótun aðgerða gegn plastmengun í hafi.
- Nýsköpunarvettvangur um sjálfbærni.
- Frárennslismál verði skoðuð í heild sinni á Suðurnesjum.
- Umhverfisvænar samgöngur, göngu- og hjólastígar.
- Samræming viðmiða um lágmarksframfærslu milli kerfa, stofnanna og bæjarfélaga.
- Heilstæð menntastefna á sviði sjálfbærni.
- Bætt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.
mbl.is sótt 16/06/2021
- Orkuskipti hefjast í Grímseyby Kolefnislosun
ANNA ÞORBJÖRG JÓNASDÓTTIR skrifar á ruv.is 15/06/2021
Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að tvær vindmyllur verði reistar í Grímsey í sumar. Þetta er tilraunaverkefni sem er fyrsta skref í átt til þess að Grímseyingar noti eingöngu rafmagn frá grænum orkugjöfum. Í Grímsey kemur öll orka frá díselrafstöðum. Lengi hefur verið rætt um hvernig hægt sé að finna umhverfisvænni leiðir sem einnig væru fjárhagslega hagstæðari, en olíubrennslan er mjög kostnaðarsöm.
Litlar harðgerðar vindmyllur
Í byrjun verða settar upp tvær vindmyllur á eyjunni en markmiðið er að þær verði alls sex. Vindmyllurnar tvær eru þegar komnar til Akureyrar en þegar búið er að ganga frá öllum tilskyldum leyfum verður farið í að koma vindmyllunum upp og gætu þær verið komnar í gagnið síðsumars. Þær eru einfaldar í uppsetningu en þarf þó að steypa undirstöður fyrir þær. Að öðru leyti er rask á umhverfinu lítið. Framkvæmdin er afturkræf og ef verkefnið tekst ekki eins vel og vonast er til er hægt að fjarlægja vindmyllurnar að loknu tilraunaárinu án mikils rasks á svæðinu. Vindmyllurnar eru litlar og er hæsti punktur þeirra frá jörðu tæplega 12 metrar. Nokkurn tíma tók að finna vindmyllur sem hentuðu umhverfinu. Sá búnaður og tækni sem varð fyrir valinu hefur nú þegar verið reyndur víða um heim við aðstæður sem eru sambærilegar og í Grímsey, t.d. í Alaska og Skotlandi.
Tilraunaverkefni
Vindmyllurnar tvær munu framleiða lítið brot af þeirri orku sem Grímseyingar þurfa, eða um 10%. Markmiðið er að hverfa algjörlega frá því að brenna olíu og nota í staðinn fjölbreyttar leiðir. Guðmundur Haukur Sigurðarson er framkvæmdastjóri Vistorku sem kemur að verkefninu fyrir hönd Fallorku. Fallorka er dótturfyrirtæki Norðurorku og sér um uppsetningu og rekstur vindmyllanna. Guðmundur bendir á að uppsetning þessara tveggja vindmylla sé fyrst og fremst tilraunaverkefni. „Við ætlum að gefa okkur eitt ár í það að meta bæði áhrif á hvernig veðrið í Grímsey fer með þær og staðsetningin, hvort hún sé gáfuleg og áhrif á fuglalíf og þess háttar.“
Stefnt er að því að þarna verði alla vega sex vindmyllur í framtíðinni. Fyrsta skrefið í allsherjar orkuskiptum Guðmundur segir að þrátt fyrir að vindmyllurnar tvær muni sjá Grímseyingum fyrir mjög litlum hluta orkunnar sem þeir þurfa, sé skynsamlegt að fara svo rólega af stað. „Þetta er flókið, þetta er áhættusamt, þetta er kostnaðarsamt þannig að menn vilja stíga varlega til jarðar. Ef þetta gengur ekki upp í fyrstu tilraun er gott að vera ekki með of mikið undir,“ segir hann.
Framtíðarsýnin er að nota fleiri umhverfisvæna orkugjafa til að framleiða rafmagn í Grímsey. Þegar hefur verið reynt að brenna lífdísilolíu og hefur hún reynst vel. „Sömuleiðis er stefnan á að setja upp sólarsellur sem eru jafnstórar í afli og vindmyllurnar. Þannig að þetta verður eins konar orkuframleiðslukeppni á milli þeirra,“ segir Guðmundur. Þessu tengt er einnig stefnt að því að setja upp eina litla Icewind-vindmyllu sem er framleidd í Reykjavík auk þess að setja upp rafhlöðupakka úr tjónuðum rafbílum.
Í sátt við umhverfið
Í umræðunni um vindmyllur eru raddir um neikvæð áhrif þeirra á fuglalíf háværar. Guðmundur segir að náttúruvernd hafi verið tekin inn í reikninginn þegar staðsetning vindmyllanna var ákveðin. Staður hafi verið valinn þar sem ekki eru margir fuglar. Þegar eru á svæðinu mjög stór fjarskiptamöstur. Vindmyllurnar eru einnig það litlar og standa þétt sem ætti að koma í veg fyrir að fuglar lendi í þeim. Verkefnið er tilraunaverkefni og tilgangurinn einmitt að skoða hver áhrif þeirra eru á lífríkið sem og hvernig þær reynast sem orkugjafar.
ruv.is sótt 15/06/2021
- Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum í Samráðsgáttby Kolefnislosun
Birtist fyrst á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins10. júní 2021
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sett hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda.
Vinna við hvítbókina hefur staðið yfir frá því í desember 2020. Það var í lok síðasta árs sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp til að vinna tillögu að stefnu stjórnvalda varðandi aðlögunarmálin. Afrakstur þeirrar vinnu, hvítbók er nú sett í samráðsgátt til að tryggja víðtækt samráð um stefnu stjórnvalda í þessum efnum. Horft verður til hvítbókarinnar og athugasemda sem við hana berast við gerð stefnu og mótun heildstæðrar áætlunar íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Aðlögun að loftslagsbreytingum er viðamikið verkefni sem mikilvægt er að taka á með heildstæðum hætti, en felur í sér að setja fram aðgerðir til að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn áhrifum slíkra breytinga.
Vinna við hvítbók felur í sér umfjöllun, markmið, árangur og gildi sem byggt er á. Að loknu samráði er farið yfir helstu sjónarmið sem þar koma fram áður en hin endanlega stefna er útfærð. Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum fjallar um aðlögun að loftslagsbreytingum, áhrifum breytinganna og þeirri náttúruvá sem þeim kann að fylgja. Meðal annarra viðfangsefna stefnunnar eru m.a. tillögur að grunngildum og grunnmarkmiðum stjórnvalda til að vinna út frá vegna loftslagsbreytinga, auk sértækra markmiða fyrir tiltekna málaflokka, s.s. varðandi mismunandi þætti samfélagsins þar sem aðlögunar kann að vera þörf. Má þar nefna skipulag, vatn og fráveitur, orkumál, samgöngur, atvinnuvegi, þjóðarhag, lýðheilsu og félagslega innviði. Einnig er farið yfir núverandi stofnanagerð og næstu skref.
„Aðlögun að loftslagsbreytingum er mjög víðfeðmt viðfangsefni sem samfélagið í heild þarf að tileinka sér á næstu árum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Loftslagsbreytingar munu hafa í för með sér ýmiss konar samfélagsleg áhrif. En ef rétt er á málum haldið geta aðgerðir til aðlögunar skapað samfélaginu sterkari innviði og loftslagsþolnara samfélag en ella og á sama tíma skapað ný störf. Þess vegna er aðlögunarvinnan sem nú er hafin svo mikilvæg.“
Umsögnum skal skilað í samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess til 23. júní næstkomandi.
Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum — Drög að stefnu
stjornarradid.is sótt 14/06/2021
- Efna til samtals um loftslagsmál og sjávarútvegby Kolefnislosun
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is skrifar á mbl.is þann 01/06/2021
Það er ekki einungis ríkið sem mun þurfa að leggja sitt af mörkum í þágu loftslagsmarkmiðanna og er því mikilvægt að eiga samtal við atvinnugreinarnar, útskýrir Guðný Káradóttir, verkefnastjóri hjá Loftslagsráði, í samtali við 200 mílur. Ráðið stendur fyrir streymisfundi um sjávarútvegi og loftslagsvæna uppbyggingu í greininni á morgun.
„Á þessum viðburði verður varpað ljósi á losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi, ástæður fyrir samdrætti á síðustu árum skoðaðar og rætt hvernig auka megi metnaðinn, áskoranir og tækifæri, sem og að tengja loftslagsmetnað við framtíðarsýn greinarinnar,“ segir í lýsingu fundarins.
Þáttakendur í samtalinu verða Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brim, Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, Sveinn Agnarsson, prófessor í hagfræði við viðskiptadeild HÍ og Bjarni Hjartarson, farartækjahönnuður hjá NAVIS.
Einnig taka þátt Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og Hrönn Hrafnsdóttir, sérfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Fundarstjóri er Snjólaug Ólafsdóttir ráðgjafi í sjálfbærnimálum hjá EY.
mbl.is sótt 14/06/2021
- Umhverfisvænar sóttvarnir á heimsmælikvarðaby Kolefnislosun
Birtist í Fréttablaðinu þriðjudaginn 11. maí 2021
Bacoban er byltingarkennd lausn í þrifum og sótthreinsun fyrir heimili og fyrirtæki. Efnið veitir bestu sóttvörn gegn vírusum, inflúensu, bakteríum, myglu og sveppagróum.
Nýlega kom á markað hérlendis ný og byltingarkennd lausn í þrifum og sótthreinsun sem heitir Bacoban og er ætluð bæði heimilum og fyrirtækjum. Um er að ræða eitt efni sem í raun leysir af hólmi öll önnur hreinsiefni sem notuð voru áður. Hreinsiefnið veitir bestu sóttvörn sem möguleiki er á gegn vírusum (Coronavirus), inflúensu, bakteríum, myglu og sveppagróum og er um leið umhverfisvænt, segir Davíð Már Sigurðsson, markaðsstjóri og einn eigenda BE Nano. „Við kaup á Bacoban má einfaldlega skipta út öðrum efnum því Bacoban dugar eitt og sér á alla fleti eins og gólf, veggi, glerhúsgögn, borðplötur og salerni. Auk þess auðveldar varan öll eftir þrif um allt að 50% vegna smáeindarhúðar sem hún myndar sem ver gegn vökva og óhreinindum. Því festast óhreinindin ekki við heldur liggja ofan á smáeindarhúðinni. Einnig má nefna að smáeindarhúðin ver parket og innréttingar gegn útfjólubláum geislum sólarinnar. Vegna fyrrnefndra eiginleika er hægt að nota Bacoban sjaldnar en önnur hreinsiefni og því eru heimili og fyrirtæki ekki bara að fá betra efni heldur spara fjármuni á sama tíma.“
Vitsmunavara fyrir vitsmunaverur
Hann segir fjölda fyrirtækja og heimila hérlendis nú þegar hafa skipt út eldri hreinsiefnum og tekið inn Bacoban. „Það skiptir öllu máli að hafa eitt umhverfisvænt efni sem dugar á alla fleti innandyra til þrifa og sótthreinsunar, í stað margra ólíkra og misgóðra efna. Við erum að sjá flugfélög, fyrirtæki í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, verslunarkjarna, skóla, sundlaugar, björgunarsveitir, matvælaframleiðendur, heilsugæslur, sjúkrahús og fjölmarga aðra aðila nota Bacoban með mjög góðum árangri.“
Þessi fyrirtæki sáu að sögn Davíðs líka tækifæri til að minnka kolefnisspor sitt enda bara eitt umhverfisvænt efni í stað allt að 10 (sum innihalda eiturefni) og mun minni förgun á plastumbúðum.
Varan og virkni hennar er sannreynd og vottuð af viðurkenndum alþjóðastofnunum eins og Institut Fresenius (ASTM Standard E-2180), ISEGA, MIKROLAB, SGZ, ISO 9001 og ISO 14001. Skráð af Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni (WHO) um hollustuhætti og örverufræði.
Árangursríkar sóttvarnir eru mikilvægar
Davíð segir eitt erfiðasta verkefnið við þrif á heimilum, skrifstofum og fyrirtækjum vera skilvirka hreinsun sýkla og baktería. „Flest sótthreinsiefni sem eru fáanleg á markaðnum í dag geta einungis veitt skammtíma sótthreinsunarvernd. Þær sótthreinsunaraðferðir sem oftast eru notaðar eru því aðeins árangursríkar í nokkrar sekúndur til nokkurra mínútna á meðan efnið gufar upp. Eftir uppgufun geta því þessi sömu yfirborð mengast og orðið smitandi strax aftur með örverum, einfaldlega með því að ganga yfir teppi, opna gluggatjöld, sitja í sófa eða snerta yfirborðið. Næstum allir fletir eru opnir fyrir mengun frá sýklum sem valda alls konar áhrifum eins og t.d. slæmri lykt og útbreiðslu smitsjúkdóma.“
Hann segir Bacoban sannarlega vera tíu daga virka vörn gegn bakteríum, vírusum, sveppum og myglu. „Efnið er að lágmarki 100 sinnum áhrifaríkari vörn en mörg önnur almenn sótthreinsiefni. Árlega er talið að 3-5 milljónir alvarlegra tilfella inflúensu eigi sér stað í heiminum og 290.000-350.000 dauðsföll séu fylgikvilli þeirra. Kannanir á þýskum öldrunarheimilum sýndu fram á 80% minni veikindi af völdum árlegrar inflúensu eftir að skipt var yfir í Bacoban við sótthreinsun.“
Gerið kröfu um rétt vottaðar vörur
Bacoban er því að sögn Davíðs langbesta lausnin á markaðnum í dag. „Ef þú vilt eyða minni tíma og fjármunum í sótthreinsun og þrif, ef þú vilt vera umhverfisvænni og farga minna af plasti, ef þú vilt vernda þína nánustu gegn árlegum flensuvírusum, veirum, myglusveppum og bakteríum, þá er Bacoban svo sannarlega rétta varan fyrir þig og þína.“
Bacoban er sérlega hagkvæmt og drjúgt enda blandast efnið 1 á móti 100. Einnig fæst það tilbúið til notkunar og í blautþurrkum.
Allar nánari upplýsingar má finna á www.bacoban.is
frettabladid.is sótt 17/05/2021
- Nú þarf sjálfbærni í öllum rekstriby Kolefnislosun
Tómas Njáll Möller skrifar á visir.is 27. apríl 2021
Við erum á tímamótunvarðandi þróun umhverfis okkar og samfélaga. Við stöndum á krossgötum þar sem val um leiðir, aðgerðir og aðgerðarleysi ræður miklu um hvort við náum að snúa samfélögum okkar, framleiðslu og neyslu á braut sjálfbærni. Það mun hafa mikil áhrif á framtíð okkar, barna okkar og afkomenda þeirra. Við stöndum frammi fyrir gríðarlegri áskorun varðandi loftslagmál og grundvöllvistkerfa sem við treystum á. Þessar áskoranir kunna að virka ógnvekjandi en þær fela í líka í sér óþrjótandi tækifæri fyrir nýsköpun, ný atvinnutækifæri og sterkari samkeppnisstöðu.
Frá Holocene til Anthropocene – hvað er það?
Í fyrsta sinn í sögu jarðar eru athafnir manna ráðandi þáttur í þróun vistkerfa. Við lok síðustu ísaldar tók við rúmlega tíu þúsund ára tímabil sem er nefnt Holocene (nútíminn). Á þeim tíma hefur hitastig sveiflast á um einnar gráðu bili. Það skapaði aðstæður fyrir manninn að þróa þau nútímasamfélög sem við þekkjum. Upp úr 1950 tók við nýtt tímabil sem nefnist Anthropocene. Það vísar til áhrifa mannsins sem birtast m.a. í óæskilegri hlýnun loftslags, ógnun líffræðilegs fjölbreytileika og ójafnvægis í mikilvægum vistkerfum. Þessi áhrif mannsins munu að óbreyttu valda mannkyninu gríðarlegum búsifjum. Iðnbyltingin hefur fært okkur fordæmalausa velmegun en því miður byggir hún ekki á sjálfbærum forsendum.
Mikilvægur vitnisburður um stöðuna og leiðir fram á við
Sir David Attenborough dregur upp sterka mynd í bók sinni A Life on Our Planet sem og í samnefndri kvikmynd. Bókin byggir á ævistarfi hans en hann er nú 94 ára. Attenborough bendir okkur á að frá árinu 1938 hafi mannfjöldi farið úr 2,3 milljörðum í 7,8 milljarða og villt landsvæði minnkað úr 64% í 35%. Á sama tíma hefur kolefni í andrúmsloftinu aukist um nær helming og er nú meira en nokkru sinni í sögu mannkyns. Attenborough kveðst hafa áhyggjur fyrir hönd þeirra sem lifa munu næstu 90 árin ef við höldum óbreyttum lifnaðarháttum. Vísindamenn benda á að líf á jörðinni sé á leið á endastöð. Attenborough bendir okkur þó á leið til bjartari framtíðar en sú leið krefst þess að við stýrum athöfnum okkar innan ramma sjálfbærs hagkerfis. Til þess þurfum við að:
- hætta að reikna með að vöxtur geti verið óendanlegur
- færa okkur yfir í hreina orku
- vernda lífríki heimshafanna og gefa þeim færi á að ná fyrri styrk
- taka minna pláss fyrir athafnir okkar
- veita villtri náttúru meira rými
- skapa aðstæður til að stöðva fólksfjölgun og síðast en ekki síst;
- ná tökum á sjálfbærri þróun og lifnaðarháttum
Við höfum þekkinguna og framtíðin er í okkar höndum. Viljinn er allt sem þarf.
Tilvísun til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun:
Samstillt náum við miklu meiri árangri
Grunnstef Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni - er að vera umræðuvaki, fræðsluvettvangur og brúarsmiður. Með því að horfa á stóru myndina og setja hlutina í samhengi vill Festa styðja aðildarfélög sín og aðra til að vinna að sjálfbæru samfélagi. Samfélagi sem útilokar ekki komandi kynslóðir frá því að geta lifað góðu lífi.
Meðal helstu áherslumála Festu eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, loftslagsmarkmið, hringrásarhagkerfi, fjárfestingar í þágu sjálfbærni og vegvísar fyrir sjálfbæran rekstur. Á vef Festu (www.samfelagsabyrgd.is) má finna ýmsan fróðleik og leiðbeiningar fyrir fyrirtæki, stofnanir og einyrkja varðandi sjálfbæran rekstur.
Vegferðin að sjálfbæru samfélagi getur falið í sér óþrjótandi tækifæri fyrir Ísland til að skapa ný og góð störf, styðja við sanngjarnt samfélag, viðhalda lífsgæðum, skapa sjálfbær fjárfestingartækifæri og efla samkeppnisstöðu okkar. Bill Gates bendir á það og útskýrir í nýlegri bók sinni, How to Avoid a Climate Disaster, að þau ríki sem nái fyrst kolefnishlutleysi muni standa mun betur að vígi í samkeppninni.
Áratugur aðgerða er runninn upp
Þjóðir heims settu sér skýr og metnaðarfull markmið árið 2015 með gerð Parísarsáttmálans um aðgerðir í loftslagsmálum og með samþykkt heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Sáttmálarnir eru öflugir vegvísar og innihalda mikilvæg markmið sem er brýnt að ná fyrir árið 2030. Það er viðeigandi að nefna nýhafinn áratug, áratug aðgerða. Við þurfum að vinna saman að settum markmiðum, sýna áræðni og framsýni. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Höfundur er formaður Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni og yfirlögfræðingur lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
visir.is sótt 15/05/2021
- Ótal tækifæri til grænnar atvinnuppbyggingarby Kolefnislosun
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar skrifa um orkuvinnslu í Morgunblaðinu.
Lausn loftslagsmála felst aðallega í þrennu. Í fyrsta lagi að stórauka endurnýjanlega orkuvinnslu. Í öðru lagi að minnka kolefnisspor framleiðslu og þar með neyslu okkar með nýsköpun og nýjum eða breyttum framleiðsluferlum. Í þriðja lagi þarf að fanga og nýta eða farga þeirri kolefnislosun sem eftir stendur. Ótal tækifæri leynast á Íslandi til grænnar atvinnuuppbyggingar í tengslum við framangreindar lausnir, þar á meðal fullkomið orkusjálfstæði landsins.
Tækifæri okkar byggjast á að við eigum þegar öflugt orkukerfi með hverfandi kolefnisspor og lítið vistspor, en landnýting í þágu vinnslu og flutnings endurnýjanlegrar orku á Íslandi er í dag áætlað um 0,4% af landinu. Sambærilegt umfang er um 1,5-2% í Noregi og Danmörku. Með þessari nýtingu hefur okkur tekist að gera bæði raforku- og hitaorkunotkun að fullu endurnýjanlega og nú vinnum við að sama árangri í samgöngum. Á þessum sama grunni flytjum við þegar út orkusæknar vörur og þjónustu með eitthvert lægsta kolefnisspor á alþjóðlegum markaði, sem eru hluti af lausn loftslagsmála. Tækifæri okkar er að byggja á þessum öfluga grunni og bæta við orkukerfi okkar með áframhaldandi ábyrgri nýtingu íslenskra orkuauðlinda, ekki síst vaxandi vindorku, aukinni grænni framleiðslu í núverandi og nýjum iðngreinum og nýtingu hugvits okkar og reynslu sem getur orðið öðrum fordæmi um hvernig bæta megi efnahagslega velsæld, samfélag og umhverfi.
Þetta eru staðreyndir, ekki óljósir framtíðardraumar. En til þess að við náum að sækja tækifærin þurfum við að bera kennsl á þau og stefna saman á að þau verði að veruleika. Þar getur orkufyrirtæki þjóðarinnar, Landsvirkjun, sannarlega lagt sitt af mörkum. Samtök iðnaðarins og fjölmörg aðildarfélög þeirra leika þar sömuleiðis lykilhlutverk. Stjórnvöld verða þó að vera hér í fararbroddi, tala fyrir tækifærum, framkvæma til samræmis og ryðja hindrunum úr vegi.
Það eru sameiginlegir hagsmunir Landsvirkjunar og Samtaka iðnaðarins að benda á þau orkutengdu tækifæri sem felast í grænni framtíð. En við ætlum að gera meira: Við ætlum saman að taka virkan þátt í að auka það sem verður til skiptanna í samfélagi okkar. Þar liggja sameiginlegir hagsmunir allra Íslendinga.
Orkusjálfstæði
Við eigum óhikað að stefna að því að vera sjálfbær í orkumálum, ná fullu orkusjálfstæði. Heimurinn er nú á hraðferð inn í nýjan veruleika rafbíla, vetnisskipa og -flugvéla og annars græns samgöngumáta og við eigum alla möguleika á að vinna matvæli og fisk með því að nýta grænu orkuna okkar. Öll okkar rafrænu samskipti kalla á vinnslu og vörslu gagna í gagnaverum, sem þegar hafa risið hér og getur sá iðnaður haldið áfram að vaxa og dafna með tilheyrandi útflutningstekjum og þekkingu fyrir þjóðarbúið. Þessi græna framtíð kallar bæði á orkuvinnslu og uppbyggingu græns iðnaðar.
Ekkert af þessu gerist nema þau sem halda um stjórnvölinn séu sammála okkur um mikilvægi þess að stefna í þessa átt. Vissulega hafa mörg skref verið stigin á þeirri braut, en betur má ef duga skal. Við eigum í harðri samkeppni við önnur lönd, sem einnig bjóða græna orku. Sú samkeppni harðnar enn meira, nú þegar beislun vinds og sólar verður æ algengari um allan heim og saxar á forskotið sem orka vatnsafls og jarðvarma tryggði okkur áður.
Verum reiðubúin
Erum við reiðubúin að taka á móti þeim sem vilja byggja hér næstu gagnaver? Rafhlöðuverksmiðju til að mæta þörfum rafbílaframleiðenda? Stór gróðurhús sem tryggja ferskt grænmeti allan ársins hring? Getum við tryggt aðstöðuna, orkuna, samstarf við önnur fyrirtæki, sveitarstjórnir og aðra hagaðila?
Því miður skortir enn töluvert upp á. Landsvirkjun er reiðubúin að mæta þessari áskorun og það eru Samtök iðnaðarins og íslensk iðnfyrirtæki líka. En stjórnvöld verða að ryðja brautina, tryggja að löggjöf sé með þeim hætti að við missum ekki forskot okkar, hvort sem þar er rætt um skipulagsmál, umhverfismál, skattamál eða hvert annað atriði sem snertir rekstur fyrirtækjanna. Frumkvöðlar eru vissulega tilbúnir til að taka ýmsa áhættu og skapa grundvöll undir starfsemi sína, en það þarf að ryðja hindrunum úr vegi. Ef við getum tryggt snör viðbrögð og fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfinu eru allar líkur á að hér byggist upp enn öflugri grænn iðnaður til framtíðar.
Allar Norðurlandaþjóðirnar vinna hörðum höndum að því að ná þessum áhugaverðu nýju atvinnutækifærum til sín. Þar hefur náið samstarf atvinnulífs, stjórnvalda og annarra hagaðila þegar skilað miklum árangri. Samkeppnin er og verður mikil en við vitum að saman getum við náð miklum árangri.
Ísland er land endurnýjanlegrar orku og framlag okkar til loftslagsmála og sjálfbærrar þróunar er mikilvægt. Við eigum að leggjast á eitt og vernda og styrkja græna ímynd landsins. Í því felst að grípa og sækja nýju tækifærin og jafnframt halda áfram að bæta þann grunn sem fyrir er með grænni lausnum, í takt við breytta tíma.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Sótt af si.is10/05/2021
- Umhverfisráðherra kynnir nýja loftslagsskrifstofuby Kolefnislosun
Birtist fyrst á mbl.is 5.5.2021
Stofnuð hefur verið skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands. Þetta tilkynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands sem haldinn var í dag.
„Í dag stígum við mikilvægt skref fram á við og þar er mér mikil ánægja að tilkynna um aukið framlag [umhverfis]ráðuneytisins til Veðurstofu Íslands svo koma megi á sérstakri skrifstofu hjá stofnunni, skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar,“ sagði ráðherrann í erindi sínu á ársfundinum.
Skrifstofan á að vera, samkvæmt tilkynningu Veðurstofunnar sem fylgdi ávarpi ráðherrans, vettvangur fagstofnanna og hagaðila. Mun skrifstofan styðja samfélagið í ákvörðunum og aðgerðum vegna aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga. Auk þess mun skrifstofan sinna samstarfi á þessu sviði við alþjóðastofnanir og sinna miðlun um áhrif loftslagsbreytinga til hagsmunaaðila og almennings.
Veðurstofa Íslands mun veita skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar forystu, en skrifstofan verður sameiginlegur vettvangur háskólasamfélagsins, Rannís, fagstofnana og hagaðila. Þorsteinn Sigðursson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar sagði á ársfundinum að hann vonaðist til þess að skrifstofan valdi því að stjórnvöld og vísindasamfélagið verði meira samstíga í viðbrögðum þeirra við loftslagsbreytingar.
Brú milli vísinda og samfélags
„Á sama hátt og við bregðumst við þegar náttúruvá á borð við eldgos á Reykjanesskaga dynur yfir eða ofanflóð á Seyðisfirði, þarf samfélagið að beita réttum aðgerðum við að vakta og takast á við loftslagsbreytingar. Þær aðgerðir þurfa að byggja á vísindalegum grunni og þá tölum við gjarnan um að mynda „brú milli vísinda og samfélags,“ sagði Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, í tilkynningunni.
Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á íslensku samfélagi voru miðpunktur ársfundar Veðurstofu Íslands og snertu allir mælendur á því umræðuefni, þar á meðal Halldór Björnsson hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands og Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.
Veðurstofa Íslands er tengiliður Íslands við milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) í umboði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þær niðurstöður sem birtar hafa verið í skýrslum IPCC eru vísindalegar forsendur fyrir þeim alþjóðlegu aðgerðum sem farið hefur verið í til að uppfylla loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og bókanir hans, þar á meðal Kyoto- og Parísarsamninginn.
mbl.is sótt 05/05/2021
- Hvað getum við gert?by Guðrún Pétursdóttir
Þar sem ég sit hér og horfi á lífrænu banana sem ég bar með mér heim úr versluninni í gær, þá fer ég að hugsa um hversu stórt kolefnisspor þeir skilja eftir sig. Það þyrmir hálfpartinn yfir mig því þeir eru líklega komnir alla leið frá Perú sem þýðir að þeir hafa ferðast ansi langt til þess eins að lenda í mínum maga. Það sem meira er að grænmeti og ávextir sem eru fluttir yfir hálfan hnöttinn tapa bæði gæðum og næringargildi á leið sinni til þín. Bananar eru þrátt fyrir það hollir og góðir fyrir alla en eru þeir nauðsynlegir?
Grænmeti og ávextir sem hafa ferðast langar leiðir með flugvélum skilja eftir sig stórt kolefnisspor á meðan kálið sem þú getur ræktað í glugganum þínum, á svölunum eða garðinum er með hverfandi kolefnispor. Fyrir utan umbúðir sem þú sleppur við að bera heim til þín og þarft síðan að farga á viðeigandi hátt og bætir þar með við kolefnissporið þitt. Svo ekki sé minnst á allt það hráefni sem vex villt úti í náttúrunni rétt við bæjardyrnar hjá okkur hvar sem við búum á Íslandi.
Ruv.is er um þessar mundir að sýna frábæra stutta þætti um loftslagsmál í umsjón Sævars Helga Bragasonar. Í þættinum, sem sýndur var síðasta þriðjudagskvöld, fjallaði hann það hvernig við getum ræktað okkar eigið grænmeti og nýtt okkur gæði landsins. Það var mjög athyglisvert að sjá hvað við getum ræktað margt sjálf án þess að vera með heilu akrana undir. Þáttarstjórnandi heimsótti konu sem ræktar allt sitt grænmeti í litlu gróðurhúsi í bakgarðinum og aðra sem ræktar á svölunum sínum, jafnframt ræddi hann við veitingamann sem tínir fjörugrös, hvönn og fleira til að nota í rétti á veitingastaðnum sínum.
Þessi þáttur styrkti mig enn frekar í þeirri trú að við getum gert svo miklu betur hvað varðar sjálfbærni okkar og með því minnkað kolefnissporið okkar, því ákvað ég að kynna mér málið betur.
Mitt eigið grænmeti
Heimagerður ræktunarkassi frá höfundi greinarinnar Það þarf ekki bara að vera fjarlægur draumur að vera sjálfbær um sitt eigið grænmeti og kartöflur yfir sumartímann að minnsta kosti.
Ef þú býrð í þéttbýli og hefur enga aðstöðu þá bjóða öll stærri bæjarfélög upp á matjurtagarða til leigu. í Reykjavík eru t.d. um 600 matjurtagarðar víðsvegar um borgina sem einstaklingar geta leigt. Þetta er frábært fyrir þá sem hafa ekki aðstöðu eða vilja ekki rækta heima hjá sér, það er líka kostur að geta gengið að tilbúnu beði og þurfa ekki að útbúa slíkt sjálfur því það er jú ákveðið umstang sem hentar kannski ekki öllum.
Áður en þú skellir þér á hnéin og byrjar að gróðursetja er gott að hafa eftirfarandi í huga:
- Hvar ætla ég að rækta? Á svölum, í glugga eða garði?
- Hversu mikið sólarljós er á þeim stað? Það skiptir máli á hvort ræktunarstaður er í norður eða suður varðandi hvað er hægt að rækta og hvað síður.
- Í hverju ætla ég að rækta? Á ég plastbox eða gamla blómapotta sem ég get notað?
- Hvað nota ég mest? Notar þú mintu í þeytinga eða mikið af hvítlauk í matargerð?
- Hvað finnst mér gott að borða? Þetta er augljós en góð spurning enda minni tilgangur að rækta það sem þér finnst ekki gott að borða.
- Gæti ég sparað mér peninga? Matjurtir eru til dæmis dýrar út í búð, því er spurning hvort þú viljir að rækta þær sjálf/ur.
Forræktun á brokkolí í stofuglugga höfundar Þegar þú hefur svarað þessum spurningum getur þú hafist handa og tekið næstu skref. Það er mjög auðvelt að forrækta kál, kryddjurtir og alls konar sjálfur í gluggakistunni, það er líka hægt að kaupa forræktaðar plöntur á mörgum gróðrarstöðvum og öruggara fyrir algjöra byrjendur.
Ræktun fyrir byrjendur, grein sem Dagný Gísladóttir skrifaði á nfl.is er full af fróðleik sem gæti komið að gagni við fyrstu skrefin en listinn hér að ofan er fenginn að láni þaðan að mestu óbreyttur.
Tímaritið "Lifum betur - Í boði náttúrunnar" hefur einnig birt greinar um heimaræktun og gagnleg ráð. sumar þeirra má lesa frítt á netinu en ég mæli alveg með áskrift af þessu flotta tímariti fyrir áhugafólk um umhverfismál.
Ég stend sjálf í þessum framkvæmdum heima hjá mér í mínum pínulitla garði og gluggarnir mínir eru fullir af litlum plöntum sem verða vonandi að grænmeti þegar fram líða stundir. Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvað ég hef gaman af þessu stússi. Í öllu tali um núvitund og að róa hugann þá mæli ég heilshugar með því að rækta garðinn sinn, það gefur mér að minnsta kosti stórkostlega hugarró.
Það sem náttúran gefur okkur
Matarbúr náttúrunnar á Íslandi er fjölbreyttara en margan grunar og því vel þess virði að kynna sér það aðeins betur. Þar má nefna ber, sveppi, fjallagrös, hvönn, blóðberg og mjaðjurt en þó er ekki allt upp talið. Þessar íslensku jurtir og fleiri til hafa í gegnum tíðini allt verið notaðar í lækningaskyni, sem krydd í matargerð og til að búa til te.
Náttúrulækningafélag Íslands hefur staðið fyrir fræðslu um nýtingu þessarra náttúruauðlinda auk tínsluferða, sem er spennandi bæði fyrir byrjendur og lengra komna.
Ég mæli eindregið með bókinni "Íslenskar lækningajurtir - notkun þeirra, tínsla og rannsóknir" eftir Önnu Rósu grasalækni, hafir þú áhuga á að fræðast betur um það sem íslensk náttúra getur fært okkur.
Fjaran er lítið nýttur fjársjóður
Söl og annar sjávar- og fjörugróður hefur líka verið notaður til matargerðar og því alveg þess virði að skella sér í fjöruferð og athuga hvað þú getur fundið í fjörunni þinni.
Guðrún Hallgrímsdóttir, segir í greininni Fjaran - gósenland sem birt var á vef Háskóla Íslands:
„Næstum allt þang og þari í fjörum sem ekki hafa orðið fyrir mengun er ætt og inniheldur öll helstu næringarefnin auk þess sem það er uppspretta fyrir bæði vitamin og steinefni, lífsnauðsynlegar amínósýrur og ómettuðu fitusýrurnar, omega 3 og omega 6 í æskilegum hlutföllum fyrir heilsuna. Það er óhætt að segja að þangið sé gullnáma góðra næringarefna."
Það er hægt að nota aðföng úr fjörunni í margs konar rétti bæði til bragðbætingar og til að skreyta matinn hvort sem um er að ræða þang eða fjörugróður.
Það er freistandi að kaupa allskonar framandi ávexti og grænmeti í stórmarkaðinum með tilheyrandi kolefnispori og umbúðafargi. Ég hvet þig því til að skoða hvað þú getur gert til að minnka þitt kolefnisspor og taka fyrsta skrefið í átt að sjálfbærni. Ég vona að þessi skrf mín hafi kveikt í einhverjum og þeir drífi sig af stað að rækta og nýta það sem hægt að finna í náttúrunni bæði til sjávar og sveita.
Er ekki kominn tími til að staldra við og líta sér nær?
Heimildir
Skessuhorn
Hvað getum við gert?
Ræktun fyrir byrjendur
Fjaran - gósenland - Örplast finnst í Vatnajökliby Kolefnislosun
Jóhann Bjarni Kolbeinsson skrifar 25/04/2021 á ruv.is
Örplast er að finna í Vatnajökli, samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn. Þetta er í fyrsta sinn sem staðfesting hefur fengist á því að örplast sé í íslenskum jökli. Líklegt er talið að örplast sé einnig að finna í öllum öðrum jöklum hér á landi.
Það voru vísindamenn við Háskólann í Reykjavík, Háskólann í Gautaborg og Veðurstofu Íslands sem unnu rannsóknina í sameiningu. Fyrstu niðurstöður hennar voru nýlega birtar í vísindaritinu Sustainability.
„Helstu niðurstöður voru þær að við fundum örplast í jöklinum, sem hafði ekki verið staðfest áður. Við höfðum séð vísbendingar erlendis frá að menn hefðu verið að finna örplast í Ölpunum en það hafði ekki verið gert hér á landi áður,“ segir Einar Jón Ásbjörnsson, lektor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, og einn þeirra sem stóðu að rannsókninni.
Er þetta mikið af örplasti?
„Við erum ekki búin að magnsetja það. Fyrstu drögin að þessari rannsókn voru bara að staðfesta tilurð örplasts í jöklinum,“ segir Einar.
Kemst hugsanlega í hringrásina
Vísindamennirnir greindu örplastagnir í snjókjörnum sem safnað var á afskekktum og óspilltum stað á Vatnajökli. Einar segir að næst á dagskrá sé að kanna hvernig örplastið berst í jökulinn.
Er möguleiki á að þetta sé uppgufun og að það komi með regnvatni?
„Það gæti gert það, það gæti komið frá sjónum. Menn hafa verið að skoða hvort örplast úr sjónum geti komist upp í hringrásina, og það er framtíðarrannsókn,“ segir Einar.
Frumniðurstöður sambærilegrar rannsóknar í Hofsjökli benda til þess að örplast sé einnig að finna þar.
Þannig að ef það er örplast í Hofsjökli og Vatnajökli, er þá ekki líklegt að það sé örplast í öllum íslenskum jöklum?
„Jú það má gera fastlega ráð fyrir því,“ segir Einar.
Í framhaldi af þessum niðurstöðum verður rannsakað hvernig plastagnirnar hafa áhrif á ljósnæmi íssins og byggingu hans, og hvort þær geti mögulega haft áhrif á bráðnun jökla.
Það er sem sagt möguleiki að örplast í jöklum geti flýtt fyrir bráðnun þeirra?
„Flýtt eða hægt. Það er ómögulegt að segja núna,“ segir Einar.
ruv.is sótt 26/04/2021
- Ætla að farga milljónum tonna koltvísýrings í Straumsvíkby Kolefnislosun
Kjartan Kjartansson skrifar á visi.is 22. apríl 2021 08:01Um sexhundruð ný störf eru sögð geta skapast með tilkomu kolefnisförgunarmiðstöðvar sem Carbfix, dótturfyrirtæki Orku náttúrunnar, ætlar að byggja í Straumsvík. Miðstöðin, sem á að taka við kolefni frá Norður-Evrópu, verður kynnt á opnum fundi á degi jarðar í dag.
Móttöku- og förgunarmiðstöðin á að taka við og farga allt að þremur milljónum tonna af koltvísýringi á ári fullbyggð og verður hún sú fyrsta sinnar tegundar, að því er segir í tilkynningu frá Carbfix. Til samanburðar var losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi án landnotkunar og skógræktar um 4,7 milljónir tonna koltvísýringsígilda árið 2019 samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar.
Við förgunina verður notuð tækni fyrirtækisins til þess að binda kolefnið í berg sem Orkuveita Reykjavíkur, Háskóli Íslands og erlendir háskólar hafa þróað saman við Hellisheiðarvirkjun undanfarin ár.
Byggja á miðstöðina, sem nefnist Coda Terminal, í þremur áföngum. Undirbúningur að fyrsta áfanga á að hefjast um mitt þetta ár með forhönnun og vinnu við leyfisferla. Rannsóknarboranir eiga að hefjast á næsta ári og rekstur árið 2025. Miðstöðin verði fullbyggð árið 2030.
Straumsvík sögð ákjósanlegur staður
Tækni Carbfix til kolefnisbindingar felur í sér að koltvísýringur er leystur upp í vatni og honum svo dælt djúpt niður í berglög þar sem hann steinrennur á innan við tveimur árum. Kolefnisförgun með þessum hætti er sögð hafa óveruleg umhverfisáhrif þar sem hún krefst aðeins rafmagns og vatns og hún hraðar náttúrulegum ferlum kolefnishringrásar.
Umhverfi Straumsvíkur er sagt bjóða upp á kjöraðstæður til varanlegar kolefnisbindingar með tækninni. Þar sé gnægð af fersku basalti og öflugum grunnvatnsstraumum, raforkuþörf starfseminnar sé lítil og dreifikerfi sé þegar til staðar. Aðeins þurfi að byggja upp geymslutanka í nágrenni hafnarbakka, lagnir og niðurdælingarholur.
Kolefnið sem verður fargað í miðstöðinni í Straumsvík verður flutt til landsins í vökvaformi með sérhönnuðum skipum sem ganga fyrir grænu eldsneyti. Einnig er ætlunin að farga þar koltvísýringi frá innlendum iðnaði og beint úr andrúmslofti.
Jarðfræðingar Carbfix hafa reiknað út að íslenskt basalt geti bundið gríðarlegt magn kolefnis með þessum hætti. Á landinu öllu megi líklega binda áttatíu- til tvöhundruðfalda árlega losun mannkynsins á koltvísýringi.
Ódýrara að farga en kaupa losunarheimildir
Binding kolefnis er ein af þeim leiðum sem hafa verið nefndar til sögunar í glímunni við loftslagsbreytingar af völdum manna. Í tilkynningu Carbfix kemur fram að fyrirtæki sem falla undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir geti notað kolefnisförgun þess til frádráttar í losunarbókhaldi sínu. Með viðskiptakerfinu þurfa fyrirtækin að greiða fyrir heimildir til losunar á koltvísýringi og fer gjaldið hækkandi með tímanum til að skapa hvata til samdráttar í losun.
Carbfix segir að ódýrara sé að farga kolefninu með aðferð þess en að kaupa losunarheimildir í kerfinu. Þannig kosti það nú um 3.500 krónur að binda hvert tonn af koltvísýringi á Hellisheiði en 6.600 krónur að heimild til að losa eitt tonn í viðskiptakerfinu.
Förgunarmiðstöðin verður kynnt á opnum fundi sem verður streymt á Vísi. Hann hefst klukkan 11:00 og verður Andri Snær Magnason, rithöfundur, gestur fundarins.
visir.is sótt 23/04/2021
- Viðskiptavinir Íslandsbanka geta mælt kolefnisspor sínby Kolefnislosun
Eftirfarandi birtist á vef Íslandsbanka 21/04/2021
Með nýrri lausn býður Íslandsbanki notendum Íslandsbankaappsins að sjá áætlað kolefnisspor sitt. Bankinn nýtir til þess lausn, Carbon Insight, frá fjártæknifyrirtækinu Meniga, sem áætlar kolefnisspor einkaneyslu fólks. Íslandsbanki er meðal fyrstu banka í heiminum sem nýtir lausnina.
Lausnin er í samræmi við markmið Íslandsbanka um að vera hreyfiafl til góðra verka í íslensku samfélagi. Aðgerðir í loftslagsmálum er eitt fjögurra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem bankinn hefur tileinkað sér og viðskiptavinir hafa lýst yfir miklum vilja til að styðja við sjálfbærnistefnu bankans. Því hefur Íslandsbanki stigið það skref að auðvelda viðskiptavinum sínum yfirsýn yfir kolefnisspor þeirra.
Kolefnisspor færslna er reiknað út með því að nota gagnagrunn, Meniga Carbon Index, sem inniheldur kolefnisspor um 80 útgjaldaflokka. Þegar vara eða þjónusta er keypt er færsluupphæð margfölduð á móti kolefnisgildi viðkomandi útgjaldaflokks. Með þær upplýsingar að vopni getur fólk hagað innkaupum sínum og neyslu með þeim hætti sem er best til þess fallinn að draga úr kolefnisspori þeirra.
„Meðal almennings ríkir bæði vilji og áhugi fyrir því að takmarka kolefnisspor og hafa þannig jákvæð áhrif á umhverfið. Það er því með miklu stolti sem Íslandsbanki býður viðskiptavinum sínum að hafa betri yfirsýn yfir kolefnisspor einkaneyslu og því hvernig sporið skiptist eftir útgjaldaflokkum - og auðvelda þeim þannig að draga úr kolefnisspori sínu á áhrifaríkastan hátt.
Með því að sjá svart á hvítu hvaða innkaup valda mestri mengun, geta viðskiptavinir Íslandsbanka skipulagt innkaup sín með það fyrir augum að lágmarka kolefnisspor sitt og um leið útgjöld. Með þessu viljum við ásamt viðskiptavinum okkar vera hreyfiafl til góðra verka.“
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbankaislandsbanki.is sótt 21/04/2021
- Nýsamþykkt lög stuðla að stórauknum framlögum til almannaheillastarfsemiby Kolefnislosun
Birtist á stjornarradid.is 21/04/2021
Gera má ráð fyrir milljarðaaukningu til almannaheillastarfsemi með nýsamþykktu frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra.
Nýsamþykkt lög taka gildi 1. nóvember 2021. Þau fela í sér nýja heimild fyrir einstaklinga til að draga allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar vegna framlaga til almannaheillastarfsemi. Þá er einnig kveðið á um tvöföldun á hlutfalli sem atvinnurekstraraðilar mega draga frá skattskyldum tekjum vegna slíkra framlaga og fer það úr 0,75% í 1,5%. Slík framlög hækkuðu um milljarð króna árið 2016, þegar hlutfallið var hækkað úr 0,5% í 0,75%.
Við þetta bætist að nýleg frádráttarheimild atvinnurekenda vegna framlaga til kolefnisjöfnunar tvöfaldast, úr 0,75% í 1,5%. Alls geta atvinnurekendur því fengið frádrátt sem nemur 3% á ári vegna framlaga sinna.
Samkvæmt lögunum ber þeim sem styrkja almannaheillastarfsemi með þessum hætti að fá móttökukvittun frá móttakanda styrksins, en móttakandi sendir Skattinum í kjölfarið nauðsynlegar upplýsingar um gjafir eða framlög frá einstaklingum á hverju almanaksári. Umræddar upplýsingar eru í framhaldinu forskráðar á skattframtal einstaklings vegna næstliðins tekjuárs.
Þá þarf það skilyrði að vera uppfyllt að móttakandi gjafar eða framlags sé skráður í sérstaka almannaheillaskrá hjá fyrirtækjaskrá Skattsins á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag er veitt.
Léttari skattbyrði
Samhliða auknum hvötum til að styðja við almannaheillastarfsemi voru samþykktar ýmsar undanþágur frá greiðslu skatta fyrir félög til almannaheilla. Þannig er lagt til að þau verði undanþegin greiðslu tekjuskatts og staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, auk undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts með nánar tilgreindum skilyrðum.
Enn fremur var samþykkt að aðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir greiðslu stimpilgjalda og geti auk þess sótt endurgreiðslu allt að 60% greidds virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Þá er í lögunum veitt undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts af gjöfum til aðila í almannaheillastarfsemi.
Ný lög fela í sér að hugtakið almannaheill er tekið upp í 4. grein laga um tekjuskatt í stað orðsins almenningsheill. Í ákvæðinu er nánar tilgreint hvaða aðilar falla undir skilgreininguna, en til þeirra teljast meðal annars ýmis mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og íþróttastarfsemi, björgunarsveitir og neytenda- og forvarnarstarfsemi.
Gert er ráð fyrir að lagabreytingin hafi neikvæð áhrif á skatttekjur ríkissjóðs sem nemur um 2 milljörðum króna á ári, en áhrifin eru ótímabundin.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
“Bætt umhverfi almannaheillastarfsemi hefur verið mér hugleikið um árabil. Það er því gríðarlega ánægjulegt að frumvarpið sé orðið að lögum, en málið hlaut afgerandi stuðning í þinginu. Með lögunum breikkum við tekjustofn almannaheillafélaga verulega og aukum á sama tíma möguleika fólks til að styðja við félög að eigin vali, án milligöngu ríkisins.”
stjornarradid.is sótt 21/04/2021
- MÁ BJÓÐA ÞÉR BIRKIFRÆby Kolefnislosun
Birt fyrst á bb.is 26/03/2021
Landsátak Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í söfnun birkifræs hófst haustið 2020 og mikill fjöldi fræja safnaðist.
Átakið er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám. Á rýru landi er gjarnan kolefnislosun því þar er gamall jarðvegur enn að rotna. Ef landið klæðist birkiskógi stöðvast þessi losun og binding hefst í staðinn. Svona verkefni eru því líka loftslagsverkefni.
Birkið er frumherjategund sem sáir sér mikið út á eigin spýtur ef hún fær til þess frið. Birkið heldur því starfinu áfram ef vel tekst til að koma því af stað á nýjum svæðum. Landgræðslan og Skógræktin vilja auka vitund og áhuga fólks á eflingu náttúrunnar og útbreiðslu birkis, víðis og annars gróðurs á landinu. Verkefni af þessu tagi hvetur fólk til að taka til hendinni í umhverfismálum.
Skólum landsins býðst nú að fá birkifræ úr þessum fræbanka til sáningar og/eða tilraunar með spírun og vöxt. . Nánari upplýsingar um landsátakið á birkiskogur.is
bb.is sótt 19/04/2021
- Vilja banna stutt innanlandsflugby Kolefnislosun
Birt fyrst á ruv.is 12.04.2021
Neðri deild franska þingsins hefur samþykkt bann við stuttu innanlandsflugi. Með banninu er ætlunin að minnka kolefnislosun. Verði það að lögum nær það til flugferða á milli staða þar sem hægt er að fara sömu leið með lest, að því gefnu að lestarferðin taki innan við tvær og hálfa klukkustund.
Öldungadeild þingsins á eftir að fjalla um bannið, sem gæti haft að í för með sér að ekki verði flogið frá París til Lyon og Bordeaux, svo dæmi séu tekin.
Áður var til skoðunar að fella niður allar flugferðir innanlands sem eru styttri en fjórir tímar en fallið var frá því eftir mótmæli úr nokkrum landshlutum sem þá hefðu misst flugsamgöngur. Einnig bárust andmæli frá flugfélaginu KLM, sem hefur, líkt og flest flugfélög, orðið fyrir skakkaföllum í faraldrinum.
Samtök neytenda í Frakklandi, UFC-Que Chosir, höfðu skorað á þingið að halda sig við að banna flug þar sem lestarferðir taka fjóra tíma eða minna og í umfjöllun Guardian um málið segir að flugvél losi 77 sinnum meira kolefni á hvern farþega en lest, jafnvel þó að lestarferðin sé ódýrari.
Reglur sem þessar hafa verið til skoðunar í nágrannaríkjunum. Ríkisstjórn Austurríkis tilkynni í júní að sérstakur skattur, 30 evrur, yrði lagður á alla flugmiða í ferðir sem eru styttri en 350 kílómetrar, og sem hægt er að fara með lest á innan við þremur tímum.
Í Hollandi hafa síðan árið 2013 verið gerðar tilraunir til að banna stuttar flugferðir innanlands. Þingið samþykkti árið 2019 bann við flugi frá Schiphol-flugvelli í Amsterdam til Zaventem-flugvallar í Belgíu, um 150 kílómetra leið, en bannað braut í bága við reglur Evrópusambandsins um frjálsa för og tók því aldrei gildi.
ruv.is sótt 19/04/2021
- Skemmtilegt frumkvöðlaverkefni! Vindmyllugámar Sidewind styðja við umhverfismarkmið Samskipaby Kolefnislosun
Birt fyrst á samskip.is 14/04/2021
Í apríl hófust fyrstu mælingar tengdar rannsóknarverkefni Sidewind um borð í Helgafelli, flutningaskipi Samskipa. Sidewind er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem vinnur að þróun umhverfisvænna lausna fyrir flutningaskip og nýtur stuðning Samskipa við verkefnið.
Sidewind stefnir að framleiðslu vindtúrbína sem komið er fyrir í opnum gámum. Vindmyllugámarnir nýta hliðarvind sem annars færi til spillis til framleiðslu rafmagns. Verkefnið fellur afar vel að umhverfis- og sjálfbærnimarkmiðum Samskipa því með notkun tækninnar eru líkur á að draga megi umtalsvert úr notkun jarðefnaeldsneytis í flutningunum og þá um leið útblæstri frá flutningaskipunum.
Sidewind telur að með aðferðinni megi framleiða 5 til 30 prósent af orkuþörf skipa. Frumgerð vindmyllu Sidewind hefur þegar verið prófuð í vindgöngum í Háskólanum í Reykjavík, vindmælingar eru hafnar um borð í Helgafelli og vinna við smíði frumgerðar í fullri stærð sem verður prófuð um borð er að hefjast.
„Okkur finnst frábært að fá svona öflugt fyrirtæki eins og Samskip með okkur í lið. Samstarfið mun efla báða aðila við þróun grænna lausna,“ segir Óskar Svavarsson stofnandi og forstjóri Sidewind.
„Við hlökkum til samstarfsins við Sidewind og finnst þetta verkefni afar spennandi. Samskip eru ávallt með augun opin fyrir tækifærum til að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar og gleður okkur að fá að taka þátt í þróun þessarar nýju tækni,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.
Skrifað var undir samning um stuðning Samskipa við verkefnið föstudaginn 9. apríl síðastliðinn.
Sidewind ehf. er frumkvöðlafyrirtæki með höfuðstöðvar í Reykjavík. Fyrirtækið er í eigu stofnendanna, Maríu Kristínar Þrastardóttur og Óskars Svavarssonar. Sidewind byggir á hugmynd Óskars um framleiðslu rafmagns með láréttum vindtúrbínum í opnum gámum.
Sidewind er meðal fyrirtækja sem nýverið voru tilnefnd til nýsköpunarverðlauna Samorku. Sjá nánar hér.
- Gróðursetja tré í heimsfaraldriby Guðrún Pétursdóttir
Þrátt fyrir að Bretland hafi verið meira og minna í höftum og allt lokað, eins og víða annars staðar á tímum covid-19, hefur loftslagshópur í þorpi í jaðri Yorkshire Dales ekki slegið slöku við.
Heilu þorpin og margir skólar á svæðinu hafa tekið þátt og gróðursett milljón tré og í þeim tilgangi að draga úr losun koltvísýrings, með því að búa til ný skóglendi.
Til stendur að planta hundruðum trjáa á landi umhverfis Newton-le-Willows, neðarlega í Wensleydale, til að takast á við loftslagskreppuna. Samkvæmt vísindamönnum er gróðursetning milljarða trjáa um allan heim ein stærsta og ódýrasta leiðin til að minnka CO2 í andrúmsloftinu.
Bob Sampson, fyrrverandi ráðgjafi um landnýtingar í landbúnaðarráðuneytinu og meðlimur í loftslagshópi þorpsins, hefur skrifað landeigendum á svæðinu og beðið um leyfi til að rækta tré á landi þeirra. Sjö bændur hafa samþykkt hingað til og núna vinnur að hann því að fá þorpsbúa og aðra til að styrkja verkefnið og aðstoða við útplöntun.
Íbúar sýna mikla samfélagslega ábyrgð
Hópurinn biðlar til þorpsbúa að reiða fram 2 pund hver til að standa straum af kostnaði við tré, reyr og spíral til að vernda þau gegn kanínum. Þrátt fyrir að eiga enn eftir að tilkynna áætlanir sínar í fréttabréfinu í þorpinu hafa þeir þegar fengið styrk til að gróðursetja rúmlega 150 tré. Hópurinn stofnaði hóp á WhatsApp, þegar fyrsta lokunin vegna covid var sett á í mars í fyrra, og setti þar inn færslu um verkefnið og viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Það hafa verið mjög jákvæð viðbrögð, miklu betri en ég bjóst við,“ segir Sampson.
„Við munum gróðursetja mismunandi tegundir trjáa eftir því hvað hentar viðeigandi stöðum og munu þau nýtast bæði loftslaginu og umhverfinu hvað varðar landslag og dýralíf.“
Þetta er ekki eina samfélagið sem er að takast á við loftslagskreppuna í heimsfaraldrinum með þessum hætti. Frá fyrstu lokun hefur aukning orðið á fjölda fólks sem tekur þátt í verkefnum sem miða að því að bæta nærumhverfi sitt.
Woodland Trust, sem útvegar, skólum og samfélagshópum, ungplöntur til útplöntunar endurgjaldslaust, hefur upplifað þetta af eigin raun. Í fyrra sendi félagið frá sér rúmlega eina milljón trjáa. Þrátt fyrir Covid bárust fleiri umsóknir um ungplöntur fyrir vorið 2021 en árið áður og því er Woodland Trust núna að senda út nálægt hálfa milljón ungplanta. Strax í desember jókst eftirspurnin dag frá degi um 5.000 til 10.000 tré, eða að meðaltalið um 4.000 tré á dag.
Samkvæmt samtökum garðyrkjuverslana, í Bretlandi, jókst sala á harðgerðum plöntum, runnum og trjám um 50% frá 13. maí 2020 (þegar þau opnuðu aftur) til 31. janúar samanborið við sama tímabil árið áður. Þannig að áhuginn á plöntun virðist ekki einskorðast við félagasamtök og skóla.
Kay Clark, framkvæmdastjóri samfélagsþróunar hjá Royal Horticultural Society, hefur einnig séð mikinn áhuga frá því heimsfaraldurinn hófst. „Við höfum fundið að það er aukning í stofnun nýrra samfélagshópa, fólk kemur og hefur enga reynslu eða kunnáttu og er að gera hlutina í fyrsta skipti. Það er ótrúlegt, “segir hún. Símtölum hefur fjölgað og meirihlutinn er fyrirspurnir frá þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref, bætir hún við. „Ég held að við höfum aldrei upplifað annað eins. Þetta hefur verið stórkostlegt og mikið að gera."
Minningarskógur og ávaxtatré
RHS býður fólki upp á að planta trjám til minningar um þá sem hafa týnt lífi á heimsfaraldrinum. Fimm hundruð tré hafa þegar verið gróðurset og RHS hefur búið til kort á netinu þar sem hægt er að fylgjast með hvar þau eru.
Í Somerset hjálpaði Food Forest verkefnið til við að auðvelda stofnun tveggja hektara matarskógar rétt fyrir jól. Það er annað eins skipulagt í nóvember á þessu ári nálægt einu verst settu svæði sýslunnar. Frá upphafi heimsfaraldursins hafa samtökin plantað nálægt 2.000 trjám á fimm stöðum.
Tristan Faith, stofnandi, segir: „Síðan í mars hefur verið raunveruleg breyting í átt að sjálfsbjargarviðleitni og fólk að hugsa um hvað það geti gert. Það hefur haft sláandi áhrif ... og allir vilja planta ávaxtatrjám. “ Hann hefur tekið eftir straumi fólks sem býr í blokkum sem hefur samband til að fá upplýsingar um hvernig það getur tekið þátt. Því allir vilja vera með og rækta sína ávexti.
Hundruð mílna norður í Dumfries og Galloway hefur Margaret Pool, formaður Langholm Initiative sem eru góðgerðarsamtök, einnig séð meiri áhuga fólks á umhverfinu og fleiri sjálfboðaliða. „Áhugi almennings fyrir okkur hefur stóraukist síðan heimsfaraldurinn hófst, við tökum því fagnandi og eru allir sjálfboðaliðar velkomnir “ Góðgerðarsamtökin eru um það bil að hefja vinnu við nýtt friðland, þar á meðal 200 hektara skóglendi, á Langholm Moor.
Mun þessi þróun halda áfram? Clark hjá RHS telur það. „Þetta er eins og vakning,“ segir hún. „Þegar fólk byrjar að taka þátt í samfélagsverkefnum og eða byrjar að rækta hluti er það ekki eitthvað sem það hættir svo auðveldlega að gera. Þetta verður hluti af lífi þínu. “
Það væri forvitnilegt að vita hvort sama hugafar og samheldni í baráttunni við loftslagsvandann ríki á Íslandi?
heimild
theguardian.com - Skrifræði sveitarstjórna tefur skógræktby Kolefnislosun
Birtist fyrst í frettabladid.is 11/04/2021
Dæmi eru um að skógræktaráform einstaklinga og félagasamtaka tefjist vegna skipulagshindrana sveitarfélaga. Skógræktarstjóri Skógræktar ríkisins segir þetta „verulegt áhyggjuefni“ sem stafi fyrst og fremst af skrifræði einstaka sveitarstjórna.
réttablaðið greindi nýlega frá töfum á fyrirhugaðri skógrækt í landi Skálholtskirkjustaðar vegna skipulagshindrunar. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar synjaði verkefninu um framkvæmdaleyfi á grundvelli þess að breyta þyrfti deiliskipulagi svæðisins en áformað hafði verið að rækta svokallaðan loftslagsskóg til kolefnisjöfnunar í samstarfi við Kolviðarsjóð.
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri Skógræktarinnar, segir þetta ekki vera einsdæmi en hann segir sambærileg mál koma upp nokkrum sinnum á ári:
„Það er verulegt áhyggjuefni, þegar við erum að reyna að setja okkur markmið í skógrækt, til dæmis að binda miklu meira kolefni frá andrúmsloftinu, að það séu þá svona hlutir sem letja mjög áhuga fólks á að rækta skóg. Það er hægt að drepa hann algjörlega niður og við vitum um dæmi þess að fólk hafi gefist upp og hætt við,“ segir Þröstur.
Hafa ekki efni á að borga hálfa milljón í startgjald
Guðmundur Einar Skagalín Traustason er formaður Skógræktarfélags Álftafjarðar sem áformað hafði að sækja um framkvæmdaleyfi til skógræktar á 6 hektara landi í Múlaþingi. Guðmundur sendi inn óformlega fyrirspurn til sveitarstjórnarinnar í febrúar á þessu ári til að spyrjast fyrir um mögulegan kostnað við meðferð málsins. Landið sem um ræðir er skilgreint sem landbúnaðarland og fékk Guðmundur þau svör að nauðsynlegt væri að fara út í breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins áður en hægt væri að hefja skógrækt á landinu.
Skipulagsfulltrúar Múlaþings gáfu Guðmundi þau svör að kostnaðurinn við slíkar skipulagsbreytingar myndi nema tæpum 500.000 krónum en Guðmundur segir skógræktarfélagið ekki hafa efni á slíku, þar sem um sé að ræða fámennt félag áhugamanna:
„Við erum fimmtán manns í þessu félagi, við getum ekki slegið út hálfri milljón í startgjald. Við eigum eftir að gera girðingu, sem við náttúrlega kostum sjálf, og við getum ekki farið að borga fyrst hálfa milljón, svo að girða og svo að planta. Þetta gengur ekki upp,“ segir Guðmundur.
Í pattstöðu milli sveitarstjórnar og Minjastofnunar
Jakob K. Kristjánsson, landeigandi á Hóli í Hvammssveit, sótti um framkvæmdaleyfi hjá sveitarstjórn Dalabyggðar til skógræktar ásamt tveimur öðrum landeigendum haustið 2019. Umsóknirnar voru samþykktar í mars 2020 en voru þó bundnar þeim skilyrðum að fyrir þyrfti að liggja umsögn Minjastofnunar Íslands um fornminjar og samþykki eigenda aðliggjandi jarða.
Þegar Jakob óskaði eftir umsögn Minjastofnunar fékk hann hins vegar það svar að ekki væri hægt að veita hana þar sem Dalabyggð hefði ekki lokið fornleifaskráningu í tengslum við aðalskipulag sveitarfélagsins. Honum var því gefinn sá kostur að láta sjálfur framkvæma fornleifaskráningu á eigin kostnað en einu aðilarnir sem geta framkvæmt slíkar skráningar eru sjálfstætt starfandi fornleifafræðingar og getur kostnaðurinn við slíkt hlaupið á hundruðum þúsunda og allt upp í nokkrar milljónir króna.
„Þá ertu kominn með svona Catch-22 dæmi,“ segir Jakob og bætir við að krafan um að umsögn Minjastofnunar liggi fyrir áður en framkvæmdaleyfi sé veitt sé hvergi að finna í lögum.
„Þar með ertu kominn í svona stöðu þar sem að sveitarstjórn afgreiðir ekki málið vegna þess að þeir segja að það sé skilyrði að umsögn Minjastofnunar liggi fyrir, Minjastofnun segir að sveitarstjórn sé ekki búin að ljúka skráningu fornminja í sínu landi, þess vegna geti þau ekki veitt umsögn og skógarbóndinn situr fastur þarna á milli,“ segir Jakob.
Kærðu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála
Jakob og hinir landeigendurnir ákváðu að fara þá leið að kæra málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í lok mars 2020. Úrskurður var gefinn út í október sama ár og samkvæmt honum var ekki lagastoð til að krefjast samþykkis eigenda annarra jarða og var það skilyrði því fellt úr gildi. Skilyrðið um að umsögn Minjastofnunar skyldi liggja fyrir var þó talið lögmætt og látið standa en úrskurðarnefndin mat það svo að skilyrðið hafi þegar verið uppfyllt með bréfum sem Minjastofnun sendi varðandi umræddar jarðir í apríl 2020.
Í úrskurðinum var jafnframt tekið fram að „af hálfu sveitarfélagsins var samþykkt framkvæmdaleyfanna ekki bundin skilyrði um efni umsagnanna heldur einungis að þeirra yrði aflað.“
Jakob segir úrskurðinn vera fordæmisgefandi og það helsta sem megi túlka úr honum sé það að Minjastofnun hafi ekki lagaheimild til að stöðva skógrækt með því að láta ábyrgðina á fornleifaskráningu í hendur landeigenda. Sveitarstjórnir geti beðið um umsögn Minjastofnunar áður en þær veiti framkvæmdaleyfi en þær séu ekki skyldugar til þess og efni umsagnanna sé ekki forsenda fyrir leyfisveitingunni.
„Þannig að niðurstaðan er einfaldlega sú að það er engin lagaheimild fyrir hendi til þess að þessi umsögn Minjastofnunar verði skilyrði og því síður er lagaheimild fyrir hendi að skógarbóndi skuli borga fyrir þessa fornminjaskráningu,“ segir Jakob.
Í kjölfar úrskurðarins fékk Jakob hið langþráða framkvæmdaleyfi og fær hann úthlutað fyrstu plöntunum í vor og getur þá loks hafið hina eiginlegu skógrækt. Þó er ljóst að þessi málaferli hafa sett stórt strik í reikninginn og tafið framkvæmdina um hátt í tvö ár.
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri Skógræktarinnar, segir geðþótta ekki eiga heima í opinberri stjórnsýslu. Mynd/Aðsend Geðþótti á ekki heima í opinberri stjórnsýslu
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri Skógræktarinnar, segir sveitarfélög hafa völd til að hreinlega koma í veg fyrir skógrækt:
„Það er búið að koma hlutum þannig fyrir að sveitarfélög hafa skipulagsvaldið um skipulag lands og þau hafa völd til að bókstaflega koma í veg fyrir skógrækt í sveitarfélaginu. Sveitarfélög geta tekið þá stefnu að beita svona hlutum sem er heimild fyrir í lögum, vissulega, til að koma í veg fyrir að fólk vilji fara í skógrækt og það er með því að gera til dæmis framkvæmdaleyfisferlið óþarflega erfitt, það er með því að túlka skipulagslög óþarflega strangt,“ segir Þröstur.
Skrifræði komi í sjálfu sér ekki í veg fyrir skógrækt en það geti hæglega orðið til þess að hún tefjist eða fæli frá tilvonandi skógarbændur eins og gerðist í máli Guðmundar Einars. Þröstur segir þó vilja vera hjá Skógræktinni til að leysa þau ágreiningsmál sem koma upp á milli skógarbænda og sveitarstjórna.
„Skipulagsvaldið þarf að vera byggt á lögum, geðþótti á ekki heima í opinberri stjórnsýslu, það er það sem þetta snýst um. Fólk sem er ráðið til starfa hefur ýmsar skoðanir, þá er ég að tala um skipulagsfulltrúa, en þegar fólk í stjórnsýslu lætur sínar persónulegu skoðanir hafa áhrif, þá er um geðþótta að ræða og það á ekki heima í opinberri stjórnsýslu,“ segir Þröstur.
frettabladid.is sótt 11/04/2021
- Notendum fjölgað um 72%by Kolefnislosun
Notendum hugbúnaðar Klappa fjölgaði um 72% milli ára. Eru nú ríflega fjögur þúsund í yfir tuttugu löndum.
Hugbúnaðarfyrirtækið Klappir hefur vaxið jafnt á síðastliðnu einu og hálfu ári ári. Félagið hefur undanfarin fimm ár þróað stafrænar lausnir á sviði umhverfismála sem miða að því að lágmarka vistspor. Á síðasta ári fjölgaði notendum hugbúnaðarins um 72%. Klappir eru nú með yfir 300 íslenska hlutahafa, og rúmlega fjögur þúsund notendur í yfir 20 löndum nýta lausnir félagsins. Klappir voru skráðar á First North markað Nasdaq á Íslandi árið 2017.
„Við erum afar ánægð með þann árangur sem hefur náðst að undanförnu og nýjum notendum hefur fjölgað hratt. Lausnirnar sem við höfum þróað mynda einstaka samverkandi heildarlausn á sviði umhverfismála á Íslandi. Með hugbúnaðinum geta fyrirtækir og stofnanir lágmarkað vistspor sitt, tryggt fylgni við umhverfislöggjöf hverju sinni og sýnt fram á árangurinn með því að nota stafræna tækni til að halda grænt bókhald. Á sama tíma er hægt að draga úr rekstrarkostnaði. Stafrænar lausnir okkar styðja við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum og Stafrænt Ísland á mörgum sviðum,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa.
Jón segir að hlutafé Klappa hafi verið aukið í lok síðasta sumars og sjóðstaða félagsins sé góð.
„Við höfum unnið að því að styrkja þjónustuframboð og hugbúnaðarlausnirnar þannig að þær geti mætt nýjum þörfum markaðarins. Lögum og reglugerðum á sviðið umhverfismála fjölgar stöðugt og hratt á alþjóðavísu og það er mikilvægt að hugbúnaður Klappa endurspegli þá þróun. Notendum fjölgaði um 72% á milli ára eða úr 2.328 árið 2019 í fjögur þúsund notendur á síðasta ári. Notendur í yfir 20 löndum nýta nú lausnir okkar og það er mjög ánægjulegt,“ segir Jón.
Tekjur vegna hugbúnaðaráskrifta Klappa hækkuðu um 8,7% á milli ára og EBITDA af reglulegri starfsemi var 25,1 milljón króna. Eigið fé félagsins nemur að sögn Jóns samtals 414,7 milljónum króna og heildareignir 484,5 milljónum króna.
„Við munum áfram leggja áherslu á að styrkja innviði félagsins, efla markaðssetningu og dreifingu á lausnum félagsins bæði hér heima sem og á alþjóðamörkuðum,“ segir Jón.
Hann segir að uppbygging á stafrænni tækni fyrir umhverfismál sé mjög brýnt og Klappir hafi unnið að því að auka og efla umhverfisvitund inn í atvinnulífið á Íslandi. Hann segir það skapa mikil verðmæti fyrir samfélagið. „Við Íslendingar erum í dauðafæri að ná góðum árangri í umverfis- og samélagsmálum í nánustu framtíð.“
Græna hagkerfið fer ört stækkandi
Jón nefnir að íslensk fyrirtæki, sveitafélög og stofnanir sé nú að auka mjög nýtingu á þessum stafræna lausnarpalli.
„Eða vistkerfi eins og við köllum hugbúnaðinn okkar. Umhverfis- og loftlagsmál koma til með að vega sífellt þyngra í rekstri og því er mikilvægara en áður að halda sérstakt grænt bókhald utan um umhverfis- og samfélagsáhrif fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisstofnana. Þau sem hafa náð að sinna þessu vel spara umtalsverðar fjárhæðir þegar þau hafa tekið umhverfismálin föstum tökum. Græna hagkerfið fer ört stækkandi og félög sem eru með allt í góðum málum hjá sér munu fá meiri velvild hjá lánastofnunum og fjárfestum heldur en þau félög sem eru ekki að sinna umhverfismálum og láta þau mæta afgangi. Fyrirtæki verða að sýna fram á ábyrga umhverfisstefnu og að þau séu að vinna í átt að sjálfbærni Með notkun á stafrænni tækni má stuðla að því að vistkeðja fyrirtækja verði sjálfbærari,“ segir Jón.
vb.is sótt 08/04/2021
- Sólmar Marelby Kolefnislosun
Sólmar Marel fjölyrki er mikil áhugamanneskja um mannlífið, atvinnulífið, stöðu fjölyrkja (öryrkja) um tungumálið okkar og orðræðuna um stöðu minnihlutahópa í samfélaginu.
Umræðan um stöðu öryrkja (fjölyrkja) í samfélaginu er neikvæð, sérstaklega þegar horft er til lítillar atvinnuþátttöku þeirra á vinnumarkaði. Bæði vegna fordóma, fyrirkomulags bótagreiðslna og skorts á tækifærum á vinnumarkaði.
Sólmar Marel fjölyrki, ber nafn sem kyngreinir ekki persónuna þar sem bæði nöfnin eru gjaldgeng fyrir konur og karla. Samfélag sem mismunar einstaklingum eftir efnahag og þar sem fordómum er leyft að þrífast missir af hæfileikum og sköpunarkrafti þeirra sem búa við fötlun og skerðingar hverskonar.
Sólmar Marel fjölyrki, vinnur að því að brjóta upp þessa ímynd. Hann er hvetjandi og leiðandi í að skapa jákvæða umræðu og byggja upp nýja ímynd og sýn á getu, hæfileika og framlag fólks í þessari stöðu í samfélaginu.
Nauðsynlegt er að atvinnulífið og fjölyrkjar, snúi sér í sömu átt að þeim möguleikum sem felast í ólíkri lífsreynslu og bakgrunni, því hvert og eitt okkar skiptir máli, sem heild. Öll erum við einstök þó ólík séum.
Sólmar Marel byrjar hvern dag á eftirfarandi:. „Ég skipti máli þegar ég er einn af ykkur.
Sólmar Marel ákvað því að gefa út litla verkefnabók er fyrir þig til að skapa og búa til „ný störf “ og leika þér með ímyndunaraflið og fallegu starfsheitin okkar, þú manst við erum í þessu saman.
Smelltu á myndina af mér ef þú vilt eignast bókina á kostnaðarverði eða bara fá að vita meira um Sólmar Marel Ávinningur umræðu um getu og framlag fjölyrkja (öryrkja) til samfélagsins dregur úr fordómum og eflir sjálfstraust og sjálfsmynd fólks í þeirri stöðu.
Umræðan og aðgerðir geta klárlega verið atvinnurekendum hvatning til að virkja og nýta mannauð fjölyrkja (öryrkja) betur, þannig fellur hún afar vel að samfélagslegum ávinningi heildarinnar.
Við erum samfélag allra.
- Meniga fær 1,5 milljarða fjármögnun og hjálpar fólki að áætla kolefnissporiðby Guðrún Pétursdóttir
Íslenska fjártæknifyrirtækið Meniga hefur tryggt sér 1,5 milljarðs króna fjármögnun. Fjármögnunin var leidd af hollenska fjárfestingasjóðnum Velocity Capital Fintech Futures og íslenska fjárfestingasjóðnum Frumtak Ventures.
Aðrir þátttakendur voru sænski fjárfestingasjóðurinn Industrifonden, breski sjóðurinn UK Future Fund og bankarnir UniCredit, Swedbank, BPCE og Íslandsbanki. Þessir bankar og fjárfestingasjóðir eiga það sameiginlegt að hafa verið lengi í hópi eigenda og viðskiptavina Meniga.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu sem segir að heimsfaraldurinn hafi valdið því að eftirspurn eftir stafrænni bankaþjónustu hafi stóraukist um allan heim. Bæði hafi faraldurinn gert það að verkum að aðgengi að útibúum hafi verið skert sökum fjöldatakmarkana og þá þurfi margir meiri aðstoð við heimilisfjármál sín.
Gera notendum kleift að sjá áætlað kolefnisspor
Að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins verður sölu- og þjónustuteymi Meniga eflt til að mæta þessari auknu eftirspurn á heimsvísu auk þess sem áhersla verði lögð á vöruþróun og nýsköpun.
„Sérstaklega verður horft til þróunar og markaðssetningar á vörum þar sem fjártækni og umhverfismál koma saman. Á meðal nýrra vara Meniga er umhverfisvaran Carbon Insight en hún gerir bönkum mögulegt að valdefla viðskiptavini sína í umhverfismálum. Með Carbon Insight geta notendur netbanka séð áætlað kolefnisspor á einkaneyslu sinni og gripið til aðgerða til lágmarka það. Vörunni er ætlað að hjálpa fólki um allan heim að berjast við loftlagsbreytingar.“
Vaxandi eftirspurn eftir grænum lausnum
Minnst fjórir bankar í jafnmörgum löndum munu taka nýja lausn Meniga í gagnið á þessu ári. MENIGA Georg Lúðvíksson, forstjóri og meðstofnandi Meniga, segir starfsfólk vera mjög ánægt með áframhaldandi stuðning fjárfesta.
„Nýtt fjármagn mun gera okkur kleift að markaðssetja vörur okkar til væntanlegra viðskiptavina um allan heim. Carbon Insight er gott dæmi um vöru sem mikill áhugi er á en að minnsta kosti fjórir bankar í jafnmörgum löndum munu taka hana í gagnið á þessu ári og við sjáum vaxandi eftirspurn eftir henni hjá bönkum um allan heim,“ segir Georg í tilkynningu.
Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtak Ventures, segir sjóðstýringafyrirtækið vera sannfært um að Meniga hafi mjög spennandi vaxtarmöguleika.
„Meniga hefur fest sig í sessi sem öflugur brautryðjandi í fjártæknilausnum fyrir helstu banka um allan heim, en sá markaður er nú í örum vexti sem aldrei fyrr,“ segir Svana í tilkynningu.
Um 160 starfsmenn starfa nú hjá Meniga sem er með skrifstofur í sjö löndum. Að sögn fyrirtækisins hefur hugbúnaður þess verið innleiddur hjá yfir 160 fjármálastofnunum og er aðgengilegur yfir 90 milljónum einstaklinga í 30 löndum.
visir.is sótt 25/03/2021
- Krefjast þess að fá sæti við borðið þar sem loftslagsmálin eru ræddby Kolefnislosun
Verkalýðshreyfingin þarf að eiga sæti við borðið til að hægt sé að tryggja réttlát umskipti yfir í kolefnislaust samfélag.
Verkalýðshreyfingin þarf að eiga sæti við borðið til að hægt sé að tryggja réttlát umskipti yfir í kolefnislaust samfélag. Loftslagsmál er líka hagsmunamál launþega. Þetta segir hagfræðingur BSRB. Ný skýrsla ASÍ, BHM og BSRB sem unnin er í samvinnu við norræn og þýsk bandalög stéttarfélaga varpar ljósi á stöðu Íslands og kröfur verkalýðshreyfingarinnar um réttlát umskipti.
Stéttarfélögin leggja til að vinnuhópi verði komið á fót sem hafi það hlutverk að leggja grunninn að stefnu um réttlát umskipti á Íslandi. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB var spurð hvað fælist í réttlátum umskiptum í loftslagsmálum.
„Það þarf að hámarka áhrifin af aðgerðum til að ná kolefnishlutleysi en lágmarka kostnaðinn sem launafólk og almenningur þarf að bera af þeim aðgerðum.“
Vilja koma að stefnumótun
Gæta þurfi að því að kostnaður dreifist ekki með ósanngjörnum hætti. Sigríður segir að hingað til hafi verkalýðshreyfingin ekki átt sæti við borðið þar sem stefna og aðgerðir til að draga úr losun eru mótaðar.
„Við teljum það algjörlega fráleitt því þarna eru ríkir hagsmunir launafólks og almennings og við eigum að sitja við borðið þar sem verið er að fjalla um slíka hagsmuni. Við erum vön því í málefnum sem varða atvinnuleysistryggingar, lífeyrismál, húsnæðismál og fæðingarorlof. Loftslagsmálin eru líka stórt hagsmunamál fyrir launafólk og almenning.“
Kalla eftir greiningu á áhrifum á vinnumarkað
Stjórnvöld verði að tryggja fólki atvinnu- og afkomuöryggi. Ekki sé ljóst hvers konar áhrif breytingarnar muni hafa á vinnumarkað.
„Því hefur aldrei verið gefinn gaumur af stjórnvöldum og það verður að gera greiningu á því svo við áttum okkur á þessu. Þetta tengist líka fjórðu iðnbyltingunni. Störf munu hverfa. Þetta tengist allt og þetta þarf að skoða sérstaklega og grípa til ráðstafana svo fólk styðji þær breytingar sem nauðsynlegar eru.“
Bregðast þurfi við sem allra fyrst.
„Við höfum tíu ár til stefnu til að forða mestu hamförunum og það segir sig sjálft að þá þurfa að verða breytingar á framleiðsluferlum, orkunotkun og neyslumynstri en það eru líka gríðarleg tækifæri til að fjárfesta í lausnum sem eru loftslagsvænar.“
Skapa þurfi ný störf og góð störf sem séu loftslagsvæn.
„Og þá skiptir máli að fólk fái tækifæri til að mennta sig fyrir ný störf og hafi atvinnu og afkomuöryggi þannig að það er alls ekki þannig að þetta beri dauðann í sér heldur verðum við að vera hugrökk og framsækin til að nýta þau tækifæri sem við höfum.“
visir.is sótt 22/03/2021
- Ef lífið gefur þér sítrónur eða kannski bara appelsínurby Guðrún Pétursdóttir
Á vorin er loftið í Sevilla ljúft og ilmar af azahar, appelsínublóminu, en 5,7milljón kílóa af beiskum ávöxtum 48.000 trjáa falla á götur borgarinnar á veturna sem skapa hættu fyrir vegfarendur og höfuðverk fyrir hreinsunardeild borgarinnar.Spænskir verkfræðingar hafa uppfært gömlu sítrusklisjuna og yfirfært hana yfir í umhverfisvernd - þegar lífið gefur þér appelsínur, búðu til rafmagn. Í Sevilla er byrjað að endunýta mörg tonn af ávöxtum sem falla til jarðar af 48.000 appelsínutrjám borgarinnar. Í stað þess að að þær rotni á götum borgarinnar flestum til ama og óþrifnaðar, mun metanið úr þessum rotnandi appelsínum fljótlega verða að hreinni orku.
Vatnsfyrirtæki í eigu Sevilla borgar, Emasesa, mun hefja þessa vegferð með því að nota 35 tonn af ávöxtum í verksmiðju sem þegar býr til rafmagn úr lífrænum úrgangi. Metanið sem verður tekið úr gerjuðum appelsínum mun knýja rafala fyrir vatnshreinsistöðvar borgarinnar. Ef appelsínugula tilraunin verður árangursrík gætu gamlir ávextir einhvern tíma framleitt meira rafmagn heldur en vatnsfyrirtækin þurfa að nota og því verði til afgangsafl. Vísindamenn greina frá því að fyrstu prófanir sýniram á að 1.000 kíló af appelsínum geti fullnægt rafmagnsþörf fimm heimila í sólarhring. Ef allar appelsínur Sevilla væru notaðar gætu þær framleitt rafmagn fyrir 73.000 heimili.
„Emasesa er nú fyrirmynd á Spáni fyrir sjálfbærni og baráttu gegn loftslagsbreytingum,“ sagði Juan Espadas Cejas, borgarstjóri Sevilla, á blaðamannafundi við upphaf verkefnisins. „Nýjar fjárfestingar beinast sérstaklega að vatnshreinsistöðvum sem nota næstum 40% af þeirri orku sem þarf til að sjá borginni fyrir neysluvatni og hreinlætisaðstöðu,“ sagði hann. „Þetta verkefni mun hjálpa okkur að ná markmiðum okkar um að draga úr losun, auka sjálfbærni og stuðla að hringlaga hagkerfi.“
„Við vonum að innan tíðar náum við að endurvinna allar appelsínur borgarinnar,“ sagði Benigno López, yfirmaður umhverfissviðs Emasesa, eins og The Guardian greindi frá. „Safinn er ávaxtasykur sem samanstendur af mjög stuttum kolefniskeðjum og því er árangur þessara kolefniskeðja við gerjunina er mjög mikill. Þetta snýst ekki bara um að spara peninga. Appelsínurnar eru vandamál fyrir borgina og við framleiðum verðmæti úr úrgangi. “ López áætlaði að Sevilla þyrfti að fjárfesta fyrir um 250.000 evrum til þess að verkefnið verði að veruleika.
Appelsínurnar eru til prýði meðan þær eru á trjánum en þegar þær falla og merjast undir hjólum bíla verða göturnar klístraðar af safa og svartar af flugum. Þær eru beiskar og eru því ekki borðaðar og þess vegna fer svona fyrir þeim, fjöldi manns starfar við að hreinsa þær upp af götunni til að gera borgarbúum lífið bærilegra.
Spánverjar kynntust appelsínutrjánum fyrir um 1000 árum frá Aröbum en þær eiga uppruna sinn í Asíu. „Tréin hafa fest rætur hér og eru ónæm fyrir mengun og hafa aðlagast svæðinu vel,“ sagði Fernando Mora Figueroa, yfirmaður garðadeildar Sevilla. „Fólk segir að borgin Sevilla sé stærsti appelsínulundur heimsins.“
Það verður því spennandi að fylgjast með því hvernig þessu verkefni vindur fram í náinni framtíð og hvort villtustu draumar Sevilla rætast. Verður Sevilla fyrsta borgin í heiminum til að búa til rafmagn til heimilisnota úr appelsínum?
Heimild:
The Guardian - Framleiða prótein úr þörungum og losa bara súrefniby Kolefnislosun
Á Hellisheiði eru áform um að stækka til muna verksmiðju sem framleiðir umhverfisvænan próteingjafa. Hugmyndin var sniðin að aðstæðum við Hellisheiðarvirkjun og eini úrgangur frá verksmiðjunni er súrefni.
Gera má ráð fyrir að á næstu 30 árum verði jarðarbúar orðnir um 10 milljarðar talsins - og þann fjölda þarf að brauðfæða. Fyrirtækið Vaxa technology var stofnað árið 2017. Í verksmiðjunni eru ræktaðir þörungar í kerjum. Hugmyndin kemur frá bandarískum og ísraelskum hópi vísindamanna og fjárfesta sem komu hingað til lands og klæðskerasniðu hugmynd sína að Hellisheiði.
„Við fáum orku, við fáum rafmagn, við fáum heitt og kalt vatn, við fáum kælivatn. Við erum með landið hérna frá ON og kerfið er hannað utan um þessi atriði til að búa til mat á sem hagkvæmastan og þægilegastan hátt með eins litlu umhverfisspori og hægt er,“
Og hvert er umhverfissporið?
„Neikvætt. Við erum með neikvætt sótspor,“ segir Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri Vaxa technology á Íslandi.
Þörungar eru einfruma lífverur sem ljóstillífa. Þeir fá orku frá LED ljósum í stað sólarljóss og umbreyta koltvísýringi og vatni í lífmassa. Daglega er svo tekið jafn mikið út úr kerfinu og vex þar á dag. Útkoman, lífmassinn, er góður próteingjafi. Matvælaframleiðsla framtíðarinnar stendur frammi fyrir mikilli áskorun við að fullnægja vaxandi próteinþörf jarðarbúa.
„Varan okkar er fólgin í biomassa. Þörungurinn hann fjölgar sér með frumuskiptingu þannig að hann tvöfaldar sig á ákveðnum tíma, og eina afgangsvaran, eða úrgangsvaran er súrefni,“ segir Kristinn.
Stærstur hluti framleiðslunnar er fluttur til útlanda, og er notaður til manneldis, í fiskafóður, litarefni í matvæli, snyrtivörur og fleira.
„Við erum á fósturstigi í dag, við erum búin að fulllesta fyrsta húsið okkar sem er 500 fermetrar, erum að byggja 1000 fermetra hús núna, og við munum eyða næstu 12-18 mánuðum í að fulllesta það með vélum. Svo er planið að stækka úr 500 fm í 15.000 fm.
Einnig var fjallað var um verksmiðjuna í þáttunum Hvað getum við gert? sem má sjá hér.
ruv.is sótt 07/03/2021
- Rauð viðvörun fyrir heiminn allanby Kolefnislosun
Ríki heims verða að taka mun metnaðarfyllri skref til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ætli þau sér að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og tryggja að meðalhitastig á jörðu hækki ekki um meira en tvær gráður – helst undir 1,5 gráðum — fyrir árið 2100.
Ný skýrsla loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna sýnir að uppfærð eða ný landsmarkmið sem ríki heims hafa skilað inn myndu aðeins skila þeim um 0,5% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda milli áranna 2010 og 2030.
Þetta hlutfall þyrfti að vera 45% til að ná metnaðarfyllra markmiði Parísarsamkomulagsins, um 1,5 gráða hámarkshækkun, en 25% til að ná hinu, um 2 gráða hámarkshækkun. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna kallar skýrsluna rauða viðvörun fyrir heiminn allan.
Aðeins 74 ríki, sem samanlagt standa undir 30% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, höfðu sent inn uppfærð eða ný landsmarkmið fyrir árslok 2020 eins og þeim bar skylda til. Ísland var ekki eitt þeirra, en uppfærð markmið Íslands voru send inn nú í síðasta mánuði og eru því ekki í skýrslunni.
Metnaðarleysi hjá íslenskum stjórnvöldum
Uppfært landsmarkmið Íslands kveður á um þátttöku í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, samanborið við árið 1990. Ríki ESB, ásamt Íslandi og Noregi, stefna því að því að draga úr losun á svæðinu í heild um 55% en fyrirhugað er að ná markmiðinu meðal annars með þátttöku fyrirtækja í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir ásamt kröfum um hlutfallslegan samdrátt fyrir hvert ríki sem úthlutað er samkvæmt innri reiknireglum markmiðsins. Má gera ráð fyrir að fyrir Ísland hljóði það upp á um 40% samdrátt.
„Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar ekki sett sér sjálfstætt markmið um samdrátt í losun,“ segir Tinna Hallgrímsdóttir, varaformaður Ungra umhverfissinna. Þessu sé öðruvísi farið í Noregi en landsmarkmið Noregs staðfestir áframhaldandi þátttöku í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja ásamt því að setja sjálfstætt markmið fyrir ríkið um 50-55% samdrátt í heildarlosun án landnotkunar.
„Það sýnir ákveðna stefnufestu í málaflokknum að setja fram eigið markmið. Við hefðum viljað sjá sjálfstæðan metnað hjá íslenskum stjórnvöldum sem sýna hversu mikinn vilja þau hafa til að draga úr losun, í stað þess að fylgja einungis þeim samdrætti sem okkur verður úthlutað og ekki setja markið neitt hærra,“ segir Tinna. Ísland hafi lýst því yfir að það ætli að vera leiðandi í loftslagsmálum, en það sé ekki að sjá á aðgerðum stjórnvalda.
Þá hafa samtökin vakið athygli á skorti á áþreifanlegum markmiðum. „Til stendur að lögfesta markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, en við erum ekki með neitt lögfest markmið í millitíðinni.“
Losun ríkja enn að aukast
Þegar kemur að loftslagsmálum er stjórnvöldum tamt að setja sér háleit markmið langt fram í tímann. Ef orðum fylgja ekki gjörðir verða það seinni tíma stjórnmálamenn sem þurfa að súpa seyðið. Þannig hafa ríki sett sér ýmis markmið um tiltekinn samdrátt um losun gróðurhúsalofttegunda fyrir tiltekið ártal, svo sem 2030, en þar með er ekki sagt að samdrátturinn sé hafinn.
Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt landsmarkmiðum ríkjanna 74 verði samanlagður útblástur þeirra af gróðurhúsalofttegundum 2,2 prósentum meiri árið 2025 en var árið 2010, eða sem nemur 14,03 gígatonnum af koltvísýringsígildum. Á árunum 2025-2030 á svo að bæta upp fyrir það með þeim afleiðingum að losun verður 0,5 prósentum minni en árið 2010. Sem fyrr segir þarf sá samdráttur að vera 25-45% eigi markmið Parísarsamkomulagsins að nást.
Vert er þó að taka fram að skýrslan endurspeglar aðeins aðgerðir þeirra 74 ríkja sem sendu inn uppfærð eða ný landsmarkmið fyrir áramót og því er möguleiki að staðan breytist er öll ríki hafa sent inn sín markmið. Hins vegar þykir skýrslan sýna svart á hvítu hve sterk þörf er á róttækari aðgerðum af hálfu þeirra aðildarríkja sem ekki voru með í skýrslunni, eigi að ná markmiðum sáttmálans.
mbl.is sótt 07/03/2021
- Að snúa vörn í sóknby Guðrún Pétursdóttir
Nzambi Matee er frumkvöðull með frábær markmið sem eru að breyta plasti, sem annars væri urðað, í sjálfbært, sterkt byggingarefni. Fyrirtæki hennar, Gjenge Makers, notar plastúrgang og býr til úr honum múrsteina sem hafa tvöfalt burðarþol á við steypu.
Gjenge Makers hefur aðsetur í Naíróbí í Kenía, þar sem mengun vegna plastsúrgangs er orðið alvarlegt vandamál. Rannsókn sem studd var af National Environmental Management Agency (NEMA) leiddi í ljós að meira en helmingur nautgripa nálægt þéttbýli í Kenía voru með plast í maganum. Til að berjast gegn þessu lögleiddu stjórnvöld í Kenía bann við notkun plastpoka árið 2017 og á síðastað ári bönnuðu þeir notkun einnota plasts á náttúruverndarsvæðum. Bannið nær þó aðeins til einnota plasts neytenda. Plastúrgangur frá verslunum og þjónustu er ennþá stórkostlegt vandamál þar í landi eins og víða annars staðar.
Nzambi Matee sagði blaðamönnum að hún væri „þreytt á því að vera bara á hliðarlínunni“ og ákvað því að taka til sinna ráða og finna gagnlega lausn fyrir plastúrgang. Með ferli og kunnáttu í efnisverkfræði hannaði hún múrstein úr endurunnu plasti og sandi, þjappað og hitað þannig að úr varð sterkur og sjálfbær valkostur við steypu. Trefjarík uppbygging plastsins gerir það ekki aðeins léttara heldur einnig minna brothætt en steypu.
„Varan okkar er um það bil fimm til sjö sinnum sterkari en steypa,“ sagði Matee við Reuters um nýjustu framleiðslu múrsteina Gjenge Makers. Hún kaupir plast frá endurvinnslufyrirtækjum og fær einnig fríar sendingar af plastúrgangi frá umbúðaverksmiðjum. Eins og stendur getur verksmiðjan Gjenge Makers framleitt allt að 1.500 múrsteina á hverjum degi.
https://youtu.be/QbZKP4UAtL8Fyrirtækið býður músteina til íbúða- og atvinnuhúsnæðisbygginga. Múrsteinn sem er 60 mm er nógu sterkur til þess að hægt sé að nota hann í bílastæði og vegi, 30 mm múrsteininn er hægt að nota fyrir garða og gangstíga. Þessi létti múrsteinn hefur tvöfaldan styrk steypu og kemur að auki í mögum litum.
Framleiðslan er aðeins á byrjunarreit en nú þegar hefur verksmiðjan samt endurunnið 20 tonn af plasti síðan 2017 og skapað 120 störf í Naíróbí. Að auki eru Gjenge múrsteinar hagkvæmur valkostur á markaðnum. Þeir kosta um það bil $ 7,70 á fermetra, á móti $ 98 á fermetra garð þar sem notuð væri steypa sem framleidd er í Bandaríkjunum.
Að sögn Matee hefur þetta ekki alltaf verið dans á rósum og hún segir: "Ég stökk eiginlega fram af bjargbrún án þess að hafa svo mikið sem fallhlíf. Í frjálsa fallinu var ég á sama tíma að byggja upp fyrirtækið. En er það ekki þá sem frábærir hlutir gerast?"
Með frumkvöðlum eins og Matee kveiknar vonarljós um að hægt sé að snúa á mengunarkreppuna í heiminum. Til að lesa meira um ferli og áhrif Gjenge Makers geturðu farið á heimasíðu þeirra eða YouTube rás. Þú getur líka smellt hér til að fræðast meira um leiðir til að berjast gegn plastmengun.
Tengdir pistlar:
Vilt þú halda áfram að tilheyra plastkynslóðinni?
Plast, böl eða blessun?Heimild EcoNews
- BYKO leggur áherslu á sjálfbærniby Kolefnislosun
BYKO vinnur að innleiðingu fjögurra heimsmarkmiða SÞ inn í alla starfsemi fyrirtækisins.
BYKO leggur mikið upp úr samfélagsábyrgð og sjálfbærni til framtíðar. Stjórnendur og starfsfólk leggja mikið upp úr góðum stjórnunarháttum og áherslu á jákvæð langtímaáhrif á starfsemina.
Samfélagsábyrgð hefur verið hluti af rekstri BYKO frá stofnun þess árið 1962 en þá stunduðu eigendur garðrækt og síðar meir skógrækt til að láta gott af sér leiða til náttúrunnar, segir Berglind Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfismála hjá BYKO.
„Fyrirtækið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á umhverfismál og samfélagsábyrgð en nú er tímabært að hugsa lengra inn í reksturinn með sjálfbærni að leiðarljósi. Sjálfbærni byggist ekki eingöngu á umhverfismálum, heldur einnig á félagslegum þáttum, menningarmálum, heilsu og velferð og efnahagslífi.“
Viðurkennd umhverfismerki
BYKO hefur sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs, mæla árangurinn og upplýsa um stöðu mála, segir Berglind.
„Við leggjum áherslu á að umhverfisvottuðu vörurnar okkar séu vottaðar af óháðum aðilum og að umhverfismerkin séu viðurkennd merki. Timbur er almennt umhverfisvænt byggingarefni og allt okkar timbur kemur frá sjálfbærri skógrækt en vottun á skógrækt þýðir að timbrið sé ræktað samkvæmt ákveðnum sjálfbærniviðmiðum. BYKO kaupir rekjanleikavottað timbur þar sem allir helstu birgjar fyrirtækisins eru með rekjanleikavottun.“
Árið 2019 setti BYKO sér heildstæða sjálfbærnistefnu byggða á þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtækið vinnur að ásamt því að gefa út fyrstu samfélagsskýrslu fyrir rekstrarárið 2019.
Ánægðara starfsfólk
Berglind Ósk Ólafsdóttir verkefnisstjóri umhverfismála hjá BYKO segir það mestu máli skipta, bæði í dag og til framtíðar, að starfsfólki fyrirtækisins líði sem best í vinnunni, að upplifun viðskiptavina sé sem best og að þekking og upplýsingagjöf skili sér til neytenda, viðskiptavina, starfsfólks og birgja fyrirtækisins.
„Helsti ávinningur samfélagsábyrgðar gefur betri og skýrari rekstur, rekstrarsparnað og hjálpar stjórnendum að greina helstu áhættuþættina, greina hvar tækifærin eru, hvar sóun er og gefur fyrirtækjum samkeppnisforskot á markaði. Starfsfólk verður einnig ánægðara, horft er til heilsu og öryggis starfsmanna og síðast en ekki síst vilja fyrirtæki mæta komandi kynslóðum þar sem þau hafa skyldur gagnvart þeim að ganga ekki um of á takmarkaðar auðlindir jarðar.“
Vistvæn byggingarefni
Byggingariðnaðurinn hefur lykilhlutverki að gegna í loftslagsmálum og er hann ábyrgur fyrir um 39 prósent af kolefnislosun og 40 prósent af úrgangsmyndun á heimsvísu, að sögn Berglindar.
„BYKO ber ábyrgð í þeirri virðiskeðju og í gegnum sjálfbærnistefnu fyrirtækisins leggjum við áherslu á að geta boðið upp á vistvæn byggingarefni í öllum okkar vöruflokkum til framtíðar. Þá skiptir máli að fræðsla sé í fyrirrúmi, bæði í innra starfi, þar sem starfsfólk okkar fær reglulega þjálfun í umhverfismálum og vistvænum byggingarefnum, sem og að fræða markaðinn um vistvænt vöruframboð og geta boðið viðskiptavinum upp á þann valmöguleika að velja vistvænni efni.“
Hvatning til nýsköpunar
BYKO hefur einnig skilgreint vistvænt vöruframboð sem hentar vel í framkvæmdir sem eiga að vera BREEAM vottaðar, en það er ákveðið vistvottunarkerfi sem kom fyrst fram árið 1990.
„Í dag er BREEAM með yfir 80 prósent markaðshlutdeild í Evrópu þegar kemur að mati á umhverfisáhrifum bygginga. Kerfið hefur verið mikil hvatning til nýsköpunar í byggingageiranum og er notað í yfir 70 löndum á heimsvísu. BYKO hefur því skilgreint inn á heimasíðu sinni þær vörur sem henta fyrir BREEAM annars vegar og Svaninn hins vegar.“
Fyrir nokkrum árum tók BYKO þátt í verkefni í samstarfi með Visthús þar sem fyrsta Svansvottaða íbúðarhúsið var byggt á Íslandi.
„Þar öðluðust starfsmenn BYKO mikla reynslu og þekkingu gagnvart vistvænum byggingum en hlutverk fyrirtækisins var að koma með vistvæn byggingarefni, annaðhvort Svansvottaðar vörur eða vörur sem væru leyfilegar í Svansvottuð hús.“
Einnig hófst nýlega samstarf milli BYKO og Visthönnunar um byggingu Svansvottaðs einbýlishúss í Hafnarfirði.
„Þar veitum við Visthönnun ráðleggingar varðandi efnisval. Með tilkomu þess verkefnis munum við geta miðlað þekkingu okkar áfram og öðlast nýja sýn og nálgun á Svansvottuð verkefni.“
Auknar kröfur hins opinbera
Í gegnum umhverfisstefnu fyrirtækisins býður BYKO upp á valmöguleikann á að kaupa vistvænni byggingarefni og hjálpa viðskiptavinum sínum með því að útvega ýmis gögn, til dæmis vottanir á verkefni sem er verið að byggja eftir ákveðnum vistvottunarkerfum, eins og til dæmis BREEAM.
„Þetta styður til að mynda við heimsmarkmiðið um ábyrga neyslu og framleiðslu. Ríki og sveitarfélög eru í auknum mæli farin að gera auknar kröfur um að byggingaraðilar byggi eftir ákveðnum vistvottunarkerfum. Svona kerfi taka á mörgum þáttum en vægi byggingarefna er þó mismikið," segir Berglind.
Með því að birta rétt gögn, til dæmis umhverfisyfirlýsingar eða hvers kyns vottanir sem til þarf í slík vottunarkerfi, þá er BYKO að auðvelda viðskiptavinum sínum, til dæmis hönnuðum, verkfræðingum, arkitektum og verktökum sem eru að byggja eftir slíku kerfi, að afla sér þessara gagna á auðveldari hátt.
„Við birtum þessi gögn í gegnum vöruframboð okkar á heimasíðu BYKO og með því móti geta þeir sem þurfa sótt sér þessi gögn sjálfir og fengið þau stig sem til þarf í viðkomandi vottunarkerfi, en BREEAM vottunarkerfið byggist á stigagjöf úr ýmsum flokkum, og er byggingarefni einn af þeim flokkum.“
Meðvituð um hlutverk sitt
Berglind segir samfélagsábyrgð og sjálfbærni skipta BYKO mjög miklu máli til framtíðar og að stjórnendur fyrirtækisins leggi mikið upp úr góðum stjórnarháttum og áherslu á jákvæð langtímaáhrif á starfsemina.
„Áskoranir BYKO liggja í að gera byggingariðnaðinn og byggingarefni á Íslandi umhverfisvænni. Við viljum stuðla að aukinni notkun timburs, bjóða upp á byggingarefni sem hafa ekki skaðleg áhrif á umhverfið eða heilsu fólks og minnka kolefnisspor við flutninga, hvort heldur sem er innanlands eða á milli landa.
BYKO er leiðandi birgi byggingarefnis á Íslandi og gerir sér grein fyrir sínu hlutverki og ábyrgð.
Sjá nánar á byko.is
Þessi umfjöllun birtist fyrst í sérblaðinu Samfélagsábyrgð fyrirtækja, föstudaginn 25. febrúar 2021.
frettabladid.is sótt 01/03/2021
- Ráðherra leggur fram aðgerðaáætlun orkustefnuby Kolefnislosun
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur lagt fram á Alþingi skýrslu um langtímaorkustefnu og aðgerðaáætlun sem ætlað er að framfylgja markmiðum hennar.
Orkustefnan felur í sér framtíðarsýn og leiðarljós í orkumálum fyrir Ísland til 2050 og byggir á vinnu starfshóps sem skipaður var af ráðherra 2018 með fulltrúum allra þingflokka og fjögurra ráðuneyta. Var hún kynnt opinberlega í október sl. Sjá: www.orkustefna.is
Á grundvelli stefnunnar hefur á vettvangi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis verið unnin aðgerðaáætlun með 38 skilgreindum aðgerðum og verkefnum sem er ætlað að framfylgja stefnunni og styðja við hana. Er sú aðgerðaáætlun nú lögð fram með skýrslu ráðherra til Alþingis sem fylgiskjal við orkustefnuna (bls. 35 og áfram).
Aðgerðaáætlunin fylgir fimm meginstoðum orkustefnunnar um orkuöryggi, orkuskipti, orkunýtni, samfélag og efnahag og umhverfi. Undir hverri meginstoð er að finna skilgreind verkefni og aðgerðir, stöðu hverrar aðgerðar og tengingu hennar við texta orkustefnu.
Sem dæmi um aðgerðir má nefna að stutt verði við uppbyggingu vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu, endurbætur gerðar á regluverki um framkvæmdir, raforkuöryggi skilgreint í lögum, viðmið sett um dreifða framleiðslu og flutningsgetu milli landshluta í þágu orkuöryggis, betri yfirsýn fáist yfir jafnvægi framboðs og eftirspurnar raforku, sviðsmyndir unnar um orkuskipti á hafi, möguleikar Íslands til að verða leiðandi í orkuskiptum í flugi greindir, tækifæri til nýtingar glatvarma kortlagðar, leyfisveitingar einfaldaðar vegna uppfærslu á eldri virkjunum, dreifikostnaður raforku jafnaður um landið og breytingar gerðar á regluverki flutnings- og dreififyrirtækja með aukna hagkvæmni og lægra verð til neytenda að leiðarljósi. Sumar aðgerðirnar eru þegar komnar vel á veg.
„Ein stærstu tíðindi orkustefnunnar er markmiðið um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi 2050 og að mínu mati eigum við að stefna að því að ná því markmiði fyrst allra landa. Það er ekki bara stórt umhverfismál heldur líka stórt efnahagsmál,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
„Markmiðið um sjálfbæra orkuframtíð er stórt og kallar á fjölmargar aðgerðir sem hrinda þarf í framkvæmd. Það er von mín að með þeirri aðgerðaáætlun sem ég hef nú lagt fram sé búið að varða veginn með skýrum hætti til að uppfylla þá metnaðarfullu framtíðarsýn fyrir Ísland sem fram kemur í orkustefnunni,“ segir Þórdís Kolbrún.
Orkustefnu og aðgerðaáætlunina má finna hér .
stjornarradid.is sótt 17/02/2021
- Íslandsbanki gerist aðili að Grænni byggðby Kolefnislosun
Íslandsbanki hefur fyrstur fjármálafyrirtækja á Íslandi gerst aðili að Grænni byggð. Grænni byggð (Green Building Council Iceland) er samstarfsvettvangur um sjálfbæra þróun byggðar og var stofnað árið 2010.
Samtökin eru hluti af World Green Building Council og eru rekin án hagnaðarmarkmiða. Samtökin vinna í rannsóknar- og þróunarverkefnum og halda reglulega fræðsluviðburði sem hvetja til stöðugra umbóta í anda sjálfbærrar þróunar hins byggða umhverfis.
Í október 2020 birti Íslandsbanki sjálfbæran fjármálaramma, þann fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en ramminn nær meðal annars utanum fjármögnun grænna bygginga.
"Íslandsbanki leggur áherslu á að vera hreyfiafl til góðra verka og bjóða upp á vörur sem hvort í senn uppfylla þarfir viðskiptavina okkar og hafa jákvæð umhverfis- og samfélagsleg áhrif. Græn húsnæðislán á hagstæðum kjörum sem bankinn kynnti í síðasta mánuði eru liður í þessari vegferð en við viljum ýta undir fjárfestingu í vistvottuðu húsnæði. Enn sem komið er eru hlutfallslega fáar vistvottaðar byggingar á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin en viðbúið að eftirspurn eftir slíku húsnæði haldi áfram að vaxa. Hlutverk Grænnar byggðar við fræðslu og rannsóknir á sviði sjálfbærrar þróunar á húsnæðismarkaði er mikilvægur liður í að þessi markaður þroskist og við erum stolt af því að styðja við þeirra góða starf með þessum hætti."
Birna Einarsdóttir, bankastjóri ÍslandsbankaÞórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Grænnar byggðar:
"Gífurleg fjárfesting liggur í fasteignum á heimsvísu og um helming allrar auðlindanýtingar má rekja til byggingariðnaðarins. Innan Evrópubandalagsins er kolefnisspor byggingariðnaðarins um 35% af heildarlosun. Aðild Íslandsbanka að Grænni byggð er merki um þá bylgju vitundarvakningar um burði fjárfesta og fjármálageirans til að beita sér fyrir sjálfbærari byggingariðnaði og rekstri bygginga. Grænni byggð fagnar því að fá til liðs við sig jafn sterkan aðila og Íslandsbanka sem fyrsta aðilann úr fjármálageiranum en aðild Íslandsbanka að Grænni byggð markar tímamót fyrir félagið, þar sem nú spanna aðildarfélög Grænni byggðar alla virðiskeðjuna í byggingariðnaði. Við hjá Grænni byggð gerum miklar væntingar til samstarfsins enda er samráð og samvinna hagaðila árangursríkasta aðferðin til framfara í átt að raunverulegum breytingum og sjálfbærari byggð."
islandsbanki.is sótt 17/02/2021
- Erum við að eyðileggja náttúruna með einnota grímum?by Guðrún Pétursdóttir
COVID-19 er stórfellt efnahagslegt og heilsufarslegt vandamál sem veldur félagslegri og efnahagslegri röskun á áður óþekktum skala.
Á tímum COVID-19 verðum við öll að gera auka varúðarráðstafanir til að vernda okkur gegn vírusinum. Þetta felur í sér tveggja metra regluna, sótthreinsun og notkun persónuhlífa eins og grímu og hanska. Það hins vegar veldur því að plastmengun verður enn stærra vandamál en áður. Plastmengun var vandamál löngu fyrir þennan heimsfaraldur en hefur versnað til mikilla muna. Flestar grímur eru gerðar úr endingargóðum plastefnum og þær geta verið í umhverfinu í nokkra áratugi upp í hundruð ára. Jafnvel ónotaðar grímur eru uppspretta örplasts, sem síðan kemst inn í mannslíkamann vegna rangrar förgunar.
Heimsfaraldurinn hefur þýtt það að pantanir á einnota grímum og hönskum hefur rokið upp úr öllu valdi. Talið er að í hverjum mánuði sé um 129 milljarðar andlitsgríma og 65 milljarðar hanska notaðir og fargað á heimsvísu, á tímum covid heimsfaraldursins. Samkvæmt viðskiptaráðgjafafyrirtækinu Grand View Research hefur sala á einnota andlitsgrímum, á heimsvísu, aukist frá áætluðum 800 milljónum Bandaríkjadala árið 2019 í 166 milljarða Bandaríkjadala árið 2020.
Dýralíf og gróður eru í hættu
Götur, strendur og höf hafa orðið fyrir flóðbylgju af úrgangi COVID-19, eins og einnota andlitsgrímum, gúmmihönskum, handhreinsiefnum og matarumbúðum. Hundruð gríma eru dreifðar um strendur og veltast síðan um í hafinu. Sjávardýrum stafar ógn af þessu þar sem þau gleypa þetta eða flækjast í grímum og hönskum, því þau kunna eðlilega ekki að forðast þennan úrgang. Samkvæmt umhverfishópi í Hong Kong, munu meira en 1,5 milljarður einnota andlitsgríma enda í heimshöfunum á þessu ári og þannig menga sjóinn með tonnum af plasti og stofna dýralífi sjávar í hættu.
Dýralíf sjávar er ekki bara í hættu vegna þessa, heldur sér maður reglulega myndir af viltum dýrum sem eru ósjálfbjarga og í lífshættu, við það að hafa flækst í einnota grímum. Maður fer varla um nema rekast á einnota grímur liggjandi á götum Reykjavíkur, þessar grímur fjúka gjarnan og lenda þá á óæskilegum stöðum eins og í gróðri, ám, vötnum og sjónum. Sóðaskapurinn sem af þessu hlýst er ekki bara sjónmengun heldur raunveruleg hætta sem ógnar dýralífi í nágrenni borga og bæja.
Hvað getur þú gert?
Hér eru nokkrar ábendingar sem vert er að hafa í huga þegar kemur að grímunotkun almennings:
- Notaðu fjölnota grímur án einnota sía. Þvoðu þær reglulega í þvottavél eins og leiðbeiningar um efnið segir til um.
- Reyndu að hafa með þér vara grímu svo þú þurfir ekki að nota eða kaupa einnota grímu.
- Ef þú þarft að nota einnota grímu skaltu fara með hana heim og setja hana síðan beint í ruslatunnu með loki. Ef þetta er ekki mögulegt skaltu setja hana í næstu lokaða ruslatunnu.
- Ekki setja einnota grímur í endurvinnsluna, þær eru ekki úr endurvinnanlegum efnum.
- Hvað sem þú gerir, E K K I henda þeim á víðavangi!
Til lengri tíma litið verða stjórnvöld og framleiðendur að leggja sig alla fram um að hanna grímur sem ekki munu skaða jörðina og neytendur ættu að sjálfsögðu að krefjast þess. Andlitsgrímur verða líklega skylda, alls staðar þar sem fólk kemur saman, næstu mánuðina. Það er því mikilvægt að við höfum það í huga að þegar við höfum náð tökum á þessum heimsfaraldri og almenningur verður að mestu hættur að nota einnota grímur, munu umhverfisáhrifin vara í áratugi ef ekki aldir.
Heimildir
Happy Eco News
phys.org - Covid smámál í samanburði við loftslagsvandannby Kolefnislosun
Auðjöfurinn og stofnandi Microsoft, Bill Gates, segir að það að binda enda á kórónuveirufaraldurinn sé „mjög, mjög auðvelt“ í samanburði við það að snúa þróuninni í hlýnun jarðar til betri vegar.
Þá segir Gates að ef mannkynið fyndi lausn á loftslagsvánni væri það „hið magnaðasta sem mannkynið hefur nokkurn tímann gert“. Í samtali við blaðamann BBC segir Gates að fólk ætti ekki að vanmeta stærð áskorunarinnar.
Engin fordæmi fyrir væntanlegum umskiptum
„Við höfum aldrei farið í gegnum umskipti sambærileg þeim sem við ætlum okkur í á næstu 30 árum. Það eru engin fordæmi fyrir þessu,“ segir Gates.
Hann segir tvær tölur mikilvægar í þessu samhengi, núll og 51 milljarður. Hin síðarnefnda stendur fyrir tonnin af gróðurhúsalofttegundum sem bætast við andrúmsloftið árlega en að sögn Gates þarf heimsbyggðin að færa 51 milljarð tonna niður í núll.
Gates segir að tæknin geti aðstoðað heimsbyggðina við að ná því markmiði, nýsköpunarátak á gríðarstórum skala sé svarið við loftslagsvánni. Gates telur að þetta sé ekki mögulegt nema ríkisstjórnir heimsins grípi til aðgerða.
mbl.is sótt 15/02/2021
- Olían er á útleiðby Kolefnislosun
Olíurisinn Shell segir hámarki olíuframleiðslu náð í tilkynningu frá fyrirtækinu. Hámarki hafi verið náð árið 2019 og ekki sé útlit fyrir að annað eins magn olíu verði framleitt í framtíðinni. Losun koltvísýrings hafi náð hámarki árið 2018, þar sem 1.7 gígatonnum af koltvísýringi var sleppt út í andrúmsloftið.
Þessi tilkynning Shell ætti ekki að koma á óvart þar sem niðursveifla hefur verið á olíumörkuðum undanfarin ár. Shell afskrifaði eignir fyrir tæpa 22 milljarða dollara í fyrra og fyrir skemmstu tilkynnti bandaríski olíuframleiðandinn Exxon Mobil um 22 milljarða dollara tap á síðasta ári. Það er stærsta tap fyrirtækisins á einu ári í fjóra áratugi.
COVID-19 faraldurinn hefur átt stóran þátt í erfiðu gengi olíufyrirtækja þar sem orkunotkun hefur minnkað og verð á olíu fallið í samræmi við það. Alþjóðaorkumálastofnunin lýsti því yfir í fyrra að „varasamt“ ástand gæti orðið viðvarandi í bransanum. Í september tók olíurisinn í sama streng og Shell hefur nú gert og sagði að olíutindinum hefði verið náð og fram undan væri niðursveifla í olíuframleiðslu og notkun.
Í tilkynningu Shell kom einnig fram að fyrirtækið stefndi að því að vera hlutlaust hvað losun koltvísýrings varðaði árið 2050, meðal annars með að auka hlut sinn í framleiðslu orku með lífeldsneyti. Rannsóknir benda hins vegar til þess að slík orkuframleiðsla sé litlu minna mengandi en framleiðsla orku með náttúrugasi og dísilolíu.
Shell stefnir að því að hlutur lífeldsneytis og vetnis í orkuframleiðslu þess verði um 10 prósent fyrir árið 2030. Það ætlar sömuleiðis að auka framleiðslu orku með náttúrugasi og bæta slíka framleiðslugetu um sem nemur um sjö milljónum tonna fyrir miðjan áratuginn. Þrátt fyrir Shell ætli sér að eyða þremur milljörðum dollara í endurnýjanlega orkugjafa á komandi árum eyðir það enn tugum milljarða dollara í leit að olíu og náttúrugasi.
Þó svo að Shell telji að hámarksframleiðslu olíu sé náð, sem eru góðar fréttir fyrir umhverfið, mun það hafa slæm áhrif á starfsfólk þess. Það gerir ráð fyrir að aukin framleiðsla orku með endurnýtanlegum aðferðum leiði til þess að um tíu prósentum af starfsfólki þess verði sagt upp.
frettabladid.is sótt 15/02/2021
- Byggjum grænni framtíðby Kolefnislosun
Athygli er vakin á opnum kynningarfundi um spennandi samstarfsverkefni stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerð.
Verkefnið heitir Byggjum grænni framtíð og á rætur sínar að rekja til aðgerðar C.3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.
Viðfangsefnið felst í að afla upplýsinga um losun mannvirkjagerðar á viðmiðunarári (2018), setja markmið um að minnka þá losun til 2030 og skilgreina aðgerðir svo það takist. Síðar á þessu ári verða niðurstöðurnar gefnar út í sérstöku skjali; Vegvísi að vistvænum mannvirkjum 2030.
Um 35 sérfræðingar víðsvegar úr byggingariðnaðinum hafa þegar hafið störf í sex hópum á vegum verkefnisins. Allir hagaðilar eru hvattir til að taka þátt í vinnustofum og samtölum sem munu fara fram á vegum hópanna á næstu vikum og mánuðum. Í vor verða svo drög að niðurstöðunum opnar fyrir umsagnir áður en endanleg útgáfa vegvísisins verður gefin út.
Sérfræðingur HMS er verkefnastjóri verkefnisins en í verkefnastjórn sitja fulltrúar frá Grænni byggð, SI, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Samtökum iðnaðarins og félagsmálaráðuneytinu.
Á kynningarfundi verkefnisins þann 18. febrúar n.k. verður fjallað nánar um þetta spennandi og brýna verkefni, auk þess sem fulltrúar þriggja ólíkra hagaðila fjalla um tækifæri, áskoranir og ávinning varðandi vistvænni mannvirkjagerð út frá þeirra sjónarhorni.
Teams-hlekkur á fundinn er eftirfarandi:
https://teams.microsoft.com/l/meetup-join/19%3ameeting_Y2NiMjZiMWQtNzEyNS00MTNiLTlkNmItN2ViMGJhZTg5ZWEw%40thread.v2/0?context=%7b%22Tid%22%3a%22c7256472-2622-417e-8955-a54eeb0a110e%22%2c%22Oid%22%3a%2277abf675-972e-4f33-b250-0f1b5d4ecd16%22%7dFundurinn er öllum opinn.
Dagskrá:
Fundarstjóri: Lárus M. K. Ólafsson, Samtök iðnaðarins
- Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, HMS, verkefnastjóri Byggjum grænni framtíð „Byggjum grænni framtíð; Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030“
- Sigríður Ósk Björnsdóttir, VSÓ/HÍ, hópstjóri í hóp 6, mælingar „Byggjum grænni framtíð; mælingar og markmið“
- Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks „Byggingarverktakar byggja grænni framtíð: Tækifæri, áskoranir, ávinningur“
- Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga „Sveitarfélög byggja grænni framtíð: Tækifæri, áskoranir, ávinningur“
- Brynjólfur Bjarnason, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka „Fjármálastofnanir byggja grænni framtíð: Tækifæri, áskoranir, ávinningur“
- Spurt og svarað í lok fundar
Frekari upplýsingar um verkefnið verða aðgengilegar á vefsíðunni byggjumgraenniframtid.is, sem verður opnuð formlega á kynningarfundinum.
Þau sem vilja fá tölvupósta með tilkynningum um vinnustofur og aðrar vörður verkefnisins eru hvött til að skrá sig hér: http://eepurl.com/hqgnYX
hms.is sótt 15/02/2021
- Uppbygging á grænni borg fyrir 300 milljarðaby Kolefnislosun
Á næstu tíu árum ætla Reykjavíkurborg og tengdir aðilar að fjárfesta 300 milljörðum króna í að byggja upp græna borg. Mestu fjárfestingarnar verða á næstu þremur árum.
Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á kynningarfundi um græna planið og fjárfestingu Reykjavíkur og fyrirtækja borgarinnar.
Dagur sagði borgina vera að þróast í græna átt og að þörf sé á sóknaráætlun þess efnis. Hann sagði áskoranir vera fyrir hendi, bæði vegna samdráttar í landsframleiðslu og atvinnuleysis, en auk þess umhverfislegar áskoranir m.a. í tengslum við loftslagsbreytingar.
Hann sagði borgina vilja flýta fjárfestingum eins mikið og hægt er á næstu árum og bætti við að framtíðarsýn borgarinnar væri kolefnislaust borgarsamfélag sem væri blómlegt og heilbrigt. Verið væri að fjárfesta í vaxandi borg, öflugri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og grænum innviðum samgangna.
Sömuleiðis nefndi Dagur að gríðarleg fjárfesting væri fyrirhuguð í stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar.
Horft yfir Úlfarsárdal og til norðurs. mbl.is/Sigurður Bogi
1.000 íbúðir í byggingu á hverju ári
Sem dæmi um mestu fjárfestingar borgarinnar á næstu mánuðum sagði hann að 320 milljónir króna færu í innviði í Úlfarsárdal, 250 milljónir í innviði fyrir íbúðabyggð á Ártúnshöfða, auk þess sem hann nefndi m.a. Bryggjuhverfið og Vogabyggð.
Hann sagði borgina sjá fyrir sér að a.m.k. 1.000 íbúðir fari í byggingu á hverju ári og að um 3.000 íbúðir verði í byggingu á hverjum tíma næstu árin í Reykjavík.
Til stendur að leggja 2,7 milljarða króna í samgönguinnviði í borginni á þessu ári. Þar af fara 600 milljónir króna í samgöngusáttmála. Endurnýjuð hjólreiðaætlun verður lögð fram. „Við ætlum að verða hjólreiðaborg sem er framúrskarandi á alþjóðlegan mælikvarða,“ sagði borgarstjórinn.
Miklabraut og Sæbraut í stokk
Hann benti á að borgarlínan verði fyrirferðarmikil þegar fyrstu áfangarnir þar fara af stað. „Við munum líka sjá ótrúlega jákvæða umbreytingu borgarinnar með að Miklabraut og Sæbraut fari í stokk,“ sagði hann og nefndi að umferðin verði rólegri á yfirborðinu. Hjóla- og göngustígar verði betri og að götur þróist í borgargötur með grænna yfirbragði og aðstöðu fyrir alla samgöngumáta.
Dagur minntist á fjölda uppbyggingarsvæða í Vatnsmýrinni í tengslum við atvinnulóðir. Langstærsta svæðið væri Landspítalinn en Vísindagarðasvæði Háskóla Íslands væri einnig mjög stórt. Einnig er vonast eftir meiri uppbyggingu á svæði Háskólans í Reykjavík á næstunni.
Einnig nefndi hann kvikmyndaþorpið í Gufunesi. Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því hvað við erum hratt að þróa kvikmyndaþorp,“ sagði hann og bætti við að fleiri fyrirtæki en RVK Studios væru komin þangað. Fleiri lóðir til umsóknar verði auglýstar á næstu vikum.
Útivistarsvæði á Hólmsheiði
Borgin ætlar jafnframt að setja 10 milljarða króna á þremur árum í stafræna umbreytingu, þ.e. uppfærslu upplýsingakerfa og breytta þjónustu. „Við erum að tala um einföldun á því að nálgast borgina,“ sagði hann.
Lýsing í borginni mun taka stakkaskiptum með LED-væðingu götuljósa og nýtt útivistarsvæði á Hólmsheiði verður opnað. Það kallast Austurheiðar. „Þetta er kannski nýja Heiðmörkin okkar,“ sagði hann og nefndi einnig að þrír milljarðar króna verði settir í innviði grunnskóla árið 2021. Meðal annars eru fyrirhugaðir nýir grunnskólar í Skerjafirði, Vogabyggð og á Ártúnshöfða.
mbl.is sótt 12/02/2120
- Jákvæðar fréttir af ósonlaginuby Kolefnislosun
Magn svonefndra CFC-efna í andrúmsloftinu er farið að dragast saman á nýjan leik. Magn þeirra hafði dregist saman til muna síðustu ár, allt þar til árið 2018 þegar rannsóknir sýndu ólöglega framleiðslu efnanna í Austur-Kína. Sú framleiðsla var stöðvuð og virðist sem það hafi dugað til að snúa þróuninni í rétta átt á ný. BBC greinir frá.
CFC-efni eru hættuleg ósonlagi jarðar, sem verndar jörðina fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar. Gat á ósonlaginu var uppgötvað árið 1985. Árið 1987 komust ríki heims að samkomulagi um bann við notkun efna sem valda eyðingu á ósonlaginu, og var notkun þeirra takmörkuð ár frá ári þar til blátt bann tók gildi árið 2010.
Síðan þá hefur gatið á ósonlaginu dregist saman til muna. Hefur árangurinn þótt til marks um hvað hægt er að afreka þegar ríki heims taka sig saman um aðgerðir í þágu umhverfisins.
mbl.is sótt 11/02/2021
- Eru tækifæri í kolefnisbindingu?by Guðrún Pétursdóttir
Höfundur: Sveinn Margeirsson, Ólafur Margeirsson og Sigurlína Tryggvadóttir greinin var birt í Bændablaðinu
Kolefnisbinding hefur verið talsvert til umræðu á síðustu árum og verður eflaust áfram, einfaldlega vegna aðgerða víða um heim til að bregðast við loftslagsvandanum. Til þess þarf bæði að draga úr kolefnislosun sem og að auka kolefnisbindingu. Kolefnisbinding í landi er ein af lykilaðgerðum verkefnisins Nýsköpun í norðri (NÍN), en það er samstarfsverkefni Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Hluti af NÍN er verkefnið KOLNÍN, en það snýr að fýsileikagreiningu kolefnisbindingar á starfssvæði NÍN.
Geta lands til kolefnisbindingar er mikil. Hún fer eftir landnotkun og sem dæmi má reikna með að kolefnisbinding asparskógar sé að jafnaði um 18 tonn á hektara á ári, skv. niðurstöðu fagráðstefnu Skógræktarinnar árið 2019. Binding í ræktuðum birkiskógi er mun minni, en þó umtalsverð, eins og meðfylgjandi tafla um kolefnisbindingu í ræktuðum skógi sýnir.
Ef gengið er út frá landkostum á NÍN-svæðinu og hóflegri nýtingu lands til kolefnisbindingar, má gera ráð fyrir að kolefnisbinding þar geti verið 300-500 þúsund tonn á ári. Mikilvægt er að kolefnisbinding fari saman við önnur landnot og skipulag lands og er því til skoðunar hjá Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi (NÍN) að taka kolefnisbindingu í landi sérstaklega til athugunar við uppfærslu aðalskipulags sveitarfélaganna.
Markaðurinn með kolefnisbindingu
Kolefnisbinding er þjónusta sem stórfyrirtæki jafnt sem einstaklingar borga fyrir, m.a. til að ná eigin markmiðum um nettó kolefnislosun. Verðlagning á kolefnisbindingu er nokkuð sem margir velta fyrir sér. Verðlagning fer m.a. eftir kolefnisbindingaraðferð og staðsetningu. Þannig bjóða sumir landeigendur í þróunarlöndum upp á kolefnisbindingu fyrir ca. 5 USD/tonn í formi þess að vernda gamla skóga en grónir skógar binda meira en nýskóglendi og kosta minna í umsýslu, sérstaklega í þróunarlöndum þar sem laun eru lág. Þegar kemur að nýskógrækt á Íslandi má nefna Kolvið, sem þjónustar fjölda íslenskra fyrirtækja með kolefnisbindingu fyrir um 17 USD / tonn.
Markaðurinn með kolefnisbindingu mun væntanlega stækka á næstu árum, einfaldlega vegna vaxandi eftirspurnar eftir þjónustunni. Sú eftirspurn verður drifin af bæði fyrirtækjum sem hinu opinbera. Má nefna Þýskaland sem hefur byrjað að heimta kolefnisgjald fyrir hvert tonn af CO2 útblæstri vegna húshitunar með olíu eða vegna samgangna. Gjaldið í dag er 25 EUR / tonn en það mun hækka í 30 EUR / tonn á næsta ári og verða nálægt 60 EUR / tonn eftir fimm ár. Þetta kolefnisgjald mun stuðla að minni útblæstri og aukinni eftirspurn eftir kolefnisbindingu.
Fyrirtæki í Evrópu með stór kolefnisfótspor, þ.m.t. álfyrirtæki á Íslandi, eru einnig skyldug til að taka þátt í kolefniskvótamarkaði Evrópusambandsins (EU Emission Trading Scheme). Tonn af kolefnisútblæstri kosta þar ríflega 30 EUR (m.v. EUR 9 fyrir þremur árum síðan) en fyrirtæki geta minnkað kostnað sinn vegna kaupa á kolefniskvóta með því að kaupa kolefnisbindingu.
Þá er fjöldi fyrirtækja byrjuð að byggja upp kolefnisjöfnunarsjóði sem notaðir verða til að kaupa kolefnisbindingu í náinni framtíð. Má nefna Swiss Re tryggingafélagið í Sviss sem dæmi en það borgar 100 USD fyrir hvert tonn af CO2 útblæstri sem fyrirtækið er ábyrgt fyrir í sjóð sem verður notaður til að kaupa kolefnisbindingu í náinni framtíð. Meðlimir „Nettó Núll Útblástur” hópsins (Net-zero Asset Owner Alliance) munu einnig þurfa á kolefnisbindingu að halda en þessi 33 fyrirtæki, með heildareignir yfir 5.100 milljarða dollara, hafa lýst því yfir að valda engum útblæstri árið 2050. Til þess þurfa þau að minnka útblástur annars vegar og kaupa kolefnisbindingu hins vegar.
Kolefnisbinding sem tækifæri fyrir íslenska landeigendur
Það er eðlilegt að spurt sé hvort tækifæri séu í kolefnisbindingu fyrir íslenska bændur og aðra landeigendur. Um er að ræða nýlegan markað sem er enn að þroskast. Tíminn verður að leiða í ljós hversu mikil tækifærin eru, en það er vitanlega að miklu leyti í höndum þeirra sem þróa þau áfram. Líklegt verður að teljast að kolefnisskattar verði lagðir á og jafnframt að ferðahegðun muni að einhverju leyti taka mið af viðhorfum gagnvart kolefnisjöfnunar. Sökum þessa hafa aðgerðir NÍN miðað að samþættum áhrifum, eins og sýnt er á meðfylgjandi skífuriti.
Sveinn Margeirsson, verkefnisstjóri NÍN og sveitarstjóri Skútustaðahrepps
Ólafur Margeirsson hagfræðingur
Sigurlína Tryggvadóttir landfræðingur
bbl.is sótt 09/02/2021
- Losun á hvern farþega eykst þegar fáir eru um borðby Guðrún Pétursdóttir
Það hefur skiljanlega dregið mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda frá flugi allt frá því að heimsfaraldurinn hófst. Þetta endurspeglast í mánaðarlegum uppgjörum Wizz Air en félagið er eitt örfárra flugfélaga sem upplýsir mánaðarlega um mengun af starfseminni.
Í nýliðnum janúar nam losun á koltvísýringi í tengslum við flug Wizz Air um 73 þúsund tonnum. Á sama tíma í fyrra nam losunin 306 þúsund tonnum. Samdrátturinn nemur 76 prósentum.
Nú eru þotur Wizz Air hins vegar ekki eins þéttsetnar og áður og því dreifist losunin á færri farþega. Af þeim sökum var mengunin á hvern einasta farþega 35 prósent hærri en í janúar en á sama tíma í fyrra.
turisti.is sótt 06/02/2021
- Þórdís vill sjá vetnisframleiðslu á Íslandiby Guðrún Pétursdóttir
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði á fundi Samorku í dag að hún vildi að tekin yrði ákvörðun um að hefja vetnisframleiðslu hér á landi.
Þórdís tók þátt í pallborðsumræðum á fundinum sem bar yfirskriftina Græn endurreisn.
Þórdís sagði Íslendinga að einhverju leit lifa á fornri frægð þegar kemur að orkumálum, en hér hafi verið ákveðið að leggja hitaveitur og nýta endurnýjanlega orku. Þá sagði Þórdís Íslendinga ekki mega sofna á verðinum, halla sér aftur og bíða eftir að tækifærin komi. Alls staðar annars staðar í heiminum sé verið að þróa endurnýjanlega orkugjafa sem muni veita orkumarkaði á Íslandi samkeppni.
„Við höfum ákveðið forskot, en það verður ekki hjá okkur endalaust. Ef við tökum þessa ákvörðun þýðir það líka að regluverkið þarf að styðja við það, sem er í dag of flókið, það þarf frekari raforkuframleiðslu í þau verkefni og það þarf þá sátt um það,“ sagði Þórdís.
Frumvörp sem takmarka tækifærin
Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, sagði að um allan heim sé verið að huga að endurreisn hagkerfa eftir faraldurinn, samhliða því að draga úr kolefnisfótsporum. Þá sagði hann það blasa við að spurn eftir grænni orku og grænum lausnum muni aukast mikið.
Páll sagði frumvörp liggja fyrir á Alþingi sem beinlínis takmarki aðgengi þjóðarinnar og komandi kynslóða að endurnýjanlegum orkuauðlindum sínum á stórum hluta landsins og takmarki þar með þátttöku Íslands í þeirri vegferð. Vísar Páll þá í rammaáætlun þrjú og frumvarp um miðhálendisþjóðgarð.
Hann sagði þau einnig draga verulega úr möguleikum á styrkingu eða uppbyggingu grænna orkuinnviða sem framtíðin gæti kallað á.
„Ísland hefur allt til að bera til að grípa þau tækifæri sem við okkur blasa og ná fram grænni endurreisn ef við bara tökum höndum saman og látum af því verða,“ sagði Páll.
mbl.is sótt 04/02/2021
- Mikilvægt að missa ekki móðinn vegna loftslagvandansby Guðrún Pétursdóttir
„Ég held að fólk ætti að reyna að temja sér að vera ekki kvíðið heldur fullt eftirvæntingar eftir því að fá að vera þátttakandi í þeirri kynslóð sem breytti,“ segir Elín Hirst, sem kemur ásamt Sævari Helga Bragasyni að gerð nýrrar þáttaraðar um lausnir á loftslagsvandanum.
Sævar Helgi Bragason og Elín Hirst standa að nýju sjónvarpsþáttunum Hvað getum við gert? sem eru sjálfstætt framhald þáttanna Hvað höfum við gert? Í fyrri þáttaröðinni var farið yfir áhrif okkar á loftslagið og það tjón sem hefur orðið af mannavöldum og afleiðingar þess. Í nýju þáttunum er aftur á móti fjallað um fjölbreyttar lausnir við loftslagsvandanum. Lausnirnar eru ólíkar en eiga það allar sameiginlegt að gera lífið á jörðinni enn betra.
Þættirnir hófu göngu sína á RÚV. 1. febrúar og eru aðgengilegir í spilaranum.
„Það er akkúrat svo mikilvægt að fólk missi ekki móðinn,“ segir Elín Hirst í Mannlega þættinum á Rás 1. „Þetta er verkefni sem við verðum að takast á við og það sem er svo fallegt í þessu er að mannkynið hefur tekist á við ótrúlega erfið verkefni í gegnum tíðina. Við höfum verið að takast við eitt verkefni og það er COVID og finna upp bóluefni á einu ári, það lögðust allir á eitt og það er þannig sem við ættum að takast á við loftslagsvandann.“
Hún segir að fólk ætti að temja sér að vera ekki kvíðið yfir vandanum heldur ætti það að vera fullt eftirvæntingar eftir því að fá að vera í þeirri kynslóð sem rétti af leiðina frekar en að fallast hendur.
Sævar Helgi tekur undir það og undirstrikar að fjöldinn skipti máli. „Einn einstaklingur út af fyrir sig hefur lítið að segja en ef massinn gerir það þá breytir það ansi miklu. Það er það sem við þurfum á að halda. Við þurfum að fá kerfisbreytingar í gegn og það gerum við ekki nema með því að fólk viti hvert vandamálið er og trúi því einlæglega með varfærinni bjartsýni að við getum leyst þetta vandamál. Þessar lausnir eiga það sameiginlegt að gera lífið á jörðinni betra. Loftið sem við öndum að okkur verður hreinna, hver vill ekki fá hreinna loft í lungun sín? Vatnið verður heilbrigðara líka, vistkerfin sem sjá okkur fyrir matvælum og koma kannski í veg fyrir að sjúkdómar berist úr dýraríkinu í okkur eins og við þekkjum í dag. Ef við förum betur með spörum við auðlindir, eigum meiri peninga og frítíma. Allar lausnirnar miða að því að hægja pínulítið á okkur en það þarf ekki að vera slæmt fyrir hagkerfið eða lífsgæði heldur þvert á móti auka lífsgæði. Mig langar að stefna þangað.“
Þau segja umfjöllunarefni þáttanna vera margbreytileg. Það kom okkur skemmtilega og þægilega á óvart í raun og veru hvað hefur áunnist mikið síðan við gerðum hina þættina,“ segir Elín. „Við byrjuðum á þeim 2017 og þeir fóru í loftið vorið 2019 og þá fannst okkur lítið vera að gerast í svona lausnamálum á því hvernig við ættum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Nú þegar við mætum á svæðið þá er svo mikil gróska og svo mikið að gerast að það er alveg frábært. Í raun og veru eru loftslagsmál orðin öll mál, það er í rauninni ekki til neitt sem heitir loftslagsmál heldur snertir þetta allt sama hvar við berum niður.“
Hvað getum við gert? eru örþættir, um 6-8 mínútur hver, og þar er fjallað um eina lausn á loftslagsvandanum í hverjum þætti. „Við fjöllum til dæmis um rafbílavæðingu, örflæði, landgræðslu og hvernig við getum komið í veg fyrir ofbeit, um raforkukerfi heimsins og vonandi einhvern tímann menntun stúlkna líka, sem er mjög mikilvægt loftslagsmál í leiðinni. Það sem er svo frábært við þetta vandamál, jafnvel þó það sé stundum dimmt yfir því og dómsdagslegt, þá eru lausnirnar svo frábærar og algjörlega tilefni til að vera bjartsýnn. Því það er allur heimurinn núna að færast í þá átt að leysa þetta vandamál í sameiningu.“
Markmið þáttanna er að valdefla fólkið í landinu og í framhaldi af því virkja lýðræðið, segir Elín. „Þannig að það geti tekið þátt í umræðu, myndað sér skoðun, haft hugtökin á hreinu þegar rætt er um þessi mál, gert sig gildandi og svo farið og kosið þá fulltrúa sem það telur að muni vinna að þeim málum sem er þeim hjarta næst.“
ruv.is sótt 02/02/2021
- Flestir telja loftslagsbreytingar fela í sér neyðarástandby Guðrún Pétursdóttir
Tveir af hverjum þremur telja að loftslagsbreytingar feli í sér neyðarástand og flýta verði aðgerðum til að bregðast við loftslagsvánni.
Alþjóðleg skoðanakönnun Sameinuðu þjóðanna, sem náði til 1,2 milljóna manna, sýnir að tveir af hverjum þremur telja að loftslagsbreytingar feli í sér neyðarástand og flýta verði aðgerðum til að bregðast við loftslagsvánni. Niðurstöður úr þessari víðtækustu könnun á viðhorfum til loftslagsbreytinga voru kynntar í morgun hálfu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP).
Könnunin náði til íbúa fimmtíu landa sem telja rúmlega helming allra jarðarbúa, meðal annars hálfrar milljónar ungmenna, yngri en átján ára. „Niðurstöðurnar sýna með skýrum hætti að brýnar loftslagsaðgerðir hafa víðtækan stuðning meðal fólks um allan heim, þvert á þjóðerni, aldur, kyn og menntunarstig,“ segir Achim Steiner, framkvæmdastjóri UNDP, í fréttatilkynningu.
Þátttakendur í könnuninni voru spurðir að því hvort þeir líti á loftslagsbreytingar sem neyðarástand og hvort þeir styddu átján stefnumið á sex sviðum: efnahag, orku, samgöngum, matvælum og búskap, náttúru, og vernd fólks.
Í frétt UNDP eru nefnd dæmi um niðurstöður. Þar kemur meðal annars fram að í átta af tíu löndum með mestu losun gróðurhúsalofttegunda frá orkufyrirtækjum styðji meirihlutinn endurnýjanlega orku. Einnig kom fram hjá þátttakendum í níu af hverjum tíu löndum, þar sem þéttbýli er hvað mest, mikill vilji til þess að draga úr loftmengun með rafbílum, almenningssamgöngum og reiðhjólum.
Fjölgun dómsmála
Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) greinir frá því að sífellt verði algengara að leitað sé til dómstóla til að freista þess að fá ríkisstjórnir og fyrirtæki til að takast á við loftslagsbreytingar. „Jafnt börn sem frumbyggjar hafa höfðað mál,“ segir í fréttinni sem byggir á nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Þar kemur fram að síðustu fjögur ár hafi verið höfðuð 1550 mál af þessu tagi í 38 ríkjum. Þar að auki hefur eitt verið höfðað fyrir Evrópudómstólnum. Flest málin eru í Bandaríkjunum eða 1200 en 350 samtals í öllum öðrum ríkjum.
„Þessi flóðbylgja mála hefur ýtt undir löngu tímabærar breytingar,“ er haft eftir Inger Andersen forstjóra UNEP í fréttinni. „Skýrslan sýnir að loftslagsmálaferli hafa þvingað ríkisstjórnir og fyrirtæki til að taka upp metnaðarfyllri aðgerðir til að milda og aðlagast loftslagsbreytingum.“
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.
visir.is sótt 02/02/2021
- Vilja endurheimta tvöfalt meira í ár en í fyrraby Guðrún Pétursdóttir
Votlendissjóður endurheimti 135 hektara af votlendi í fyrra og stefnir á tvöfalt meira í ár. Góð tíð í haust gerði mögulegt að fylla upp í skurði fram að jólum.
Snjóþyngsli síðasta vetur gerðu að verkum að ekki var hægt að ráðast í endurheimt á fyrri hluta ársins 2020, eins og Votlendissjóður lagði fyrst upp með. Því hófst ekki endurheimt fyrr en á seinni hluta ársins, að loknum varptíma.
Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, segir að góð tíð í haust, sem entist allt fram í janúar, hafi hins vegar orðið til þess að hægt var að moka ofan í skurði fram að jólum.
„Á vetrarsólstöðum, 22. desember, þar voru verktakarnir með okkur að klára. Því að létt frost, jafnvel mikið frost, er ekki endilega vandamál í endurheimt. “
Í fyrra endurheimti Votlendissjóður rúmlega 130 hektara á fjórum jörðum og Landgræðslan endurheimti álíka mikið.
„Báðir aðilar eru að endurheimta meira 2020 en 2019 þannig að þetta fer hægt og rólega upp á við og við erum með væntingar um að ná að tvöfalda það á þessu ári, allavega. Það hefur verið okkar áhyggjuefni að fá fleiri jarðir til samstarfs en það hefur verið að koma núna í janúar og við erum bara mjög brött og bjartsýn fyrir þetta ár.“
Mat Umhverfisstofnunar er að landnotkun, þar á meðal framræst votlendi, sé ástæðan fyrir um 65 prósentum af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Þá kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir Samtök sunnlenskra sveitarfélaga á síðasta ári að endurheimt votlendis sé áhrifaríkasta leiðin til að draga úr losun. Þar segir að rekja megi 85 prósent losunarinnar á Suðurlandi til landnotkunar.
rus.is sótt 02/02/2021
- „Hrikalegt“ að sjá íslensku jöklana hverfaby Guðrún Pétursdóttir
„Nú og þá: hverfandi jöklar Íslands,“ er yfirskrift umfjöllunar BBC um íslenska jökla sem hafa munað fífil sinn fegurri og eru nú á undanhaldi. Þar er rætt við feðgana Colin og Kiernan Baxter. Colin Baxter, faðirinn, er ljósmyndari og kom hingað til lands árið 1989 og myndaði Skaftafellsjökul. 30 árum síðar fór Kiernan Baxter til Íslands og myndaði sama jökul.
Breytingin sem sjá má á myndum þeirra feðga, sem eru aðgengilegar á vef BBC, er verulega mikil enda Skaftafellsjökull nú mun minni en áður. Vísindamenn gera ráð fyrir því að hann hafi minnkað um 400 ferkílómetra vegna hlýnunar jarðar.
Bráðnun jökla vísbending um loftslagsbreytingar
„Ég ólst upp við að heimsækja þessa mögnuðu staði og öðlaðist skilning á rólegum krafti þessa landlags,“ sagði Kirean Baxter, sem starfar sem lektor við háskólann í Dundee.
„Persónulega finnst mér hrikalegt að sjá jöklana breytast svona gífurlega á undanförnum áratugum. Á yfirborðinu er oft erfitt að sjá umfang loftslagsbreytinga en hér sjáum við skýrt hversu alvarlegt ástandið er,“ sagði Kieran Baxter.
Á heimsvísu er bráðnun jökla talin ein helsta vísbendingin um það hvernig loftslag heimsins hlýnar.
mbl.is sótt 01/02/2021
- Orðsporið líklegasti hvatinn til aðgerðaby Guðrún Pétursdóttir
„Mér fannst áhugavert hvaða þættir það eru sem hafa mest áhrif á að fyrirtæki bregðist við. Niðurstöður sýndu að orðspor fyrirtækisins er sá þáttur sem hefur mest áhrif á að fyrirtæki bregðist við loftslagsbreytingum með aðgerðum en fjárfestar virðast hafa minnstu áhrifin. Þetta gefur vísbendingu um að margir íslenskir fjárfestar geri ekki miklar kröfur til stjórnenda um að bregðast við loftslagsbreytingum með aðgerðum og markmiðum,“ segir Rakel Sævarsdóttir sérfræðingur hjá Deloitte meðal annars um það, hvað henni finnst sérstaklega áhugavert í niðurstöðum nýrrar stjórnendakönnunar þar sem staða 300 stærstu fyrirtækja landsins var tekin á því hvar þau eru stödd í grænni vegferð.
Í þessari viku hefur Atvinnulífið á Vísi fjallað um stöðu íslensks atvinnulífs með tilliti til sjálfbærni.
Könnunin var framkvæmd af Deloitte í nóvember síðastliðnum. Þátttakendur voru í 98% tilvika stjórnendur sem sitja í framkvæmdastjórn en dreifðist nokkuð jafnt yfir helstu atvinnugreinar landsins. Helmingur þátttakenda voru stjórnendur í fyrirtækjum með 100 eða fleiri starfsmenn. Að sögn Rakelar var markmið könnunarinnar að meta stöðu íslenskra fyrirtækja í aðgerðum til að sporna við loftlagsbreytingum en eins að auka skilning á viðbrögðum stjórnenda í loftlagsmálum.
Ný viðskiptatækifæri í augsýn
Þátttaka í könnun dreifðist nokkuð jafnt yfir helstu atvinnugreinar landsins og segir Rakel að engin ein atvinnugrein virðist skara fram úr né vera að draga lappirnar í aðgerðum í loftlagsmálum.
Þá segir Rakel ánægjulegt að sjá að hátt í 100% þátttakenda telur sig skilja með hvaða hætti fyrirtæki þeirra hefur áhrif á loftlagsmál.
En stjórnendur eru líka að sjá ný tækifæri.
„Ríflega 2/3 þátttakenda telja að aðgerðir í loftslagsmálum stuðli að nýjum viðskiptatækifærum. Þetta eru mikilvægar upplýsingar og gefa vísbendingar um að stjórnendur eru jákvæðir gagnvart því að bregðast við loftslagsmálum með aðgerðum,“ segir Rakel.
Þrátt fyrir þetta sýna niðurstöður að aðeins þriðjungur stjórnenda svöruðu að sjálfbærni væri hluti af viðskiptamódeli fyrirtækja.
Þegar við tölum um sjálfbært viðskiptalíkan er átt við að fjárhagsleg markmið fyrirtækja samræmast umhverfis- og samfélagslegum gildum þess. Virði fyrirtækisins og allra haghafa er því hámarkað með sameiginlegt virði að leiðarljósi.“
Þá virðast mörg fyrirtæki hafa sett sér markmið án þess að árangur sé mælanlegur.
„Við spurðum stjórnendur hvort fyrirtækin hafi sett markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hvort þau væru mælanleg.
Í ljós kom að 2/3 fyrirtækja hafa sett markmið sem endurspeglast í að ná kolefnishlutleysi, draga úr losun um ákveðið hlutfall og/eða hafa sett sér markmið sem styðja við markmið Parísarsáttmálans um að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C.
Aftur á móti voru aðeins helmingur stjórnenda sem sögðust setja mælanleg markmið sem þýðir að einhver af fyrirtækjunum sem hafa sett sér markmið um að draga úr losun hafa ekki sett mælanleg markmið. Og eru það frekar áhugaverðar niðurstöður,“ segir Rakel.
Næst á dagskrá er…
Rakel segir líklegt að áhersla fyrirtækja á aðgerðir muni aukast á næstu árum. Til dæmis sýndu niðurstöður að í dag telja 59% stjórnenda að aðgerðir í loftlagsmálum séu mikilvæg fyrir fyrirtækin í dag en þetta hlutfall hækkaði í 88% þegar spurt er um hversu mikilvægar aðgerðir verða eftir þrjú ár.
„Að mínu mati er mikilvægast að fyrirtækin setji sér stefnu í umhverfismálum sem studd eru með markmiðum sem eru mælanleg."
"Það hljóta flestir stjórnendur að vera sammála því að ef ná á ákveðnum árangri í rekstri er mikilvægt að setja mælanleg markmið til að fylgjast með þróuninni og meta hvort árangur hafi náðst. Það sama ætti því að gilda fyrir loftslagsmál."
Tengt þessu er mikilvægt að fyrirtæki birti upplýsingar um aðgerðir sínar í loftslagsmálum auk annarra sjálfbærniþátta á aðgengilegan og skýran hátt,“ segir Rakel.
Rakel segir ánægjulegt að 77% yfirstjórna, þ.e. framkvæmdastjórna og stjórna fyrirtækja, segjast vera með loftlagsmálin ofarlega á dagskrá. Að hennar mati þyrfti þetta hlutfall þó að vera hærri þannig að ákvarðanatökur um aðgerðir séu líklegri.
Þá segir hún að þótt 2/3 fyrirtækja hafi sett sér markmið um aðgerðir þurfi þau að vera mælanleg en ekki síður hluti af viðskiptamódeli fyrirtækjanna.
„Mikilvægt er að nefna að græna vegferðin er vegferð eins og merking orðsins ber með sér og góðir hlutir eiga það til að gerast hægt, en tíminn vinnur ekki með okkur. Það er því mikilvægt að fyrirtæki hefji vegferðina í dag ef hún er ekki nú þegar hafin,“ segir Rakel.
Þá segir hún það hafa verið athyglisvert að þegar stjórnendur voru spurðir um það hvort þeir væru sammála eða ósammála því að Covid-19 hefði stuðlað að aukinni áherslu á aðgerðir í loftlagsmálum kom í ljós að ríflega 2/3 stjórnenda höfðu ekki skoðun á því eða voru ósammála.
„Sú niðurstaða er áhugaverð þar sem sú umræða hefur verið töluvert áberandi á alþjóðavísu að Covid-19 hafi einmitt stuðlað að aukinni vitundarvakningu meðal stjórnenda fyrirtækja, stjórnvalda og almennings,“ segir Rakel.
visir.is sótt 31/01/2021
- 182 hleðslustæði tekin í notkunby Guðrún Pétursdóttir
182 hleðslustæði verða tekin í notkun hjá ON í febrúar. Stæðin, sem staðsett eru á 32 stöðum í Reykjavík og fjórum stöðum í Garðabæ, eru fyrir tvo til sex rafbíla í hleðslu.
Hleðslunum verður komið fyrir í samstarfi við sveitarfélögin tvö við almenn bílastæði í þeirra eigu; við skóla, verslanir, sundlaugar og menningarstofnanir.
„Með þessari innviðauppbyggingu er tekið stórt skref til að efla orkuskipti og koma til móts við þarfir allra rafbílaeigenda, þ.m.t. einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir,“ segir í tilkynningu.
Til að geta nýtt sér hleðslurnar þurfa rafbílaeigendur að vera með ON-lykil. Þegar er um helmingur hleðslustöðvanna kominn upp og gert er ráð fyrir að klára uppsetningar á öllum staðsetningum á næstu vikum.
mbl.is sótt 31/01/2021
- Bensín og olía heyri sögunni tilby Guðrún Pétursdóttir
„Íslendingar hafa alla burði til að verða óháðir öðrum um orkuöflun og ná þannig fullu orkusjálfstæði. Við setjum stefnuna á að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust fyrst allra landa og a.m.k. ekki síðar en 2050. Það þýðir að bensín og olía heyri fortíðinni til en orkuna fáum við úr rafmagninu okkar og frá öðrum grænum orkugjöfum, eins og vetni. Þannig getum við uppfyllt orkuþörf samfélags framtíðarinnar á umhverfisvænan hátt,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á opnum fundi Landsvirkjunar um ný og græn orkutengd tækifæri í morgun.
Hún fjallaði meðal annars um langtímaorkustefnu fyrir Ísland, sem kynnt var í október, og segir að hún feli í sér skýra sýn um sjálfbæra orkuframtíð.
„Orkustefnan var unnin í þverpólitískri sátt og í samstarfi við hagaðila, enda hafa allir áttað sig á mikilvægi þess að horfa til langrar framtíðar í orku- og umhverfismálum. Það er ánægjulegt að sjá að Landsvirkjun er vakandi fyrir spennandi tækifærum sem falla að orkustefnunni. Nú þegar nýtum við náttúruauðlindirnar fallvötn, vind og jarðvarma til vinnslu grænnar raforku. En við þurfum að undirbúa næstu skref til að tryggja full orkuskipti á landi, í hafi og á lofti.“
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði að Ísland gæti leitt þróun í átt að jarðefnaeldsneytislausum heimi og orkufyrirtæki þjóðarinnar ætti að vera í fararbroddi á þeirri vegferð.
„Við byggjum auðvitað á sterkum grunni, því yfir 80% af frumorkunotkun Íslands eru sjálfbær. Á sama tíma þurfum við að leggja áherslu á að skapa ný tækifæri til nýtingar grænu orkunnar okkar. Ég tek undir með ráðherra að ný orkustefna, sem unnin er í breiðri og góðri sátt, er afskaplega mikilvæg,“ sagði Hörður. „Hún gefur fyrirheit um að stjórnvöld muni styðja við bakið á okkur inn í áratugi orkuskipta, með hreinni og grænni framtíð,“ er haft eftir honum í fréttatilkynningu.
Vala Valþórsdóttir viðskiptaþróunarstjóri Landsvirkjunar fjallaði um gagnaver sem eru afar orkufrek. Hún benti á að hér á landi stæði þeim til boða 100% endurnýjanleg orka, en þar að auki þyrftu þau minni orku en víða annars staðar vegna þessa kalda loftslags sem hér er. Spáð væri 9% vexti á ári hverju næstu árin í þessum iðnaði.
Dagný Jónsdóttir nýsköpunarstjóri sagði gríðarmikla aukningu í spurn eftir rafhlöðum, sem rekja mætti til örrar rafbílavæðingar í heiminum. Spáð væri að rafbílasala yrði 10 sinnum meiri árið 2030 en nú, sem jafnframt þýddi mikinn samdrátt í útblæstri. Dagný sagði mikil tækifæri fyrir Íslands í rafhlöðuframleiðslu, Landsvirkjun hefði þegar fengið fjölda fyrirspurna um málið og landið lægi vel við mörkuðum, jafnt í Norður-Ameríku sem Evrópu, að því er segir í tilkynningu.
Sigurður H. Markússon nýsköpunarstjóri sagði matvælakerfi heims komið að þolmörkum. Þessi stærsta iðngrein í heimi nýtti 37% alls gróðurlendis og 70% allrar ferskvatnsnotkunar heims væru vegna hennar. Matvælaframleiðsla framtíðar yrði hins vegar stýrt hátækniumhverfi. Hér væru kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu og um leið yrði að horfa til útflutnings, rétt eins og gert væri í sjávarútvegi, enda íslenskur markaður of lítill til að framleiðslan borgaði sig.
mbl.is sótt 27/01/2021
- 94% minni losun með því að hætta fraktflugiby Guðrún Pétursdóttir
Færeyska laxeldisfyrirtækið Hiddenfjord hætti í október öllum vöruflutningi með flugi og með því minnkaði losun koltvísýrings vegna vöruflutninga fyrirtækisins um 94%.
Fyrirtækið er fyrsta eldisfyrirtækið í heimi sem tekur jafn afdráttarlausa ákvörðun sem dregur úr kolefnislosun í takti við markmið Sameinuðu þjóðanna um brýnar loftslagaðgerðir, að því er fram kemur í umfjöllun World Fishing & Aquaculture.
Eldislax er með mun minna kolefnisspor en aðrir próteingjafar eins og nauta-, lamba- eða svínakjöt og með því að láta af flutningum með flugi er varan talin verða mun umhverfisvænni og sé sjálfbær kostur.
„Staðreyndirnar tala sínu máli, við þurfum öll án tafar að hætta að nota flugvélar til vöruflutninga og þannig draga úr loftslagsbreytingum,“ segir Atli Gregersen, framkvæmdastjóri og eigandi Hiddenfjord. „Ef við ætlum raunverulega að geta sagst vera sjálfbært fyrirtæki verðum við að taka ábyrgar ákvarðanir.“
Hefur vakið áhuga
Þá segir í umfjölluninni að neytendarannsóknir hafa sýnt að Hiddenfjord hafi tekist að tryggja óbreytt gæði við afhendingu þrátt fyrir að vörur séu ekki lengur fluttar með flugi. „Þrátt fyrir að stöðvun fraktflugs hefur verið mikil breyting fyrir marga viðskiptavini okkar, erum við ánægð með að hafa sýnt fram á að við getum tryggt okkar þekktu gæði – nú með miklu lægra kolefnisfótspor,“ er haft eftir Óla Hansen, sölustjóra Hiddenfjord.
Bætir Óli við að breytingin hafi gert það að verkum að nýir kaupendur sem hafa sérstakan áhuga á sjálfbærni sýni vörum Hiddenfjord áhuga.
Ákvörðun fyrirtækisins er nokkuð önnur en tíðkast hefur í greininni, en leitað hefur verið ýmsa leiða hér á land sem og erlendis að tryggja fljóta afhendingu til fjarlægra markaða.
mbl.is sótt 22/01/2021
- Framfaraskref á heimsvísuby Guðrún Pétursdóttir
Undanfarna mánuði hefur notkun háhitadjúpdælu í hitaveituborholu verið prófuð í Hveragerði. Er það í fyrsta skipti í heiminum sem slík dæla er notuð í svo heitum jarðhitavökva en búnaðurinn hefur verið þróaður og notaður í olíugeiranum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veitum.
„Hingað til hefur jarðhitavatni að 130°C verið dælt með hefðbundnum dælubúnaði hér á landi og erlendis þekkist að dælt sé vatni sem er allt að 160°C heitt. Með háhitadælunni munu Veitur nýta búnaðinn í enn heitara vatni eða allt að 180°C. Dælan, sem er staðsett í borholu hitaveitunnar í Hveragarðinum, hefur reynst vonum framar síðan hún var sett niður í októbermánuði,“ segir í tilkynningunni.
Segir þá í tilkynningunni að þrýstingur hafi verið fallandi í jarðhitakerfinu í Hveragerði og hefur það reynst krefjandi verkefni að tryggja nægt heitt vatn fyrir hitaveituna. Þó sé vitað að mikill hiti sé á svæðinu en ekki hefur verið hægt að nýta hann enda skemmist hefðbundinn dælubúnaður í slíkum aðstæðum.
Stórt framfaraskref í nýtingu jarðvarma
Með háhitadjúpdælunni geta Veitur rekið borholur hitaveitu án þess að láta þær blása gufu. Það er mikill kostur að sögn Veitna þar sem tvær holur af þremur, sem eru í notkun í Hveragerði, eru staðsettar í miðri byggð.
Afkastageta borholunnar í Hveragarðinum eykst með nýju dælunni og mun þannig bæta rekstraröryggi Hitaveitunnar. Auk þess verður betur hægt að stýra magni heits vatns sem er tekið úr holunni og segir þá í tilkynningunni að enn betri nýting verði „á þeirri dýrmætu auðlind sem heita vatnið er.“
Að lokum segir í tilkynningunni: „Notkun háhitadjúpdælu í hitaveitu er þróunarverkefni enn sem komið er. Reynist búnaðurinn áfram vel er um að ræða mikið framfaraskref í nýtingu jarðvarma, ekki bara hér á landi heldur á heimsvísu.“
mbl.is sótt 15/01/2021
- Segir að skriðuföllin á Seyðisfirði séu viðvörunarmerkiby Guðrún Pétursdóttir
Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands segir að skriðuföllin á Seyðisfirði fyrir jól séu mikið viðvörunarmerki. Skriðuföllin megi rekja til veðurfarsbreytinga. Minna frost í fjöllum sé líklega að hafa áhrif á stöðugleika fjallshlíða.
Sérfræðingar Veðurstofunnar bjuggust ekki við skriðu af þeirri stærðargráðu sem féll á Seyðisfirði 18. desember. Skriðan var 190 metra breið og 435 metra löng frá efsta brotsári. Flekinn sem fór af stað var allt að 17 metrar að þykkt. Enn er hætta á skriðum úr brotsárinu, stór fleki sem ekki féll fram er nú vaktaður sérstaklega.
„Þetta er náttúrulega mjög mikið viðvörunarmerki fyrir okkur að við þurfum að skoða og rannsaka betur hvað er að gerast í íslenskri náttúru. Þá kannski með tilliti til þess hvort það séu veðurfarsbreytingar, sem eru staðfestar, að þær séu að hafa áhrif á stöðugleika fjallshlíða,“ segir Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands.
Úrkomumet var slegið á Seyðisfirði dagana fyrir stóru skriðuna. „Þetta er líka að gerast í desember. það er margt þarna sem er óvenjulegt.“
Er hægt að tengja fleiri skriðuföll við veðurfarsbreytingar? „Við teljum að svo sé,“ svarar Þorsteinn og nefnir sem dæmi skriðuna í fjallinu Móafellshyrnu í Fljótum árið 2012, Árnesfjalli á Ströndum 2014 og Hleiðargarðsfjalli í Eyjafirði í október. „Þessar skriður eru að sýna okkur það að frost í fjöllum er að minnka, sífreri er að gefa undan. Það kallar á vangaveltur um það hvort að stöðugleiki fjallshlíða sé að breytast og hlíðar sem við höfum áður talið öruggar að þær geti verið óöruggar,“ segir hann.
ruv.is sótt 15/01/2021
- 2020 hlýjast eða næst hlýjast í sögunniby Guðrún Pétursdóttir
Síðasta ár var heitasta ár sögunnar samkvæmt mælingum bandarísku geimvísindastofnunarinnar, NASA. Árið var 0,1 gráðu hlýrra en árið 2016, sem þar með er það næst hlýjasta í sögunni. Sjávar- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna greindi frá því fyrr í vikunni að 2020 hafi verið örlítið kaldara en 2016, líkt og mælingar bresku veðurstofunnar benda til. Loftslagseftirlit Evrópusambandsins segir árin 2016 og 2020 hnífjöfn.
Þrátt fyrir þennan mun sýna öll gögn fram á langvarandi hlýnun af völdum útblásturs jarðefnaeldsneytis, skógarhöggs og annarra mannanna verka. Síðustu sjö ár eru sjö heitustu ár sögunnar, og tíu hlýjustu árin hafa mælst á síðsutu 15 árum. Nú hefur árs-meðaltalshitastig mælst yfir meðalhitastigi 20. aldar í 44 ár í röð.
Kælandi áhrif veðurfyrirbrigðisins La Nina dugðu ekki til þess að sljákka í meðalhita síðasta árs. Guardian hefur eftir Zeke Hausfather, loftslagsvísindamanni hjá Berkeley Earth, að fyrirbrigðið eigi ef til vill eftir að hafa meiri áhrif á þessu ári. Hann segir þetta benda til þess að síðustu fimm ár hafi sem nemur El Nino veðurfyrirbrigði.
Hækkun hitastigs veldur bráðnun jökla, hærra yfirborði sjávar og leiðir til fleiri og dýpri óveðurslægða. Til að mynda varð metfjöldi alvarlegra náttúruhamfara í Bandaríkjunum í fyrra.
ruv.is sótt 15/01/2021
- Andlitsgrímur ógna lífríki jarðarby Guðrún Pétursdóttir
Einnota andlitsgrímur og hanskar sem hafa hjálpað til við að bjarga mannslífum í kórónuveirufaraldrinum ógna nú lífum annarra. Þau líf eru ekki mannleg heldur ógna andlitsgrímurnar og hanskarnir villtum dýrum, sérstaklega fuglum og sjávardýrum.
Vísindamenn vara við því að einnota grímur og hanskar mengi nú sjóinn og ár víða um heim.
„Við teljum að einnota grímur og hanskar séu líklega ógn við lífríki sjávar,“ segir George Leonard, aðal vísindamaður náttúruverndarsamtakanna Ocean Concervancy.
„Dýr, til dæmis sjávarskjaldbökur, telja hanska stundum vera mat. Sjávarskjaldbökurnar, til dæmis, halda að hanskarnir séu marglyttur en þær eru aðal fæða sjávarskjaldbakanna,“ bætir Leonard við.
Hann segir að fæðuvefurinn allur sé í raun í hættu vegna þessa.
„Þegar plöstin brotna niður í umhverfinu verða til minni og minni agnir. Þær geta svo haft áhrif á nánast allan fæðuvefinn,“ segir Leonard um málið.
mbl.is sótt 12/01/2021
- Ráðherra gerði samning um verkefnin Gróður í borg og bæ og Kolefnisbindingu 2020by Guðrún Pétursdóttir
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gert samninga við Samband garðyrkjubænda um breytingar á starfsskilyrðum framleiðenda garðyrkjuafurða. Samningarnir snúa að loftslagsmálum og kolefnisbindingu.
Sambandi garðyrkjubænda hefur verið falið að stýra verkefnunum og með því uppfylla og styðja við breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða sem voru undirrituð fyrr á árinu. Um er að ræða verkefnin Gróður í borg og bæ sem er ætlað að hvetja almenning til að huga að kolefnisbindingu með heimilisgarðyrkju og verkefnið Kolefnisbinding 2020 sem er hluti af Kolefnisbrúnni og er ætlað bændum.
Gróður í borg og bæ
Sambandi garðyrkjubænda er falið að hleypa af stokkunum átaksverkefninu Gróður í borg og bæ.
Verkefnið miðar að því að auka þekkingu, áhuga og þátttöku almennings á ræktun í því skyni að auka kolefnisbindingu. Með verkefninu er almenningur hvattur til umhugsunar og þátttöku í verkefnum á sviði kolefnisbindingar með eigin ræktun. Boðskapur verkefnisins: Allt skiptir máli – allir geta lagt til. Þá verður gefinn kostur á fræðslu og aðgengilegum á áhugaverðum upplýsingum um hvað hægt er að rækta, hvar og hvaða áhrif ræktun þeirra hefur til kolefnisbindingar. Verkefnið miðar þess vegna ekki síst að þeim sem búa í þéttbýli en geta engu að síður lagt sitt til kolefnisbindingar með ræktun í görðum, frístundalóðum, svölum, í pottum og víðar.Kolefnisbinding 2020
Sambandi garðyrkjubænda er falið að kynna Kolefnisbrúna fyrir garðyrkjubændum og/eða framleiðendum garð- og skógarplantna í því skyni að þeir geti unnið að kolefnisbindingu í sínum eigin rekstri og jafnvel boðið þá þjónustu til annarra. Einnig er markmið verkefnisins að auka framleiðslu á plöntum til kolefnisbindingar á Íslandi með skynsamlegum og fyrirsjáanlegum hætti.
Verkefnið Kolefnisbrúin snýst um að ræktendur um land allt geti með plöntun og umhirðu skóga, kolefnisjafnað sína eigin starfsemi og selt þá þjónustu til annarra, jafnvel til stórra og meðalstórra fyrirtækja. Lögð er áhersla á að ferlið sé vottað og úttektaraðilar sannreyni að umsamin ræktun fari fram með tilheyrandi kolefnisbindingu. Kolefnisbrúnni er í heild ætlað að stuðla að umfangsmikilli kolefnisbindingu um land allt til að mæta skuldbindingum Íslands í alþjóðasamfélaginu, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og stefnumörkun stjórnvalda á borð við aðgerðaáætlun í loftlagsmálum. Með Kolefnisbrúnni skapast tækifæri til atvinnusköpunar um land allt þar sem til verða störf við plöntuframleiðslu, skógrækt og skógarnytjar.
stjornarradid.is sótt 28/12/2020 - Hitamet halda áfram að fallaby Guðrún Pétursdóttir
Nýliðinn nóvembermánuður var sá hlýjasti í Evrópu sem sögur fara af. Haustið hefur aldrei verið jafn hlýtt í Evrópu og það var í ár, samkvæmt gögnum frá Kópernikus, loftslagsstofnun Evrópusambandsins.
Samkvæmt Kópernikus var lofthitinn í nóvember 0,8 gráðum hærri í nóvember 2020 en meðalhitinn á 30 ára tímabili, 1981-2010, og rúmlega 0,1 gráðu hærri en fyrra met.
Á Íslandi var tíðarfar ágætt í nóvember og samgöngur greiðar. Að tiltölu var hlýjast austanlands en að tiltölu kaldast sunnan- og vestanlands. Mjög kalt var á landinu dagana 18. til 19. Óveðrasamt var á landinu dagana 4. og 5. og aftur dagana 26. og 27.
Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 1,9 stig og er það 0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 1,0 stig, 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 2,2 stig og 3,5 stig á Höfn í Hornafirði.
Haustið í Evrópu, september til nóvember, var 1,9 gráðu hlýrra en í meðalári og 0,4 gráðum heitara en það var árið 2006 er fyrra met var sett.
Hitastigið er töluvert hærra en eðlilegt er á norðurslóðum og í Síberíu þessa mánuðina. Sömu sögu er að segja frá Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og suðurhluta Afríku sem og austurhluta Suðurskautslandsins og meirihluta Ástralíu.
Heitustu ár frá því mælingar hófust hafa öll verið eftir árið 2015.
mbl.is sótt 19/12/2020
- Kynnir ný loftslagsmarkmiðby Guðrún Pétursdóttir
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greinir frá nýjum markmiðum Íslands í loftslagsmálum í grein, sem hún ritar í Morgunblaðið í dag. Þessi markmið verða kynnt á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna næstkomandi laugardag.
Þessi nýju markmið Íslands eru í þremur liðum. Í fyrsta lagi er boðaður aukinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Í stað núverandi markmiðs um 40% samdrátt frá 1990-2030 verður markið sett á 55% samdrátt eða meira.
Þá er ráðgert að efla aðgerðir, einkum í landnotkun, sem munu auðvelda Íslandi að ná settu markmiði um kolefnishlutleysi fyrir 2040 og að auki áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda í kringum árið 2030. Þar munu skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis gegna lykilhlutverki. Loks skal lögð aukin áhersla á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni, einkum á sviði sjálfbærrar orku, en framlög Íslands til þeirra muni aukast um 45% á næsta ári, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
mbl.is sótt 10/12/2020
- Þurfa jólin að vera neyslufyllerí?by Guðrún Pétursdóttir
Hvernig líst þér á þá hugmynd að gera jólin í ár að okkar vistvænustu jólum hingað til? Hversu litla breytingu sem þú ákveður að gera getur þú lagt þitt af mörkum til þess að minnka vistsporið þitt og þjóðarinnar um jólahátíðina. Að hugsa út fyrir kassann og breyta venjum er lykilatriði þegar kemur að því að minnka kolefnissporið sitt.
Með þetta í huga langar mig að benda á einfaldar leiðir til að hýsa umhverfisvænni jól. Þetta er engan vegin tæmandi listi um það hvað hver og einn getur lagt af mörkum til að minnka kolefnissporið sitt, þetta er bara örlítið brot af því sem hægt er að gera. Það er um að gera að taka bara lítil skref því það er vænlegast til árangur þegar til lengri tíma er litið.
Jólatréið
Hefur þú spáð í það að vera með tré í potti sem þú getur annað hvort gróðursett þegar frost er farið úr jörðu eða haft í potti úti í garði eða á svölunum, sé það af þeirri stærðargráðu? Flestar gróðrarstöðvar og skógræktir selja svona tré í pottum, þannig að auðvelt ætti að vera að nálgast þau. Þessi tré eru stundum kölluð tröpputré því þau geta staðið á tröppunum hjá þér eða á svölunum fram að jólum, þá er tilvalið að setja útiseríu á það til skrauts.
Tröpputré frá Garðplöntusölunni Hvammi tvö á Flúðum komið inn í stofu. Það eru líka til jólatré sem gerð eru úr handsmíðuð úr íslenskum við og þau endast að eilífu, þetta eru svona tré eins og tíðkuðust í eldgamla daga, mjög sjarmerandi og flott. Þá er einnig hægt að fá lítil og sæt rennd jólatré sem eru líka úr íslenskum efniviði, ef þú vilt vera með mjög lítið jólatré.
Þú getur jafnvel smíðað þér jólatré en af nógu er að taka varðandi hugmyndir og útfærslur, bara sleppa hugmyndafluginu lausu eða fara á veraldarvefinn og finna rétta tréið til að smíða eða útbúa.
Ef þú vilt búa til þitt eigið og ert ekki góð / góður smiður má ná sér í mislanga lurka og binda þá saman með grófu bandi og hengja á vegg eða í loftið eins og á myndinni hér fyrir ofan. Ég hef líka séð jólatré búið til úr tröppum og svo mætti lengi telja. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að þig vanti hugmyndir því á pinterest.com, er hægt að finna fjölmargar hugmyndir.
Ef þú ákveður að kaupa jólatré sem búið er að fella, passaðu þá uppá að það hafi ekki þurft að flytja það langar leiðir, heldur hafi það verið ræktað í þínu nærumhverfi.
Svo er líka engin skylda til að hafa jólatré en vissulega er það rík hefð og ekkert að því að skreyta hjá sér um jólin án samviskubits.
Að pakka inn gjöfunum
Notaðu pappír sem hægt er að endurvinna, endurnýttu pappír frá fyrra ári eða notaðu tilfallandi efnisbúta, það er líka hægt að nota gömul tímarit og dagblöð.
Það er auðvelt að komast að því hvort pappír sé endurvinnanlegur með "krumpu prófinu". Þú einfaldlega krumpar hann og ef það sléttist aftur úr pappírnum eru allar líkur á að í honum séu óumhverfisvæn efni og hann því ekki endurvinnanlegur.
Skreytingar á pakkana geta komið viða að t.d. úr náttúrunni eða gömlum jólakortum og pappír, það fást líka umhverfisvænir litir svo hægt er að mála köngla eða hvað sem maður vill nota. Með því að smella hér getur þú séð margar hugmyndir að umhverfisvænni innpökkun.
Endurnýtanlegt jóladagatal
Hvernig væri að vera með jóladagatal sem þú getur notað ár eftir ár? Ég held að hverju barni og líka fullorðnum þætti skemmtilegt að opna jóladagatal sem búið er til af ást og umhyggju, í stað fyrirsjáanlegra fjöldaframleiddra dagatala.
Heimatilbúin dagatöl geta líka verið ódýrari þegar upp er staðið, því glaðningurinn þarf ekki að kosta hálfan handlegg. Falleg skilboð og litlir óvæntir hlutir gleðja líka.
Þessar hugmyndir fann ég á Pinterest.com
Jólakort
Jólakort sem send eru með löturpósti hafa því miður átt undir högg að sækja gagnvart hinum rafrænu kortum. Núna á tímum einangrunar og einsemdar hjá mörgum væri ekki úr vegi að senda gamaldags jólakort með löturpósti. Hvað myndi ylja meira um hjartarætur á þessum skrýtnu tímum en að handleika fallegt heimagert jólakort með hjartnæmri kveðju frá þeim sem manni þykir vænt um en getur ekki faðmað?
Það hefur komið í ljós að tölvupóstur skilur líka eftir sig kolefnisspor, það má heyra um það hér, svo það þarf ekki að hafa samviskubit yfir jólakortunum, maður velur bara vel hverjum maður vill senda til að halda fjöldanum í lágmarki.
Heimatilbúinn pappír með fræjum Það er meira segja hægt að gera skemmtileg umhverfisvæn kort sem gefa af sér. Þú getur búið til pappír og bætt fræjum saman við og þá getur viðtakandinn ræktað plöntu eða matjurtir með því að gróðursetja pappírinn. Með því að smella hér kemstu á vefsíðu sem kennir þér hvernig maður fer að.
Það er líka hægt að kaupa kort sem eru með umhverfisvottunarmerki og stinga fræpoka með, ef þig langar til að gefa kort sem gefur af sér en hefur ekki tök á að búa það til.
Þú getur einnig búið til kort úr kortunum frá árinu á undan, þau þurfa nefnilega alls ekki að vera einnota.
Jólaskraut
Margir eru með skraut sem þeir tengja við minningar frá æskujólunum eða bara eitthvað sem hefur fylgt viðkomandi á fullorðinsárunum. Þeir sem eiga börn fá mjög oft ómetanleg verðmæti frá þeim í desember, sem skreyta heimilið ár eftir ár. Svo eru það hinir sem finnst þeir alltaf þurfa að vera að skipta út og kaupa nýtt en þá er gott að hafa í huga hvaðan dótið kemur sem þú kaupir, er það einnota eða sígilt og úr hverju er það gert.
Ef þér finnst gaman að gera þitt eigið jólaskraut og langar í eitthvað nýtt, þá er frábær hugmynd að safna hólkunum innan úr klósettrúllunum og gera stjörnur eins og eru hér á myndinni fyrir ofan. (það er linkur fyrir neðan myndina). Þetta er bara ein af fjölmörgum hugmyndum sem hægt er að finna á veraldarvefnum um nýtingu á verðlausum hlutum sem falla til á hverju heimili.
Keyptu umhverfisvænar gjafir
Góðu áformin geta fallið um sjálf sig ef við vitum ekki hvað fer í innkaupakörfuna okkar. Reyndu að velja vörur sem eru framleiddar í nærumhverfinu og eða umhverfisvottaðar, ef þú gerir það þá ertu á réttri leið. Það er alveg ótrúlegt úrval af Íslenskum vörum sem eru framleiddar með lágmarks kolefnisspori, því er ekki úr vegi að skoða það fyrst áður en leitað langt yfir skammt. Það má líka finna ýmsar gersemar á nytjamörkuðum, með því erum við að gefa hlutunum framhaldslíf. Svo má ekki gleyma því að ýmislegt er hægt að gera sjálfur og heimatilbúnar jólagjafir hvort sem það eru gjafir til að skreyta með, borða eða klæðast þá slá þær yfirleitt í gegn.
Mér finnast það lang bestu gjafirnar þegar einhver mér kærkominn er búin að leggja álúð og natni í að útbúa eitthvað handa mér. Hvað finnst þér?
Vistvæn jól þurfa því hvorki að vera litlaus né leiðinlegt þvert á móti geta þau verið bæði lítrík og skemmtileg.
- Kolefnismarkaður stuðlar að loftslagsárangri en einnig að uppbyggingu eftir COVID-19by Guðrún Pétursdóttir
Til að Íslendingar geti náð verulega góðum árangri á Parísartímabilinu verða stjórnvöld að tryggja nauðsynlega innviði svo skapaðar verði forsendur fyrir einkaframtak í loftslagsmálum. Nú þegar Kyoto-tímabilinu er að ljúka stefnir í að Íslendingar losi 20% meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið en 1990, þveröfugt við þann 20% samdrátt sem landið hafði skuldbundið sig til að ná. Við blasir að kaupa þurfi losunarheimildir fyrir milljarða króna því loftslagsskuld Íslands eftir Kyoto-tímabilið verður 4,1 milljón tonn koltvísýringsígilda.
Um þetta skrifar Guðmundur Sigbergsson, stofnandi vottunarstofunnar iCert, í grein sem birtist á Vísi 3. nóvember. Hann vísar í nýtt álit Loftslagsráðs frá 26. október þar sem bent er á veikleika í því hvernig staðið er að kolefnisjöfnun hér á landi. Sá veikleiki geti leitt til þess að árangur í loftslagsmálum eigi eftir að láta á sér standa, verði ekki gripið til aðgerða strax.
Guðmundur fer yfir árangur Íslendinga á Kyoto-tímabilinu sem lýkur nú um áramótin. Markmiðið var að draga úr losun um 20% frá því sem var 1990 en útlit er fyrir að losunin verði þvert á móti 20% meiri. Íslendingar hafi notað allar losunarheimildir sínar og séu komnir á yfirdrátt. Útlit sé fyrir að losunarheimildir vanti á móti 4,1 milljón tonna af koltvísýringi sem fellur í gjalddaga í árslok 2022. Líklega verði Íslendingar þá að kaupa losunarheimildir fyrir milljarða króna. Horfur séu á að verð á slíkum heimildum fari hækkandi. Nú sé rétt að horfa eftir kauptækifærum þegar hagstætt verð á heimildum býðst. Engin merki sjáist þó í áætlunum ríkisins um að til standi að kaupa losunarheimildir.
Skattlagning og skattaívilnanir til að berjast við loftslagsbreytingar telur Guðmundur ekki nægja til árangurs. Virkja verði einkaframtakið og „búa svo um hnútana að hér skapist hvatar til einkaframtaks í loftslagsmálum“, eins og hann skrifar orðrétt. Í áliti Loftslagsráðs eru tíunduð þrjú atriði sem brýnast sé að ráðast í úrbætur á. Í fyrsta lagi þarf að vera fyrir hendi alþjóðlega viðurkennd aðferðafræði vegna útgáfu kolefniseininga, í öðru lagi miðlæg skráning kolefniseininga og afskráningar þeirra vegna notkunar en í þriðja lagi að opinberir aðilar og einkafyrirtæki verði að setja yfirlýsingar sínar um kolefnisjöfnun fram af ábyrgð og í samræmi við viðurkennd viðmið.
Alþjóðlega hafa kolefnismarkaðir verið í þróun í áratugi, bendir Guðmundur á. Kaupendur kolefnisjöfnunar geri miklar kröfur til kolefniseininga og eins séu ríkar kröfur gerðar til þeirra sem setja fram fullyrðingar um kolefnisjöfnun á starfsemi sinni. Til séu ýmsir kröfustaðlar um loftslagsverkefni á borð við Gold Standard, Verra, ÍST EN ISo 14064-2:2019 sem allir byggist á ákveðnum meginreglum. Þær reglur verði öll loftslagsverkefni að uppfylla. Verkefni þurfa að fela í sér nettóviðbót bindingar við það sem ella hefði orðið. Þau þurfa að vera mælanleg. Aðferðafræðin verður að vera gagnsæ. Takast verður á við leka kolefnis úr verkefnunum. Óháður aðili þarf að taka verkefnin út og þau þurfa að vera skráð í miðlægri skrá sem er opin almenningi. Loftslagsverkefni hafa nefnilega takmarkað gildi nema kolefnisjöfnunin af þeim sé skráð í opna og miðlæga skrá þar sem allir geta gengið úr skugga um að sú jöfnun sem haldið er fram að hafi orðið sé raunveruleg. Fullyrðingar um kolefnisjöfnun eða kolefnishlutleysi sem ekki eru byggðar á viðurkenndri aðferðafræði eða stöðlum hafa takmarkað gildi, skrifar Guðmundur.
Stofnandi iCert segir jafnframt í grein sinni að byggja þurfi upp innviði svo hvatar skapist til einkaframtaks í loftslagsmálum. Þar séu veikleikarnir sem Loftslagsráð telji brýnast að ráðist verði í úrbætur á. Jákvæð teikn séu engu að síður á lofti hérlendis. Sem dæmi um það bendir Guðmundur á þau kröfuviðmið sem Skógræktin hefur gefið út til skógræktar sem grundvöll kolefnisjöfnunar og kölluð eru Skógarkolefni. Þá hafi iCert fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði með samvinnu við Carbfix, Sorpu, Climeworks og fleiri til að gefa megi út kolefniseiningar með t.d. steinrenningu koltvísýrings í bergi. Á vef iCert megi hafi líka verið gefin út leiðbeinandi viðmið um kolefnisjöfnun og kolefnishlutleysi, aðgengileg öllum sem vilja setja fram fullyrðingar um slíkt. „Þar að auki er unnið að því að tryggja aðra innviði sem eru nauðsynlegir hérlendis, eins og kolefnisskrá, til þess að hér geti þróast kolefnismarkaðir í takt við það sem gengur og gerist alþjóðlega,“ skrifar hann einnig.
Undir lok greinarinnar telur Guðmundur allar forsendur til staðar svo Ísland geti náð verulega góðum árangri á Parísartímabilinu. Þó verði að tryggja nauðsynlega innviði sem njóti viðurkenningar stjórnvalda svo skapaðar verði forsendur fyrir einkaframtak í loftslagsmálum. Slíkt einkaframtak geti ekki einungis stuðlað að góðum árangri landsins á Parísartímabilinu heldur einnig að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu sem dregið geti úr efnahagslegum áhrifum COVID-19 faraldursins.
- Á leiðinni frá Kyoto til Parísar - grein Guðmundar Sigbergssonar
- Skógarkolefni
- Álit Loftslagsráðs frá 26. október 2020
Texti: Pétur Halldórsson
skogur.is sótt 25/11/2020
- Vistmorð varði allt að tíu ára fangelsiby Guðrún Pétursdóttir
Alvarlegar vísvitandi skemmdarverk á umhverfi munu varða allt að tíu ára fangelsi samkvæmt nýjum lögum um vistmorð (fr. écocide) sem franska ríkisstjórnin kynnti á dögunum og verða lögð fyrir þingið.
Lögin voru meðal þess sem lagt var til á þjóðfundur um umhverfismál, sem stjórnvöld boðuðu til á síðasta ári, þar sem 150 almennir borgarar ræddu umhverfismál og lögðu fram hugmyndir.
„Við ætum að skilgreina almenn losunarbrot,“ segir Eric Dupont-Moretti, dómsmálaráðherra. „Refsingin verður í samræmi við ásetning þess brotlega.“ Markmiðið væri er að brotamaður þurfi að greiða allt að tífalt það sem hann hefði hagnast á brotunum.
Þá munu Frakkar skilgreina „ógn við umhverfi“ sérstaklega í lögum sínum, en samkvæmt þeim geta hugsanlegir brotamenn verið sektaðir jafnvel áður en þeir framkvæma verknaðinn.
Alls voru 149 tillögur lagðar fram á þjóðfundinum, en Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur boðað að stjórnvöld muni framkvæma 146 þeirra.
mbl.is sótt 25/11/2020
- Alþjólegi klósettdagurinnby Guðrún Pétursdóttir
Á hverju ári koma um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu! Þá er óupptalið hvað safnast í fráveitukerfi annars staðar á landinu.
Úrgangur í fráveitu er vandamál um allt land. Hann skaðar lífríkið, þyngir rekstur fráveitukerfa og eykur kostnað sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar á úrgangi um tugi milljóna króna á ári.
Blautþurrkur, sótthreinsiklútar, tannþráður, smokkar, eyrnapinnar, bómullahnoðrar, hár og annar úrgangur á ekki heima í fráveitukerfinu okkar.
Samorka og Umhverfisstofnun hafa í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin látið gera kynningarefni frítt fyrir alla sem allir geta nýtt sér og deilt áfram að vild. Hvetjum alla til að setja bara piss, kúk og klósettpappír í klósettin.
Á vefsíðunni www.klosettvinir.is finnið þið efni sem þið getið notað á vefsíður ykkar, gert frétt með myndefni, deilt myndböndum á samfélagsmiðlum, hlustað á lag á Spotify, hengt upp veggspjöld í sundlauginni og íþróttahúsinu. Allt sem þarf til að fræða fólk um að bara piss, kúkur og klósettpappír eiga heima í klósettinu!
Í dag er alþjóðlegi klósettdagurinn og upplagt að minna fólk á hvað má fara í klósettið.
Verum með!
umhverfisstofnun.is sótt 19/11/2020
- Tækifæri að þróa nýja tækni og aðferðir í loftslagsmálumby Guðrún Pétursdóttir
Umhverfismál og loftlagsbreytingar eru meðal helstu áskorana sem Ísland stendur frammi fyrir og metnaðarfull markmið um að draga úr útblæstri er langtímaáskorun sem skapar tækifæri til þess að nýta hugvit og sköpunargáfu til að þróa nýja tækni og aðferðir sem mun nýtast til að gera hluti betur og öðruvísi. Þetta kemur fram í umsögn SI um drög að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem send hefur verið umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Samtökin leggja áherslu á eftirtalda þætti í áframhaldandi vinnu við uppfærða og endurskoðaða aðgerðaráætlun:
1. Gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs
2. Orkuskipti í vegasamgöngum og tæknihlutleysi
3. Innviðir fyrir virka ferðamáta
4. Loftslagssjóður
5. Kolefnisgjald
6. Eldsneytisframleiðsla og áburðargerð úr sláturafurðum
7. Fræðsla um loftslagsmál í skólum
8. Urðunarskattur og bann við urðun lífræns úrgangs
9. Útfösun flúorgasa
10. Minni matarsóun
11. Skil á umhverfisupplýsingum
12. Loftslagsáhrif byggingariðnaðarins
13. Uppbygging á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafaÍ umsögninni kemur einnig fram að ef takast eigi að stemma stigu við loftslagsvanda, sem alþjóðlegt hagsmunamál, liggi fyrir að það þurfi að eiga sér stað orkuskipti, þar sem skipt sé úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Þar geti Ísland lagt mikið af mörkum. Metnaður stjórnvalda hljóti að liggja til þess að draga úr flækjustigi í kerfinu og greiða götu þeirra sem vilja standa að slíkri uppbyggingu.
Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.
si.is sótt 17/11/2020
- Hlýnun lengir líf fellibylja yfir landiby Guðrún Pétursdóttir
Fellibyljir í Norður-Atlantshafi eru tvöfalt lengur missa afl sitt eftir að þeir ganga á land en fyrir fimmtíu árum vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Þannig eru þeir nú færir um að valda enn meiri eyðileggingu á landi en áður.
Því hefur lengi verið spáð að fellibyljir gætu orðið öflugri eftir því sem höfin hlýna vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Hlýindin gefa byljunum meiri orku þegar þeir myndast sem gerir þeim kleift að verða enn öflugri en ella.
Þessi viðbótarorka er einnig talin ástæða þess að fellibyljir missa afl hægar þegar þeir ganga á land nú en áður. Það er niðurstaða tveggja vísindamanna sem fóru yfir gögn um 71 Atlantshafsfellibyl sem gengið hefur á á land frá 1967. Þeir birtu grein um niðurstöður sínar í vísindaritinu Nature í dag.
Hiti og raki yfir sjó knýr fellibylji áfram. Þegar þeir ganga á land rofna tengslin við orkuuppsprettuna og því þverr þeim afl tiltölulega fljótt. Pinaki Chakraborty frá Vísinda- og tæknistofnun Okinawa í Japan sem er annar höfundur greinarinnar segist ekki hafa átt von á að þetta breyttist þrátt fyrir hnattræna hlýnun. Niðurstöðurnar komu honum á óvart.
Á sjötta áratug síðustu aldar misstu fellibyljir um tvo þriðju hluta vindstyrks síns á fyrstu sautján klukkustundunum eftir að þeir gengu á land. Nú tekur það almennt um 33 klukkustundir fyrir byljina að missa svo mikinn vindstyrk.
„Fyrir Norður-Atlantshafsfellibylji sem ganga á land hefur tímarammi hnignunar næstum því tvöfaldast á undanförnum fimmtíu árum,“ segir Chakraborty sem telur þetta gríðarlega breytingu.
Aukinn raki eins og varaeldsneytistankur
Ástæðuna fyrir því að fellibyljirnir halda afli sínu lengur yfir landi nú telja vísindamennirnir aukinn raka sem þeir bera með sér en hlýrra loft getur borið meiri raka en svalara. Þessi raki virkar eins og varaeldsneytistankur fyrir fellibyljina þegar þeir eru komnir upp á land, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Niðurstöðurnar þýða að eftir því sem hlýnar á jörðinni verði fellibyljir líklega langlífari og kröftugri þegar þeir ganga á land en áður. Þeim gæti því fylgt enn meiri hamfarir en áður.
Jim Kossin, loftslags- og fellibyljasérfræðingur hjá Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna (NOAA) segir AP-fréttastofunni að það sé merk uppgötvun hjá Chakraborty og Lin Li, meðhöfundi hans, að hafa komið auga á fylgnina á milli hlýinda í sjó og styrk fellibylja yfir landi. Hann kom ekki nálægt rannsókninni.
Aðrar rannsóknir, meðal annars sem Kossin var höfundur að, hafa áður sýnt að fellibyljir í hitabeltinu fari nú hægar yfir en áður, beri meiri raka, þeir færist nær pólunum og þeir séu að verða öflugri á hlýnandi jörðu.
Fellibyljatímabilið á Norður-Atlantshafi í haust hefur verið sérstaklega virkt. Met var slegið yfir fjölda lægða sem er gefinn nafn. Þurftu veðurfræðingar að grípa til gríska stafrófsins eftir að fyrirframákveðinn listi nafngifta var að þrotum. Fellibylurinn Þeta var 29 lægðin sem myndaðist á þessu tímabili en þær voru mest 28 árið 2005.
visir.is sótt 12/11/2020
- Losunin 20,6% minni en í fyrraby Guðrún Pétursdóttir
Losun hitunargilda (CO2-ígildi) frá hagkerfi Íslands á þriðja ársfjórðungi 2020 var 1.460 kílótonn samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Þessi losun er 20,6% minni en losun á sama ársfjórðungi 2019 þegar hún var 1.840 kílótonn.
Ástæða þessa er mikill samdráttur í flugi vegna kórónuveirufaraldursins (Covid-19). Losunin á þriðja ársfjórðungi 2020 var 13,6% meiri en losun á öðrum ársfjórðungi 2020 en þá var hún sögulega lág eða 1.281 kílótonn.
Losun virðist almennt séð vera meiri á þriðja ársfjórðungi en öðrum ársfjórðungi enda tilheyra fleiri sumarmánuðir þeim þriðja og allajafna meiri akstur á vegum þá og aukin umsvif í flugrekstri. Undanfarin ár hefur aukning á þeim tíma verið í kringum 11% og er hún því heldur meiri í ár.
mbl.is sótt 11/11/2020
- Bati efnahagsins í Covid ógnar umhverfinuby Guðrún Pétursdóttir
Aðgerðir sem miða að því að koma efnahagnum til bjargar í heimsfaraldri eru víða um heim verulega óumhverfisvænar. Innan að minnsta kosti 18 stærstu hagkerfa heims stjórnast efnahagsaðgerðirnar af eyðslu sem hefur slæm áhrif á umhverfið, t.d. ívilnunum fyrir olíufyrirtæki eða önnur fyrirtæki sem skilja eftir sig stór kolefnisspor. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Guardian.
Horfur á alþjóðlegum grænum bata í faraldrinum eru því hverfandi en víða um heim dæla ríki peningum í atvinnugrein jarðefnaeldsneytis til að koma í veg fyrir hrikalegan samdrátt.
Á meðan tekst ríkjum heims ekki að uppfylla loforð sín um kolefnishlutleysi og eru aðeins örfá af helstu ríkjum heims sem verja peningum í kolefnisminni aðgerðir eins og endurnýjanlega orku, rafknúin ökutæki og orkunýtni.
Kína stendur sig verst
Aðeins fjögur helstu ríki heims, Frakkland, Spánn, Bretland og Þýskaland, ásamt Evrópusambandinu gera ráð fyrir aðgerðum sem skila raunverulegum ávinningi fyrir umhverfið, samkvæmt greiningunni.
Evrópusambandið er fremst í flokki hvað þetta varðar og ætlar sér að verja 30% af endurheimtarsjóði í grænar lausnir.
Kína er það land sem virðist ætla að láta minnst í umhverfisvænar lausnir en aðeins 0,3% af þeirra pakka fyrir efnahagsbata eru ætluð grænum verkefnum. Fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum var rétt um 1% af tilkynntum útgjöldum til bjargar efnahagnum af grænum toga. Joe Biden, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur þó sagst ætla að breyta um stefnu hvað það varðar.
mbl.is sótt 9/11/2020
- Veitir 30 milljónir til nýsköpunarby Guðrún Pétursdóttir
Íslandsbanki hefur veitt fjórtán verkefnum alls 30,5 milljónir króna úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka.
slandsbanki afhenti í dag styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Alls voru veittar 30,5 milljónir króna til fjórtán verkefna en sjóðnum bárust 124 umsóknir um styrki. Á rúmu ári hafa verið veittir styrkir fyrir 90 milljónir króna til frumkvöðla. Frá þessu er greint á heimasíðu Íslandsbanka.
„Við úthlutun styrkja er horft til frumkvöðlaverkefna sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur ákveðið að starfa eftir. Þau eru Menntun fyrir alla, Jafnrétti kynjanna, Nýsköpun og uppbygging og Aðgerðir í loftslagsmálum,“ segir í tilkynningu bankans.
Stjórn Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka var skipuð Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu og Unu Steinsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.
Eftirfarandi verkefni hljóta styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka í ár:
Greenfo
Greenfo er tæknilausn sem safnar og heldur utan um gögn um sjálfbærni fyrirtækja, einfaldar þeim að halda loftslagsbókhald og fylgjast með umhverfisáhrifum sínum. Með lausninni geta fyrirtæki og stofnanir sett fram markvissar aðgerðir í loftslagsmálum, fylgst með árangri í rauntíma og forgangsraðað verkefnum í þágu umhverfisins út frá hagkvæmni og ávinningi.
Spaksmannsspjarir
Með því að sameina tækni og fagurfræði munu Spaksmannsspjarir hanna og framleiða fatalínu með umhverfisvænni vinnubrögðum. Verkefnið felur í sér nýtingu á þrívíðum stafrænum hönnunarflíkum í umhverfisvænni fatahönnun. Í lúxus útgáfu línunnar mun íslenskur sjálfbær æðardúnn leika lykilhlutverk.
Humble
Verkefnið miðað að því að stemma stigu við matarsóun í virðiskeðju íslensks matvælaiðnaðar með uppvinnslu matvæla. Þetta er gert með því að matreiða þau matvæli sem ekki standast útlitskröfur, eða eru að nálgast síðasta neysludag, og bjóða notandanum á lægra verði.
Marea
Með nýsköpun, tækni og skapandi hugsun er það markmið Marea að hanna fyrsta lífplastið byggt á íslenskum sjávarauðlindum. Notuð er þaraplastfilma sem er ætluð til þess að pakka inn íslensku grænmeti. Lausnin mun minnka notkun á einnota plasti en varan er nú í hönnunar- og þróunarferli.
Loftslagsskrá
Með miðlægum skráningargrunni er það tilgangur Loftslagsskrár að tryggja gagnsæi, rekjanleika og fyrirbyggja tvítalningu jöfnunar þegar fyrirtæki setja fram fullyrðingar um kolefnisjöfnun. Loftslagsskrá er þannig mikilvægur innviður til að stuðla að því að Ísland nái markmiði sínu um kolefnishlutleysi 2040.
Surova
Markmið Surova er að hanna og framleiða sjálfvirka og sjálfbæra lausn í grænmetisræktun til þess að draga úr notkun auðlinda og losun gróðurhúsalofttegunda vegna flutnings. Lausnin er lóðrétt vatnsræktunarkerfi í einangruðum gámaeiningum sem sér um framleiðsluferlið frá sáningu til pökkunar.
Plöntutíð
Plöntutíð er íslensk sviðslistahátíð sem verður haldin í annað sinn 3. - 5. september 2021 og styður við frumsköpun og nýmæli í sviðslistum á Íslandi. Plöntutíð var stofnuð sem vettvangur fyrir listamenn sem hafa sett náttúruna í forgrunn listsköpunar sinnar með það að leiðarljósi að vinna utan mannhverfrar listsköpunar og tækla loftlagskvíða.
Plastgarðar
Tilgangur verkefnisins Hey!Rúlla er að draga verulega úr plastnotkun í landbúnaði á Íslandi og öðrum löndum. Árlega eru flutt inn til Íslands um 2.000 tonn af einnota heyrúlluplasti og er því ávinningur fyrir umhverfið mikill. Stefnt er að því endurnýta plast að fullu leyti til að skapa þannig hringrásarhagkerfi.
Kennsluappið
Kennsluappið býður upp á fjölbreyttar leiðir til að læra sama námsefnið. Smáforritið nær til notenda á þeirra forsendum, óháð því hvort þeim finnist betra að læra myndrænt, hljóðrænt eða með öðrum leiðum. Kennsluappið er þegar komið út með sjö leikjum til að æfa orðaforða. Unnið er að útgáfu aukins efnis ásamt fleiri leikjum.
Samvera
Markmið Samveru er að draga úr þeirri lýðheilsuvá sem stafar af félagslegri einangrun og einmanaleika. Samvera veitir viðskiptavinum sínum tækifæri til að veita öðrum athygli, samhygð og væntumþykju og samanstendur af gjafaboxi sem inniheldur gjafakort og hugmyndum af gæðastundum saman.
Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar
Tónlist til betra lífs og farsælla samfélags er margþætt samfélagsverkefni sem styður fólk í því að endurbyggja líf sitt eftir áföll og erfiðleika, jafnframt því að þjálfa tónlistarnema í stjórnun tónlistarverkefna í samfélaginu.
Hennar Rödd
Bókin Hennar Rödd: Frásagnir kvenna af erlendum uppruna á Íslandi felur í sér vitundarvakningu um málefni jaðarhópa og jafnara, upplýstara og virðingarríkara samfélag. Tilgangurinn með útgáfu bókarinnar er að skapa umræður um málefni kvenna af erlendum uppruna og stuðla að aukinni samþættingu ólíkra menningarhópa hérlendis.
Markaðsstofa Kópavogs
Markaðsstofa Kópavogs setur á fót atvinnu- og nýsköpunarsetur í Kópavogi í samstarfi við atvinnulífið í bænum með það að markmiði að skapa ný störf. Áhersla verður lögð á stuðning við frumkvöðla á fyrstu skrefum nýsköpunar m.a. við mótun viðskiptahugmynda og gerð viðskiptaáætlana.
Paxal
Paxal er umboðs- og markaðsskrifstofa fyrir knattspyrnu- og tónlistarmenn. Með sérstöku átaki stendur til að framleiða markaðsefni og auka tengslamyndun í þeim tilgangi að kynna íslenskar knattspyrnukonur bæði hér á landi og erlendis.
vb.is sótt 7/11/2020
- Aðgerðirnar munu hafa jákvæð áhrif á búskapinn í heildby Guðrún Pétursdóttir
Síðastliðið vor voru 15 sauðfjárbú valin til þátttöku í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður, sem er samstarfsverkefni stjórnvalda, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, en markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og auka kolefnisbindingu.
Verkefnið fer vel af stað og hafa allir hafið vinnu við metnaðarfullar aðgerðaráætlanir sem munu þegar fram í sækir vera grunnur að loftslagsvænum landbúnaði, að sögn Berglindar Óskar Alfreðsdóttur verkefnastjóra.
Hvert bú setur sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum þar sem aðgerðirnar eru mótaðar af þátttakendum sjálfum og þeim tækifærum til loftslagsvænna aðgerða sem eru hjá hverjum og einum. Aðgerðaráætlun hvers þátttökubús er lifandi skjal sem heldur utan um öll markmið þátttakanda og er árangurinn metinn eftir því sem verkefninu vindur fram. Á Skjöldólfsstöðum búa þau Sigurður Max Jónsson og Arna Silja Jóhannsdóttir og eru þátttakendur í verkefninu. Þeirra aðgerðaráætlun þykir vera metnaðarfull með mikla möguleika.
Vilja minnka kolefnisspor lambakjötsframleiðslunnar
„Við ákváðum að taka þátt í verkefninu því við viljum finna leiðir og lausnir til þess að minnka kolefnisspor í matvælaframleiðslu, í okkar tilfelli í framleiðslu á lambakjöti. Orðið hefur mikil vitundarvakning í þjóðfélaginu um að minnka kolefnisspor okkar til að sporna við óeðlilegri hlýnun jarðar af mannavöldum,“ segir Arna.
„Við sem þjóð höfum skuldbundið okkur við Parísarsáttmálann, eins og svo margar, og það þýðir að allir angar okkar samfélags þurfa að finna leiðir til þess að minnka losun, eða auka bindingu. Það skemmtilega við að vera í hefðbundnum búskap á bújörð er að það eru tækifæri til að fara mjög blandaða leið í þessum efnum; bæði hægt að finna leiðir til þess að auka bindingu eða minnka losun. Hefðbundinn búskapur eða almennt húsdýrahald til matvælaframleiðslu hefur fengið á sig það óorð að valda stóru kolefnisspori. Við viljum bæta ímynd okkar með það að leiðarljósi að sýna fram á að framleiðsla á til dæmis lambakjöti geti bæði verið umhverfisvæn og um leið sé það einnig holl fæða,“ segir Arna enn fremur um ástæður fyrir þátttöku þeirra.
Læra nýjar leiðir til að minnka kolefnisspor búskaparins
Að sögn Örnu er aðgerðaráætlun þeirra nokkuð hefðbundin, en þau sjá ýmis tækifæri til að ná betri árangri í búskapnum með þátttökunni. „Við sjáum bæði tækifæri í aukinni bindingu á kolefni í gegnum skógrækt og uppgræðslu lands. Að sama skapi sjáum við tækifæri í minni losun með því að ná meiri afurðum eftir hverja vetrarfóðraða ær, með sömu aðföngum eða með betri nýtingu á þeim. Við erum til dæmis í ferli við að hefja tæplega 40 hektara nytjaskógrækt á jörðinni. Einnig tökum við þátt í verkefninu „Bændur græða landið“.
Verkefnið er tiltölulega nýbyrjað og framleiðsluferlar á lambakjöti langir og því ekki enn hægt að taka mið af því hversu vel gengur að ná markmiðum sem hver þátttakandi hefur sett sér. Okkur líst samt sem áður vel á þetta verkefni og erum að sjálfsögðu spennt fyrir framhaldinu.
Ávinningur okkar við að taka þátt í þessu verkefni er fyrst og fremst sá að við lærum nýjar leiðir til þess að minnka kolefnisspor í okkar framleiðslu, sem er fyrst og fremst markmiðið. Það fer oftast vel saman, aðgerðir sem stuðla að betra umhverfi hafa jákvæðan ávinning fyrir búskapinn í heild,“ segir Arna.
Kindur á Skjöldólfsstöðum í Breiðdal. Metnaðarfull áætlun með mikla möguleika
Aðgerðaráætlun Skjöldólfsstaða er mjög metnaðarfull, að sögn Berglindar Óskar, og tekur vel á þeim möguleikum sem eru fyrir hendi í búrekstrinum. „Hún ber með sér að þau eru mjög meðvituð um loftslags- og umhverfismál og hafa tileinkað sér loftslagsvænar aðferðir sem verða góður grunnur að áframhaldandi vinnu að loftslagsvænu búi,“ segir hún.
bbl.is sótt 02/11/2020
- Nýtt lofthreinsiver bindur 1 milljón tonna af CO2by Guðrún Pétursdóttir
Íslenska fyrirtækið Carbon Iceland ehf. áformar að reisa lofthreinsiver á Íslandi sem gerir kleift að hreinsa og og binda eina milljón tonna af CO2 (koltvísýringi) úr andrúmslofti. Áætlað er að framkvæmdin kosti um 140 milljarða króna en verið verður starfrækt við Bakka á Húsavík.
Byrjað var á undirbúningi þessa verkefnis fyrir tveimur árum og hefur Carbon Iceland náð samkomulagi við kanadíska hátæknifyrirtækið Carbon Engineering um að nota svokallaða „Direct Air Capture“- tækni sem fyrirtækið hefur þróað.
„Um er að ræða eitt af stærri nýsköpunarverkefnum síðari ára hér á landi en efnahagsleg áhrif verkefnisins geta orðið víðtæk fyrir Ísland. Verkefnið styður mjög við loftslagsmál, eykur sjálfbærni og ýtir undir grænar áherslur og náttúrulega hringrás,“ segir í tilkynningu en aðstandendur Carbon Iceland kynntu verkefnið á blaðamannafundi á Grand hótel í morgun.
Vatnaskil fyrir Ísland
Hallgrímur Óskarsson, stjórnarformaður Carbon Iceland, segir verkefnið fela í sér vatnaskil fyrir Ísland að mörgu leyti, ekki bara í loftslagsmálum.
„Við erum að fanga eina milljón tonna af koltvísýringi sem er miklu meira magn en Ísland hefur séð til þessa,“ segir Hallgrímur í samtali við mbl.is og bætir við að fyrirtækið muni einnig nota koltvísýringinn sem það bindur til að framleiða hreint, grænt eldsneyti, til dæmis fyrir skip og önnur samgöngutæki. „Það er verið að nota eldsneyti sem krefst þess ekki að það sé tekið jarðefnaeldsneyti úr jörðu,“ segir hann og nefnið að verið sé að endurnýta mengunina. „Það er mun skárra að það sé verið að nota grænt eldsneyti sem skilar ekki meiru út í andrúmsloftið.“
Einnig verður notast við grænt CO2-grunnefni til að byggja upp öfluga matvælaframleiðslu, að sögn Hallgríms, sem gæti opnað á alls kyns iðnað hérlendis tengdan útflutningi, meðal annars á grænmeti.
Hann segir Ísland vera eitt af fyrstu löndunum í heiminum til að nýta sér þessa tækni. Fyrsta lofthreinsiverið var sett upp í Kanada en Bandaríkjamenn og Bretar eru einnig byrjaðir á samskonar verkefni og Ísland.
Aðlagað að íslenskum aðstæðum
Fram kemur í tilkynningu að í byrjun árs hafi Carbon Iceland ehf. náð samkomulagi við kanadíska hátæknifyrirtækið Carbon Engineering sem hefur þróað og fengið einkaleyfi á öflugri aðferð til að hreinsa mikið magn af CO2 beint úr andrúmslofti. DAC-aðferðin (Direct Air Capture) hefur verið í þróun og prófunum hjá þeim í Kanada í yfir 10 ár en upphafsmaður aðferðafræðinnar er David Keith, prófessor í eðlisfræði og umhverfisvísindum við Harvard-háskóla.
„Carbon Iceland hefur unnið að því undanfarin misseri að aðlaga tækni og aðferðarfræði Carbon Engineering að íslenskum aðstæðum og hefur sú aðlögun snúist um það að nota eingöngu hreina græna raforku í starfsemi lofthreinsiversins. Endanlegri útfærslu varðandi orkumál er ekki að fullu lokið og verður greint frá þeim niðurstöðum síðar. Viðræður hafa staðið yfir við sveitarfélagið Norðurþing sem miða að því að starfsemi Carbon Iceland verði staðsett á vistvænum iðngarði á Bakka, við Húsavík,“ segir í tilkynningunni.
Kostar um 140 milljarða króna
Áætlað er að framkvæmdin kosti um 140 milljarða króna og eru þá allar þrjár vinnslueiningarnar taldar með: lofthreinsiver, framleiðsla á grænu CO2 og framleiðsla á hreinu, grænu eldsneyti. Árlegar tekjur, þegar starfsemin verður komin í fullan gang, geta numið allt að 50 til 70 milljörðum króna, að stærstum hluta gjaldeyristekjur, segir í tilkynningunni.
Skattspor til ríkis og sveitarfélaga er áætlað um 8 til 10 milljarðar króna árlega. Fyrstu áform félagsins eru að fjármagna verkefnið erlendis frá og eru viðræður um það þegar hafnar. Fyrirhugað er að byrja að reisa lofthreinsiverið árið 2023 og að það verði komið í gagnið um 2025. Um 300-500 stöðugildi, bein og óbein, verða að staðaldri við starfsemina.
Á að nýtast öllu samfélaginu
„Við sem stöndum að Carbon Iceland ehf. fögnum því mjög að finna hvað margir aðilar hafa haft trú á verkefninu með okkur og hafa staðið þétt við framvindu þess á undanförnum misserum. Verkefnið á að nýtast samfélaginu öllu enda er um að ræða stórt nýsköpunarverkefni, sem getur haft mikil áhrif á loftslagsmál Íslands, með grænar áherslur þar sem hugvit er notað til að fanga mikið magn af CO2 úr andrúmslofti og umbreyta því í efni til matvælaframleiðslu og framleiðslu á grænu eldsneyti,“ segir í yfirlýsingu frá Carbon Iceland.
mbl.is sótt 01/11/2020
- Stórkaup á metangasiby Guðrún Pétursdóttir
Malbikstöðin & Fagverk og Sorpa hafa undirritað sameiginlega viljayfirlýsingu um kaup og sölu á allt að milljón normalrúmmetrum (Nm3) af hreinsuðu metangasi á ári.
Það samsvarar tæplega helmingi af afkastagetu GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU. Með yfirlýsingunni lýsa Malbikstöðin & Fagverk og SORPA yfir ætlun sinni að starfa saman að því að á komist bindandi samningur þeirra á milli um viðskipti með metan um mitt ár 2021.
Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri SORPU, segir í fréttatilkynningu að töluverð eftirspurn sé eftir metangasi frá GAJU.
Metangasinu er ætlað að koma í staðinn fyrir umtalsvert magn af dísilolíu í starfsemi Malbikstöðvarinnar og Fagverks. Með því að nota metangas í stað dísilolíu til að framleiða malbik draga fyrirtækin umtalsvert úr kolefnisfótspori malbiksins.
mbl.is sótt 29/10/2020
- Nýta hátækni úr Svartsengi í norskri metanólverksmiðjuby Guðrún Pétursdóttir
Norðmenn hyggjast nýta sér hátækni Carbon Recycling í Svartsengi til að reisa 28 milljarða króna verksmiðju í Norður-Noregi sem fangar útblástur frá kísilmálmvinnslu og breytir honum í umhverfisvænt eldsneyti. Fjallað var um verkefnið í fréttum Stöðvar 2.
Það er liðin átta ár frá því Carbon Recycling reisti verksmiðju sína í Svartsengi, ekki síst til að flytja út hugvit frá Íslandi, með því að sýna umheiminum fram á að þetta væri hægt; að fanga koltvísýring frá iðnaði, í þessu tilviki frá orkuveri HS Orku, og breyta honum í metanól.
Frá verksmiðju Carbon Recycling International (CRI) í Svartsengi. Mynd:Vísir.is Þjóðverjar með stuðningi Evrópusambandsins voru fyrstir til að kaupa hugmyndina og hófu vorið 2019 að nýta koltvísýring kolaorkuvers við Köln til framleiðslu metanóls.
Svíar eru að prófa sig áfram í Luleå með að nýta útblástur stálframleiðslu og einnig Kínverjar sem reisa núna stóra metanólverksmiðju í Hunan-héraði. Og núna hefur Carbon Recycling fengið Norðmenn í viðskiptamannahópinn, að sögn Benedikts Stefánssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar fyrirtækisins.
Norska ríkisorkufyrirtækið Statkraft og kísilmálmframleiðandinn Finnfjord ætla í samstarfi við Carbon Recycling að þróa verksmiðju í Norður-Noregi sem breytir koltvísýringi frá kísilmálmvinnslu í metanól. Áætlað er að norska eldsneytisverksmiðjan verði um þrjátíu sinnum stærri en sú í Svartsengi en áformunum er nánar lýst í fréttatilkynningu Statkraft, sem er hin norska Landsvirkjun.
Ákvörðun um fjárfestinguna á að liggja fyrir eftir ár og er áformað að verksmiðjan taki til starfa eftir þrjú ár. Heildarfjárfesting er áætluð um 28 milljarðar íslenskra króna. Af þeim fjármunum áætlar Benedikt að einn til tveir milljarðar króna gætu runnið til Carbon Recycling en um 30 manns starfa núna hjá fyrirtækinu á Íslandi.
visir.is sótt 26/10/2020
- Högnuðust um 32 milljarðaby Guðrún Pétursdóttir
Samanlagður hagnaður Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku nam 32 milljörðum króna á síðasta ári.
Umsvif þriggja stærstu fyrirtækja landsins sem framleiða og selja raforku eru, líkt og meðfylgjandi gröf sýna, allveruleg. Samanlagður hagnaður orkufyrirtækjanna nam ríflega 32 milljörðum króna á síðasta ári og námu samanlagðar tekjur tæplega 124 milljörðum króna á tímabilinu.
Ekkert fyrirtæki á landinu býr yfir meira eigin fé en Landsvirkjun, en um síðustu áramót nam eigið fé ríkisfyrirtækisins rúmlega 306 milljörðum króna. Eigið fé Orkuveitunnar er að sama skapi verulegt og nam rúmlega 182 milljörðum króna um síðustu áramót. Eiginfjárstaða HS Orku er einnig sterk og nam tæplega 37 milljörðum króna undir lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar var 51% um síðustu áramót, 49% hjá Orkuveitu Reykjavíkur og loks nam eiginfjárhlutfall HS Orku 64% í árslok 2019. Þá námu eignir Landsvirkjunar hvorki meira né minna en ríflega 600 milljörðum króna, eignir Orkuveitu Reykjavíkur námu tæplega 370 milljörðum króna og eignir HS Orku námu ríflega 57 milljörðum króna.
Tvö félaganna, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, eru í eigu opinberra aðila. Landsvirkjun er í eigu íslenska ríkisins á meðan Orkuveitan er að langstærstum hluta í eigu Reykjavíkurborgar, en Akraneskaupstaður og Borgarbyggð eiga einnig lítinn hlut í félaginu. HS Orka er hins vegar í helmingseigu samlagshlutafélagsins Jarðvarma, sem er í eigu fjórtán íslenskra lífeyrissjóða, og hinn helmingurinn er í eigu sænska félagsins Magma Energy. Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar, Bjarni Bjarnason er forstjóri Orkuveitunnar og Tómas Már Sigurðsson er forstjóri HS Orku.
COVID-19 faraldurinn hefur rýrt hag Landsvirkjunar. Lækkaði hagnaður félagsins á fyrri árshelming núverandi árs um 40% á milli ára og var það, líkt og fyrr segir, að mestu tilkomið vegna áhrifa heimsfaraldursins. Var hagnaður tímabilsins 5,6 milljarðar króna, samanborið við 9,4 milljarða króna hagnað á fyrstu sex mánuðum ársins 2019. Þá námu tekjur Landsvirkjunar á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 31 milljarði króna, en árið áður námu tekjurnar á sama tímabili hátt í 36 milljörðum króna. Vegna faraldursins hefur Landsvirkjun stutt við bakið á sínum stærstu viðskiptavinum, stórnotendum, með því að bjóða þeim rafmagn á afsláttarkjörum út októbermánuð.
Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.
vb.is sótt 25/10/2020
- Fjárfesta 2 milljörðum í rafbílaverksmiðjuby Guðrún Pétursdóttir
General Motors hyggst fjárfesta 2 milljörðum dala til að breyta verksmiðju í Tennessee í verksmiðju sem framleiðir rafbíla.
Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors hyggst fjárfesta fyrir 2 milljarða bandaríkjadala til að breyta verksmiðju sinni í Spring Hill í Tennessee í verksmiðju sem sérhæfir sig í framleiðslu á rafbílum. Verður umrædd verksmiðja þá sú þriðja á vegum bílaframleiðandans sem framleiðir rafbíla. Reuters greinir frá.
Bílaframleiðandinn ku einnig stefna á að opna rafbílaverksmiðju í Mexíkó, en ekki liggur fyrir hvenær sú verksmiðja verður tekin í gagnið.
General Motors er með fleiri fjárfestingar á döfinni, því á dögunum greindi bílaframleiðandinn frá því að fjárfest verði 32 milljónum dala í verksmiðju í bænum Flint í Michigan. Verksmiðjan framleiðir Chevrolet Silverado og GMC Sierra, sem báðir eru pallbílar í stærri kantinum.
vb.is sótt 25/10/2020
- Jafnvægi náttúruverndar og orkuvinnsluby Guðrún Pétursdóttir
Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar flutti erindi á umhverfisdegi atvinnulífsins 14. október sl. Hún sagði okkur standa frammi fyrir að draga úr losun, minnka plast í hafinu, breyta samgönguháttum, taka upp grænt og hringrænt hagkerfi, styðja líffræðilega fjölbreytni og vernda víðernin.
„Sjálfbæra samfélagið sem við stefnum á krefst þess að við vinnum endurnýjanlega orku, klárum orkuskiptin á landi, hafi og í lofti og verndum náttúruna.“
Framtíðin krefst endurnýjanlegrar orku og að breyta þurfi orkukerfum. Hér á landi er talið að 300 MW þurfi til að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og 1200 MW til að ná fullum orkuskiptum.
Kristín Linda fjallaði einnig um tækifæri og áskoranir Íslands. Það verði mikil eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku en að framfarir í nýtingu vind- og sólarorku þrengi að samkeppnisforskoti Íslands. Vindorkan hefur hér áhrif á samkeppnishæfni annarra orkukosta þ.e. vatnsafls og jarðvarma. Það þarf að meta hvar megi nýta vindinn og hvar ekki en til að nýta vindorku er unnt að velja svæði á breiðari grunni en þegar um vatnsafl og jarðvarma er að ræða.
Landsvirkjun stefnir að kolefnishlutleysi árið 2025 og Kristín rakti hvernig því marki yrði náð.
Hún sagði fyrirhugaðan hálendisþjóðgarð bjóða upp á spennandi verkefni við að finna gott jafnvægi náttúruverndar og orkuvinnslu í jaðri þjóðgarðsins.
Að lokum sagði Kristín: „Sjálfbæra samfélagið sem við stefnum á krefst þess að við vinnum endurnýjanlega orku, klárum orkuskiptin á landi, hafi og í lofti og verndum náttúruna.“
Hér má sjá erindi Kristínar Lindu í Sjónvarpi atvinnulífsins
<a href="http://" target="_blank" rel="noreferrer noopener">sa.is sótt 22/10/2020
- Ræddi hugmyndir um loftslagsgjöld á fundi OECDby Guðrún Pétursdóttir
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók í dag þátt í fundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um sjálfbæra þróun þar sem m.a. var rætt um hugmyndir um loftslagsgjöld á landamærum vegna innflutnings frá svæðum sem leggja ekki á kolefnisgjöld eða losunarkvóta og nýtingu gjaldanna í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Hugmyndir um slík gjöld eru til skoðunar hjá framkvæmdastjórn Evópusambandsins.
Fram kom í máli ráðherra á fundinum að brýnast væri að fjalla um umhverfismál í stóru samhengi og hvernig bregðast ætti við loftslagsvandanum.
Ljóst væri að loftslagsgjöld á landamærum væru nauðsyn í áliðnaði. „Ísland er nokkuð stórt á heimsmarkaði þegar kemur að framleiðslu áls. Í álframleiðslu hér á landi eru nýttir hreinir orkugjafar en þrátt fyrir marga alþjóðlega fundi og áhuga á grænum orkugjöfum er almennt ekki greitt yfirverð fyrir slíkar grænar afurðir,“ sagði ráðherra.
Rætt hefur verið um að nýta gjöld vegna kolefnisnotkunar í baráttuna gegn loftslagsvandanum í þróunarríkjum. Bjarni sagðist telja að til þess að samstaða næðist um slíkt þyrfti að verja umtalsverðum hluta tekna sem kæmu af slíkum gjöldum í aðgerðir í loftslagsmálum heimafyrir. Heppilegra væri að nýta þá innviði sem til staðar væru, svo sem Græna loftslagssjóðinn í stað þess að stofna nýja sem hefðu sama markmið.
stjornarradid.is sótt 20/10/2020
- Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2020by Guðrún Pétursdóttir
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins er Terra en framtak ársins á sviði umhverfismála eiga Netpartar.
Terra hefur starfað við flokkun og söfnun endurvinnslu efna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið. Terra rekur meðal annars jarðgerðarbúnað til endurnýtingar á lífrænum efnum og gerir viðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með úrgangstölum og endurvinnsluhlutfalli í rauntíma. Gunnar Bragason, forstjóri Terra tók við verðlaununum fyrir hönd Terra.
„Þessi verðlaun eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólk Terra. En við höfum metnað til að gera enn betur. Með nýjum markmiðum, nýjum starfrænum leiðum, grænum fjárfestingum og íslensku hugviti viljum við stíga mikilvæg og græn skref inn í framtíðina, innleiða hringrásarhagkerfi og efla mikið flokkun og endurvinnslu. Þetta viljum við gera í samvinnu við fólkið í landinu, stjórnvöld og íslensk fyrirtæki, til að draga úr mengun og gróðurhúsaáhrifum og skapa um leið hagkvæmara og betra þjóðfélag.
Ég skora á okkur öll að taka umhverfis- og endurvinnslumál föstum tökum og gefa þeim það vægi sem þau þarfnast. Vörur eru framleiddar til að anna eftirspurn. Ef við sem búum þessa jörð förum að hugsa og framkvæma með það að leiðarljósi að varan sem við notum sé hluti af hringrásarhagkerfinu, að það sé búið við hönnun að gera ráð fyrir því hvað gert er við vöruna að loknum líftíma hennar, þá getum við breytt miklu. Ísland er ekki stórt land en öll skref í þessa átt eru til bóta. Við skiptum því máli. Skiljum jörðina eftir á betri stað en við tókum við henni.”
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri Terra, Gunnar Bragason, forstjóri Terra, Jónína G. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og viðskiptasviðs Terra, Freyr Eyjólfsson, samskiptastjóri Terra og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA Kynntu þér umhverfisstarf og stefnu Terra
Netpartar eiga framtak ársins
Netpartar fengu verðlaun á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin en viðurkenninguna fá Netpartar fyrir að vera leiðandi í umhverfismálum við niðurrif bíla og sölu varahluta.Markmið Netparta hefur frá upphafi verið að stuðla að frekari nýtingu notaðra varahluta úr bifreiðum sem og að endurvinna þær með umhverfisvænum hætti til annarra hlutverka. Það leiðir af sér betri nýtingu verðmæta, stuðlar að minni sóun, minni urðun, betra umhverfi og loftslagi. Þannig gegna Netpartar hlutverki í hringrásarhagkerfinu.
Framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins er Aðalheiður Jacobsen, viðskiptafræðingur og frumkvöðull.
„Ég og við öll hjá Netpörtum erum yfir okkur stolt og þakklát að hafa hlotið þessa viðurkenningu frá atvinnulífinu sem er okkur sannarlega mikil hvatning. Alveg frá stofnun Netparta hafa umhverfismál og samfélagsábyrgð verið okkar leiðarljós, þar sem markmiðið er að sem mest af ónýtum bíl fari aftur í annað hvort nýtilega bílavarahluti eða í önnur hlutverk í hringrásarkerfinu. Við lítum á það sem okkar skyldu að stuðla að minni sóun og urðun fyrir betra umhverfi og loftslagi og við erum þakklát fyrir þann meðbyr sem finnum, frá bæði viðskiptavinum og öðrum.“
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Kristín Jóhannsdóttir, almannatengill Netparta, Aðalheiður Jacobsen, framkvæmdastjóri Netparta
og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SAKynntu þér umhverfisstarf og stefnu Netparta
Í valnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sátu Bryndís Skúladóttir, formaður dómnefndar, Sigurður M. Harðarson og Gréta María Grétarsdóttir.
Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
Streymi af erindum dagsins má finna hér.
sa.is sótt 15/10/2020
- SVÞ setja sér umhverfisstefnuby Guðrún Pétursdóttir
Stjórn SVÞ samþykkti á fundi sínum þann 8. október sl. umhverfisstefnu fyrir samtökin. Umhverfisstefnan tekur bæði til innra starfs samtakanna en markmið hennar er ekki síður að vera aðildarfyrirtækjum og atvinnulífinu öllu góð fyrirmynd í umhverfismálum og sjálfbærni, og að leiðbeina, fræða, hvetja og styðja við aðildarfyrirtæki í málaflokknum, enda sé ekki síst skýr ávinningur af því fyrir aðildarfyrirtæki í formi betri afkomu, aukinnar starfsánægju starfsfólks og bættrar ímyndar.
„Umhverfismál og sjálfbærni varða okkur öll og atvinnulífið hefur sett þau mál kyrfilega á dagskrá. Við viljum því ganga fram með góðu fordæmi auk þess að styðja okkar aðildarfyrirtæki í því að skapa betra umhverfi fyrir okkur öll,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ
Umhverfisstefnuna má lesa í heild sinni hér: https://svth.is/umhverfisstefna-svth/
svth.is sótt 15/10/2020
- Matorka að ganga frá umfangsmikilli fjármögnunby Guðrún Pétursdóttir
Matorka sérhæfir sig í umhverfisvænu fiskeldi á laxfiskum á landi. Endurfjármögnun upp á 1,3 milljarða króna og hlutafjáraukningu upp á rúmar 400 milljónir er ætlað að renna stoðum undir stóraukna framleiðslugetu.
Fiskeldisfyrirtækið Matorka er langt komið með að ganga frá endurfjármögnun upp á 1,3 milljarða króna, sem mun haldast í hendur við þriggja milljóna dala hlutafjáraukningu, jafngildi rúmlega 400 milljóna króna, samkvæmt heimildum Markaðarins.
Matorka sérhæfir sig í umhverfisvænu fiskeldi á laxfiskum á landi. Félagið er með eldisstöðvar í Grindavík, seiðaeldi að Fellsmúla í Landsveit á Suðurlandi og jafnframt fiskvinnsluhús í Grindavík sem sinnir flökun, frystingu og pökkun. Fjármögnun Matorku er ætlað að renna stoðum undir verulega aukningu á framleiðslugetu félagsins.
Uppbygging á eldiseiningu í Grindavík, sem tvöfaldar framleiðslugetuna úr 1.500 tonnum upp í 3.000 tonn á ári, er mjög langt á veg komin. Þá hefur félagið einnig nýlega fengið leyfi til að tvöfalda framleiðslugetuna aftur upp í 6 þúsund tonn. Aðaltegund Matorku er bleikja, en félagið hóf einnig slátrun á urriða í febrúar síðastliðnum, og er einnig með leyfi til laxeldis.
Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur Kvika banki veitt Matorku ráðgjöf í fjármögnunarferlinu og Arion banki stendur á bak við endurfjármögnun skulda fiskeldisfélagsins.
Tekjur Matorku á síðasta ári námu rétt tæplega 700 milljónum króna og jukust um 28 prósent á milli ára. EBITDA félagsins – rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – var jákvæð um 76 milljónir króna.
Eignarhald í Matorku skiptist nokkurn veginn jafnt milli innlendra og erlendra fjárfesta. Stærsti hluthafinn er erlenda eignarhaldsfélagið Matorka Holding AG, en eftir því sem Markaðurinn kemst næst miðar fjármögnun Matorku meðal annars að því að losa um eignarhlut erlenda félagsins. Næststærsti hluthafinn er hollenski sjóðurinn Aqua Spark, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í sjálfbæru fiskeldi.
Þá eru þrír innlendir fjárfestar á lista yfir tíu stærstu hluthafa Matorku. Inning ehf., félag Bjarna Kristjáns Þorvarðarsonar, fer með rúmlega 8 prósenta hlut. Eldhrímnir ehf., sem er í eigu hjónanna Ingimundar Sveinssonar arkitekts og Sigríðar Arnbjarnardóttur, auk þriggja barna þeirra, á þriggja prósenta hlut og P 126 ehf., félag Einars Sveinssonar fjárfestis, er með rúmlega tveggja prósenta hlut.
frettabladid.is sótt 14/10/2020
- Mataræði og neysla vega meira en umferðin í Reykjavíkby Guðrún Pétursdóttir
Bann við mengandi bílum og uppbygging Borgarlínu mun minnka verulega mælt kolefnisspor í Reykjavík.
Mikil tækifæri eru í því að bæta upplýsingagjöf varðandi kolefnislosun Reykvíkinga, samkvæmt minnisblaði Eflu um loftslagsbókhald Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019.
Í minnisblaðinu kemur fram að greind losun sé langmest frá bílaumferð, eða 280 þúsund tonn. Hins vegar má gera ráð fyrir því að matarneysla leiði af sér kolefnisspor upp á 451 þúsund tonn og önnur neysla og losun upp á 484 þúsund tonn til viðbótar. Kolefnisbókhald borgarinnar nær hins vegar ekki yfir þessi gildi.
Þegar litið er til þeirrar losunar sem bókhaldið nær yfir má sjá að stærstur hluti útblásturs á gróðurhúsalofttegundum innan borgarmarka Reykjavíkur, eða vegna starfsemi innan borgarmarka, á sér stað vegna samgangna. Samgöngur í heild sinni vega 52 prósent af allri skrásettri losun í Reykjavík eða 338.161 tonni CO2 ígilda. Næst á eftir samgöngum í losun er byggingariðnaður sem nemur 15 prósentum.
Stærsti hluti losunar sem rekja má til samgangna er vegna fólksbifreiða, eða 204.061 tonn CO2 ígilda. Til samanburðar má nefna að losun sendibíla nemur 26 þúsund tonnum CO2 ígilda.
Þá kemur fram að kolefnislosun búfjár nemur um 2.800 tonn innan borgarmarkanna. Þar eru meðtaldar 43 mjólkurkýr, 192 kindur og 2.240 grísir, en þeir síðasttöldu gefa frá sér 477 tonn koltvísýringsígilda, um 213 kíló hver grís. Þá er um leið ljóst að útblástur gróðurhúsalofttegunda tengd landbúnaði af völdum borgarbúa er mun meiri en verður til innan borgarmarkanna.
Binding vegna nýlegrar skógræktar jafngildir hins vegar ferföldum útblæstri alls búfjár á borgarlandinu, eða 10.500 tonn.
Þegar horft er á kolefnisbókhald Reykjavíkur án neyslu er hins vegar ljóst, að mati Eflu, að framtíðin býður upp á minni losun. „Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum kveður á um að sala einkabíla sem keyra eingöngu á bensíni eða dísil muni verða bönnuð frá og með árinu 2030. Ætla má að þessi þróun muni sennilega gerast fyrst í Reykjavík þar sem innviðir fyrir rafmagnsbíla eru komnir lengst á veg. Einnig á þessi þróun við innleiðingu almenningssamgangna án jarðefnaeldsneytis, sérstaklega með tilkomu Borgarlínu.“
stundin.is sótt 14/10/2020
- Fundaði með alþjóðlegum vettvangi fjármálaráðherra um loftslagsmálby Guðrún Pétursdóttir
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fundaði í dag með alþjóðlegum vettvangi fjármálaráðherra um loftslagsmál, sem ætlað er að hvetja til aðgerða í loftslagsmálum í krafti regluverks og ákvarðana á sviði ríkisfjármála og fjármálamarkaðar. Þetta er fjórði fundur vettvangsins, en hann var haldinn í tengslum við haustfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem fram fer þessa dagana.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir helstu áherslur í samstarfinu á næstunni, áskoranir af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru og hvernig tryggja megi að uppbyggingaraðgerðir vegn faraldursins stuðli að umhverfisvænni hagkerfum.
Á fundinum benti Bjarni á til þess að notkun grænna lausna aukist sé nauðsynlegt að tryggja að grænir innviðir séu fyrir hendi. Hann tók sem dæmi að hér á landi hafi verið lögð áhersla á að fjölga hleðslustöðvum fyrir rafbíla og rafvæða hafnir landsins. Rafbílum í umferð á Íslandi hafi fjölgað ört og þeir séu nú um 40% nýskráðra bíla.
Þá séu stjórnvöld að skoða hvernig lækkun skatta geti eflt græna fjárfestingu, til dæmis í sjávarútvegi og í smíði nýrra skipa en enn frekari samdráttur í losun sjávarútvegs sé næsta áskorun. Bjarni sagði einnig mikilvægt að skapa hvata til grænnar einkafjárfestingar.
Alþjóðlegur samráðsvettvangur fjármálaráðherra um loftslagsmál var settur á stofn árið 2019 og hefur Ísland verið aðili að vettvangnum frá upphafi. Í aðildinni felst meðal annars viðurkenning á þeirri ógn sem steðjar að efnahagskerfum heimsins, samfélögum og umhverfinu, sem felur í sér áhættu þegar kemur að efnahagslegum vexti og þjóðhagslegum stöðugleika. Fjármálaráðherrarnir telja að í krafti embættis síns séu þeir í lykilstöðu til að hraða umbreytingum til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu og skapa umhverfisvænni hagkerfi með stefnumótun á sviði þjóðhags- og ríkisfjármála og, þar sem það á við, með reglusetningu.stjornarradid.is sótt 12/10/2020
- Afkastagetan aukin um 50%by Guðrún Pétursdóttir
Stækkun þessi var upphaflega ráðgerð árið 2023 en var flýtt sökum talsverðrar aukningar á notkun heits vatns á höfuðborgarsvæðinu umfram langtímaspár. Helstu ástæður aukningarinnar eru fjölgun íbúa og ferðamanna, mikil uppbygging húsnæðis, þ.m.t. hótelbygginga sem nota mikið heitt vatn og ekki síst, meiri notkun á hvern íbúa sem ekki var fyrirséð þegar spár voru gerðar. Þessi þróun hefur valdið álagi á heitavatnsborholur Veitna í Reykjavík og í Mosfellsbæ, einna helst þegar mjög kalt er í veðri til lengri tíma að því er segir í tilkynningu.
Heita vatnið sem kemur til notenda frá virkjunum Orku Náttúrunnar á Hellisheiði og á Nesjavöllum er upphitað grunnvatn. Stækkun varmastöðvarinnar fól því í sér að bora þrjár kaldavatnsholur í Engidal auk þess að bætt var við einu varmaskiptapari og höfuðdælu.
Með aukinni framleiðslugetu virkjana á heitu vatni gefst kostur á því að taka hverfi í borginni af borholuvatni, sem er takmörkuð auðlind, og setja á vatn frá virkjunum. Veitur hafa undanfarið staðið í framkvæmdum með það fyrir augum að færa Árbæ, Ártúnsholt og síðar Sundahverfi af borholuvatni yfir á vatn frá virkjunum til frambúðar.
„Eldri hverfi Reykjavíkur fá vatn úr borholum Veitna. Færsla Árbæjar, Ártúnsholts og síðar Sundahverfis á vatn frá virkjunum gefur okkur rými til að mæta aukinni þörf í eldri hverfunum þar sem mikil uppbygging hefur verið í formi þéttingar byggðar. Stækkun varmastöðvarinnar er því eitt púsl í það stóra verkefni að sjá höfuðborgarsvæðinu fyrir heitu vatni til húshitunar, bað- og sundferða og iðnaðar til langrar framtíðar og á sama tíma nýta með ábyrgum hætti þá dýrmætu auðlind sem heita vatnið okkar er,“ segir Arna Pálsdóttir, verkefnastjóri nýsköpunarverkefna hjá Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfélagi ON og Veitna.
mbl.is sótt 08/10/2020
- Framlög til umhverfismála hækkað um 47%by Guðrún Pétursdóttir
Framlög til umhverfismála verða 47% hærri á föstu verðlagi árið 2021 en þau voru við við upphaf kjörtímabils árið 2017. Munu heildarútgjöld ríkisns til málaflokksins nema 24,3 milljörðum króna á næsta ári.
Undir umhverfismál falla ýmis málefni, svo sem náttúrurannsóknir, skógrækt, veðurathuganir og þjóðgarðar. Í fjármálaætlun áranna 2021-2025 er gert ráð fyrir að útgjöldin verði nokkuð stöðug næstu fjögur ár, en nemi 25,3 milljörðum árið 2025.
Sé litið til fjárlaga næsta árs verður 5,3 milljörðum varið í náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu. Framlög til Vatnajökulsþjóðgarðs nema um einum milljarði og þjóðgarðsins á Þingvöllum um 357 milljónum. Þá fær Landgræðsla ríkisins 1,37 milljarða króna en Skógræktin 1,5 milljarða.
Veðurstofa Íslands fær 2,94 milljarða samkvæmt fjárlögum og hækkar framlag um 14% frá fyrra ári. Skýrist það af auknu framlagi til tækjakaupa, sem nemur 361 milljónum króna í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Framlag til ofanflóðasjóðs rúmlega tvöfaldast milli ára og verður 2,4 milljarðar króna samanborið við 1,1 milljarð á fjárlögum 2020. Framkvæmdir við nýja varnargarða er hafin á Patreksfirði í kjölfar snjóflóða síðasta vetur, en þeim á að vera lokið 2023.
mbl.is sótt 08/10/2020

Fæðuöryggi, orkuskipti og aðfangamál
Höfundur: Sigurður Már Harðarson birtist í Bændablaðinu 24. október 2022 Málþingið Græn framtíð var haldin á Hilton Reykjavik Nordica, föstudaginn 14. október frá kl. 10–12. Það

Stefnir í tveggja og hálfrar gráðu hlýnun á meðan ríki draga lappirnar
Kjartan Kjartansson skrifar 26. október 2022 á visir.is Útlit er fyrir að hnattræn hlýnun nái tveimur og hálfri gráðu fyrir lok aldarinnar ef ríki heims auka ekki

Staðreyndir og orkuskipti
Birtist í leiðara Viðskiptablaðsins 23. otkóber 2022 Útflutningur raforkunnar er í formi áls, kísils og járnblendis og skapar Íslandi gjaldeyristekjur. Þessi sami gjaldeyrir gerir okkur

Loftslagsmál og vinnutími: Tækifæri til breytinga
Greinin er eftir Guðmund D. Haraldsson og birtist á kjarninn.is 10. október 2022 Guðmundur D. Haraldsson segir að kerfisbundnar breytingar á lífsháttum okkar eins séu

Kolefnishlutleysi stuðlar
að lægri flugfargjöldum
turisti.is birti eftirfarandi frétt þann 26. september 2022 Margir óttast að framundan séu frekari hækkanir á flugfargjöldum.Johan Lundgren, forstjóri EasyJet, sagðist í dag sannfærður um

Setja á fót Norðurslóða – fjárfestingarsjóð
Arion banki, Pt. Capital og Guggenheim Partners standa að baki fyrirhugaðs fjárfestingarsjóðs sem mun einblína á fjárfestingar á Norðurslóðum. Grein úr Viðskiptablaðinu birt 17.10. 2022

Tvöföldun í fiskeldi milli ára
Útflutningsverðmæti 5 milljarðar í september Grein úr Viðskiptablaðinu -Fiskifréttir birt þann 18. október 2022 Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 5 milljörðum króna í september. Á þann kvarða

Loftlagskvíði í boði stórfyrirtækja og stjórnvalda
Grein eftir Kristján Reykjalín Vigfússon aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingur í innleiðingu stefnumótunar birtist á vb.is þann15. janúar 2022 Hvert okkar skiptir máli

Ísland, Grænland og Færeyjar geti verið fremst
Birtist á mbl.is 27.1.2022 Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftsagsráðherra telur ástæðu til að styrkja samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja í loftslagsmálum og hreinum orkuskiptum.

Ísland verði fyrst þjóða kolefnishlutlaus
Stofnandi norsks fyrirtækis, sem hefur þróað lofthreinsistöðvar úti á sjó, vill aðstoða Ísland að verða fyrsta kolefnishlutlausa þjóð heims. Sigurður Gunnarsson skrifaði á vb.is 09/10/2020sigurdur@vb.is

Losun frá jarðvarmastöðvum Landsvirkjunar fer minnkandi ár frá ári
Jóna Bjarnadóttir skrifar á visir.is 18/08/2021 Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum gerir ráð fyrir að losun vegna jarðvarmavirkjana á Íslandi minnki að minnsta kosti um 47%

30 vörubílar á dag og loftslagsmálin
Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is) á mbl.is birt 16/08/2021 Morgunblaðið greindi frá því um helgina að fyrirhugað er að ráðast í mikið vikurnám við Hafursey á Mýrdalssandi.

Meira þarf til en papparör til þess að bjarga jörðinni
Skiptar skoðanir eru á papparörunum sem tekið hafa við af plaströrum á drykkjarfernum sem og á pappa- og tréskeiðum sem komið hafa í stað plastskeiða.

Telja hringrás í Atlantshafi óstöðuga vegna hnattrænnar hlýnunar
Kjartan Kjartansson skrifar 6. ágúst 2021 Vísbendingar eru um að lykilhringrás sjávar í Atlantshafinu hafi hægt á sér og ekki er loku fyrir það skotið að hún

Aftakaatburðir verði algengari
Birtist á mbl.is 09/08/2021 Skýrari og ítarlegri gögn gefa til kynna að loftslagsbreytingar geri það að verkum að aftakaatburðir á borð við ákafari rigningu, öfgar

Rafmagnið í mikilli sókn
Hlutfall nýskráðra bifreiða sem nýta rafmagn eða blandaða orkugjafa er nú um 65,5% samanborið við 3% árið 2014. Andrea Sigurðardóttir skrifar á vb.is Hlutfall nýskráðra

Vannýtt tækifæri í umhverfismálum
Hraðallinn Hringiða miðar að því að á Íslandi rísi stór og stöndug fyrirtæki sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Andrea Sigurðardóttir skrifar á vb.is Hringiða er

15 milljarðar í metanól-framleiðslu á Reykjanesi
Birtist á mbl.is 05/08/2021 Hydrogen Ventures Limited (H2V), alþjóðlegt orkufyrirtæki, hyggur á umfangsmikla framleiðslu vetnis hér á landi sem verður nýtt við framleiðslu metanóls. Metanólframleiðslan

Loftslagsvegvísir sjávarútvegsins
Eftir: Sigurgeir B Kristgeirsson birtist í Bændablaðinu 15/07/2021 Eggert Benedikt Guðmundsson er forstöðumaður Grænvangs, sem ásamt sjö atvinnugreinafélögum kynnti nýlega Loftslagsvegvísi atvinnulífsins. Vegvísinum er ætlað

Íslenska kvótakerfið er umhverfisvænt
Dr. Stefán B Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, hélt í vor afar fróðlegt erindi, í beinni útsendingu á netinu, um þróun íslensks sjávarútvegs síðustu áratugi.

Icelandair skoðar vetnis- og rafknúið flug
Icelandair kannar nú möguleikann á að taka upp vetnis- og rafknúnar vélar í innanlandsflugi félagsins.

ÚR fær fyrsta sjálfbærnimerki Landsbankans
Birtist á mbl.is 05/07/2021 Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur hlotið sjálfbærnimerki Landsbankans, fyrst fyrirtækja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum. Félagið fær sjálfbærnimerkið vegna MSC-vottaðra fiskveiða.

Lífdísill úr sláturúrgangi
Birtist í Viðskiptablaðinu 02/07/2021 SORPA og ÝMIR technologies semja um tilfærslu og gangsetningu á vinnslulínu ÝMIS til meðhöndlunar úrgangs frá dýraslátrun. SORPA bs. og ÝMIR

Leggja til umhverfisháskóla á Suðurnesjum
Birtist á mbl.is 16/06/2021 Alþjóðlegur umhverfisháskóli á Suðurnesjunum, í samvinnu við Keili, er meðal aðgerða sem lagðar eru til af Suðurnesjavettvangi, samstarfi sveitarfélaganna fjögurra á

Orkuskipti hefjast í Grímsey
ANNA ÞORBJÖRG JÓNASDÓTTIR skrifar á ruv.is 15/06/2021 Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að tvær vindmyllur verði reistar í Grímsey í sumar. Þetta er tilraunaverkefni sem er

Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum í Samráðsgátt
Birtist fyrst á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins10. júní 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sett hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda. Vinna

Efna til samtals um loftslagsmál og sjávarútveg
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is skrifar á mbl.is þann 01/06/2021 Það er ekki einungis ríkið sem mun þurfa að leggja sitt af mörkum í þágu loftslagsmarkmiðanna

Umhverfisvænar sóttvarnir á heimsmælikvarða
Birtist í Fréttablaðinu þriðjudaginn 11. maí 2021 Bacoban er byltingarkennd lausn í þrifum og sótthreinsun fyrir heimili og fyrirtæki. Efnið veitir bestu sóttvörn gegn vírusum,

Nú þarf sjálfbærni í öllum rekstri
Tómas Njáll Möller skrifar á visir.is 27. apríl 2021 Við erum á tímamótunvarðandi þróun umhverfis okkar og samfélaga. Við stöndum á krossgötum þar sem val um

Ótal tækifæri til grænnar atvinnuppbyggingar
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar skrifa um orkuvinnslu í Morgunblaðinu. Lausn loftslagsmála felst aðallega í þrennu. Í fyrsta lagi að stórauka

Umhverfisráðherra kynnir nýja loftslagsskrifstofu
Stofnuð hefur verið skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands. Þetta tilkynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands sem haldinn var í dag.

Hvað getum við gert?
Þar sem ég sit hér og horfi á lífrænu banana sem ég bar með mér heim úr versluninni í gær, þá fer ég að hugsa

Örplast finnst í Vatnajökli
Jóhann Bjarni Kolbeinsson skrifar 25/04/2021 á ruv.is Örplast er að finna í Vatnajökli, samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn. Þetta er í fyrsta sinn sem staðfesting hefur
Ætla að farga milljónum tonna koltvísýrings í Straumsvík
Kjartan Kjartansson skrifar á visi.is 22. apríl 2021 08:01 Um sexhundruð ný störf eru sögð geta skapast með tilkomu kolefnisförgunarmiðstöðvar sem Carbfix, dótturfyrirtæki Orku náttúrunnar, ætlar að

Viðskiptavinir Íslandsbanka geta mælt kolefnisspor sín
Eftirfarandi birtist á vef Íslandsbanka 21/04/2021 Með nýrri lausn býður Íslandsbanki notendum Íslandsbankaappsins að sjá áætlað kolefnisspor sitt. Bankinn nýtir til þess lausn, Carbon Insight,

Nýsamþykkt lög stuðla að stórauknum framlögum til almannaheillastarfsemi
Birtist á stjornarradid.is 21/04/2021 Gera má ráð fyrir milljarðaaukningu til almannaheillastarfsemi með nýsamþykktu frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra. Nýsamþykkt lög taka gildi 1. nóvember 2021. Þau fela

MÁ BJÓÐA ÞÉR BIRKIFRÆ
Birt fyrst á bb.is 26/03/2021 Landsátak Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í söfnun birkifræs hófst haustið 2020 og mikill fjöldi fræja safnaðist. Átakið er liður í því

Vilja banna stutt innanlandsflug
Birt fyrst á ruv.is 12.04.2021 Neðri deild franska þingsins hefur samþykkt bann við stuttu innanlandsflugi. Með banninu er ætlunin að minnka kolefnislosun. Verði það að

Skemmtilegt frumkvöðlaverkefni! Vindmyllugámar Sidewind styðja við umhverfismarkmið Samskipa
Birt fyrst á samskip.is 14/04/2021 Í apríl hófust fyrstu mælingar tengdar rannsóknarverkefni Sidewind um borð í Helgafelli, flutningaskipi Samskipa. Sidewind er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem vinnur

Gróðursetja tré í heimsfaraldri
Þrátt fyrir að Bretland hafi verið meira og minna í höftum og allt lokað, eins og víða annars staðar á tímum covid-19, hefur loftslagshópur í

Skrifræði sveitarstjórna tefur skógrækt
Dæmi eru um að skógræktaráform einstaklinga og félagasamtaka tefjist vegna skipulagshindrana sveitarfélaga. Skógræktarstjóri Skógræktar ríkisins segir þetta „verulegt áhyggjuefni“ sem stafi fyrst og fremst af skrifræði einstaka sveitarstjórna.

Notendum fjölgað um 72%
Notendum hugbúnaðar Klappa fjölgaði um 72% milli ára. Eru nú ríflega fjögur þúsund í yfir tuttugu löndum. Hugbúnaðarfyrirtækið Klappir hefur vaxið jafnt á síðastliðnu einu


Meniga fær 1,5 milljarða fjármögnun og hjálpar fólki að áætla kolefnissporið
Gera notendum kleift að sjá áætlað kolefnisspor

Krefjast þess að fá sæti við borðið þar sem loftslagsmálin eru rædd
Verkalýðshreyfingin þarf að eiga sæti við borðið til að hægt sé að tryggja réttlát umskipti yfir í kolefnislaust samfélag. Loftslagsmál er líka hagsmunamál launþega. Þetta segir hagfræðingur BSRB. Ný skýrsla ASÍ, BHM og BSRB sem unnin er í samvinnu við norræn og þýsk bandalög stéttarfélaga varpar ljósi á stöðu Íslands og kröfur verkalýðshreyfingarinnar um réttlát umskipti.

Ef lífið gefur þér sítrónur eða kannski bara appelsínur
Spænskir verkfræðingar hafa uppfært gömlu sítrusklisjuna og yfirfært hana yfir í umhverfisvernd – þegar lífið gefur þér appelsínur, búðu til rafmagn.

Framleiða prótein úr þörungum og losa bara súrefni
Á Hellisheiði eru áform um að stækka til muna verksmiðju sem framleiðir umhverfisvænan próteingjafa. Hugmyndin var sniðin að aðstæðum við Hellisheiðarvirkjun og eini úrgangur frá verksmiðjunni er súrefni.

Rauð viðvörun fyrir heiminn allan
Ríki heims verða að taka mun metnaðarfyllri skref til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ætli þau sér að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og tryggja að meðalhitastig á jörðu hækki ekki um meira en tvær gráður – helst undir 1,5 gráðum — fyrir árið 2100.

Að snúa vörn í sókn
Nzambi Matee er frumkvöðull með frábær markmið sem eru að breyta plasti, sem annars væri urðað, í sjálfbært, sterkt byggingarefni.

BYKO leggur áherslu á sjálfbærni
BYKO leggur mikið upp úr samfélagsábyrgð og sjálfbærni til framtíðar. Stjórnendur og starfsfólk leggja mikið upp úr góðum stjórnunarháttum og áherslu á jákvæð langtímaáhrif á starfsemina.

Ráðherra leggur fram aðgerðaáætlun orkustefnu
Aðgerðaáætlun um orkustefnu ríkisstjórnarinnar er fagnaðarefni

Íslandsbanki gerist aðili að Grænni byggð
Íslandsbanki leggur áherslu á að vera hreyfiafl til góðra verka og hafa jákvæð umhverfis áhrif

Erum við að eyðileggja náttúruna með einnota grímum?
Gætum að því hvað við gerum við einnota andlitsgrímur og hanska

Covid smámál í samanburði við loftslagsvandann
Bill Gates segir tæknina geta hjálpað heimsbyggðinni í baráttunni við hlýnun jarðar.



Uppbygging á grænni borg fyrir 300 milljarða
Dagur sagði, á kynningarfundi um græna planið, borgina vera að þróast í græna átt og að þörf sé á sóknaráætlun þess efnis.

Eru tækifæri í kolefnisbindingu?
Það er eðlilegt að spurt sé hvort tækifæri séu í kolefnisbindingu fyrir íslenska bændur og aðra landeigendur.
Losun á hvern farþega eykst þegar fáir eru um borð
Losun gróðurhúsalofttegunda á hvern farþega eykst þegar fáir eru um borð
Þórdís vill sjá vetnisframleiðslu á Íslandi
Þórdís sagði Íslendinga að einhverju leit lifa á fornri frægð þegar kemur að orkumálum, en hér hafi verið ákveðið að leggja hitaveitur og nýta endurnýjanlega orku.
Mikilvægt að missa ekki móðinn vegna loftslagvandans
Áhugaverðir þættir um loftslagsvandann og fjölbreyttar lausnir til að sprona við honum.
Flestir telja loftslagsbreytingar fela í sér neyðarástand
Tveir af hverjum þremur telja að loftslagsbreytingar feli í sér neyðarástand og að flýta verði aðgerðum.
Vilja endurheimta tvöfalt meira í ár en í fyrra
Votlendissjóður endurheimti tvöfalt meira votlendi en í fyrra.
„Hrikalegt“ að sjá íslensku jöklana hverfa
Hrikaleg bráðnun jökla vísbending um loftslagsbreytingar
Orðsporið líklegasti hvatinn til aðgerða
Í þessari viku hefur Atvinnulífið á Vísi fjallað um stöðu íslensks atvinnulífs með tilliti til sjálfbærni.
182 hleðslustæði tekin í notkun
Ný hleðslustæði ON í Reykjavík og Garðabæ
Bensín og olía heyri sögunni til
„Íslendingar hafa alla burði til að verða óháðir öðrum um orkuöflun og ná þannig fullu orkusjálfstæði. Við setjum stefnuna á að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust fyrst
94% minni losun með því að hætta fraktflugi
Færeyska laxeldisfyrirtækið Hiddenfjord hætti í október öllum vöruflutningi með flugi og með því minnkaði losun koltvísýrings vegna vöruflutninga fyrirtækisins um 94%. Fyrirtækið er fyrsta eldisfyrirtækið
Framfaraskref á heimsvísu
Undanfarna mánuði hefur notkun háhitadjúpdælu í hitaveituborholu verið prófuð í Hveragerði.
Segir að skriðuföllin á Seyðisfirði séu viðvörunarmerki
Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands segir að skriðuföllin á Seyðisfirði fyrir jól séu mikið viðvörunarmerki.
2020 hlýjast eða næst hlýjast í sögunni
Síðasta ár var heitasta ár sögunnar samkvæmt mælingum bandarísku geimvísindastofnunarinnar, NASA.
Andlitsgrímur ógna lífríki jarðar
Einnota andlitsgrímur og hanskar sem hafa hjálpað til við að bjarga mannslífum í kórónuveirufaraldrinum ógna nú lífum annarra
Ráðherra gerði samning um verkefnin Gróður í borg og bæ og Kolefnisbindingu 2020
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gert samninga við Samband garðyrkjubænda um breytingar á starfsskilyrðum framleiðenda garðyrkjuafurða.
Hitamet halda áfram að falla
Samkvæmt Kópernikus var lofthitinn í nóvember 0,8 gráðum hærri í nóvember 2020 en meðalhitinn á 30 ára tímabili, 1981-2010, og rúmlega 0,1 gráðu hærri en fyrra met.
Kynnir ný loftslagsmarkmið
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greinir frá nýjum markmiðum Íslands í loftslagsmálum í grein, sem hún ritar í Morgunblaðið í dag. Þessi markmið verða kynnt á leiðtogafundi
Þurfa jólin að vera neyslufyllerí?
Gerum jólin í ár að okkar vistvænustu jólum hingað til og veljum vistvænt jólaskraut, tré og gjafir
Kolefnismarkaður stuðlar að loftslagsárangri en einnig að uppbyggingu eftir COVID-19
Til að Íslendingar geti náð verulega góðum árangri á Parísartímabilinu verða stjórnvöld að tryggja nauðsynlega innviði svo skapaðar verði forsendur fyrir einkaframtak í loftslagsmálum.
Vistmorð varði allt að tíu ára fangelsi
Frakkar vilja ganga langt í því að refsa þegar kemur að umhverfissóðum.
Alþjólegi klósettdagurinn
Á hverju ári koma um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í
Tækifæri að þróa nýja tækni og aðferðir í loftslagsmálum
Umhverfismál og loftlagsbreytingar eru meðal helstu áskorana sem Ísland stendur frammi fyrir og metnaðarfull markmið um að draga úr útblæstri er langtímaáskorun sem skapar tækifæri
Hlýnun lengir líf fellibylja yfir landi
Fellibyljir í Norður-Atlantshafi eru tvöfalt lengur missa afl sitt eftir að þeir ganga á land en fyrir fimmtíu árum vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna.
Losunin 20,6% minni en í fyrra
Losun hitunargilda (CO2-ígildi) frá hagkerfi Íslands á þriðja ársfjórðungi 2020 var 1.460 kílótonn samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Þessi losun er 20,6% minni en losun á
Bati efnahagsins í Covid ógnar umhverfinu
Aðgerðir sem miða að því að koma efnahagnum til bjargar í heimsfaraldri eru víða um heim verulega óumhverfisvænar. Innan að minnsta kosti 18 stærstu hagkerfa
Veitir 30 milljónir til nýsköpunar
Íslandsbanki hefur veitt fjórtán verkefnum alls 30,5 milljónir króna úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. slandsbanki afhenti í dag styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Alls voru veittar 30,5 milljónir
Aðgerðirnar munu hafa jákvæð áhrif á búskapinn í heild
Síðastliðið vor voru 15 sauðfjárbú valin til þátttöku í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður, sem er samstarfsverkefni stjórnvalda, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Verkefnið er hluti
Nýtt lofthreinsiver bindur 1 milljón tonna af CO2
Íslenska fyrirtækið Carbon Iceland ehf. áformar að reisa lofthreinsiver á Íslandi sem gerir kleift að hreinsa og og binda eina milljón tonna af CO2 (koltvísýringi)
Stórkaup á metangasi
Vilhjálmur Þór Matthíasson, eigandi Fagverk og Malbikstöðvarinnar. Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri Sorpu, Baldur Þór Halldórsson framkvæmdastjóri Malbikstöðvarinnar og Jón Viggó Gunnarsson, sérfræðingur Sorpu í markaðs- og tækniþróun.
Nýta hátækni úr Svartsengi í norskri metanólverksmiðju
Eldsneytisverksmiðjan sem Statkraft, kísilmálmverksmiðjan Finnfjord og Carbon Recycling hyggjast reisa í Norður-Noregi verður 30 sinnum stærri en sú sem reist var við orkuverið í Svartsengi.
Högnuðust um 32 milljarða
Samanlagður hagnaður Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku nam 32 milljörðum króna á síðasta ári.
Fjárfesta 2 milljörðum í rafbílaverksmiðju
General Motors hyggst fjárfesta 2 milljörðum dala til að breyta verksmiðju í Tennessee í verksmiðju sem framleiðir rafbíla.
Jafnvægi náttúruverndar og orkuvinnslu
„Sjálfbæra samfélagið sem við stefnum á krefst þess að við vinnum endurnýjanlega orku, klárum orkuskiptin á landi, hafi og í lofti og verndum náttúruna.“
Ræddi hugmyndir um loftslagsgjöld á fundi OECD
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók í dag þátt í fundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um sjálfbæra þróun þar sem m.a. var rætt um hugmyndir
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2020
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin.
SVÞ setja sér umhverfisstefnu
Stjórn SVÞ samþykkti á fundi sínum þann 8. október sl. umhverfisstefnu fyrir samtökin. Umhverfisstefnan tekur bæði til innra starfs samtakanna en markmið hennar er ekki
Matorka að ganga frá umfangsmikilli fjármögnun
Fiskeldisfyrirtækið Matorka er langt komið með að ganga frá endurfjármögnun upp á 1,3 milljarða króna
Mataræði og neysla vega meira en umferðin í Reykjavík
Bílaumferð Stærsti áhrifavaldurinn í mælingum EFLU á kolefnissporinu í Reykjavík er umferð einkabíla, en ómæld matarneysla og önnur neysludrifin mengun er þó mun meiri.
Fundaði með alþjóðlegum vettvangi fjármálaráðherra um loftslagsmál
Á fundinum ræddu ráðherrarnir helstu áherslur í samstarfinu á næstunni, áskoranir af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru og hvernig tryggja megi að uppbyggingaraðgerðir vegn faraldursins stuðli að umhverfisvænni hagkerfum.
Afkastagetan aukin um 50%
Framkvæmdum við stækkun varmastöðvar við Hellisheiðarvirkjun, sem framleiðir heitt vatn fyrir íbúa og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, er lokið. Við það jókst afkastageta hennar úr 600
Framlög til umhverfismála hækkað um 47%
Framlög til umhverfismála verða 47% hærri á föstu verðlagi árið 2021 en þau voru við við upphaf kjörtímabils árið 2017.
Heitasti september frá upphafi mælinga
Samkvæmt Parísarsamkomulaginu frá 2016 stefna ríki heims að því að halda hlýnun jarðar „vel fyrir neðan 2 gráður“ miðað við það sem var fyrir iðnbyltingu, og 1,5 gráður ef mögulegt.
Sjálfbær þróun leiðarljós í orkustefnu til 2050
Ný langtíma orkustefna Íslands til ársins 2050 var kynnt af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í dag. Yfirskrift orkustefnunnar er „Orkustefna til
Unga fólkið og umhverfismálin
Síðastliðinn vetur bauðst ungu fólki að taka þátt í samkeppni á vegum Landverndar um bestu umhverfisfréttirnar.
Minnsta olíunotkun frá upphafi mælinga
Olíunotkun í sjávarútvegi nam 129 þúsund tonnum á síðasta ári. Það er minnsta notkun frá upphafi mælinga, sem ná aftur til ársins 1982, fyrir daga kvótakerfisins.
Fjármagni beint í sjálfbæra uppbyggingu
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, undirritaði í dag fyrir hönd ríkisstjórnarinnar viljayfirlýsingu ásamt meginhluta íslensks fjármálamarkaðar þar sem lýst er vilja til að nýta fjármagn til að viðhalda sjálfbærri þróun og taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér.
Airbus kynnir flugvélar án útblásturs
Þrjár gerðir af Airbus-vélum hafa verið kynntar. Allar stuðla þær að markmiði félagsins um kolefnislaust flug.
Plastflöskur Ölgerðarinnar úr 50% endurunnu plasti
Allar plastflöskur sem notaðar eru undir drykkjarföng hjá Ölgerðinni verða framvegis úr 50% endurunnu plasti til að gera framleiðslu fyrirtækisins umhverfisvænni og grænni.
Stór landsvæði í Síberíu að þiðna
Vísindamenn vara við því að víðs vegar um Síberíu séu stór landsvæði, sem venjulega eru frosin árið um kring, farin að þiðna.
Gera steypu með 35% minna kolefnisspori
BM Vallá hefur fyrst íslenskra steypuframleiðenda fengið útgefna EPD-umhverfisyfirlýsingu á steinsteypu.
Ný tilraun með belgjurtir á Hólasandi
Athyglisverð tilraun með belgjurtir til uppgærðslu
„Örvæntingaróp frá Íslandi“ til umfjöllunar á Sky
Breska fréttastofan Sky News fjallar ítarlega um bráðnun jökla á Íslandi og áhrif hamfarahlýnunar á náttúru landsins í dag.

Plast, böl eða blessun?
Til að framleiða plast eru notuð efni eins og olía, kol, selluósi, gas og salt.
Jafnast á við útblástur yfir tvö þúsund bíla
Fyrir tæplega ári fengum við umhverfisverkfræðinga hjá Eflu til að reikna út kolefnisspor sem hafa sparast við verslun í Barnaloppunni og tölurnar eru vægast sagt sláandi
Samið um tilraunaverkefni í úrgangsmálum við Skaftárhrepp
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Skaftárhreppur hafa gert með sér samning um tilraunaverkefni þar sem prófaðar verða lausnir fyrir úrgangsstjórnun sveitarfélaga.
Orkuskipti: Hvað þarf til?
Opinn ársfundur Samorku verður haldinn í dag 08/09/2020. Fundurinn hefst klukkan níu og er í beinni útsendingu á Vísi.